Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Hlaupið í sterkri sól á fimmtugsafmæli ónefnds blómasala

Hópur afburðahlaupara mættur til hlaups á miðvikudegi, og svo vorum við Þorvaldur líka mættir. Þau hin voru dr. Jóhanna, Magga, Ragnar, Gummi, Ólafur Hj. og Hjálmar - og svo sást til Frikka á hjóli. Sterk sól, 13 stiga hiti og einhver gjóla á norðan sem var svalandi þegar hitinn var að drepa mann. Þau hin voru ekki mikið að leita eftir skoðunum okkar Þorvalds á því hvert skyldi hlaupið, sögðu bara: "Er ekki stemmari fyrir Kársnesi?" Jújú, var svarað og svo rokið af stað. Ég held við höfum náð að hanga í heim alla leið upp að sjoppuhorni á Hofsvallagötu og svo ekki söguna meir!

Þetta var sosum allt í lagi. Þorvaldur er fjölfróður maður og lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Ræddum um barnauppeldi og refsingar sem uppeldisaðferð. Hann taldi þær ekki vænlegar til árangurs. Ég upplýsti hann hins vegar um rannsókn sem sagt er frá í gamalli sálfræðihandbók sem sýndi fram á(meintan) áþreifanlegan árangur af notkun rafstuða við að fá fólk til að endurskoða kynhegðun sína. Ekki er ég viss um að bók þessi hafi síðan verið endurprentuð óbreytt.

Það var einhver þreyta í skrifara, líklega frá því að hafa hlaupið bæði sunnudag og mánudag (samtals um 22 km) og svo frá langri gönguferð um Hafnarsvæðið kveldinu áður. Fyrst hélt ég að þetta væri orkuskortur, en komst svo að því að þetta væri bara þreyta. Áttum samleið út að Kringlumýrarbraut, en þá sneri Þorvaldur upp Suðurhlíð og ég áfram yfir brú, setti stefnuna á Þriggjabrúa. En strax í Brekkunni var ég hálfuppgefinn og þurfti hreinlega að ganga. Náði þó að hlaupa yfir hjá Útvarpshúsi og naut maður þess að fá svalandi vindinn á móti sér. Síðan niður Kringlumýrarbraut og alla leið niður á Sæbraut. Svo tók maður þetta í bútum, drukkið við drykkjarfont á Sæbraut og áfram hjá Hörpu.

Það er svo margt að skoða í Hafnarhverfinu, þar spretta upp ferðaþjónustufyrirtæki, og engin ástæða að hraða för sinni þar um. Ægisgatan gengin að mestu en tölt niður Hofsvallagötu. Um það leyti sem ég kom á Plan voru þau hin að tínast til baka hafandi farið 18 km leið á Kársnesi.

Í Pott komu, auk dr. Jóhönnu og skrifara, Frikki, Benzinn og Biggi. Eins og vænta mátti urðu hávaðaumræður um hvaðeina. Leitað eftir þátttöku í Sólheimahlaupi að blómasalans og lagt á ráðin um ferðir austur. Hér vildi vitanlega hver koma sér hjá því að keyra því að það kemur í veg fyrir að menn fái notið veitinga hins veitula blómasala til fullnustu. Menn munu þó hafa ráð við því að þátttaka verði til sóma og manninum sýndi tilhlýðileg virðing á þessum tímamótum, þegar hann fetar sig yfir í hóp virðulegra hlaupara á sextugsaldri.


Þéttur hópur á ferð

Fjórir mættir í auglýst hlaup Hlaupasamtakanna frá Laug kl. 16:30 í dag: Jörundur, Ragnar, Guðmundur og skrifari. Þetta eru ekki hlauparar sem eru vanir að fylgjast að á föstum æfingum Samtaka Vorra, en nú urðu menn að gjöra svo vel og hemja sig og alda hópinn. Hér kom til gagnkvæm málamiðlun, þeir Ragnar og Gummi fóru hægar en alla jafna, og við Jörundur bættum aðeins í svo að tempóið var á köflum komið niður í 5:20 eða þar um bil, eftir því sem klukkueigendur tjáðu okkur.

Það var ákveðið að setja stefnuna á Nauthólsvík og sjá svo til eftir það hvert við færum. Við vorum allir léttklæddir enda skein sól í heiði og varla að vindur bærðist, en hiti líklega um 12-13 gráður. Því varð svolítið heitt á leiðinni, og gott að komast í skjól og skugga þar sem svalandi vindur blés. Mönnum hitnaði í hamsi af hita og átökum og voru bara í skaplegu formi. Rætt um næstu hlaup, sem eru Grafningshlaupið, Minningarhlaup Guðmundar Karls og Hamarshlaup, allt utanvegahlaup.

Afar óljósar fregnir eru af sammenkomst í kringum Grafningshlaup, en einn félagi okkar á sumarbústað á þessum slóðum og fyllir jafnframt fimmta tuginn um svipað leyti. Hann hefur gefið í skyn að vænta megi einhvers konar skemmtunar af þessu tilefni, en ekki meir en svo að menn geti undirbúið neitt. Líklegast þótti að þeim sem skráðu sig í Grafningshlaupið yrði boðið í sumarbústaðinn í gleðskap - en þetta eingöngu tilkynnt eftir að skráningarfrestur í hlaupið væri útrunninn - þ.e. í kvöld. Svona gekk umræðan.

Er komið var í Nauthólsvík vorum við orðnir vel heitir og ekki annað tekið í mál en stefna á Suðurhlíð. Hér hertu þeir hinir hlaupið og skildu skrifara eftir. Hann náði þó að hanga nokkurn veginn í þeim og missti aldrei sjónar á þeim. Það var farið á spretti upp Suðurhlíðina, tekinn hringur hjá Perlu, utan hvað Jörundur hélt kúrsi og stefndi beint á Stokk. Niður hjá Gvuðsmönnum og svo skeiðað vestur Hringbraut. Lukum rúmum 10 km á 55-56 mín. Hittum Hjálmar, Ósk og Frikka á Plani, en þau voru að leggja upp í hlaup.

Setið lengi í Potti, þangað sem Biggi og Ingi mættu. Rætt um Evróvisjón og landsölu.


Hefðbundið á sunnudegi - Sif mætt

Ekki var útlitið bjart er komið var til Laugar og klukkan rúmlega tíu. Aðeins tveir hlauparar mættir: þeir Þorvaldur og Ólafur skrifari. Á síðustu stundu rennir þó Sif Jónsdóttir í hlað og bjargar deginum. Hún ákvað að slást í för með okkur þar sem hún má ekki reyna um of á sig og getur því aðeins hlaupið með slökum hlaupurum.

Við sögðum henni frá velheppnaðri afmælisveislu Bigga jóga sl. föstudag þar sem hann safnaði saman fjölskyldu, hlaupafélögum og kunningjum úr listamannageiranum. Boðið upp á kraftmikla fiskisúpu og nóg af vökva til þess að skola henni niður með. Skrifari flutti ávarp í nafni Samtaka Vorra og mærði afmælisbarnið.

Sif upplýsti okkur um hlaupahópinn KR-skokk sem varð á vegi hennar um daginn þar sem hún var á ferð á reiðhjóli. Hópurinn var svo stór að hann tók yfir bæði hlaupastíg og hjólastíg á Ægisíðu og var henni nóg um. Einhver orðaskipti urðu af þessu tilefni og verða þau ekki tilfærð hér.

Nú við hlaupum sem leið liggur um Ægisíðu og bara nokkuð hlýtt í veðri. Rætt um heilsufar sem hefur verið með ýmsu móti upp á síðkastið og höfðu allir yfir einhverju að kvarta, bólgur og eitranir ýmiss konar, og lækningin ámóta fjölbreytt: hvítlauksgeiri, bólgustillandi, kvíðastillandi...

Það var staldrað við í Nauthólsvík eins og hefðin býður, en þar sem Formaður var ekki með í för var ekki haldin sögustund, og ekki stoppað lengi. Áfram í Kirkjugarð og hlaupið megnið af leiðinni og yfir á Veðurstofuhálendið. Segja má að varla hafi verið stoppað eftir þetta, nema þegar drukkið var á Sæbraut. Við fórum hefðbundið hjá Hörpu og Hafnarhverfi, upp Ægisgötu og til Laugar.

Fámennt og góðmennt í Potti, dr. Einar Gunnar, frú Helga - og svo kom Jörundur óhlaupinn í Pott. Nú þurfa menn að fara að huga að næstu hlaupum, því að þau koma hvert á fætur öðru: Grafningshlaup, Hamarshlaup o.s.frv. Og svo verður blómasalinn víst fimmtugur um næstu helgi...


Dr. Feelgood vill líða vel

Í póstsamskiptum dagsins var um það deilt hvenær Skátarnir hirtu hann Gústa okkar. Sumir sögðu 1994, aðrir sögðu 1995. Jörundur er venjulega óskeikulastur okkar manna í þessum efnum, vegna þess að hann getur yfirleitt tengt viðburðinn einhverju öðru sem gerðist um svipað leyti. Líkt og maðurinn fyrir austan sem miðaði tímatal sitt við árið þegar hann lánaði Fúsa fyrir trillunni. "Það var þremur árum eftir að ég lánaði Fúsa fyrir trillunni." Þannig staðfesti Jörundur í dag að það hafi verið árið 1995 sem að Skátarnir hirtu hann Gústa okkar eftir að hann hafði hlaupið heila 9 km og átti bara 1 km eftir. Helvítin tóku hann og skutluðu eins og hverjum öðrum rolluskrokki aftan í Unimog og keyrðu til viðeigandi aðhlynningar. Eftir það hefur Ágúst ekki þolað Skátana. En um þetta var rætt á póstlista Samtaka Vorra í dag. Tilefnið voru einhverjir tímar í 10 km sem allir eru búnir að gleyma nú. Enn muna menn þó eftir því þegar Skátarnir hentu Ágústi aftan í trukkinn. Og hann hatar þá síðan og hleypur ekki vegalengdir undir 20 km.

Nóg um það. Gríðarleg mæting afbragðshlaupara í hlaup dagsins. Menn söknuðu Bjössa, Benzins og Magga. Mættir: Jörundur, Flosi, Þorvaldur, skrifari, blómasali, Helmut, dr. Jóhanna, Pétur, Ólafur Gunnarsson, Magga, Denni af Nesi, Tobba (eftir langt hlé), Frikki, og ég veit ekki hvað og hvað, örugglega hátt í 20 manns. Blómasali með afkáraleg sólgleraugu, leit út eins og amerísk túristakelling. Flott veður fyrir hlaup, sól, tiltölulega stillt og hiti 8 stig. Helmut heimtaði langt hlaup, 18 km á Kársnes. Skrifari dró úr. Ekki vitað hvað aðrir ætluðust fyrir.

Skrifari lét í það skína að hann væri ekki fullkomlega afhuga Kársnesi, en hann gerði sér ljóst að það væri fullkomlega óraunsætt þar sem hann hefur lengst farið 13,6 km það sem af er vertíð. Jæja, hersingin af stað. Gengur vel framan af. Þó var ljóst að það yrði töluvert heitt og menn myndu svitna vel á leiðinni. Fjöldi fólks á leiðum úti, gangandi, hjólandi eða hlaupandi. Nú er vorið svo sannarlega komið og von bráðar förum við að taka túra í Elliðaárdalinn, upp að Stíbblu og Laug. Blómasalinn á leið í Copenhagen Marathon, en snöri við eftir stuttan spöl með verk í rist.

Á leiðinni upplýsir Helmut mig um að hann þurfi að bregða sér afsíðis í prívaterindum, að hann muni fara á undan okkur og biður um að beðið verði eftir sér þegar menn fara á Kársnesið. Nú var þannig statt að hann sagði þetta við mig prívat og Flosi og Jörundur, hinir Kársnessfararnir voru í hávaðasamræðum sín á milli um gömul hlaup og misstu af þessum upplýsingum. Og til að auka á vandann hafði skrifari ekki endanlega gert upp við sig hvort hann ætlaði á Kársnesið. Er kom á Flanir og Garður nálgaðist varð þó ljóst að skrifari átti ekkert erindi á Kársnes og myndi bara daga uppi á Kópavogshálsi við Gerðarsafn.

Af þeirri ástæðu leyfði hann þeim hinum að halda áfram í nágrannasveitarfélagið en hélt sjálfur áfram yfir brú á Kringlumýrarbraut og upp Boggabrekku. Samt flögraði að honum hvort hann hefði ekki átt að láta þá Jörund og Flosa vita að til þess væri ætlast að þeir biðu eftir Helmut á ákveðnum stað á Fossvogsaurum, en kom því einhvern veginn ekki í verk. Stundum er maður eitthvað svo verklítill! Það var þá bara að takast á við Boggabrekku og það tókst með ágætum.

Hér varð skrifara hugsað til félaga síns, Benzins, og þegar við reyndum að drepa okkur í brekkunni í síðustu viku en tókst ekki. Það vantaði allan hávaðann til þess að taka hugann af eigin vangaveltum og efasemdum. Ef maður hefur kjaftaganginn í eyrunum hættir maður að vorkenna sjálfum sér og fer að hugsa um eitthvað annað. Þannig þraukar maður hlaupið og tekur varla eftir öllum kílómetrunum sem maður leggur undir skósóla. Einsemdin ríkti ofar hverri kröfu. Það var farið um Hvassaleiti, yfir brú á Miklubraut og svo niður á Sæbraut, grænt á nánast hverju ljósi. Svo var bara tekið tempó innan um reykjandi útlendinga alla leið út að vatnsfonti. Drukkið kalt og svalandi Gvendarbrunnavatn.

Afgangurinn var góður og engin ástæða til þess að staldra við eða gera hlé á hlaupi, ekki einu sinni til þess að signa sig, enda voru hvorki Bjarni né Denni með í för. Kláraði gott hlaup á viðunandi tíma, en fámennt var í Laug er komið var tilbaka. Stuttu síðar kom þó Denni og þegar við sátum í Potti komu þau hvert af öðru, Helmut, Jóhanna og Flosi. Helmut kvartaði yfir því að ekki hafi verið beðið eftir honum, hann hefði mætt Jóhönnu, en ekki séð tangur eða tetur af Flosa og Jörundi. Helmut horfði ásakandi á skrifara, en skrifari sagði eitthvað á þá leið að svona gæti gerst þegar menn gerðu afbrigði í miðju hlaupi. Framundan er Neshlaup, hverjir ætla?


Seltjarnarnesslaug lokuð - Denni mættur

Þegar skrifari kom á Plan fyrir hlaup dagsins mætti honum þar fyrstur manna Denni, þekktur skransali og netagerðarmaður af Nesi. Skrifari hugsaði: "Er ég orðinn ruglaður? Vorum við ekki að halda Fyrsta?" Denni virtist sjá fyrir spurn skrifara og sagði: "Þú ert ekki brjálaður. Það er lokað í laug á Nesi." Sjúkkat! Samt var þetta svolítið óþægilegt. Aðrir mættir: Þorvaldur, Flosi, Bjössi, Helmut, dr. Jóhanna, Ragnar, Gummi Löve, Heiðar, og svo hann hérna... Björn hinn. Sumsé ekki sem bezt þátttaka, væntanlega í tilefni af upphafi nýs hlaupahóps í Frostaskjólinu á morgun. Þar munu Hlaupasamtökin hins vegar hafa útsendara sína og gaumgæfa það sem fram fer.

Menn voru sprækir og kátir í dag og það var lagt upp stundvíslega kl. 17:30, sem gerist ekki oft. Stefnan sett á Öskjuhlíð, eða jafnvel á Suðurhlíð, alla vega yrði ekki tekið í mál að fara einhvern Hlíðarfótaraumingja. Við hinir lakari hlauparar fórum rólega út, svo rólega að m.a.s. Denni gat hangið í okkur. Fyrir framan okkur var hópur grænklæddra kvenna og Denni fullyrti að þetta væru hans konur af Nesi. Þorvaldur fékk instrúx um að hlaupa uppi hóp þenna og framkvæma á honum vísindalega athugun, snúa svo við og rapportéra til okkar hinna. Þorvaldur af stað og náði þessum föngulega hópi, en var greinilega þrotið örendi er þangað var komið, hljóp fram úr þeim og gleymdi hinum vísindalega tilgangi erindisins. Er svona mönnum viðbjargandi?

Þetta var nú allt í lagi því að með seiglu og kappi náðum við félagarnir dömunum í Skerjafirði. Bjössi fór með fagurgala en Denni sagði honum að halda sig á mottunni, þetta væru konur af Nesi og þar af leiðandi innan hans umsýslumarka. Stúlkurnar voru hinar viðkunnanlegustu og virtust bara hafa gaman af athyglinni. Við fram úr og áfram. Fórum svona frekar hægt og vorum rólegir. Hér náðu okkur hinir yngri og grannvaxnari hlauparar sem virðast setja allan sinn metnað í tíma og framfarir. Við hinir þroskaðri hlauparar leggjum áherzlu á að njóta stundarinnar, umhverfisins, veðráttunnar, félagsskaparins.

Í Nauthólsvík var staldrað við meðan menn drukku vatn. Hér voru saman komnir Helmut, Denni, Flosi, Þorvaldur, Bjössi og skrifari. Við héldum hópinn. Við lá að skrifari hefði orð á að þetta væri sannkallað félagshlaup, en mér fannst það einum of hommalegt í augnablikinu. E.t.v. ætti það betur við síðar. Eins gott! Nú var komin ný áætlun. Skógarhlaup. Hlaup um skógarstíga í Öskjuhlíð. Flosi leiddi hópinn framhjá Hi-Lux-brekku og alveg út að Garði, þar var snúið til vinstri og upp hlíðina gegnum þröngar skógargötur, upp á móti og tók í.

Hér var komið að félagshlaupinu. Svo mikið kapp var hlaupið í Flosa og Þorvald að þeir æddu á undan okkur hinum án þess að skeyta um að í hópi vorum væri seinfær skransali. Þeir hurfu sjónum okkar. Skrifari reyndi að elta þá og týndi þá þeim hinum, sá þó til þeirra og öskraði á þá, en þeir svöruðu með skætingi. Hafandi hlaupið þannig um stíga Öskjuhlíðar og loks kominn út á urðina á slóðinni í átt að Gvuðsmönnum rakst skrifari á bróður sinn, og svo komu þeir hinir, en Þorvaldur var týndur og tröllum sýndur.

Eftir þetta var félagshlaup. Við héldum hópinn Flugvallarveg hjá Gvuðsmönnum og svo í vesturátt Hringbraut, yfir brýr á Miklubraut og þannig alla leið hjá Háskóla, um Birkimel og Hagamel til Laugar. Teygt í Móttökusal því að það var kalt utandyra. Ekki leist mönnum á blikuna er litið var til Laugar og potta, þar var allt stútfullt af fólki. Greinilegt að þeir Nesverjar hafa fjölmennt til þess að baðast í baðvatni okkar Vesturbæinga. En þegar til átti að taka fannst pláss í barnapotti og þar tróðu meðlimir Samtakanna sér. Þangað kom sonur Bjarna Benz og átti við okkur spjall. Síðar sást sjálfur karlinn koma og þá forðaði skrifari sér upp úr. Átti erindi við Melabúðarkaupmann.

Nú þurfa menn að fara að lengja, spurning hvort ekki verði stefnt að Stokki á miðvikudag? Anyone?


Eintóm gleði

Ekki amalegt veðrið að morgni sunnudags 6. maí: sól, hægur andvari og hiti um 6 stig, fínt veður til hlaupa. Fjórir hlauparar mættir, Formaður til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Svo var Flosi á hjóli. Einar að koma af Nesi og búinn að leggja nokkra kílómetra undir fætur sér. Enn er lokað í Laug til kl. 11 og enn streymir að fólk sem kemst ekki í heita laug, en þarf að fara í nágrannasveitarfélög sem opna dyr sínar fyrir fólki á kristilegum tímum.

Við hittum V. Bjarnason á reiðhjóli við brottför, hann var að spjalla við heiðurshjón í Vestbyen, og átti handa okkur nokkur vel valin orð. Við köstuðum á hann kveðju og Jörundur sagðist m.a.s. sakna hans. Hann svaraði: "Farðu nú að segja satt, Jörundur!" Það var farið niður á Ægisíðu og lagt upp í hefðbundinn sunnudag. Eðlilega var eitthvað rætt um Fyrsta hjá Kára og Önnu Birnu, en þar var matreiddur exótískur grænmetisréttur og nýbakað brauð með. Þar blandaði geði við hlaupara kötturinn Kismundur nýklipptur og hafði haft uppi öflug mótmæli gegn þeim er það verk vann. Kári fékk sömuleiðis klippingu, en mun hafa verið stilltari.

Það var tekin rispa á fyrirætlunum Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum, þar sem reisa á hótel, byggja golfvöll og flugvöll og ég veit ekki hvað og hvað. Jörundur benti á að við norðausturströndina væru einhver bestu hafnarskilyrði á landinu og það væri einkum það sem þeir kínversku einblíndu á með framtíðina í huga, enda væri leigusamningur kynntur í Kína sem væri hann til 99 ára. Einnig var fjallað lítillega um málefni Þorláksbúðar og stöðu byggingarinnar á Skálholtsreitnum.

Í Nauthólsvík var sögð falleg saga sem gaman mátti hafa af, en þó held ég að Magnús tannlæknir hefði haft langmest gaman af henni, þetta var svona Kirkjuráðssaga. Áfram haldið á Flanir og í Garðinn. Þar má nú svala þorsta sínum þar sem búið er að hleypa vatni á garðinn. Upp tekið hlaup af nýju og farin þessi hefðbundna leið um Hálendið, Hlíðar, Klambra og niður á Sæbraut. Rætt um Holtavörðuheiðarhlaup, sem menn sjá fyrir sér að fari fram í lok júlí, líklega þann 28da. Að sögn Jóns á Melum sjálfs er leiðin frá Fornahvammi og að Melum 28 km - fyrstu 10 verða erfiðir, en eftir það er þetta skemmtiferð. Ólíklegt er að hægt verði að fara gamla veginn og skynsamlegt gæti verið að hafa bíl með í för með blikkandi ljósum.

Á Sæbraut bunar myndarlega úr vatnshana og þar var drukkið. Áfram hlaupið eftir það og eiginlega ekki stoppað, þetta var orðið nóg af göngu og það er erfiðara að hlaupa þegar alltaf er verið að stoppa til að ganga, menn stirðna bara upp. Þannig að við Jörundur héldum áfram og stoppuðum ekki fyrr en við Kristskirkju, þar sem við tókum ofan höfuðföt, hneigðum okkur og signuðum. Héldum svo áfram alla leið til Laugar. Þar hittum við Möggu á Plani.

Í Potti rætt um húsbyggingar og -breytingar, en einnig nokkuð um bílnúmer og persónufræði. Þangað mætti Guðmundur Löve óhlaupinn, enda hleypur hann ekki nema fimm sinnum í víku. Kaupmannahafnar-maraþon er eftir tvær vikur, þangað stefnir blómasalinn, en aðrir horfa til Amsterdamms-maraþons í haust.

Rólegt hlaup og friðsælt að baki. Ný átök á morgun, mánudag.


Og enn lifa þau - Samtökin

Skrifari var einn í Útiklefa og þar var fámennt. Þá mætti Þorvaldur og hafði orð á fámenninu. Skrifari hugsaði: "Verður þetta hlutskipti mitt í dag? Að hlaupa með Þorvaldi?" Ég hélt vondaufur til Brottfararsalar og settist þungt hugsi. En fljótt rættist úr. Dr. Jóhanna mætti, Ólafur Gunnarsson, Gummi Löve, Magga, Einar blómasali, Helmut - og loks kom Benzinn með látum. Það voru einhverjir fleiri, Hjálmar og Kaupmaðurinn dúkkaði upp í miðju hlaupi. Þarna sést að það vantaði lykilhlaupara, en við því var ekki að gera. Sjálfsagt ætla einhverjir að gera rósir í Icelandair-hlaupinu á morgun. Þó verður að segjast að það vænkaðist hagur skrifara. Á meðan starfar einkaspæjari Hlaupasamtakanna á laun við að afhjúpa tilurð nýja hlaupahópsins í Vesturbænum og verður fylgst grannt með þeirri upplýsingaöflun.

Hamingja skrifara entist ekki lengi. Hann var skilinn eftir. Afburðahlauparar ruku af stað og settu góða vegalengd á milli sín og lakari hlaupara í dag. Við skulum vona að þetta hafi bara verið dagsformið, því að skrifari var ekki bara aftastur, heldur LANGaftastur. Það var allt í lagi, hann fór á sínu tempói, eins og þeir Jörundur og Magnús gera jafnan. En hann var einn. Það er ekkert smámál að hreyfa þennan mikla 90 kg skrokk áfram og því aðdáunarefni út af fyrir sig að maðurinn skuli geta og vilja hreyfa sig. Á móti má segja að það er ekki tekið út með sældinni að hlaupa þegar menn eru í þessum þyngdarflokki. Það sprettur einn og annar svitadropi út af þessari æfingu. Svo varð í dag, enda var ekkert gefið eftir, tekið á því og farnar Þrjár brýr.

Benzinn er vinur vina sinna og hann beið eftir mér á Flönum á leið austur að Boggabrekku. Það reddaði eiginlega deginum, því að lítill karl sat á annarri öxlinni á mér og hvíslaði í eyra mér að ég væri þreyttur og þyrfti að fara stutt, ég þyrfti að hvíla mig og mætti ekki ofreyna mig. Benzinn var með slík læti að karlinn fauk af öxlinni og eftir það var ekki litið til baka. Það er nú slíkur kjaftagangur á karlinum að maður gleymir stað og stund og yfirstandandi erfiði. Áður en vitað var af blasti Brekkan við og það var skellt sér í hana. Að vísu hægðum við aðeins á okkur í miðri Brekku, en þá sagði Bjarni að honum þætti alltaf gott að taka vel á því og vera nær dauða en lífi er upp væri komið. Ekki vildi ég hafa það af honum og sagði: "Reynum þá að drepa okkur!"

Við vorum enn hérna megin er komið var yfir Bústaðaveginn og næst var það Hálendið. Hér voru menn orðnir vel heitir og eftir það rann bara svitinn og brennslan var á fullu, það var ekki slakað á því. Brenndum niður Kringlumýrarbraut og náðum hvarvetna grænu ljósi, eða því sem næst grænu, alla vega appelsínugulu. Á Sæbraut var bara tekið á því og hert á ef eitthvað var. Stoppað við drykkjarfont og drukkið, það var kalt vatn, rann vel og var svalandi. Takk fyrir, Orkuveita Reykjavíkur!

Eigi var stöðvað við Hörpu en sagðar hetjusögur af bróður skrifara og barnakennarans, Pétri hafnsögumanni. Bjarni var svo uppnuminn af sögunum að hann bölvaði og ragnaði og langaði að rjúka í næsta mann. Því var forðað en Bjarni gerði þó gagn er hann fór inn á Hamborgarabúlluna og sótti handa okkur vatn að drekka. Eftir að hafa lagt Ægisgötu að velli stóðum við andspænis kirkjudurum Kristskirkju, tókum ofan höfuðföt, hneigðum okkur og signuðum. Ginnheilagir menn hlupu eins og hreinsaðir hundar niður Hofsvallagötu og mættu á Plan þar sem engan var að finna, annað hvort hafði fólk stytt eða lengt, hvort var það? Teygt og farið í Útiklefa, skrifari vel sveittur og illa þefjandi, yndislegt!

Í Pott mætti Kári. Spurt var um merkingu málsháttarins: Þangað leitar Kári sem hann er kvaldastur. "Ætti þetta ekki að vera kvalinn?" Sagðir brandarar. Þeir voru ýmissar gerðar, en allir einhvern veginn í anda mannætubrandarans sem er svona: mannætupabbinn og mannætusonurinn sjá dáyndisfagra mær og sonurinn segir "pabbi, við skulum fara með hana heim og láta mömmu matreiða hana". "Nei, sonur sæll," segir mannætupabbinn. "Við skulum fara með hana heim og borða mömmu." Ég veit ekki hvort þetta er hákúra eða lágkúra, en altént er Fyrsti Föstudagur heima hjá Kára og Önnu Birnu á föstudag og það er BYOB! Hvað menn athugi!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband