Seltjarnarnesslaug lokuð - Denni mættur

Þegar skrifari kom á Plan fyrir hlaup dagsins mætti honum þar fyrstur manna Denni, þekktur skransali og netagerðarmaður af Nesi. Skrifari hugsaði: "Er ég orðinn ruglaður? Vorum við ekki að halda Fyrsta?" Denni virtist sjá fyrir spurn skrifara og sagði: "Þú ert ekki brjálaður. Það er lokað í laug á Nesi." Sjúkkat! Samt var þetta svolítið óþægilegt. Aðrir mættir: Þorvaldur, Flosi, Bjössi, Helmut, dr. Jóhanna, Ragnar, Gummi Löve, Heiðar, og svo hann hérna... Björn hinn. Sumsé ekki sem bezt þátttaka, væntanlega í tilefni af upphafi nýs hlaupahóps í Frostaskjólinu á morgun. Þar munu Hlaupasamtökin hins vegar hafa útsendara sína og gaumgæfa það sem fram fer.

Menn voru sprækir og kátir í dag og það var lagt upp stundvíslega kl. 17:30, sem gerist ekki oft. Stefnan sett á Öskjuhlíð, eða jafnvel á Suðurhlíð, alla vega yrði ekki tekið í mál að fara einhvern Hlíðarfótaraumingja. Við hinir lakari hlauparar fórum rólega út, svo rólega að m.a.s. Denni gat hangið í okkur. Fyrir framan okkur var hópur grænklæddra kvenna og Denni fullyrti að þetta væru hans konur af Nesi. Þorvaldur fékk instrúx um að hlaupa uppi hóp þenna og framkvæma á honum vísindalega athugun, snúa svo við og rapportéra til okkar hinna. Þorvaldur af stað og náði þessum föngulega hópi, en var greinilega þrotið örendi er þangað var komið, hljóp fram úr þeim og gleymdi hinum vísindalega tilgangi erindisins. Er svona mönnum viðbjargandi?

Þetta var nú allt í lagi því að með seiglu og kappi náðum við félagarnir dömunum í Skerjafirði. Bjössi fór með fagurgala en Denni sagði honum að halda sig á mottunni, þetta væru konur af Nesi og þar af leiðandi innan hans umsýslumarka. Stúlkurnar voru hinar viðkunnanlegustu og virtust bara hafa gaman af athyglinni. Við fram úr og áfram. Fórum svona frekar hægt og vorum rólegir. Hér náðu okkur hinir yngri og grannvaxnari hlauparar sem virðast setja allan sinn metnað í tíma og framfarir. Við hinir þroskaðri hlauparar leggjum áherzlu á að njóta stundarinnar, umhverfisins, veðráttunnar, félagsskaparins.

Í Nauthólsvík var staldrað við meðan menn drukku vatn. Hér voru saman komnir Helmut, Denni, Flosi, Þorvaldur, Bjössi og skrifari. Við héldum hópinn. Við lá að skrifari hefði orð á að þetta væri sannkallað félagshlaup, en mér fannst það einum of hommalegt í augnablikinu. E.t.v. ætti það betur við síðar. Eins gott! Nú var komin ný áætlun. Skógarhlaup. Hlaup um skógarstíga í Öskjuhlíð. Flosi leiddi hópinn framhjá Hi-Lux-brekku og alveg út að Garði, þar var snúið til vinstri og upp hlíðina gegnum þröngar skógargötur, upp á móti og tók í.

Hér var komið að félagshlaupinu. Svo mikið kapp var hlaupið í Flosa og Þorvald að þeir æddu á undan okkur hinum án þess að skeyta um að í hópi vorum væri seinfær skransali. Þeir hurfu sjónum okkar. Skrifari reyndi að elta þá og týndi þá þeim hinum, sá þó til þeirra og öskraði á þá, en þeir svöruðu með skætingi. Hafandi hlaupið þannig um stíga Öskjuhlíðar og loks kominn út á urðina á slóðinni í átt að Gvuðsmönnum rakst skrifari á bróður sinn, og svo komu þeir hinir, en Þorvaldur var týndur og tröllum sýndur.

Eftir þetta var félagshlaup. Við héldum hópinn Flugvallarveg hjá Gvuðsmönnum og svo í vesturátt Hringbraut, yfir brýr á Miklubraut og þannig alla leið hjá Háskóla, um Birkimel og Hagamel til Laugar. Teygt í Móttökusal því að það var kalt utandyra. Ekki leist mönnum á blikuna er litið var til Laugar og potta, þar var allt stútfullt af fólki. Greinilegt að þeir Nesverjar hafa fjölmennt til þess að baðast í baðvatni okkar Vesturbæinga. En þegar til átti að taka fannst pláss í barnapotti og þar tróðu meðlimir Samtakanna sér. Þangað kom sonur Bjarna Benz og átti við okkur spjall. Síðar sást sjálfur karlinn koma og þá forðaði skrifari sér upp úr. Átti erindi við Melabúðarkaupmann.

Nú þurfa menn að fara að lengja, spurning hvort ekki verði stefnt að Stokki á miðvikudag? Anyone?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband