Og enn lifa þau - Samtökin

Skrifari var einn í Útiklefa og þar var fámennt. Þá mætti Þorvaldur og hafði orð á fámenninu. Skrifari hugsaði: "Verður þetta hlutskipti mitt í dag? Að hlaupa með Þorvaldi?" Ég hélt vondaufur til Brottfararsalar og settist þungt hugsi. En fljótt rættist úr. Dr. Jóhanna mætti, Ólafur Gunnarsson, Gummi Löve, Magga, Einar blómasali, Helmut - og loks kom Benzinn með látum. Það voru einhverjir fleiri, Hjálmar og Kaupmaðurinn dúkkaði upp í miðju hlaupi. Þarna sést að það vantaði lykilhlaupara, en við því var ekki að gera. Sjálfsagt ætla einhverjir að gera rósir í Icelandair-hlaupinu á morgun. Þó verður að segjast að það vænkaðist hagur skrifara. Á meðan starfar einkaspæjari Hlaupasamtakanna á laun við að afhjúpa tilurð nýja hlaupahópsins í Vesturbænum og verður fylgst grannt með þeirri upplýsingaöflun.

Hamingja skrifara entist ekki lengi. Hann var skilinn eftir. Afburðahlauparar ruku af stað og settu góða vegalengd á milli sín og lakari hlaupara í dag. Við skulum vona að þetta hafi bara verið dagsformið, því að skrifari var ekki bara aftastur, heldur LANGaftastur. Það var allt í lagi, hann fór á sínu tempói, eins og þeir Jörundur og Magnús gera jafnan. En hann var einn. Það er ekkert smámál að hreyfa þennan mikla 90 kg skrokk áfram og því aðdáunarefni út af fyrir sig að maðurinn skuli geta og vilja hreyfa sig. Á móti má segja að það er ekki tekið út með sældinni að hlaupa þegar menn eru í þessum þyngdarflokki. Það sprettur einn og annar svitadropi út af þessari æfingu. Svo varð í dag, enda var ekkert gefið eftir, tekið á því og farnar Þrjár brýr.

Benzinn er vinur vina sinna og hann beið eftir mér á Flönum á leið austur að Boggabrekku. Það reddaði eiginlega deginum, því að lítill karl sat á annarri öxlinni á mér og hvíslaði í eyra mér að ég væri þreyttur og þyrfti að fara stutt, ég þyrfti að hvíla mig og mætti ekki ofreyna mig. Benzinn var með slík læti að karlinn fauk af öxlinni og eftir það var ekki litið til baka. Það er nú slíkur kjaftagangur á karlinum að maður gleymir stað og stund og yfirstandandi erfiði. Áður en vitað var af blasti Brekkan við og það var skellt sér í hana. Að vísu hægðum við aðeins á okkur í miðri Brekku, en þá sagði Bjarni að honum þætti alltaf gott að taka vel á því og vera nær dauða en lífi er upp væri komið. Ekki vildi ég hafa það af honum og sagði: "Reynum þá að drepa okkur!"

Við vorum enn hérna megin er komið var yfir Bústaðaveginn og næst var það Hálendið. Hér voru menn orðnir vel heitir og eftir það rann bara svitinn og brennslan var á fullu, það var ekki slakað á því. Brenndum niður Kringlumýrarbraut og náðum hvarvetna grænu ljósi, eða því sem næst grænu, alla vega appelsínugulu. Á Sæbraut var bara tekið á því og hert á ef eitthvað var. Stoppað við drykkjarfont og drukkið, það var kalt vatn, rann vel og var svalandi. Takk fyrir, Orkuveita Reykjavíkur!

Eigi var stöðvað við Hörpu en sagðar hetjusögur af bróður skrifara og barnakennarans, Pétri hafnsögumanni. Bjarni var svo uppnuminn af sögunum að hann bölvaði og ragnaði og langaði að rjúka í næsta mann. Því var forðað en Bjarni gerði þó gagn er hann fór inn á Hamborgarabúlluna og sótti handa okkur vatn að drekka. Eftir að hafa lagt Ægisgötu að velli stóðum við andspænis kirkjudurum Kristskirkju, tókum ofan höfuðföt, hneigðum okkur og signuðum. Ginnheilagir menn hlupu eins og hreinsaðir hundar niður Hofsvallagötu og mættu á Plan þar sem engan var að finna, annað hvort hafði fólk stytt eða lengt, hvort var það? Teygt og farið í Útiklefa, skrifari vel sveittur og illa þefjandi, yndislegt!

Í Pott mætti Kári. Spurt var um merkingu málsháttarins: Þangað leitar Kári sem hann er kvaldastur. "Ætti þetta ekki að vera kvalinn?" Sagðir brandarar. Þeir voru ýmissar gerðar, en allir einhvern veginn í anda mannætubrandarans sem er svona: mannætupabbinn og mannætusonurinn sjá dáyndisfagra mær og sonurinn segir "pabbi, við skulum fara með hana heim og láta mömmu matreiða hana". "Nei, sonur sæll," segir mannætupabbinn. "Við skulum fara með hana heim og borða mömmu." Ég veit ekki hvort þetta er hákúra eða lágkúra, en altént er Fyrsti Föstudagur heima hjá Kára og Önnu Birnu á föstudag og það er BYOB! Hvað menn athugi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband