Þéttur hópur á ferð

Fjórir mættir í auglýst hlaup Hlaupasamtakanna frá Laug kl. 16:30 í dag: Jörundur, Ragnar, Guðmundur og skrifari. Þetta eru ekki hlauparar sem eru vanir að fylgjast að á föstum æfingum Samtaka Vorra, en nú urðu menn að gjöra svo vel og hemja sig og alda hópinn. Hér kom til gagnkvæm málamiðlun, þeir Ragnar og Gummi fóru hægar en alla jafna, og við Jörundur bættum aðeins í svo að tempóið var á köflum komið niður í 5:20 eða þar um bil, eftir því sem klukkueigendur tjáðu okkur.

Það var ákveðið að setja stefnuna á Nauthólsvík og sjá svo til eftir það hvert við færum. Við vorum allir léttklæddir enda skein sól í heiði og varla að vindur bærðist, en hiti líklega um 12-13 gráður. Því varð svolítið heitt á leiðinni, og gott að komast í skjól og skugga þar sem svalandi vindur blés. Mönnum hitnaði í hamsi af hita og átökum og voru bara í skaplegu formi. Rætt um næstu hlaup, sem eru Grafningshlaupið, Minningarhlaup Guðmundar Karls og Hamarshlaup, allt utanvegahlaup.

Afar óljósar fregnir eru af sammenkomst í kringum Grafningshlaup, en einn félagi okkar á sumarbústað á þessum slóðum og fyllir jafnframt fimmta tuginn um svipað leyti. Hann hefur gefið í skyn að vænta megi einhvers konar skemmtunar af þessu tilefni, en ekki meir en svo að menn geti undirbúið neitt. Líklegast þótti að þeim sem skráðu sig í Grafningshlaupið yrði boðið í sumarbústaðinn í gleðskap - en þetta eingöngu tilkynnt eftir að skráningarfrestur í hlaupið væri útrunninn - þ.e. í kvöld. Svona gekk umræðan.

Er komið var í Nauthólsvík vorum við orðnir vel heitir og ekki annað tekið í mál en stefna á Suðurhlíð. Hér hertu þeir hinir hlaupið og skildu skrifara eftir. Hann náði þó að hanga nokkurn veginn í þeim og missti aldrei sjónar á þeim. Það var farið á spretti upp Suðurhlíðina, tekinn hringur hjá Perlu, utan hvað Jörundur hélt kúrsi og stefndi beint á Stokk. Niður hjá Gvuðsmönnum og svo skeiðað vestur Hringbraut. Lukum rúmum 10 km á 55-56 mín. Hittum Hjálmar, Ósk og Frikka á Plani, en þau voru að leggja upp í hlaup.

Setið lengi í Potti, þangað sem Biggi og Ingi mættu. Rætt um Evróvisjón og landsölu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband