Hlaupið í sterkri sól á fimmtugsafmæli ónefnds blómasala

Hópur afburðahlaupara mættur til hlaups á miðvikudegi, og svo vorum við Þorvaldur líka mættir. Þau hin voru dr. Jóhanna, Magga, Ragnar, Gummi, Ólafur Hj. og Hjálmar - og svo sást til Frikka á hjóli. Sterk sól, 13 stiga hiti og einhver gjóla á norðan sem var svalandi þegar hitinn var að drepa mann. Þau hin voru ekki mikið að leita eftir skoðunum okkar Þorvalds á því hvert skyldi hlaupið, sögðu bara: "Er ekki stemmari fyrir Kársnesi?" Jújú, var svarað og svo rokið af stað. Ég held við höfum náð að hanga í heim alla leið upp að sjoppuhorni á Hofsvallagötu og svo ekki söguna meir!

Þetta var sosum allt í lagi. Þorvaldur er fjölfróður maður og lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Ræddum um barnauppeldi og refsingar sem uppeldisaðferð. Hann taldi þær ekki vænlegar til árangurs. Ég upplýsti hann hins vegar um rannsókn sem sagt er frá í gamalli sálfræðihandbók sem sýndi fram á(meintan) áþreifanlegan árangur af notkun rafstuða við að fá fólk til að endurskoða kynhegðun sína. Ekki er ég viss um að bók þessi hafi síðan verið endurprentuð óbreytt.

Það var einhver þreyta í skrifara, líklega frá því að hafa hlaupið bæði sunnudag og mánudag (samtals um 22 km) og svo frá langri gönguferð um Hafnarsvæðið kveldinu áður. Fyrst hélt ég að þetta væri orkuskortur, en komst svo að því að þetta væri bara þreyta. Áttum samleið út að Kringlumýrarbraut, en þá sneri Þorvaldur upp Suðurhlíð og ég áfram yfir brú, setti stefnuna á Þriggjabrúa. En strax í Brekkunni var ég hálfuppgefinn og þurfti hreinlega að ganga. Náði þó að hlaupa yfir hjá Útvarpshúsi og naut maður þess að fá svalandi vindinn á móti sér. Síðan niður Kringlumýrarbraut og alla leið niður á Sæbraut. Svo tók maður þetta í bútum, drukkið við drykkjarfont á Sæbraut og áfram hjá Hörpu.

Það er svo margt að skoða í Hafnarhverfinu, þar spretta upp ferðaþjónustufyrirtæki, og engin ástæða að hraða för sinni þar um. Ægisgatan gengin að mestu en tölt niður Hofsvallagötu. Um það leyti sem ég kom á Plan voru þau hin að tínast til baka hafandi farið 18 km leið á Kársnesi.

Í Pott komu, auk dr. Jóhönnu og skrifara, Frikki, Benzinn og Biggi. Eins og vænta mátti urðu hávaðaumræður um hvaðeina. Leitað eftir þátttöku í Sólheimahlaupi að blómasalans og lagt á ráðin um ferðir austur. Hér vildi vitanlega hver koma sér hjá því að keyra því að það kemur í veg fyrir að menn fái notið veitinga hins veitula blómasala til fullnustu. Menn munu þó hafa ráð við því að þátttaka verði til sóma og manninum sýndi tilhlýðileg virðing á þessum tímamótum, þegar hann fetar sig yfir í hóp virðulegra hlaupara á sextugsaldri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband