Eintóm gleði

Ekki amalegt veðrið að morgni sunnudags 6. maí: sól, hægur andvari og hiti um 6 stig, fínt veður til hlaupa. Fjórir hlauparar mættir, Formaður til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Svo var Flosi á hjóli. Einar að koma af Nesi og búinn að leggja nokkra kílómetra undir fætur sér. Enn er lokað í Laug til kl. 11 og enn streymir að fólk sem kemst ekki í heita laug, en þarf að fara í nágrannasveitarfélög sem opna dyr sínar fyrir fólki á kristilegum tímum.

Við hittum V. Bjarnason á reiðhjóli við brottför, hann var að spjalla við heiðurshjón í Vestbyen, og átti handa okkur nokkur vel valin orð. Við köstuðum á hann kveðju og Jörundur sagðist m.a.s. sakna hans. Hann svaraði: "Farðu nú að segja satt, Jörundur!" Það var farið niður á Ægisíðu og lagt upp í hefðbundinn sunnudag. Eðlilega var eitthvað rætt um Fyrsta hjá Kára og Önnu Birnu, en þar var matreiddur exótískur grænmetisréttur og nýbakað brauð með. Þar blandaði geði við hlaupara kötturinn Kismundur nýklipptur og hafði haft uppi öflug mótmæli gegn þeim er það verk vann. Kári fékk sömuleiðis klippingu, en mun hafa verið stilltari.

Það var tekin rispa á fyrirætlunum Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum, þar sem reisa á hótel, byggja golfvöll og flugvöll og ég veit ekki hvað og hvað. Jörundur benti á að við norðausturströndina væru einhver bestu hafnarskilyrði á landinu og það væri einkum það sem þeir kínversku einblíndu á með framtíðina í huga, enda væri leigusamningur kynntur í Kína sem væri hann til 99 ára. Einnig var fjallað lítillega um málefni Þorláksbúðar og stöðu byggingarinnar á Skálholtsreitnum.

Í Nauthólsvík var sögð falleg saga sem gaman mátti hafa af, en þó held ég að Magnús tannlæknir hefði haft langmest gaman af henni, þetta var svona Kirkjuráðssaga. Áfram haldið á Flanir og í Garðinn. Þar má nú svala þorsta sínum þar sem búið er að hleypa vatni á garðinn. Upp tekið hlaup af nýju og farin þessi hefðbundna leið um Hálendið, Hlíðar, Klambra og niður á Sæbraut. Rætt um Holtavörðuheiðarhlaup, sem menn sjá fyrir sér að fari fram í lok júlí, líklega þann 28da. Að sögn Jóns á Melum sjálfs er leiðin frá Fornahvammi og að Melum 28 km - fyrstu 10 verða erfiðir, en eftir það er þetta skemmtiferð. Ólíklegt er að hægt verði að fara gamla veginn og skynsamlegt gæti verið að hafa bíl með í för með blikkandi ljósum.

Á Sæbraut bunar myndarlega úr vatnshana og þar var drukkið. Áfram hlaupið eftir það og eiginlega ekki stoppað, þetta var orðið nóg af göngu og það er erfiðara að hlaupa þegar alltaf er verið að stoppa til að ganga, menn stirðna bara upp. Þannig að við Jörundur héldum áfram og stoppuðum ekki fyrr en við Kristskirkju, þar sem við tókum ofan höfuðföt, hneigðum okkur og signuðum. Héldum svo áfram alla leið til Laugar. Þar hittum við Möggu á Plani.

Í Potti rætt um húsbyggingar og -breytingar, en einnig nokkuð um bílnúmer og persónufræði. Þangað mætti Guðmundur Löve óhlaupinn, enda hleypur hann ekki nema fimm sinnum í víku. Kaupmannahafnar-maraþon er eftir tvær vikur, þangað stefnir blómasalinn, en aðrir horfa til Amsterdamms-maraþons í haust.

Rólegt hlaup og friðsælt að baki. Ný átök á morgun, mánudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband