Hefðbundið á sunnudegi - Sif mætt

Ekki var útlitið bjart er komið var til Laugar og klukkan rúmlega tíu. Aðeins tveir hlauparar mættir: þeir Þorvaldur og Ólafur skrifari. Á síðustu stundu rennir þó Sif Jónsdóttir í hlað og bjargar deginum. Hún ákvað að slást í för með okkur þar sem hún má ekki reyna um of á sig og getur því aðeins hlaupið með slökum hlaupurum.

Við sögðum henni frá velheppnaðri afmælisveislu Bigga jóga sl. föstudag þar sem hann safnaði saman fjölskyldu, hlaupafélögum og kunningjum úr listamannageiranum. Boðið upp á kraftmikla fiskisúpu og nóg af vökva til þess að skola henni niður með. Skrifari flutti ávarp í nafni Samtaka Vorra og mærði afmælisbarnið.

Sif upplýsti okkur um hlaupahópinn KR-skokk sem varð á vegi hennar um daginn þar sem hún var á ferð á reiðhjóli. Hópurinn var svo stór að hann tók yfir bæði hlaupastíg og hjólastíg á Ægisíðu og var henni nóg um. Einhver orðaskipti urðu af þessu tilefni og verða þau ekki tilfærð hér.

Nú við hlaupum sem leið liggur um Ægisíðu og bara nokkuð hlýtt í veðri. Rætt um heilsufar sem hefur verið með ýmsu móti upp á síðkastið og höfðu allir yfir einhverju að kvarta, bólgur og eitranir ýmiss konar, og lækningin ámóta fjölbreytt: hvítlauksgeiri, bólgustillandi, kvíðastillandi...

Það var staldrað við í Nauthólsvík eins og hefðin býður, en þar sem Formaður var ekki með í för var ekki haldin sögustund, og ekki stoppað lengi. Áfram í Kirkjugarð og hlaupið megnið af leiðinni og yfir á Veðurstofuhálendið. Segja má að varla hafi verið stoppað eftir þetta, nema þegar drukkið var á Sæbraut. Við fórum hefðbundið hjá Hörpu og Hafnarhverfi, upp Ægisgötu og til Laugar.

Fámennt og góðmennt í Potti, dr. Einar Gunnar, frú Helga - og svo kom Jörundur óhlaupinn í Pott. Nú þurfa menn að fara að huga að næstu hlaupum, því að þau koma hvert á fætur öðru: Grafningshlaup, Hamarshlaup o.s.frv. Og svo verður blómasalinn víst fimmtugur um næstu helgi...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband