Dr. Feelgood vill líða vel

Í póstsamskiptum dagsins var um það deilt hvenær Skátarnir hirtu hann Gústa okkar. Sumir sögðu 1994, aðrir sögðu 1995. Jörundur er venjulega óskeikulastur okkar manna í þessum efnum, vegna þess að hann getur yfirleitt tengt viðburðinn einhverju öðru sem gerðist um svipað leyti. Líkt og maðurinn fyrir austan sem miðaði tímatal sitt við árið þegar hann lánaði Fúsa fyrir trillunni. "Það var þremur árum eftir að ég lánaði Fúsa fyrir trillunni." Þannig staðfesti Jörundur í dag að það hafi verið árið 1995 sem að Skátarnir hirtu hann Gústa okkar eftir að hann hafði hlaupið heila 9 km og átti bara 1 km eftir. Helvítin tóku hann og skutluðu eins og hverjum öðrum rolluskrokki aftan í Unimog og keyrðu til viðeigandi aðhlynningar. Eftir það hefur Ágúst ekki þolað Skátana. En um þetta var rætt á póstlista Samtaka Vorra í dag. Tilefnið voru einhverjir tímar í 10 km sem allir eru búnir að gleyma nú. Enn muna menn þó eftir því þegar Skátarnir hentu Ágústi aftan í trukkinn. Og hann hatar þá síðan og hleypur ekki vegalengdir undir 20 km.

Nóg um það. Gríðarleg mæting afbragðshlaupara í hlaup dagsins. Menn söknuðu Bjössa, Benzins og Magga. Mættir: Jörundur, Flosi, Þorvaldur, skrifari, blómasali, Helmut, dr. Jóhanna, Pétur, Ólafur Gunnarsson, Magga, Denni af Nesi, Tobba (eftir langt hlé), Frikki, og ég veit ekki hvað og hvað, örugglega hátt í 20 manns. Blómasali með afkáraleg sólgleraugu, leit út eins og amerísk túristakelling. Flott veður fyrir hlaup, sól, tiltölulega stillt og hiti 8 stig. Helmut heimtaði langt hlaup, 18 km á Kársnes. Skrifari dró úr. Ekki vitað hvað aðrir ætluðust fyrir.

Skrifari lét í það skína að hann væri ekki fullkomlega afhuga Kársnesi, en hann gerði sér ljóst að það væri fullkomlega óraunsætt þar sem hann hefur lengst farið 13,6 km það sem af er vertíð. Jæja, hersingin af stað. Gengur vel framan af. Þó var ljóst að það yrði töluvert heitt og menn myndu svitna vel á leiðinni. Fjöldi fólks á leiðum úti, gangandi, hjólandi eða hlaupandi. Nú er vorið svo sannarlega komið og von bráðar förum við að taka túra í Elliðaárdalinn, upp að Stíbblu og Laug. Blómasalinn á leið í Copenhagen Marathon, en snöri við eftir stuttan spöl með verk í rist.

Á leiðinni upplýsir Helmut mig um að hann þurfi að bregða sér afsíðis í prívaterindum, að hann muni fara á undan okkur og biður um að beðið verði eftir sér þegar menn fara á Kársnesið. Nú var þannig statt að hann sagði þetta við mig prívat og Flosi og Jörundur, hinir Kársnessfararnir voru í hávaðasamræðum sín á milli um gömul hlaup og misstu af þessum upplýsingum. Og til að auka á vandann hafði skrifari ekki endanlega gert upp við sig hvort hann ætlaði á Kársnesið. Er kom á Flanir og Garður nálgaðist varð þó ljóst að skrifari átti ekkert erindi á Kársnes og myndi bara daga uppi á Kópavogshálsi við Gerðarsafn.

Af þeirri ástæðu leyfði hann þeim hinum að halda áfram í nágrannasveitarfélagið en hélt sjálfur áfram yfir brú á Kringlumýrarbraut og upp Boggabrekku. Samt flögraði að honum hvort hann hefði ekki átt að láta þá Jörund og Flosa vita að til þess væri ætlast að þeir biðu eftir Helmut á ákveðnum stað á Fossvogsaurum, en kom því einhvern veginn ekki í verk. Stundum er maður eitthvað svo verklítill! Það var þá bara að takast á við Boggabrekku og það tókst með ágætum.

Hér varð skrifara hugsað til félaga síns, Benzins, og þegar við reyndum að drepa okkur í brekkunni í síðustu viku en tókst ekki. Það vantaði allan hávaðann til þess að taka hugann af eigin vangaveltum og efasemdum. Ef maður hefur kjaftaganginn í eyrunum hættir maður að vorkenna sjálfum sér og fer að hugsa um eitthvað annað. Þannig þraukar maður hlaupið og tekur varla eftir öllum kílómetrunum sem maður leggur undir skósóla. Einsemdin ríkti ofar hverri kröfu. Það var farið um Hvassaleiti, yfir brú á Miklubraut og svo niður á Sæbraut, grænt á nánast hverju ljósi. Svo var bara tekið tempó innan um reykjandi útlendinga alla leið út að vatnsfonti. Drukkið kalt og svalandi Gvendarbrunnavatn.

Afgangurinn var góður og engin ástæða til þess að staldra við eða gera hlé á hlaupi, ekki einu sinni til þess að signa sig, enda voru hvorki Bjarni né Denni með í för. Kláraði gott hlaup á viðunandi tíma, en fámennt var í Laug er komið var tilbaka. Stuttu síðar kom þó Denni og þegar við sátum í Potti komu þau hvert af öðru, Helmut, Jóhanna og Flosi. Helmut kvartaði yfir því að ekki hafi verið beðið eftir honum, hann hefði mætt Jóhönnu, en ekki séð tangur eða tetur af Flosa og Jörundi. Helmut horfði ásakandi á skrifara, en skrifari sagði eitthvað á þá leið að svona gæti gerst þegar menn gerðu afbrigði í miðju hlaupi. Framundan er Neshlaup, hverjir ætla?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband