Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

E. Jónsson viðgerðaþjónusta

Ritari hvílir fyrir langt hlaup á morgun, laugardag, sem fyrirhugað er að fari af stað upp úr kl. 8:00. Af þeirri ástæðu var ekki hlaupinn hefðbundinn föstudagur, en mætt í pott til þess að heyra sögur. Fyrir á staðnum var Einar blómasali. Hann fór mörgum orðum um samskipti sín við ónefndan jóga í hópi vorum, sem hefði gengið eftir sér í margar vikur um það að gera við heimilistæki og bíla sem komnir voru í ólag. Það þurfti að skipta um bremsuklossa og reimar og hvaðveitég. En svo þegar blómasalinn var búinn að boða komu sína til þess að gera við var jóginn á bak og burt, en ómegðin látin taka á móti viðgerðamanninum  og vísa honum á það sem gera átti við. Blómasalinn lét þetta ekki stöðva sig, en gerði samvizkusamlega við þá hluti sem bilað höfðu.

Lögð á ráðin um göngu á Fimmvörðuháls, skipulag í höndum Jörundar. Nánar um það seinna.

Meðan við Einar biðum eftir hlaupurum skipulögðum við hlaup á morgun, laugardag, og vildum flýta því. Rætt um kl. 8:30 ef ekki fyrr. Fara sem leið liggur um Kársnes, Lækjarhjalla, yfir Kópavogsdalinn, upp brekkuna löngu, stíginn milli sveitarfélaga, yfir að Elliðavatni, svo niður úr dalnum og þannig tilbaka um Fossvoginn - klykkja út með sjóbaði í Nauthólsvík.

Svo kom mannskapurinn, þessir komu: Kalli kokkur, Kári, Biggi, Jörundur, Friðrik Meló, Rúna, Friðrik Wendel af Nesi, Denni og ekki fleiri. Hlauparar kváðust vera ánægðir með að hafa loks getað talað frjálslega um sín hugðarefni án þess að hafa áhyggjur af því að allt væri komið á Netið að kveldi. Rætt var um garðyrkjustörf, m.a. hvernig fara mætti að því að drepa aspir sem öllum væru til óþurftar. Einnig haldið áfram umfjöllun um Fimmvörðuháls. Í ljósi þess að það var föstudagur var eðlilega rætt um mat og áfengi. Farið var nákvæmlega í gegnum viðgerðastörf blómasalans á heimili Birgis. Svo bættust fleiri í röðina sem vildu ræða viðgerðir við þennan hagleiksmann.

Þegar farið var upp úr seint um síðir til þess að elda ofan í fjölskylduna heyrðist blómasalinn tauta fyrir munni sér: "Þetta er orðin einhver viðgerðaþjónusta!"

Niðurstaða: safnast saman við Vesturbæjarlaug upp úr kl. 8:00 laugardaginn 1. ágúst fyrir langt hlaup.

Þrjárbrýr

Þau stórtíðendi gerðust á þessum degi að blómasalinn gleymdi að borða hádegisverð. Meira um það seinna. Mættur stór hópur hlaupara til miðvikudagshlaups, þar á meðal Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Kalli kokkur og fjöldi annarra frambærilegra hlaupara. Dagsskipunin hljóðaði upp á Þriggjabrúahlaup með upptempói eftir Skítastöð. Rólegt fram að því. Svo var bara að leggja í hann.

Ritari viðurkennir að hann var þungur á sér í dag, e.t.v. eftir mánudag þar sem tekið var á því í Öskjuhlíðinni. Svipað var ástatt um fleiri í dag, þ. á m. blómasalann. Þegar gengið var á hann og hann spurður hvort hann hefði fengið sér stóran hádegsiverð, kvaðst hann hafa gleymt að borða hádegisverð, það hefði verið svo mikið að gera, tveir kúnnar í heimsókn. Eru þetta slík tíðendi að með ólkendum er. Jörundur var sprækur í dag og fór fram úr okkur á Flönum en hirti ekki um lúpínuna. Já, maður var ansi dapur.

Það skemmtilega við Þriggjabrúahlaup er að maður er mjög fljótlega kominn þar í hlaupinu að skiptir um, eftir að búið er að klífa brekkuna löngu hjá Borgarspítala, er maður nánast hálfnaður í hlaupinu og eftir þetta er öll leiðin niður á við eða á jafnsléttu. Það átti að taka tempó eftir Skítastöð, en ég játa á mig slux hér - hafði ekki kraft í mér til að bæta í.  Þannig að við dóluðum þetta á svipuðu róli, ritari, Jörundur, Rúna, blómasalinn og Unnur.

Rætt um fjallaferðir og hlaup mestalla leiðina, enda nokkrir góðir félagar nýbúnir að ljúka Jökulsárhlaupi: Ágúst Kvaran, Sigurður Ingvarsson, Rúna og Melabúðar-Friðrik. Sæbrautin tekin í sömu rólegheitunum og drukkið vatn á hefðbundnum stað. Nokkuð um túrista á ferð.

Fólk í köfunarbúningum var í potti - einhvers konar námskeið í gangi. Blómasalinn með mjög langa sögu sem virtist engan endi ætla að taka og menn spurðu ítrekað hvort sagan stefndi eitthvert ákveðið. Ég var löngu dottinn út úr sögunni og farinn að hugsa um allt aðra hluti.

Næsta opinbera hlaup í Hlaupasamtökunum er á föstudag kl. 16:30 - en þó gæti eitthvað verið um morgunhlaup og sjósund án þess að það fari hátt.



Sprettir, sjór og jóga

Allnokkur fjöldi vakra hlaupara mættur til hlaups mánudaginn 27. júlí 2009. Eiríkur hafði verið gerður að þjálfara, hann tók embætti sitt alvarlega og hugðist rækja það af trúmennsku. Þessi mætt: Flosi, Benedikt. Bjössi, Biggi, blómasalinn, Ósk, Dagný, dr. Jóhanna, Anna Jóna, Þorbjörg K., ritari, Jón Gauti og Kalli. Fremur kalt í veðri miðað við undanfarna daga, líklega er maður orðinn of góðu . Stefnan var að taka spretti í Öskjuhlíðinni. Af því tilefni var leiðrétt staðarheiti á þessum slóðum. Hi-Lux-brekkan er illa malbikaði stubburinn strax þegar beygt er upp í hlíðina í hefðbundnu föstudagshlaupi, ekki langa brekkan þar upp af. Ekki var farið nánar út í Hi-Lux-þjóðsögnina.

Eiríkur brýndi raustina og kallaði skýr fyrirmæli til hlaupara og það var lagt í hann, farið upp á Víðimel, út á Suðurgötu og þá leið út í Skerjafjörð og Nauthólsvík. Biggi hefur ekki hlaupið um nokkurt skeið og var maður farinn að sakna hávaðans í honum. Hann kvartaði yfir því að ritari hefði ekki rapporterað frá framkvæmdum við hús hans. Birgir stendur í stórræðum, hann fór í Byko að kaupa sandpappír, en sölumaðurinn sannfærði hann um að hann sárvantaði hitablásara sem hreinsar málningu af gluggapóstum, 15 þúsund kall takk! Biggi fer með hitarann heim og fer að láta tækið vinna fyrir sig, en lætur jafnframt hugann reika um hvað hægt væri að gera við svona appírat. Heyrir hann þá brothljóð og sér að hann hefur beint hitanum að rúðunni og brotið hana.

Ekkert slegið af fyrr en í löngu brekkunni í Öskjuhlíð. Teknir 10 sprettir 200 m upp brekkuna, lullað rólega niður aftur. Mikið af bílum á ferð þarna, allir ökumenn stimplaðir perrar og gerður aðsúgur að sumum þeirra. Þeim sagt að þetta væri útivistarsvæði og ekki fyrir bílaumferð (að vísu ekki alveg rétt, en okkur fannst það). Hlauparar tóku vel á því í sprettunum og eru í fínu formi. Síðan var haldið tilbaka og fóru fjórir í sjóinn. Eftir hlaup tók Biggi okkur í jógatíma sem var hreint frábær!

Nú líður að því að þeir fari að toppa sem fara heilt maraþon í RM - laugardagur - 30-35 km. Auglýst eftir þátttakendum. Gaman væri að fara Kársnesið, upp úr Kópavoginum að sunnanverðu, leiðina milli Kópavogs og Breiðholts og yfir að Elliðavatni.

Langt og erfitt á laugardegi

Ég fann þegar á fyrstu metrunum að þetta yrði erfitt hlaup. Meira um það seinna. Mætt þessi: Margrét, Ósk, Hjálmar, Dagný, Eiríkur, Birgir, Þorbjörg, Björn, Pawel og Ólafur ketilsmiður. Enn skín Vesturbæjarsólin skært, hiti þægilegur og notalegur andvari sem kældi mann eilítið niður þegar bezt lét.

Fimmtudagshlaupið sat sumsé enn í ritara og fannst þegar við upphaf hlaups að skynsamlegra hefði verið að hvíla lengur. En hver segir að við séum skynsamt fólk? Þá þegar fór ég að velta fyrir mér hvar ég gæti stytt: Öskjuhlíð, Suðurhlíðar, Þriggjabrúa...? Svona malaði hugurinn meðan fæturnir báru okkur æ lengra. Áður en ég vissi af vorum við komin á Kársnesið og þá er ekkert um það að ræða að stytta. Biggi og Hjálmar í djúpum samræðum um Evrópusambandsaðild, kosti hennar og galla.

Þegar komið var að Reykjanesbraut í Kópavogi söfnuðumst við saman, einhver ætlaði að stytta hér, aðrir að kýla á Stíbblu. Ég hugleiddi að fara upp á hálsinn, en sýndist brekkan of erfið, betra að halda áfram, maður ætti þó hauk í horni í Lækjarhjallanum. Hér vildi Margrét að við gæfum aðeins í og færum á tempói. Hér vildi ég helzt hætta hlaupi og fannst þetta ekki góð hugmynd. Samt sýndist mér menn bæta aðeins í, alla vega var maður skilinn eftir í reykmekki.

Eftir mikla baráttu komst ég heim á dyrahellu hjá Ágústi og Ólöfu, frúin kom hlaupandi niður með appelsínusafa sem bjargaði mér alveg. Ágúst sjálfur í Jökulsárhlaupi, nýkominn úr 175 km hlaupi yfir Kjöl. Maðurinn er bara ekki alveg í lagi! Hér fóru aðrir hlauparar framhjá án þess að sýna þá lágmarkskurteisi að heilsa upp á. Næst hitti ég mannskapinn við Olís í Mjóddinni, þar var vatni bætt á brúsa. Þeir áfram upp að Stíbblu, en ég ofan í Elliðaárdalinn og tilbaka í Fossvoginn. Skellti mér í sjó í Nauthólsvík og flaut á bakinu í svalandi öldunni.

Þetta small saman þannig að þau hin náðu mér á Ægisíðunni og urðum við samferða síðustu metrana. Teygt lengi á flötinni hjá Lauginni og spöglerað í jóga. Þá dúkkaði Sif Jónsdóttir upp eftir 11 km slökunarhlaup. Eftir svona átök var ljúft að liggja í heitum potti og baða sig í sólinni.

Ármannshlaup 2009 eða: Ég hefði ekki átt að borða þessa pitsu í kvöldmat...

Ritara telst til að ekki færri en 12 hlauparar úr Hlaupasamtökum Lýðveldisins hafi tekið þátt í Ármannshlaupi 2009, 14 ef með eru talin börn Jóns Gauta fjallaleiðsögumanns, 15 ef Sif Jónsdóttir langhlaupari er talin með, sem er heimilt. Við vorum með fjögur lið: A, B, C og Lýður. Veður ekki hagstætt hlaupurum, 10 stiga hiti og þaðan af kaldara og norðangarri. Hlauparar hituðu vel upp fyrir hlaup og svo reið startskotið af.

Farið á hröðu tempói framan af, 4:30 heyrði maður. Ég hengdi mig á Helmut og hékk í honum fyrstu 7- 8 kílómetrana, en leyfði honum svo að halda áfram. Einhvers staðar fyrir aftan mig voru Flosi og blómasalinn, og var það mér nokkur hvatning, ef ekki áhyggjuefni. Það var góð ráðstöfun að hengja sig á Helmut, hann er nokkuð hraður, þetta tryggði það að maður var á réttum hraða.

Við mættum okkar fólki þegar það sneri við og voru Rúnar, Margrét, dr. Jóhanna, Benni, Eiríkur, Bjössi og fleiri góðir hlauparar þar framarlega. Það var tekið vel á því alla leiðina, þótt eðlilega færi að draga af manni á seinni hluta hlaups. Ég varð samferða dóttur Jóns Gauta nokkurn hluta leiðarinnar og fékk góða hvatningu frá henni. Hún er slík keppnismanneskja að hún skildi mig eftir og kom ælandi í markið. Svona eiga hlauparar að vera. Það liggur við maður skammist sín fyrir að koma í fínu lagi og með allt innihald magans sem fastast á sínum stað.

Niðurstaðan hjá þessum hlaupara var einhvers staðar í kringum 47:55, sem er nýtt persónulegt met ritara. Ég hleypti blómasalanum aldrei fram úr mér, enda heyrði ég aldrei tiplið margfræga að baki mér, en tók heldur enga sénsa, gaf í á síðasta hlutanum. Frábært hlaup í alla staði og tókst furðu vel að halda gatnamótum hreinum fyrir okkur hlauparana. Það koma alltaf skýringar á árangri hlaupara ef menn eru ekki fyllilega sáttir. Blómasalinn sagði: Ég hefði ekki átt að borða þessa pitsu í kvöld!

Sjóbað á fögrum degi, Magnús passaði fötin

Það var 20 stiga hiti. Fjölmargir mættir til hlaups og báðir þjálfarar mættir. Menn bundust leynilegum samtökum um að fara í sjó, þjálfarar almennt á því að það mætti fara rólega út að Skítastöð og þaðan taka spretti. Eftir þessu var farið.

Þegar út í Skerjafjörð var komið voru lagðar línur um spretti, en við óknyttadrengirnir frá Hlíðarhúsum ákváðum að fara okkar eigin leiðir. Helmut, Kári, Ólafur ketilsmiður, Þorbjörg o.fl. hlupu án leiðsagnar þjálfara og fóru sínu fram. Settu strikið á Nauthólsvík. Þau hin ætluðu í öfuga átt. Við dóluðum okkur á rólyndisróli austurúr, en viti menn: skömmu síðar komu þau hin á feiknarhraða og fara fram úr okkur. Hafa greinilega ekki þolað aðskilnaðinn.

Við í sjóinn. Svömluðum um og nutum lífsins. Þetta er ekki hægt í útlöndum. Tíndum á okkur spjarirnar og lögðum upp í hlaup sem Helmut hafði reiknað út. Á Flönum mættum við Hraðaföntunum á spretti og hafandi fengið hvatningu frá Þorbjörgu ákváðum við að bindast Samtökum um að tefja sprettinn og niðurstaðan varð sú að Rúnar lenti úti í lúpínubeði, með sérstöku aukaknússi frá ektakvinnunni.

Við vorum ánægð með þetta og héldum áfram, tókum gott hlaup um skógarstíga í Öskjuhlíð sem Helmut þekkti, þeir voru erfiðir og minntu á Boot Kamp. Svo niður í Öskjuhlíð aftur og þaðan tilbaka. Ekki veit ég hvað hljóp í Helmut en allt í einu var hann farinn að spretta úr spori, kominn á tempó undir 5 mín. Ég gat ekki látið mitt eftir liggja og hélt í við hann. Þarna tókum við 4 km sprett á undir 5 km - líklega 4:40 eða þar um bil og gáfum ekkert eftir. Náðum þeim þeim Frikka og Rúnu sem tóku ekki spretti.

Sif Jónsdóttir var mætt í pott og sagði sögur af Laugavegshlaupi. Hún hélt ádíens. Næst er Ármannshlaup næstkomandi fimmtudag. Þá verða átök. Þá verður tekið á því!

Kreppan bítur

Á laugardögum er hlaupið langt. Mættir: Rúnar, Þorbjörg, Ólafur ritari, Eiríkur, Snorri - já og ekki fleiri. Þetta var ekki fjölmennt hlaup, en hlaup engu að síður. Veður bara yndisslegt, 16 stiga hiti, logn, bjart. Það þurfti eiginlega ekki að nefna leiðina, allir samstemmndir um að stefna á Kársnesið. Ég hékk í þeim fremstu fyrstu 5 km en við Kringlumýrarbraut lét ég gott heita og leyfði þeim að halda áfram á fullu blússi, enda þeir á einhverju undarlegu prógrammi.

Hitinn gassaði í Kópavogi, ritari orðinn máttfarinn í Kópavogsdal, og mætti þá þremur fyrrgreindum hlaupurum þar sem þeir komu á fullu blússi á móti honum. Spurningin hér var: á ég að hætta og gefast upp, eða halda áfram? Það var ekki gefist upp. Í Lækjarhjalla var vel tekið á móti hlaupara og fyllt á drykkjarbrúsa og við það efldist hlaupamóður og minn hélt áfram. Var um stund að gæla við Mjóddina, en þegar til átti að taka var farið upp hjá Mömmu og upp að Stíflu.

Ritari keppist ekki við að ljúka hlaupi á  tilteknum tíma. Hann lítur á hlaup eins og hátíð líkama og sálar. Af þeirri ástæðu gerði hann stanz við Elliðaár og buslaði þar eilítið í fossinum. Hélt svo áfram og fór í sjó í Nauthólsvík. Hér skal þó viðurkennt að hann var orðinn þreyttur og þurfti að ganga speli til baka.

Á Hofsvallagötu hitti ritari Formann vorn til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víking, sem hafði ákveðið að sleppa Vestfjarðahlaupi í þágu þess að njóta veðurblíðu og hita í Vesturbæ Lýðveldisins, og áttum við lángt spjall um stillanza, ferðalög, krepputíma, vestfirzkar ættir og fleira í þeim dúr. Vorum við sammála um að senn drægi að því að V. Bjarnason mætti af nýju til hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, svo illa haldinn væri hann af nándarþrá við meðlimi Samtakanna.

Fámennt á föstudegi

Þessi voru mætt í hlaup dagsins frá Vesturbæjarlaug: Þorvaldur, Magnús, Flosi, Ólafur ritari, Rúnar og Anna Jóna, jákvæður sálfræðingur. Af þessari ástæðu var umgjörðin höfð einföld og menn hlupu af stað án þess að viðhafa langan formála fyrst. Hlaupið afar hægt inn í Nauthólsvík, þar sem ritari og Rúnar skelltu sér í sjó, Anna ætlaði styttra, en hinir héldu áfram og luku hefðbundnu á svakalegu tempói, mér heyrðist Flosi nefna töluna 4:40 á lokasprettinum.

Í fyrramálið verður farið langt, hlaup hefst við VBL kl. 9:30. Í gvuðs friði, ritari.

Þetta helzt: Vilhjálmur í kurteisisheimsókn

Ólafur ritari og Einar blómasali báðir mættir kl. 17:15, báðir að drepast úr spennu yfir að hefja hlaup. Hver birtist þá ekki glaðbeittur í Brottfararsal nema sjálfur Vilhjálmur Bjarnason, þeirra erinda að gera úttekt á stöðu mála, sjá hverjir mættu og athuga nýliðun. Honum var tekið fagnandi og hann inntur eftir því hvort þetta væri fyrsta skrefið að því að hefja hlaup að nýju með Hlaupasamtökunum. NEI! sagði Vilhjálmur ákveðið. Ég er hættur að hlaupa hér, ég læt ekki bjóða mér að láta svívirða mig með fullyrðingum þar sem veitzt er að vitsmunum mínum og heiðarleika. Gengið var á hann um að fara að mæta að nýju, en hann sat fastur við sinn keip. Kvaðst þó hlaupa í Garðabænum.

Allnokkur fjöldi mættur, þótt marga af valinkunnustu hlaupurum Samtakanna hafi vantað, engin nöfn nefnd. Áberandi voru yngri hlauparar sem hafa hafið hlaup fyrir skömmu síðan, og nýr hlaupari mættur:  Hildur, dóttir Ólafs ritara, dansnemi í New York, í sumarfríi hér og vildi fá að berja augum þann sundurleita flokk sem faðir hennar skrifar samvizkusamlega um nokkra pistla í viku. Hún hljóp aðeins stutt með okkur, enda enn að byggja upp þrek sem fæst af hlaupum. Aðrir stefndu á Þriggjabrúahlaup, einhverjir Suðurhlíðar og enn aðrir 69.

Hlaupið rólega af stað, en með stígandi tempói eftir Skítastöð. Allt eftir bókinni eftir það. Hlauparar grúppuðu sig saman í litla hópa, 2ja til 3ja manna, og hlupu þannig. Ritari ætlaði fyrst að fara Suðurhlíðar sökum bólgu í fæti, en ákvað að kýla á Þrjárbrýr þegar hann fann að ástandið var allgott. Vel gekk að hanga í fremsta fólki út að Borgarspítala, en eftir það sá maður það hverfa í reyk. Það var þó huggun harmi gegn að vita af blómasalanum fyrir aftan mig. En svo kom þessi nagandi ótti um að hann myndi reyna að fara fram úr mér á leiðinni, og jafnvel grípa til örþrifaráða eins og að stytta á strategískum köflum. Þess vegna fylgdist ég vel með honum og varð það til þess að hann þorði ekki að stytta.

Ég tók mikinn sprett niður Kringlumýrarbraut og náði að fara alls staðar yfir á ljósum án þess að stoppa. Það skiptir miklu. Það voru miklar hlaupakonur á undan mér á Sæbrautinni, stöðvað við vatnsfontinn og drukkið. Ég sá blómasalann koma skeiðandi og hraðaði mér af stað aftur og setti á fulla ferð framhjá Sólfarinu. Bjóst alltaf við að heyra alræmt tiplið fyrir aftan mig, en slapp fyrir Hofsvallagötuhorn án þess að það bólaði á hlauparanum. Það var ánægjulegt, en tók á og ég verulega sveittur að hlaupi loknu.

Jörundur kom í pott óhlaupinn, enda í hvíld fyrir Laugaveginn, með honum var Jörundur jr. - ungur efnispiltur sem á örugglega eftir að verða mikill hlaupari eins og afinn.

Einn laufléttur hringur á sunnudagsmorgni

Fjórir mættir á sunnudegi í löðrandi blíðu: Ólafur Þorsteinsson, Magnús, Þorvaldur og Ólafur ritari. Helmut og Jóhanna búin að hlaupa og flatmöguðu í barnapotti. Farið rólega því að menn voru eitthvað slappir. Umræða hefðbundin, fylgt eftir nýlegum veikindum, sagt frá símtölum milli borgarhverfa og tekin staðan í pólitíkinni. Í Nauthólsvík þurfti Ólafur Þ. að taka mann tali og varð eftir, en við hinir héldum áfram. Úr því Formaður til Lífstíðar var ekki með í för lengur var ekki talin þörf á öllum stoppum svo að við héldum áfram án þess að stoppa.

Á Rauðarárstíg rákumst við á fáklætt fólk við strætóstoppistöð sem virtist ekki vera að bíða eftir strætó, líkara sem það væri að vakna af ölvunarsvefni og farin að tína á sig spjarirnar. Á Hlemmi hljóp Þorvaldur út í umferðina og hneykslaðist á því að bílarnir skyldu ekki stoppa fyrir honum.  

Slíkur var hitinn að ritari var rennblautur að hlaupi loknu þótt farið hafi verið rólega. Fjöldi sundlaugargesta naut sólarinnar, enda veðurblíðan einstök.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband