Sprettir, sjór og jóga

Allnokkur fjöldi vakra hlaupara mættur til hlaups mánudaginn 27. júlí 2009. Eiríkur hafði verið gerður að þjálfara, hann tók embætti sitt alvarlega og hugðist rækja það af trúmennsku. Þessi mætt: Flosi, Benedikt. Bjössi, Biggi, blómasalinn, Ósk, Dagný, dr. Jóhanna, Anna Jóna, Þorbjörg K., ritari, Jón Gauti og Kalli. Fremur kalt í veðri miðað við undanfarna daga, líklega er maður orðinn of góðu . Stefnan var að taka spretti í Öskjuhlíðinni. Af því tilefni var leiðrétt staðarheiti á þessum slóðum. Hi-Lux-brekkan er illa malbikaði stubburinn strax þegar beygt er upp í hlíðina í hefðbundnu föstudagshlaupi, ekki langa brekkan þar upp af. Ekki var farið nánar út í Hi-Lux-þjóðsögnina.

Eiríkur brýndi raustina og kallaði skýr fyrirmæli til hlaupara og það var lagt í hann, farið upp á Víðimel, út á Suðurgötu og þá leið út í Skerjafjörð og Nauthólsvík. Biggi hefur ekki hlaupið um nokkurt skeið og var maður farinn að sakna hávaðans í honum. Hann kvartaði yfir því að ritari hefði ekki rapporterað frá framkvæmdum við hús hans. Birgir stendur í stórræðum, hann fór í Byko að kaupa sandpappír, en sölumaðurinn sannfærði hann um að hann sárvantaði hitablásara sem hreinsar málningu af gluggapóstum, 15 þúsund kall takk! Biggi fer með hitarann heim og fer að láta tækið vinna fyrir sig, en lætur jafnframt hugann reika um hvað hægt væri að gera við svona appírat. Heyrir hann þá brothljóð og sér að hann hefur beint hitanum að rúðunni og brotið hana.

Ekkert slegið af fyrr en í löngu brekkunni í Öskjuhlíð. Teknir 10 sprettir 200 m upp brekkuna, lullað rólega niður aftur. Mikið af bílum á ferð þarna, allir ökumenn stimplaðir perrar og gerður aðsúgur að sumum þeirra. Þeim sagt að þetta væri útivistarsvæði og ekki fyrir bílaumferð (að vísu ekki alveg rétt, en okkur fannst það). Hlauparar tóku vel á því í sprettunum og eru í fínu formi. Síðan var haldið tilbaka og fóru fjórir í sjóinn. Eftir hlaup tók Biggi okkur í jógatíma sem var hreint frábær!

Nú líður að því að þeir fari að toppa sem fara heilt maraþon í RM - laugardagur - 30-35 km. Auglýst eftir þátttakendum. Gaman væri að fara Kársnesið, upp úr Kópavoginum að sunnanverðu, leiðina milli Kópavogs og Breiðholts og yfir að Elliðavatni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband