Þrjárbrýr

Þau stórtíðendi gerðust á þessum degi að blómasalinn gleymdi að borða hádegisverð. Meira um það seinna. Mættur stór hópur hlaupara til miðvikudagshlaups, þar á meðal Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Kalli kokkur og fjöldi annarra frambærilegra hlaupara. Dagsskipunin hljóðaði upp á Þriggjabrúahlaup með upptempói eftir Skítastöð. Rólegt fram að því. Svo var bara að leggja í hann.

Ritari viðurkennir að hann var þungur á sér í dag, e.t.v. eftir mánudag þar sem tekið var á því í Öskjuhlíðinni. Svipað var ástatt um fleiri í dag, þ. á m. blómasalann. Þegar gengið var á hann og hann spurður hvort hann hefði fengið sér stóran hádegsiverð, kvaðst hann hafa gleymt að borða hádegisverð, það hefði verið svo mikið að gera, tveir kúnnar í heimsókn. Eru þetta slík tíðendi að með ólkendum er. Jörundur var sprækur í dag og fór fram úr okkur á Flönum en hirti ekki um lúpínuna. Já, maður var ansi dapur.

Það skemmtilega við Þriggjabrúahlaup er að maður er mjög fljótlega kominn þar í hlaupinu að skiptir um, eftir að búið er að klífa brekkuna löngu hjá Borgarspítala, er maður nánast hálfnaður í hlaupinu og eftir þetta er öll leiðin niður á við eða á jafnsléttu. Það átti að taka tempó eftir Skítastöð, en ég játa á mig slux hér - hafði ekki kraft í mér til að bæta í.  Þannig að við dóluðum þetta á svipuðu róli, ritari, Jörundur, Rúna, blómasalinn og Unnur.

Rætt um fjallaferðir og hlaup mestalla leiðina, enda nokkrir góðir félagar nýbúnir að ljúka Jökulsárhlaupi: Ágúst Kvaran, Sigurður Ingvarsson, Rúna og Melabúðar-Friðrik. Sæbrautin tekin í sömu rólegheitunum og drukkið vatn á hefðbundnum stað. Nokkuð um túrista á ferð.

Fólk í köfunarbúningum var í potti - einhvers konar námskeið í gangi. Blómasalinn með mjög langa sögu sem virtist engan endi ætla að taka og menn spurðu ítrekað hvort sagan stefndi eitthvert ákveðið. Ég var löngu dottinn út úr sögunni og farinn að hugsa um allt aðra hluti.

Næsta opinbera hlaup í Hlaupasamtökunum er á föstudag kl. 16:30 - en þó gæti eitthvað verið um morgunhlaup og sjósund án þess að það fari hátt.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband