E. Jónsson viðgerðaþjónusta

Ritari hvílir fyrir langt hlaup á morgun, laugardag, sem fyrirhugað er að fari af stað upp úr kl. 8:00. Af þeirri ástæðu var ekki hlaupinn hefðbundinn föstudagur, en mætt í pott til þess að heyra sögur. Fyrir á staðnum var Einar blómasali. Hann fór mörgum orðum um samskipti sín við ónefndan jóga í hópi vorum, sem hefði gengið eftir sér í margar vikur um það að gera við heimilistæki og bíla sem komnir voru í ólag. Það þurfti að skipta um bremsuklossa og reimar og hvaðveitég. En svo þegar blómasalinn var búinn að boða komu sína til þess að gera við var jóginn á bak og burt, en ómegðin látin taka á móti viðgerðamanninum  og vísa honum á það sem gera átti við. Blómasalinn lét þetta ekki stöðva sig, en gerði samvizkusamlega við þá hluti sem bilað höfðu.

Lögð á ráðin um göngu á Fimmvörðuháls, skipulag í höndum Jörundar. Nánar um það seinna.

Meðan við Einar biðum eftir hlaupurum skipulögðum við hlaup á morgun, laugardag, og vildum flýta því. Rætt um kl. 8:30 ef ekki fyrr. Fara sem leið liggur um Kársnes, Lækjarhjalla, yfir Kópavogsdalinn, upp brekkuna löngu, stíginn milli sveitarfélaga, yfir að Elliðavatni, svo niður úr dalnum og þannig tilbaka um Fossvoginn - klykkja út með sjóbaði í Nauthólsvík.

Svo kom mannskapurinn, þessir komu: Kalli kokkur, Kári, Biggi, Jörundur, Friðrik Meló, Rúna, Friðrik Wendel af Nesi, Denni og ekki fleiri. Hlauparar kváðust vera ánægðir með að hafa loks getað talað frjálslega um sín hugðarefni án þess að hafa áhyggjur af því að allt væri komið á Netið að kveldi. Rætt var um garðyrkjustörf, m.a. hvernig fara mætti að því að drepa aspir sem öllum væru til óþurftar. Einnig haldið áfram umfjöllun um Fimmvörðuháls. Í ljósi þess að það var föstudagur var eðlilega rætt um mat og áfengi. Farið var nákvæmlega í gegnum viðgerðastörf blómasalans á heimili Birgis. Svo bættust fleiri í röðina sem vildu ræða viðgerðir við þennan hagleiksmann.

Þegar farið var upp úr seint um síðir til þess að elda ofan í fjölskylduna heyrðist blómasalinn tauta fyrir munni sér: "Þetta er orðin einhver viðgerðaþjónusta!"

Niðurstaða: safnast saman við Vesturbæjarlaug upp úr kl. 8:00 laugardaginn 1. ágúst fyrir langt hlaup.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband