Ármannshlaup 2009 eða: Ég hefði ekki átt að borða þessa pitsu í kvöldmat...

Ritara telst til að ekki færri en 12 hlauparar úr Hlaupasamtökum Lýðveldisins hafi tekið þátt í Ármannshlaupi 2009, 14 ef með eru talin börn Jóns Gauta fjallaleiðsögumanns, 15 ef Sif Jónsdóttir langhlaupari er talin með, sem er heimilt. Við vorum með fjögur lið: A, B, C og Lýður. Veður ekki hagstætt hlaupurum, 10 stiga hiti og þaðan af kaldara og norðangarri. Hlauparar hituðu vel upp fyrir hlaup og svo reið startskotið af.

Farið á hröðu tempói framan af, 4:30 heyrði maður. Ég hengdi mig á Helmut og hékk í honum fyrstu 7- 8 kílómetrana, en leyfði honum svo að halda áfram. Einhvers staðar fyrir aftan mig voru Flosi og blómasalinn, og var það mér nokkur hvatning, ef ekki áhyggjuefni. Það var góð ráðstöfun að hengja sig á Helmut, hann er nokkuð hraður, þetta tryggði það að maður var á réttum hraða.

Við mættum okkar fólki þegar það sneri við og voru Rúnar, Margrét, dr. Jóhanna, Benni, Eiríkur, Bjössi og fleiri góðir hlauparar þar framarlega. Það var tekið vel á því alla leiðina, þótt eðlilega færi að draga af manni á seinni hluta hlaups. Ég varð samferða dóttur Jóns Gauta nokkurn hluta leiðarinnar og fékk góða hvatningu frá henni. Hún er slík keppnismanneskja að hún skildi mig eftir og kom ælandi í markið. Svona eiga hlauparar að vera. Það liggur við maður skammist sín fyrir að koma í fínu lagi og með allt innihald magans sem fastast á sínum stað.

Niðurstaðan hjá þessum hlaupara var einhvers staðar í kringum 47:55, sem er nýtt persónulegt met ritara. Ég hleypti blómasalanum aldrei fram úr mér, enda heyrði ég aldrei tiplið margfræga að baki mér, en tók heldur enga sénsa, gaf í á síðasta hlutanum. Frábært hlaup í alla staði og tókst furðu vel að halda gatnamótum hreinum fyrir okkur hlauparana. Það koma alltaf skýringar á árangri hlaupara ef menn eru ekki fyllilega sáttir. Blómasalinn sagði: Ég hefði ekki átt að borða þessa pitsu í kvöld!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband