Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Stöðugt farið lengra

Öflugustu hlauparar Hlaupasamtaka Lýðveldisins voru saman komnir á þessum laugardagsmorgni til þess að hlaupa langt. Þar mátti þekkja blómasalann og ritara, Bjössa, Rúnar, Möggu, Þorbjörgu (Rúnars), Dagnýju, Hjálmar og Ósk, Pawel, Kalla, Frikka í Melabúðinni og e.t.v. einhverja sem mig vantar nafnið á. En það er ekkert nýtt!

Ekki var ég að nenna þessu, en lét mig samt hafa það. Maður setti kompásinn á Stíbbblu ef ekki hreinlega Árbæjarlaug og sá landslagið fyrir sér í huganum. Ákveðið að fara Kársnes. Veður með miklum ágætum, skýjað og 14 stiga hiti, logn. Verður ekki mikið betra.

Þol er að byggjast upp smásaman og maður fer þetta áreynslulaust. Stoppað í Lækjarhjallanum þar sem Ágúst og Ólöf voru að búa sig undir ferð í Skagafjörðinn. Við Einar vorum drifnir inn og gefinn drykkur. Eftir skamma stund var kominn pollur á gólfið eftir ritara og hann beðinn um að fjarlægja persónu sína af svæðinu. Við áfram og fórum upp að Stíbblu - lengra var það nú ekki í þetta skiptið, enda sá maður að það yrði svolítið extremt að fara upp að Laug þegar við vorum sem mest búnir að fara 22 km.

Ég skyggndist um eftir brúsa mínum sem ég tapaði á miðvikudaginn var, en sá ekki. Það er of lítið að vera aðeins með tvo brúsa í svona löngu hlaupi, enda þótt maður nái að bæta á sig á leiðinni. Á seinni hluta leiðarinnar var Einar orðinn þreyttur og dróst nokkuð aftur úr. Ritari skellti sér í sjóinn í Nauthólsvík og svamlaði um á baksundi. Einar sleppti því, kvaðst vera orðinn stressaður, eiginkonan biði hans heima með keflið reitt því að hann átti að vera byrjaður að skrapa gamla málningu af húsveggjum. Ég sagði honum að slaka á og njóta lífsins, njóta þess sem íslenzka sumarið hefði upp á að bjóða. Hann var stressaður.

Komið til Laugar eftir 2 tíma og 41 mín, 26,5 km. Þetta var erfitt en hafðist. Nú var veður orðið fagurt, sól búin að brjótast i gegnum skýjaþykknið og fólk þarafleiðandi komið í sólbað í lauginni. Þau hin höfðu farið 24 km - alltof hratt að mati Frikka, sem alltaf lætur sig hafa það að djöflast með þeim hröðustu og er alveg búinn eftir hlaup.

Næst er hlaup hjá Hlaupasamtökunum sunnudaginn 12. júlí kl. 10:10. Í gvuðs friði, ritari.

Hrekkjusvín

Ritari hjólaði sem leið lá út í Nauthólsvík um miðjan dag og fór í sjóinn, synti fram og aftur um Flóann. Á leið tilbaka mætti hann hlaupurum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins með blómasalann og prófessor Fróða í broddi fylkingar. Eftir á var þetta niðurstaðan:

1. Kári hljóp út í Nauthólsvík - fór í sjóinn - hljóp tilbaka og varð samferða Benedikt.

2. Blómasalinn hljóp í óþvegnum hlaupafatnaði sem ilmaði ekki beinlínis. Formlegri kvörtun var komið á framfæri.

3. Í hópnum voru þrjú hrekkjusvín sem heita Einar, Ágúst og Friðrik - þeir hrekktu Kára með því að fjarlægja hjól af reiðhjóli hans þar sem það hékk á rekkverkinu við inngang Laugar.

4. Sif er vinur sem afhjúpar hrekki. Hún varð ekki vinsæl af framtakinu.

Hlaupið í fyrramálið kl. 9:30 frá VBL. Langt.

Langt (eða sagan ótrúlega af því hvernig Birgir ákvað að fara 22 km í stað 5 km eymingja)

Það var farið langt í dag. Fjöldi hlaupara mættir, ekki færri en 20. Gefinn kostur á mismunandi vegalengdum, frá aumingja upp í Goldfinger og Stíbblu. Auglýst var eftir þeim sem vildu fara langt, fáeinar hjáróma raddir heyrðust staðfesta áhuga. Allmargir vildu fara Threebridges, og einhverjir styttra.

Upphaflega voru það Ágúst, Einar blómasali og Ólafur ritari sem stefndu á langt, ég man ekki hvað Jörundur sagði, en tel að hann hafi verið kominn í hvíld fyrir Laugaveginn, var að reyna nýja skó. Biggi var meiddur og ætlaði bara að fara stutt, 5 km eða svo, og ekki vitað hvaða náttúrumerki í Vesturbænum innramma svo stutta vegalengd.

Lagt í hann og farið hægt í einni hrúgu inn í Nauthólsvík. Það slitnaði á milli, en við sem stefndum á lengra vorum rólegir og létum þau hin ekki æsa okkur. En svo kom í ljós hvað menn gátu, einhvers staðar eftir Nauthólsvík kom í ljós að blómasalinn var að guggna, en Biggi var að eflast. Endaði það svo að við Ágúst og Birgir fórum áfram í Fossvoginn. Þar mættum við galvöskum og upplitsdjörfum Laugaskokkurum sem aldrei hefur verið bjartara yfir.

Áfram í Fossvoginn, upp í hæðirnar í Kópavogi, inn hjá Goldfinger, Ágúst athugaði samvizkusamlega hurðina sem var Hér var mikið glens í gangi milli okkar þriggja um alls kyns sjónvarpsefni sem við erum að uppgötva að má sjá á skjánum hjá okkur eftir að konurnar eru sofnaðar. En ekki meira um það!

Við komum við á Olís-stöðinni í Mjódd og bættum á okkur vatni og héldum svo áfram framhjá Mömmu og upp að Stíbblu. Rákumst á vegalausa hlaupara, sem líklega hafa tilheyrt Árbæjarskokki.  Svo skelltum við okkur niðurúr á feiknarhraða. Á þessum kafla hef ég líklega tapað einum af vatnsbrúsunum mínum, en uppgötvaði það ekki fyrr en miklu seinna.

Svo var farið aftur í Fossvoginn og sem leið lá til sjóbaðs í Nauthólsvík. Birgir hafði áhyggjur af hælsærinu, en við hinir töldum að hann myndi læknast af því að fara í sjóinn. Skelltum okkur í svala ölduna og syntum út á flóa, slógumst þar við óða hákarla sem vildu éta okkur, og svömluðum að því búnu tilbaka. Birgir var sammála því að líklega hefði sjósundið læknað sig, alla vega fyndi hann ekkert til.

Við uppúr og héldum áfram, fljótlega fór Birgir að kvarta yfir því að deyfingin væri að hverfa og saltið farið að þrengja sér inn í hælinn. Við lukum síðustu 4 km svona nokkurn veginn með viðunandi hætti, en vorum þungir og slapppir. Þess vegna féllu þessi orð á Plani að við værum aumingjar.

Allir farnir þegar komið var tilbaka og við sátum þrír í potti innanum um útlendinga, konur og börn og vorum harðla utanveltu. En allsælir þrátt fyrir allt. Nú er spurningin: erum við nægilega undirbúnir fyrir maraþon í ágúst. Ágúst sagði að manni ætti að líða illa þegar toppað væri, þreyttur og þunglyndur. Þannig að horfur eru góðar um maraþon í ár.

Við Ágúst, Birgir og ritari fórum 22,3 km.

Hlaupasamtökin trekkja stöðugt að nýja hlaupara

Í hlaupi dagsins voru ekki færri en 30 hlauparar mættir og dettur ritara ekki í hug að reyna að nefna þá alla, enda veit hann ekki hvað helmingurinn heitir. Jæja, ég get sosum nefnt þá Helmut, Ágúst og Flosa. Aðrir mega njóta vafans. Veður hið ákjósanlegasta til hlaupa, 17 stiga hiti og bjart yfir. Nánast enginn vindur. Þjálfarar höfðu reiknað út vindátt og mæltu því með hægu hlaupi inn að Skítastöð og þaðan 1 km sprettir, eigi færri en fimm slíkir, út á Nes.

Á Hofsvallagötu gerðist Ágúst nostalgískur og kvartaði yfir því að  ritari væri hættur að baktala blómasalann, þess í stað væri hann farinn að segja frægðarsögur af honum. Þetta væri með öllu óþolandi og brýnt hagsmunamál að hverfa til fyrra horfs, hefja að nýju rógburð, einelti og óþverraskap. Ritari lofaði að gera sitt bezta, svo fremi honum gæfist tilefni til.

Hlauparar dagsins voru býsna sprækir, en þó var eftir því tekið að hefðbundnir hraðafantar voru ekkert að derra sig. Fremstir fóru Helmut, ritari og Þorvaldur og fóru þó ekki hratt. Er komið var út að Skítastöð var staldrað við og lögð drög að sprettum. Svo var talið í og sprett úr spori. Þetta gekk giska vel, ólíklegasta fólk tók vel á því, þ. á m. blómasalinn og ritarinn. En ósköp voru þessir kílómetrar lengi að líða! Mættum Neshópi, sem virtist óvenju fámennur nú í sumarfríum ríkisstarfsmanna. Hlaupasamtökin aldrei fjölmennari.

Ég endaði með blómasalanum og Ágústi er komið var á Nesið og þriðji sprettur var í gangi. Eftir hann gafst sá gamli upp, enda búinn að vera í fjallahlaupi með Professor Keldensis á Laugarvatni um helgina og algjörlega útkeyrður. En við Einar og Rúna tókum enn einn sprettinn á Suðurströnd og alla leið út á Lindarbraut. Þá var tímabært að fara að slaka á og jafnvel skoða möguleika á sjóbaði. Aðstæður allar góðar, en ekkert varð af því að menn færu í sjóinn, að þessu sinni.

Farið rólega tilbaka, ég lenti í heiftarlegu rifrildi við Rúnu og blómasalann um Icesave-deiluna og ákvað að skilja þau eftir. Þau virtust einna helst á því að Ísland yrði innan fárra ára nýlenda Hollendinga og hér yrðu menn reykjandi hass á öllum götuhornum. Eða að við værum komin undir brezka yfirstjórn og farin að éta fisk og franskar í öll mál.

Ævintýrið var þó eftir: þegar komið var á Plan var þar aragrúi hlaupara og hafði lokið hlaupi. Biggi teymdi alla út á Flöt og bauð upp á ÓKEYPIS jógatíma! Það var teygt sig og togað, rúllað og velt á alla kanta, emjað og æpt! Aðvífandi gestir stóðu alldeilis forviða og horfðu á ósköpin eins og naut á nývirki. Við hinir, Helmut, Flosi og ritari, tókum okkar hefðbundnu teygjurútínu og létum ekki þetta nýaldarkukl trufla okkur.

Pottur var óvenjuheitur að þessu sinni. Rætt um forgangsröðun í lífi hlaupara, sumir sögðu matur, hlaup, vinna, fjölskylda. Aðrir matur, áfengi, vinna, hlaupa, fjölskylda... og þannig áfram. Lögð drög að löngu hlaupi á miðvikudaginn, réttlætingin fyrir stuttu í dag væri langt á miðvikudag: ekki styttra en 24 km. Sundlaug.

Fjórir fræknir á sunnudagsmorgni

Fjórir hlauparar voru mættir til hlaups á sunnudagsmorgni frá Vesturbæjarlaug: Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur og Ólafur ritari. Veður hagstætt, hiti 14 gráður, hægur vindur og rigning hékk í loftinu. Í Brottfararsal var upplýst um dapurlegt heilsufar fyrrverandi hlaupara, sem áður hljóp með Hlaupasamtökunum en hætti. Einnig rætt um brunahringingu sem Samtökunum barst alla leið frá Bruxelles þar sem V. Bjarnason er staddur þessa dagana í hitasvækju og ætlar hvern mann lifandi að drepa.

Við vorum afar rólegir í dag, gerðum mörg stopp og gengum mikið. Sem var allt í lagi, Jörundur nýkominn úr fjallgöngu sem tók á. Stefnir á Laugaveginn eftir tvær vikur. Aðrir velta fyrir sér Vesturgötunni, sem NB leiddi hugann að ágætum þætti Jökuls Jakobssonar þar sem hann rölti um Vesturgötuna í Reykjavík upp úr 1970 með Einari Baldvin Pálssyni. Aðrir útvarpsþættir sem til umræðu komu var Útvarp Guðfræðideildar á sunnudagsmorgnum þar sem farnir hafa verið sjö hringir um kennarastofu deildarinnar á umliðnum misserum og þykir með dapurlegasta útvarpsefni sem um getur. Ennfremur viðtöl Jónasar á föstudagskvöldum sem bregðast ekki.

Vitanlega var óhjákvæmilegt að taka til umfjöllunar viðtalið við fyrrv. Seðlabankastjóra í Dödens avis í dag, en hér vantaði sárlega V. Bjarnason hlaupara, og var ekki laust við að menn hefðu orð á því að sunnudagshlaupin væru ekki söm og áður án hans, ef ritari væri vemmilegur hefði hann jafnvel látið þess getið að saknaðar hefði gætt í orðum manna.

Í Nauthólsvík var stanzað og sagðar sögur. Tillaga um sjóbað var felld. Áfram í kirkjugarð, sem er helgur reitur og menn beðnir að fara um hávaðalaust og af virðingu. Það gera menn ávallt þegar komið er í þennan stað. Upplýst að byrjað hafi verið að jarða í Fossvogi 1932, við sáum nokkur laus pláss hér og þar.

Á Flönum voru rifnar upp lúpínur, Þorvaldur kallaði Jörund öfgamann, Jörundur sagði á móti að án öfgamanna eins og okkar hefði Ísland aldrei náð sér á strik. Áfram um Veðurstofuhálendi og um það rætt hvers vegna menn hættu hlaupum.

Leiðin var einkennilega greið og engin umferð sem ógnaði lífi eða limum hlaupara. Farið hefðbundið um Klambratún og Hlemm, þaðan niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Eitthvað um túrista á ferð, þeim var heilsað kurteislega.

Pottur vel mannaður og rætt lengi um ættir manna, byggð við Ægisíðu og enn rifjuð upp glæsileg veizla þeirra Rúnu og Friðriks að Útey við Laugarvatn um síðustu helgi.

Ævintýralegt á föstudegi

Fyrr var upplýst að Hlaupasamtökin stóðu fyrir hefðbundnu hlaupi að morgni þessa dags frá Vesturbæjarlaug, kl. 6:25 í morgun, farið frá frá horni pylsusjoppu og hlaupið sem leið lá um Sólrúnarbraut og út í Nauthólsvík í rjómablíðu, hár bærðist ekki á höfði, hiti um 14 stig og allar aðstæður því mjög pósitívar. Er komið var í Víkina dreif fólk sig af fötum og skellti sér í svala ölduna, spegilsléttan flötinn, og ekki kjaftur í nánd. Síðan farin sama leið tilbaka, fáir á ferli.

Seinni ferð var hefðbundin, safnast saman um 16:20 í Brottfararsal. fjölmargir hlauparar mættir. Þegar við brottför urðu átök. Fyrir lá að farið yrði um Víðimel og út á Nes og þaðan í sjóinn. Þetta var breyting frá hefðbundinni rútu, og féll ekki í kramið hjá forstokkuðum framsóknarmönnum eins og Benedikt. Hann mótmælti hástöfum og heimtaði sama gamla rúntínn. Jóhanna talaði við hann af lempni og tókst að sannfæra hann um að þetta væri ekki svona hættulegt. Á endanum féllst hann á að það mætti sosum lulla þetta á þennan hátt.

Ský hafði dregið fyrir sólu og bætt í vind, en hiti var um 18 gráður. Lagt í hann. Samstaða um að fara á hægu tempói, 6 mín. En það fór eins og beztu menn spáðu fyrir um, áður en langt var um liðið voru fremstu menn komnir á allnokkurt tempó. Samt var þetta allt í merki hófsemdarinnar. Fórum um Víðimel og út í Ánanaust og settum kúrs á Nes. Á leiðinni tíndum við upp þá kumpána Kristján og Denna, og hefði verið með ólíkindum ef þeir hefðu sleppt Fyrsta Föstudegi.

Helmut var í forsvari fyrir hópnum og leiddi okkur niður í fjöru við Gróttu, þaðan settum við kúrsinn úr  fjöruna. Erfitt var að fóta sig þar og hlaupa, en Helmut vildi meina að það væri okkur hollt að hlaupa við þessi mótdrægu skilyrði. Við slömpuðumst þarna áfram fjöruna og virtist hún aldrei ætla að taka endi. Svo kom  að því að Helmut stoppaði. Fólk fór af fötum, þessi fóru í sjóinn: Helmut, Kári, Jóhanna, Ólafur ketilsmiður, Einar blómasali, Kári, Benedikt og Friðrik Meló. Athygli vakti að blómasalinn fór að öllu og fullu leyti í sjóinn - og hann hrópaði m.a.s. á ritara til þess að tryggja að sundið yrði fært til bókar.

Við svömluðum þarna í öldunum í lengri tíma og áttum bágt með að slíta gamanið - en þar kom að við höfðum okkur upp úr öldunni. Tíndum á okkur pjötlur og héldum áfram hlaupi. Sumir fóru kringum golfvöllinn, aðrir styttu og fóru stytztu leið til Laugar. Hér urðu miklar umræður af ýmsu tagi, sem ekki verða tíundaðar hér.

Það var pottur og lögð drög að Fyrsta Föstudegi. Hátíðin var síðan haldin í garði þeirra heiðurshjóna Helmuts og Jóhönnu og leikið spilið Kubb. Þar áttum við ánægjulega og uppbyggilega stund og ræddum margvísleg þjóðþrifamálefni.  Lögð drög að nýrri framleiðslulínu, kringlótt rúgbrauð með síld eða reyktum siliungi inni í.  Svo komu ýmist hugmyndir um remúlaði eða bernaise-sósu með, þá hætti ég að fylgjast með. Mikil umræða um reyðar af ýmsu tagi sem rekur á land og má nýta kjötið af. Á meðan fór fram keppni í Kubb - sem virðist aðallega felast í því að grýta keilum í saklausa gesti sem eru komnir til þess að eiga ánægjulega og örugga stund í fögru umhverfi.

Hvað er næst? Laugardagshlaup kl. 9:30 - langt.

"... hann var með skrýtna vini sínum..."

Anekdótur í potti eftir hlaup - meira um það seinna. Geysilegur fjöldi hlaupara var mættur til miðvikudagshlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í dag. Meðal þeirra mátti greina kunnugleg andlit svo sem tilheyrandi Jörundi, Helmut, Ágústi, S. Ingvarssyni og Flosa nýkomnum úr fjallaferð. Rúnar þjálfari var mættur og einhver ókunnra andlita, en það bætist stöðugt við hóp hlaupara og loksins getum við stært okkur af því að hafa endurvakið áhuga kvenna á hópnum.

Það fór fram lýðræðisleg umræða á Plani um fyrirætlanir hlaupara í hlaupi dagsins. Menn horfðu feimnislega hver á annan. Þjálfari spurði hvað menn ætluðust fyrir, "ætla einhverjir langt?" Tja, sagði einhver. Kliður fór um hópinn og það heyrðist hvíslað "Goldfinger". Þjálfari tilkynnti Þriggjabrúahlaup með tempói eftir upphitun út að Skítastöð. Aðrir máttu fara lengra eða skemmra eftir smekk. Við Sigurður og Ágúst ákváðum að fara Goldfinger - hið skemmsta.

Svo var bara þetta hefðbundna út að Skítastöð. Birgir angaði af hvítlauk, líklega enn eitt úrræðið gegn feimninni. Farið rólega, þar til þeir fantar Eiríkur og Benedikt tóku á rás og hurfu. Þjálfari hélt fljótlega í humátt á eftir þeim og var sömuleiðis horfinn. Stór hópur beygði upp hjá Borgarspítala samkvæmt fyrirframákveðinni áætlun, en við Siggi og Gústi héldum áfram í Fossvoginn. Það var ákveðið að fara rólega, menn voru eitthvað þungir í dag.

Brekkan góða var indæl og við gerðum hefðbundinn stanz hjá Goldfinger - enn var lokað. Við áfram yfir í Mjóddina, stoppað og drukkið vatn við Olís-stöðina og áfram í Elliðaárdalinn. Í Laugardalnum var í raun tekinn þéttingur, þannig að þetta með þyngslin var eitthvað orðum aukið. En í það stóra heila var tekið vel á því og menn komu þreyttir og sveittir tilbaka. Stefnt er á Reykjavíkurmaraþon og markaði þetta hlaup hið fyrsta í upptaktinum að þeirri áætlun.

Það var ansi þéttur pottur eftir hlaup. Rifjaðar upp sögur úr Bláskógaskokki, Biggi reyndi að ná athyglinni, en gekk illa, atyrti menn fyrir að geta ekki fylgst með. Einhvern tíma meðan á hlaupi stóð spurði Rúna Stellu dóttur sína hvort hún hefði séð föður sinn. "Já, hann var way out of it!" "En hvar var hann?" spurði Rúna. "Hann var þarna með þessum skrýtna vini sínum..." Rúna var engu nær um hver þetta var, lýsingin gat átt við hvern þessara sextán hlaupara í Hlaupasamtökunum sem tóku þátt í hlaupinu.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband