Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
28.1.2009 | 21:01
Hlaupasamtökin eru hlaupahópur ársins 2008
Hvað um það, viðurkenningin var skilin eftir í afgreiðslu og vonandi fæst heimild til að hengja hana upp á góðum stað í Brottfararsal. En aðalerindið var að hlaupa og af þeirri ástæðu flykktust menn út á Plan og biðu þess spenntir að þjálfarar gæfu út leiðarlýsingu. Rúnar fór með tölu um mikilvægi þess að þurrka vel blauta skó að hlaupi loknu, taka innleggið úr og þurrka aðskilið, helzt undir ofni. Að öðrum kosti gæti komið upp mygla og það er ekki skemmtilegt. Að öðru leyti var hlaupaleið og -aðferð frjáls og virtust helztu hlauparar vera pollrólegir. Af þeirri ástæðu var ritari grunsamlega lengi í fremstu röð og bara brattur. Aðrir frískir voru Þorvaldur, Helmut, dr. Jóhanna og Bjarni. Bjössi og Biggi eru meiddir og hafa ekki sézt að hlaupum í nokkra daga.
Færð var sæmileg þrátt fyrir snjókomu og altént var ekki það hált að það var óhætt að spretta úr spori. Á Ægisíðu varð vart við kampavínslita koníaksstofu á hjólum er ók framhjá og flautaði, nánar tiltekið R-158. Að því kom að hefðbundnir hraðfarar sigu fram úr ritara og í Nauthólsvík var hann orðinn algjörlega einn og yfirgefinn. Þá var bara að fara Hlíðarfót. Aðrir fóru lengra, sumir jafnvel Þriggjabrúahlaup, 13,6 km.
Á Plani var fólk fullt skynsemi, skilnings og náðar. Björn mætti í pott með bólginn fótinn og ætlar að reyna að hlaupa bólguna úr sér. Mikil umræða um kjötkaup Íslendinga, slæmt skynbragð þeirra á gæði kjöts og öll trikkin sem kaupmenn beita til þess að blekkja kaupendur. Affarasælast að halda sig við ónefnda kaupmenn í hverfisverzlun Vesturbæjarins - þá er tryggt að menn fá eitthvað fyrir sinn snúð.
Vonumst til að geta birt fljótlega myndir á bloggi af athöfninni nú síðdegis.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2009 | 20:50
Mæting góð í alvitlausu veðri
Þjálfarar lögðu til að farið yrði út að Skítastöð og eftir það ákveðið um framhaldið. Farið hefðbundið um Víðimel og út á Suðurgötu. Við flugvallarendann buldi á okkur austanhríðin og haglélið. Það var ekki skemmtilegt. Farið út að Skítastöð og þar lögð upp áætlun um spretti, en ég lét mér nægja að skokka tilbaka úr Skerjafirði og um Ægisíðu til Laugar. Á leiðinni komu hlauparar á fullum spretti og fóru fram úr mér, lengdu á Nes. Við vorum nokkrir letingjar sem töldum skynsamlegast að ljúka hlaupi við Hofsvallagötu og þarf engum að koma á óvart að Magnús og Einar blómasali voru í þeim hópi.
Legið lengi í potti og rætt um stjórnmálaástandið.
Minnt er á afhendingu viðurkenningar sem hlaupahópur ársins 2008 n.k. miðvikudag.
Óvæntar fréttir verða fljótlega birtar um Fyrsta Föstudag 6. febrúar n.k.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2009 | 17:25
Dagur stórra tíðinda
Pottur ágætlega mannaður Mími, dr. Baldri og dr. Einari Gunnari og var að sjálfsögðu rætt um afsögn viðskiptaráðherra, lausn stjórnar og forstjóra Fjármálaeftirlits frá störfum og stöðuna í stjórnmálunum. Ennfremur um nýafstaðnar veizlur sem eru þó nokkrar, m.a. Burn´s Dinner með haggis sem Baldur sótti í gærkvöld.
Á leið sinni frá Laugu sá ritari Formann til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víking, koma skokkandi niður Hofsvallagötu á hefðbundnu gíri sínu og hefur greinilega lagt síðar af stað í dag en alla jafna, sjálfsagt vegna glæsilegrar veizlu sem hann hélt í gær frægum mönnum jafnt sem ófrægum til þess að vígja nýlyft húsnæði sitt að Kvisthaga með glæsilegri aðstöðu fyrir heimasætur.
Athygli er vakin á nýlegri mynd í myndamöppu Samtakanna, undir Almennar myndir - af grímuklæddu fólki að hlaupum að næturþeli, og óvíst hvað því býr í hug. Kíkið á þetta. Í gvuðs friði, ritari.
21.1.2009 | 21:25
Ritari á Brennu
Þrátt fyrir að hlaupið hafi verið í kvöld var ritari ekki mættur til hlaupa. Til þess liggja margar skynsamlegar skýringar. M.a. sú að hann var ekki boðlegur til hlaupa sökum meiðsla, ennfremur vegna þess að hann var í alla undanliðna nótt að mótmæla á Austurvelli, berja löggur, kveikjandi í öllu tiltæku og syngjandi byltingarsöngva. Er nú frá því að segja að ritari gekk sinn vanabundna gang til ónefndrar hverfisverzlunar í Vesturbæ að kaupa fiskinn sinn, veit hann ekki fyrri til en upp á gangstétt rennir kapítalískur burgeis á blárri jeppabifreið trúðajeppa á dekkjkum í yfirstærð og þekur alla gangstéttina með nærveru sinni, sér þar framan í grínandi smettið á ónefndum blómasala sem með yfirgangi og frekju ætlar að loka farveginum að hverfisverzluninni. Ritari lætur sem hann sjái
ekki fyrirbærið, gengur til verzlunar og nær sínu fram með efitrgangsmunum. Áður en til þessa kemur hefur hann þó náð fundum með eftirtöldum:
´
Kára: sprækur, segir gött af dvöl sinni meður frönskum, lýsir vel matseðli, ekta skinku, frönsku brauði, rauðvíni etv. Áttum við gott og langt spjall sem m.a. náði til afreka á menntabrautinni og ýmissa sjúkdóma sem oss hrella þessi missirin,
Ben.: mættur sveittur, mæddur, þreyttur, eftir 6 km sprett og náði vart andanum sökum mæði. Beygður. Játaði að hann hefði átt hlut að máli þegar Sigmundur Davíð var kjörinn formaður Framsóknar, fylgt honum á fundi og undirbúið framkomu. Væri þó enginn Framsóknarmaður. Hafði aldrei trúað því að afskipti sín gætu endað með þessum ósköpum. Sýnir þetta glöggt til hvílíkra örþrifaráða menn geta gripið í atvinnuleysi, og enda gildir enn hið gullna ákall: Öreigar allra landa, sameinist!
Nú er ritari á leiðinni á Austurvöll og vonar að hann eigi afturkvæmt!
19.1.2009 | 21:51
Hlaupasamtökunum hlotnast afreksverðlaun
"Hitti formann félagsins Framfarir áðan í Laugardalshöllinni
þar sem mót eitt mikið fór fram. Hann tjáði mér að Hlaupasamtök
Lýðveldisins hefðu verið kjörinn Hlaupahópur ársins 2008, eða
eitthvað þvílíkt. Kæru félagar til hamingju!
Viðurkenningin verður afhent fljótlega. Beðið um dagsetningu
Hvenær ætli að það sé best að ná fólki saman? Fyrsta föstudag í febrúar?
Um Framfarir
http://www.hlaup.is/displayer.asp?cat_id=608"
Höfundur mun hafa verið Birgir Jógi. Fyrsta úrlausnarefni dagsins var því að finna heppilegan tíma fyrir afhendingu verðlauna, svo og að ákveða hverjum úr hópi vorum hlotnaðist sá heiður að taka á móti verðlaununum.
Dagurinn var mánudagur, dagur miskunnarleysis, dagur átaka. Fjöldi hlaupara mættur, þ. á m. próf. Fróði á nýjum eyðimerkurskóm, afar litríkum, og vöktu þeir óskipta athygli. Sumir lögðust í gólfið til þess að fá góða mynd af þeim. Ritara fannst þetta vera hálfgerðir trúðaskór, en vildi ekki hafa orð á því á staðnum því hann veit að prófessorinn er svo viðkvæmur gagnvart skófatnaði sínum. Þetta eru sumsé skórnir sem eiga að duga í eyðimörkinni. En prófessorinn var stoltur af nýju skónum sínum og það var fyrir öllu.
Nema hvað, að aflokinni hefðbundinni andakt í Brottfararsal var safnast saman á Plani og þar var gefin út leiðarlýsing og þjálfunaráætlun: upp á Hringbraut, þaðan út á Nes, 10 Bakkavarir, og þannig áfram. Þeir sem ekki taka Bakkavarir máttu velja hvað þeir gerðu, t.d. lengja út á Lindarbraut. Áætlunin virtist leggjast vel í viðstadda og engin umtalsverð mótmæli heyrðust.
Hópurinn skiptist fljótt í tvennt: afreksmenn og venjulega hlaupara. Færi þokkalegt, en þó víða hált. Veður allgott, stillt. Þessi hlaupari fór framan af í félagsskap með Eiríki, blómasala og Melabúðar-Friðriki og áttum við félagsskap út í Ánanaust, eftir það skildi leiðir. Ég fór á Nes og alla leið út á Lindarbraut, aðrir styttu og tóku strikið út í Bakkavör. Þegar ég kom hringinn voru þau hin að puða í brekkunni og ákvað ég að slást í hópinn. Teknar voru á bilinu 6-10 Bakkavarir áður en yfir lauk. Eftir það haldið til Laugar, nema hvað próf. Fróði hvarf út í myrkrið og hefur líklega skilað 16-18 km á endanum.
Teygt vel og lengi í Móttökusal. Troðið í potti eins og við var að búast. Margvísleg málefni tekin til umfjöllunar og verður engu ljóstrað upp hér. Þó var vikið að fyrrgreindum verðlaunum og ákveðið að fela virðulegustu hlaupurum Samtaka Vorra að veita þeim viðtöku: fór ekki milli mála að þeir fóstbræður Vilhjálmur Bjarnason og Ólafur Þorsteinsson þóttu bezt til þess fallnir að taka við verðlaununum fyrir hönd Samtakanna. Afhending verður mánudaginn 26. janúar n.k. kl. 17:15 í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar. Viðburðurinn verður ljósmyndaður og viðurkenningarskjalið fest upp á vegg í Brottfararsal.
Mun vegsemd og virðing Hlaupasamtakanna vaxa mjög af þessari viðurkenningu og ljós þeirra lýsa um langa framtíð.
18.1.2009 | 15:38
Fuglinn Fönix
Ritari risinn úr öskustónni eins og fuglinn Fönix, feitur, þungur, slappur en óbugaður. Hitti fyrir félaga mína í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar á þessum sunnudagsmorgni og voru þessir: Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Flosi, Einar blómasali og Friðrik kenndur við Melabúðina. Veður hreint með ólíkindum, stillt og hiti við frostmark. Sunnudagsmorgnar gerast ekki öllu betri. Sagt frá brunahringingu að morgni og stuttu spjalli fóstbræðra. Einhverjum ónotum var hreytt í ritara vegna fjarveru hans og orð haft á vaxtarlaginu, ístran sögð eiga ískyggilega stutt niður í tær. Við þessu var bara að búast og öllu tekið af karlmennsku.
Farið rólega af stað og skeiðað út Sólrúnarbraut á hægu tempói, enda snjóföl á jörðu og víða hált. Rætt um hlaupin sem framundan eru. Fullt er í Laugaveginn, þá liggur fyrir að fara í Mývatnsmaraþon, heilt eða hálft, svo RM og loks eru það þeir sem taka maraþon í útlöndum. Upplýst að samþykkt hafi verið í frægri veizlu að stefna á Boston-maraþon 2010.
Það var létt yfir hópnum, enda valinkunn góðmenni á ferð. Sem fyrr greindi var ritari þungur og stirður eftir hartnær tveggja vikna fjarveru frá hlaupum vegna meiðsla og veikinda. Það verður erfitt að koma til baka þegar aðrir hlauparar eru í fantaformi, en má ekki bíða að hlaupaskórnir séu dregnir fram. Bara að kýla á það! Hlaupið var af þessari ástæðu ekki alveg sársaukalaust, en það var annað hvort að duga eða drepast. Því var ákjósanlegt að eiga kost á þessari sérstöku tegund líkamshreyfingar svo sem hún er iðkuð á sunnudagsmorgnum, sambland af hlaupi og göngu í bland við menningarlega umræðu og fróðleik. Á þann hátt býr maður sig undir alvöruhlaup eins og eru hlaupin á mánudögum þegar þjálfarar gefa engin grið. Svona gengu nokkurn veginn þankarnir þennan morgun.
Staldrað við í Nauthólsvík, sagðar sögur af fólki og sjúkdómum. Haldið áfram á hægu tölti í kirkjugarð þar sem Ó. Þorsteinsson heyrði kallað á sig í gær, þó ekki hinum megin frá. Er hér var komið vorum við frændur orðnir einir aftastir og var ég honum þakklátur að aumkva sig yfir mig og skilja mig ekki einan eftir eins og svo oft vill henda. Við drógumst fljótlega aftur úr enda tókum við mörg gönguhlé sem eru nauðsynleg þegar margt þarf að kryfja og greina. Nú var embættismannakerfið tekið til sérstakrar skoðunar og dugði ekki skemmri vegalengd en Klambratún að Svörtuloftum til þess að afgreiða málið.
Hinir löngu komnir er við komum til Laugar. Mætt Ljóðskáld Lýðveldisins. Að potti voru auk hlaupara dr. Baldur, dr. Einar Gunnar og Mímir. Rætt um bernaise-sósugerð og nautakjöt, en af því mun vera nóg við hóflegu verði í ónefndri hverfisverzlun. Framundan Þorrablót og meira óhóf í mat og drykk. Hvernig endar þetta? Hvenær endar þetta? Fer ekki að koma utanlandsferð? Tímabært að blása til Berlínarkvölds með myndasýningu og meðlæti. Hvað segist?
Meira á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2009 | 22:07
Rugl
Ritari var sumsé mættur til Laugar eftir mikil og þungbær veikindi á föstudegi, og hitti Denna, Benna og Helmut. Hann sá tilsýndar Einar blómasala, Flosa, Bjössa og Birgi. Helmut var vel sveittur og ánægður með vel heppnað hlaup, ímynd hins hamingjusama hlaupara sem lokið hefur góðu hlaupi við beztu skilyrði. Ritari var beygður og hugsaði hvenær hann fengi þeirrar hamingju notið að mega sveitast í átökum með vinum sínum. Gvuð einn ræður því.
Sigurður Ingvarsson var mættur og hafði greinilega tekið vel á í hlaupi dagsins. Eðlilega barst talið að próf. Fróða. Próf. Keldensis hafði áhyggjur af því að próf. Fróði væri lasinn, um það var sterkur orðrómur. Þegar ritari gat upplýst að veikindin hefðu aðallega falist í því að prófessorinn hefði eingönu hlaupið 38 km s.l. laugardag róaðist prófessor Keldensis og gerði sér góðar vonir að úr myndi rætast fyrir Stórhlauparanum.
Þetta var föstudagshlaup - von er á meiru úr þessari áttinni.
13.1.2009 | 20:42
Naglar
"Að Laugu Vorri mættu í morgun þeir Bjarni Guðmundsson, Einar Þór Jörgensen, Flosi Kristjánsson og Þorvaldur Gunnlaugsson. Voru þeir furðu skýrir í augum, að teknu tilliti til göngu um gleðinnar dyr hið næstliðna kvöld; hver ganga má hafa verið útfærð með aðgát og skynsemi, að því er þessa fjóra einstaklinga varðar.
PS
Hér mun próf. dr. Flúss standa að baki frásögn í fjarveru ritara sem er fjarri góðu gagni sakir flensu og hefur ekkert með fyrrgreint skemmtanahald að gera. Því er sett stjarna við nafn Stefáns "Bjarnasonar" að vér teljum að rangt sé farið með faðerni dánumanns í Vestbyen og að hið rétta sé að hann sé Sigurðsson - nema breytingar hafi orðið á högum fyrrnefndrar frú Helgu, einnar ágætiskvinnu af ætt Gröndala og Zoega. Í gvuðs friði af sjúkrabeði, ritari.
9.1.2009 | 21:48
Nýr hlaupari krýndur desemberlöber
Það var Fyrsti Föstudagur og mikil spenna búin að byggjast upp alla vikuna. Hver fengi löberinn? Ritari átti þess ekki kost að hlaupa í dag sökum heilsuleysis, en mætti engu að síður í pott og frétti þar að hlaup hefði verið hefðbundið. Mætti Flosa og Helmut sem voru á leið upp úr. Ég í Barnapott. Hingað til hefur sá skilningur verið til staðar að hann héti Barnapottur vegna þess að hann væri ætlaður börnum, en aðrar skýringar fóru á flot í samsæti kvöldsins. Í potti blómasalinn, Björn, Birgir, lítill herra sem togaði í tána á ritara, Rúna og Friðrik, og síðar kom Bjarni í pottinn, seinhlaupinn.
Birgi varð tíðrætt um Prince Polo pakkann sem hann færði blómasalanum á miðvikudaginn. Rætt um selleríuppskriftir og hvernig hægt er að vefja því inn í annað gagnlegt.
Haldið upp á Fyrsta Föstudag að heimili dánumannsins Þorvaldar Gunnlaugssonar á Brávallaparti. Þar var fjölmennt og góðmennt og upplýst að desemberlöber væri enginn annar en ljúfmennið Bjarni Guðmundsson bílstjóri, seigur, vinfastur og drengur góður. Fékk hann að launum viðurkenningarskjal og konfektkassa, sem blómasalinn heimtaði að væri opnaður á staðnum.
Það var merkileg lífsreynsla að sitja andspænis borðinu sem blómasalinn sat við. Þorvaldur hafði ekki undan að bera inn veitingar, allt hvarf þetta eins og dögg fyrir sólu ofan í blómasalann, brauð. sveppakompott eitthvert, fiskur, og þegar hann var spurður sagði blómasalinn: Ég hef ekkert borðað í dag! Hnetur, rúsinur, konfekt. Þó skal til bókar fært að hann kom með TVO kassa af bjór til veizlunnar og var vel tekið af viðstöddum.
Líta má á Fyrsta Föstudag sem Generalprufu fyrir annað og stærra (vonandi!) samsæti á morgun.
Í gvuðs friði, ritari.
7.1.2009 | 22:52
Eyðimerkurbúi og sellerí stangir
"Það vill henda á hlaupum, að maður verður vitni að einhverju sem í fyrstu virðist yfirskilvitlegt, en á sér þó sína skýringu. Hún kemur yfirleitt af sjálfu sér, eins og þessi hlaupari sem hér ritar, í fjarveru okkar ástsæla embættismanns, ritara og bonus pater familias, upplifði í hlaupi dagsins.
En að upphafi hlaups. Fjöldi mættur á brottfararplan VBL, snarpur að austan og rigning; sem sagt gerist varla betra um hávetur. Upplegg þjálfara virtist ná illa eyrum viðstaddra, venju samkvæmt, en óljós niðurstaða þó sú, að hlaupið skyldi yfir og undir brúarmannvirki bæjarins. Segir fátt af einum, því ég steðjaði af stað, fullur orku, enda atvinnulaus og get þar af leiðandi undirbúið mig and- og efnislega allt frá því ég vakna og fram að hlaupi. Skildi við hópinn á Hofsvallagötu og sá hann ekki síðan.
En, sem ég er mismuna mér í gegnum 15 eða 16 kílómetrann, við hlið höfuðstöðvar LÍÚ, skammt austan Búllunnar sé ég undir sóla sem mér fannst ég kannast við. Geystist fram úr og sá mér til furðu eyðimerkurbúa, að því er virtist, kona af ætt bedúína, sem eru eins og kunnugt er hirðingjar í Miðausturlöndum og Norðurafríku. Flestir múslimar. Sást aðeins í augu hennar. Svo mjög var mér brugðið að ég gleymdi að beygja upp brekkuna Landakots og hélt áfram vestur úr. Náði áttum við OLÍS í Ánanaustum, beygði og hélt austur Hringbraut og niður Hofsvallagötu. Bregður þá svo við að ég hleyp aftur fram úr nefndri konu. Var mér öllum lokið og taldi að hér væri komin álaganorn sem vildi mér illt. Herti því enn á mér til laugar.
Pottur all góður og sagði ég mönnum frá því sem á hlaupið hafði drifið og spurði hvernig viðstaddir læsu í þetta. Þá segir ónefndur maður, nýkominn úr afar hægu hlaupi; „þetta var ég, ég sá þig taka fram úr mér, tvisvar". Það er ekki oft að maður tekur fram úr sama manninum tvisvar í sama hlaupi, þegar hlaupinn er einn hringur, en nú hefur það sem sagt gerst. Ég bað viðkomandi vinsamlegast að gaumgæfa hjá sér æfingaplanið. Bar hann við að ónefndur grafíker hefði komið til sín í dag með 25 prins póló og beinlínis troðið þeim í hann klukkustund fyrir hlaup. Því sem hann torgaði ekki (4 stykki) stakk hann ofan í skúffu. Séður maður, heildsalinn.
Var honum bent á að betra væri fyrir hann að borða sellerí stöngla. Þeir væru þeirri náttúru gæddir að líkaminn notaði fleiri kaloríur við að melta stönglana, en hann fengi úr þeim. Honum datt strax í hug einhver uppskrift að sellerístöngla - rétti. Hvernig hægt væri að gera þá ljúffenga. Ótrúlegt að menn skuli halda því fram að sellerí geti verið uppistaðan í ljúffengum rétti. Jafnvel Björn kokkur hafði aldrei heyrt um neitt slíkt og hefur hann þó verið til sjós.
Þarna var mér öllum lokið og kvaddi."
Er nú annarra að ráða í hver ritaði og um hvern.
Í gvuðs friði, ritari.