Nýr hlaupari krýndur desemberlöber

Það var Fyrsti Föstudagur og mikil spenna búin að byggjast upp alla vikuna. Hver fengi löberinn? Ritari átti þess ekki kost að hlaupa í dag sökum heilsuleysis, en mætti engu að síður í pott og frétti þar að hlaup hefði verið hefðbundið. Mætti Flosa og Helmut sem voru á leið upp úr. Ég í Barnapott. Hingað til hefur sá skilningur verið til staðar að hann héti Barnapottur vegna þess að hann væri ætlaður börnum, en aðrar skýringar fóru á flot í samsæti kvöldsins. Í potti blómasalinn, Björn, Birgir, lítill herra sem togaði í tána á ritara, Rúna og Friðrik, og síðar kom Bjarni í pottinn, seinhlaupinn.

Birgi varð tíðrætt um Prince Polo pakkann sem hann færði blómasalanum á miðvikudaginn. Rætt um selleríuppskriftir og hvernig hægt er að vefja því inn í annað gagnlegt.

Haldið upp á Fyrsta Föstudag að heimili dánumannsins Þorvaldar Gunnlaugssonar á Brávallaparti. Þar var fjölmennt og góðmennt og upplýst að desemberlöber væri enginn annar en ljúfmennið Bjarni Guðmundsson bílstjóri, seigur, vinfastur og drengur góður. Fékk hann að launum viðurkenningarskjal og konfektkassa, sem blómasalinn heimtaði að væri opnaður á staðnum.

Það var merkileg lífsreynsla að sitja andspænis borðinu sem blómasalinn sat við. Þorvaldur hafði ekki undan að bera inn veitingar, allt hvarf þetta eins og dögg fyrir sólu ofan í blómasalann, brauð. sveppakompott eitthvert, fiskur, og þegar hann var spurður sagði blómasalinn: Ég hef ekkert borðað í dag! Hnetur, rúsinur, konfekt. Þó skal til bókar fært að hann kom með TVO kassa af bjór til veizlunnar og var vel tekið af viðstöddum.

Líta má á Fyrsta Föstudag sem Generalprufu fyrir annað og stærra (vonandi!) samsæti á morgun.

Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband