Eyðimerkurbúi og sellerí stangir

Meðfylgjandi frásögn af hlaupi dagsins barst ritara inn um lúguna sem hann sat og horfði á gamlan Taggart-þátt á DR 1:

"Það vill henda á hlaupum, að maður verður vitni að einhverju sem í fyrstu virðist yfirskilvitlegt, en á sér þó sína skýringu. Hún kemur yfirleitt af sjálfu sér, eins og þessi  hlaupari sem hér ritar, í fjarveru okkar ástsæla embættismanns,  ritara og bonus pater familias, upplifði í hlaupi dagsins.

En að upphafi hlaups. Fjöldi mættur á brottfararplan VBL, snarpur að austan og rigning; sem sagt gerist varla betra um hávetur. Upplegg þjálfara virtist ná illa eyrum viðstaddra, venju samkvæmt, en óljós niðurstaða þó sú, að hlaupið skyldi yfir og undir brúarmannvirki bæjarins. Segir fátt af einum, því ég steðjaði af stað, fullur orku, enda atvinnulaus og get þar af leiðandi undirbúið mig and- og efnislega allt frá því ég vakna og fram að hlaupi. Skildi við hópinn á Hofsvallagötu og sá hann ekki síðan.

En, sem ég er mismuna mér í gegnum 15 eða 16 kílómetrann, við hlið höfuðstöðvar LÍÚ, skammt austan Búllunnar sé ég undir sóla sem mér fannst ég kannast við. Geystist fram úr og sá mér til furðu eyðimerkurbúa, að því er virtist, kona af ætt bedúína, sem eru eins og kunnugt er hirðingjar í Miðausturlöndum og Norðurafríku. Flestir múslimar. Sást aðeins í augu hennar. Svo mjög var mér brugðið að ég gleymdi að beygja upp brekkuna Landakots og hélt áfram vestur úr. Náði áttum við OLÍS í Ánanaustum, beygði og hélt austur Hringbraut og niður Hofsvallagötu. Bregður þá svo við að ég hleyp aftur fram úr nefndri konu. Var mér öllum lokið og taldi að hér væri komin álaganorn sem vildi mér illt. Herti því enn á mér til laugar.

Pottur all góður og sagði ég mönnum frá því sem á hlaupið hafði drifið og spurði hvernig viðstaddir læsu í þetta. Þá segir ónefndur maður, nýkominn úr afar hægu hlaupi; „þetta var ég, ég sá þig taka fram úr mér, tvisvar". Það er ekki oft að maður tekur fram úr sama manninum tvisvar í sama hlaupi, þegar hlaupinn er einn hringur, en nú hefur það sem sagt gerst. Ég bað viðkomandi vinsamlegast að gaumgæfa hjá sér æfingaplanið. Bar hann við að ónefndur grafíker hefði komið til sín í dag með 25 prins póló og beinlínis troðið þeim í hann klukkustund fyrir hlaup. Því sem hann torgaði ekki (4 stykki) stakk hann ofan í skúffu. Séður maður, heildsalinn.

Var honum bent á að betra væri fyrir hann að borða sellerí stöngla. Þeir væru þeirri náttúru gæddir að líkaminn notaði fleiri kaloríur við að melta stönglana, en hann fengi úr þeim. Honum datt strax í hug einhver uppskrift að sellerístöngla - rétti. Hvernig hægt væri að gera þá ljúffenga. Ótrúlegt að menn skuli halda því fram að sellerí geti verið uppistaðan í ljúffengum rétti. Jafnvel Björn kokkur hafði aldrei heyrt um neitt slíkt og hefur hann þó verið til sjós.

Þarna var mér öllum lokið og kvaddi."

Er nú annarra að ráða í hver ritaði og um hvern.

Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þorsteinn Jóakimsson

Sá er ritar skeiðar hratt

og hverfur okkur sjónum oftast snemma hlaups.

Sá er um er ritað, finnst gott að borða mat.

Og ef hann er ekki að borða mat… 

… þá er hann að tala um mat.

Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 8.1.2009 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband