Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Tímar félaga í Gamlárshlaupi ÍR 2008

Félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins tóku þátt í Gamlárshlaupi ÍR. Árangur þeirra og tengdra aðila birtist í meðfylgjandi skrá. 
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dimmur dagur að hlaupum

Morgunninn færði með sér hörmuleg tíðindi fyrir hlaupara hvarvetna á landinu þegar fréttist að ungur hlaupari hefði orðið fyrir bíl rétt fyrir utan Selfoss og látist. Ekki liggur fyrir hver tildrög slyssins voru, en þar hlýtur skyggnið að hafa leikið örlagaríkt hlutverk og ástæða til þess fyrir alla að vera vel merktir og sýnilegir.

Hlauparar er mættu til hlaups frá Vesturbæjarlaug í dag voru slegnir yfir þessari sorgarfrétt.

Í virðingarskyni við hinn látna hefur ritari pistil þennan ekki lengri.  

Ó. Þorsteinsson týndur og tröllum sýndur

Er von menn spyrji þegar tveir helztu sagnaþulir, fróðleiksbrunnar og greinendur samtímasögu láta ekki sjá sig að hlaupum svo vikum skiptir: hvar endar þetta? Hvar er hjálpræði vort? Hver á að segja okkur hvað við eigum að hugsa og halda og álíta? Nú í upphafi nýs árs er þörf á skarpskyggni og áræðinni hugsun til þess að greina útlit og horfur, auk þess að segja sögur af fólki og ættum þess. En nú hafa bæði Vilhjálmur Bjarnason og Ólafur Þorsteinsson verið fjarri hlaupum um nokkurra vikna skeið og er það hyggja manna að fjarvera hvors tveggja tengist með einhverjum hætti. Er það mikill skaði fyrir Samtök Vor sem eru fróðleiks- og menningarstofnun umfram annað, þótt eitthvað sé gert af því að hlaupa líka. Mættir til hlaupa í morgun, sunnudag, í yndislegu hlaupaveðri: Þorvaldur, Jörundur, Magnús. Einar blómasali og Ólafur ritari. Bjarni kom seint og hljóp einn. Hiti 5 stig, logn og rigningarúði í lofti, jafnvel þoka. Dimmt þegar lagt var upp.

Nú er jólahaldi senn lokið og meðfylgjandi ofáti og kyrrsetum. Kominn tími til þess að fara að koma skikki á hlutina, beita sjálfan sig aga og taka á því  á hlaupum. Rólegt hlaup á sunnudagsmorgni er góður undirbúningur fyrir átakaviku - um það voru allir sammála á þessum degi. Umræður voru stilltar, snerust um fjarvistir fyrrgreindra manna, en jafnframt um þau gleðitíðindi að Kári og Anna Birna eru snúin tilbaka úr útlegð sinni í Frakklandi. Kári er bíllaus og ætlar blómasalinn að lána honum einhvern gripinn úr bílaflota sínum.

Það þarf að leggja línur um langhlaup ársins, innanlandshlaup sem til greina koma eru Mývatnsmaraþon (blómasalinn útvegar tjaldvagna og kost og sér um matreiðslu), Laugavegurinn og Reykjavíkurmaraþon. Miða þarf undirbúning við framangreint. Jörundur mælir sérstaklega með Laugaveginum, segir það ógleymanlega lífsreynslu. Einhverjir hafa skráð sig í hlaup í útlöndum, en ekki liggur fyrir samræmd áætlun þar.

Skeiðað á léttu skokki hefðbundinn sunnudag og hlaup að mestu tíðindalítið. Stoppað á hefðbundnum stöðum, fyrst í Nauthólsvík, næst í kirkjugarði, en eftir það var hlaupið án viðstöðu alla leið tilbaka, farið um Sæbraut. Bærinn nánast mannlaus, þoka yfir. Orðið bjart á miðri leið.

Pottur velmannaður, allir helztu snillingar Samtakanna, með eða án hlaupaskyldu, að frátöldum fyrrnefndum fyrrverandi hlaupurum, sumsé dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Mímir, Helga Jónsdóttir, og loks sonur dr. Einars, júristi Ólafur Jóhannes af Flandri og Vallóníu. Gríðarlega miklar umræður og fróðlegar um menn og málefni, svo miklar raunar að óðs manns æði væri að rekja þær. Sungnir síðustu jólasálmarnir.

Við Bjarni þáðum sjampó hjá blómasalanum, vatnsþynnt sjampó, sem sýnir nýtni þessa ágæta manns. Hafa ekki allir heyrt talað um vatnsþynnt sjampó? Gott hlaup í góðu veðri - meira á morgun.


Fyrsta hlaup á nýju ári

Hlaupasamtök Lýðveldisins óska hlaupurum nær og fjær gleðilegs nýs árs og velfarnaðar í hlaupum ársins. Fyrsta hlaup á nýju ári var þreytt frá Vesturbæjarlaug í dag, 2. janúar 2009 kl. 16:30. Mættur hreint ótrúlegur fjöldi hlaupara og verða einstakir hlauparar ekki nefndir nema eftir því sem þeir koma við sögu hlaupsins. Þó skal tekið fram að blómasalinn var mættur tímanlega, og svo Gunnlaugur Pétur Nielsen frá Boston. Mikil kurteisi í gangi, fólk óskaði hvað öðru gleðilegs nýs árs og skipst var á kossum. Birgir horfði á Bjössa og velti fyrir sér eitt sekúndubrot hvort hann ætti að..., nei, vond hugmynd.

Helmut og dr. Jóhanna komin frá Spaníá og vel haldin. Menn almennt sáttir við tíma sína í Gamlaárshlaupinu, nema hvað dr. Friðrik óskaði eftir að koma á framfæri leiðréttingu um að hann hefði farið ívið hægar en opinber tími gaf til kynna.

Mikill hugur í fólki og lagt upp í góðu veðri, stefnan sett á hefðbundið, eina spurningin: Fyrsti Föstudagur. Það var Ægisíðan og hlauparar voru greinilega þungir á sér. Fljótlega komu matseðlar jólanna og skýringarnar á því hvers vegna hlaup sóttist svo hægt. Fremstur í flokki upplýsenda um mataræðið var blómasalinn, en Birgir veitti honum harða samkeppni og snörist umræðan þá um súkkulaðihúðaðar rúsínur. Jafnframt um súkkulaðitertu frá Jóa Fel sem boðið var upp á í hádegismat hjá blómasalanum, ásamt með nokkrum kílóum af konfekti. Svo voru menn hissa á hversu hlaup sóttist seint í kvöld!

Ritari var þungur á sér og þreyttur eftir afrek síðustu daga. Sama mátti segja um fleiri hlaupara og fór hlaup hægt af stað. Utan úr myrkrinu birtist Benedikt stórhlaupari með óljóst erindi, en kvaðst hafa þegar farið 10 km. Hlaup erfitt og stefndi í að maður reyndi að þrauka í Hlíðarfót og stytta. En þegar kom í Nauthólsvík var ég á ferð með Helmut sem seiglaðist þetta áfram án þess að líta til hægri eða vinstri og því var haldið áfram. Fljótlega grúppuðu sig saman Magnús Júlíus, Helmut, Birgir, blómasalinn og ritari. Þessi hópur hélt áfram um Veðurstofuhálendi og þá hefðbundnu leið sem heyrir til föstudögum.

Tíðindin gerðust í Hlíðum. Þar hlupum við í myrkri og ritari rak tá í misfellu á gangstéttinni og tók flugið í ágústínskum anda, með þeirri breytingu þó að hann setti hendurnar fyrir sig, snöri líkamanum þannig að hann gæti betur tekið móti árekstrinum við gangstéttina, og allt fór þetta vel. Félagar mínir voru í sjokki, en ég spratt upp eins og fjöður og hélt áfram hlaupi, þeir hlóðu mig lofi og Birgir bað um endursýningu í slow motion, svo tígugleg hefði lendingin verið.

Eftir þetta var hlaup nánast hefðbundið, nema hvað menn voru óvenjuþungir á sér. Sæbrautin valin og við fórum þetta á hörkunni. Ritari stoltur af því að klára hlaup sem virtist ekki fýsilegt í upphafi.

Í potti var tekin ákvörðun um að halda Fyrsta Föstudag 9. jan. n.k. með hátíðlegri athöfn að heimilii verðskuldaðs hlaupara. Ingólfur Margeirsson var að Laugu, sérstakur heiðursmeðlimur Hlaupasamtakanna, forsprakki og forkólfur. Í gvuðs friði - ritari.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband