Naglar

Svofelld frásögn af sunnudagshlaupi að aflokinni náttlangri skemmtan hefir verið send á eter:

"Að Laugu Vorri mættu í morgun þeir Bjarni Guðmundsson, Einar Þór Jörgensen, Flosi Kristjánsson og Þorvaldur Gunnlaugsson. Voru þeir furðu skýrir í augum, að teknu tilliti til göngu um gleðinnar dyr hið næstliðna kvöld; hver ganga má hafa verið útfærð með aðgát og skynsemi, að því er þessa fjóra einstaklinga varðar.
Veður var stillt en þó svalt, og til okkar bárust ómar klukknanna frá Kirkju Krists Konungs að Landakoti.  Ónefndum viðskiptafræðingi í hópnum vöknaði um augu og sagði eitthvað í þessa veru: "Ó, er þetta ekki yndislegt?" Naglar þeir sem mættir voru að hlaupum með honum gáfu lítið fyrir þessa viðkvæmni, en spurðu hvort menn væru hér samankomnir til að hlaupa eða til að kjafta.
Að svo mæltu var skokkað af stað, hefðbundna leið um Sólrúnarbraut með stefnu á Kirkjugarð og Veðurstofuhálendi. Umræðuefnið var af ýmsum toga og skiptust menn á skoðunum um hversu siðlegt það er að "taka stöðu" á fjármálamarkaði. Þá var einnig rætt um flugvélar og flygildi hvers konar og reyndust tveir af fjórum nærstöddum hlaupurum sýnu glúrnastir í þeim fræðum. Sannaðist hér enn einu sinni, eins og reyndar var vikið að í einu ávarpi að afmælishófi Doktors Jóhönnu, að í hópnum er saman komið slíkt einvalalið gáfumanna að leitun er á öðru eins.
Fyrir innan Skítastöð varð á vegi okkar ókunnugur skokkari, sem hneigði sig kurteislega og sagði eitthvað í þessa veru: "Mætti ég (ef mig skyldi kalla) slást í hóp með yður; ég lofa að þegja og mun gera mitt ýtrasta til að halda í við yður". Slíkar trakteringar er erfitt að standast og féllumst við á að þessi alþýðumaður úr Austurbæ fylgdi okkur nokkurn spöl.
Ofangreindir hlauparar sýndu hefðum sunnudagshlaupa fulla tillitssemi og minntust þess að í Nauthólsvík væri ævinlega gengið, en létu þó ógert til að forkelast ekki. Í Kirkjugarði var hinsvegar staðnæmst við bautastein, hvar á eru letruð dánardægur hjóna í Reykjavík og fylgdi því stoppi fróðlegur fyrirlestur, þar sem farið var yfir siðfræðilegar og lögfræðilegar vangaveltur.
Fátt varð tíðinda á ferð okkar um Hlíðar og Klambratún, enda bílaumferð með minnsta móti og hverfandi líkur á því að menn kæmust í lífsháska við að fara yfir gatnamót, hvort heldur ljós voru gul, rauð eða græn. Á Sæbraut hneigðist orðræðan enn og aftur að flugsamgöngum og var hrein með ólíkindum á hve háu plani umræðan var.
Að potti voru mættir áköfustu aðdáendur Hlaupasamtakanna: Baldur Símonarson, Einar Gunnar Pétursson, Helga Jónsdóttir og Stefán Bjarnason*.  Urðu þarna fagnaðarfundir og jókst þó kætin að mun þegar sómahjónin Jóhanna og Helmut mættu glaðbeitt um hádegið. Þá heiðruðu okkur Ævar kommúnist og hans frú Hansína ásamt Þjóðskáldinu Þórarni Eldjárn og frú Unni.  Og til að setja punktinn yfir i-ið birtist alveg óforvarendis hlaupari með lambúshettu á höfði og rauð- og svartröndótta treyju niður undan stakki sínum. Þótti okkur þá dagurinn vera giska ánægjulegur, svona heilt yfir.
Svona eiga sunnudagar að vera! "

PS
Hér mun próf. dr. Flúss standa að baki frásögn í fjarveru ritara sem er fjarri góðu gagni sakir flensu og hefur ekkert með fyrrgreint skemmtanahald að gera. Því er sett stjarna við nafn Stefáns "Bjarnasonar" að vér teljum að rangt sé farið með faðerni dánumanns í Vestbyen og að hið rétta sé að hann sé Sigurðsson - nema breytingar hafi orðið á högum fyrrnefndrar frú Helgu, einnar ágætiskvinnu af ætt Gröndala og Zoega. Í gvuðs friði af sjúkrabeði, ritari. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband