Dagur stórra tíðinda

Á hefðbundinni akstursleið sinni til Laugar Vorrar á þessum fagra sunnudagsmorgni rakst ritari á hlaupagarpa þrjá sem voru að ljúka hlaupi bara brattir. Voru þar á ferð engir aðrir en Þorvaldur, Einar blómasali og Birgir jógi. Þeir fóru hefðbundna leið sunnudagsmorgna, en styttu um Laugaveg og töldu eigi færri en 23 laus verzlunarpláss á leið sinni. Birgir gat upplýst um fulla mætingu á jógaæfingu í kjallara Neskirkju í gær, fimm úr okkar hópi og fimm úr "hinum" hópnum. Þorvaldur spurði hver hinn hópurinn væri - þar munu vera morgunhlauparar í landsliðsklassa.

Pottur ágætlega mannaður Mími, dr. Baldri og dr. Einari Gunnari og var að sjálfsögðu rætt um afsögn viðskiptaráðherra, lausn stjórnar og forstjóra Fjármálaeftirlits frá störfum og stöðuna í stjórnmálunum. Ennfremur um nýafstaðnar veizlur sem eru þó nokkrar, m.a. Burn´s Dinner með haggis sem Baldur sótti í gærkvöld.

Á leið sinni frá Laugu sá ritari Formann til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víking, koma skokkandi niður Hofsvallagötu á hefðbundnu gíri sínu og hefur greinilega lagt síðar af stað í dag en alla jafna, sjálfsagt vegna glæsilegrar veizlu sem hann hélt í gær frægum mönnum jafnt sem ófrægum til þess að vígja nýlyft húsnæði sitt að Kvisthaga með glæsilegri aðstöðu fyrir heimasætur.

Athygli er vakin á nýlegri mynd í myndamöppu Samtakanna, undir Almennar myndir - af grímuklæddu fólki að hlaupum að næturþeli, og óvíst hvað því býr í hug. Kíkið á þetta. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband