Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Á leið til Berlínar

Nú eru 16 félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem óðast að ferðbúast og munu fljúga, eða eru flognir, til Berlínar, þar sem maraþon verður þreytt n.k. sunnudag kl.  9:00. Eðlilega eru menn spenntir og hlakka til viðburðarins. Við verðum þar í hópi 70 annarra Íslendinga, og 40.000 hlaupara annars staðar af jarðarkringlunni. Áætlað er að um ein milljón Berlínarbúa muni raða sér upp meðfram hlaupaleiðinni og hvetja hlaupara áfram. Þetta hlaup er víst engu líkt og verður sagt frá því í smáatriðum hér á bloggsíðu Hlaupasamtakanna þegar svo ber undir og við hæfi er.

En hlaup falla ekki niður. Í svo fjölmennum hópi sem vorum eru enn hlauparar sem vilja spretta úr spori og þeir hittast við VBL í dag stundvíslega kl. 16:30 og af nýju á sunnudagsmorgun kl. 10:10 - en á þeirri stundu verðum við á lokasprettinum í Berlín. Ekki væri verra þá að finna fyrir góðum hug og hlýjum bænum úr Norðrinu. Í gvuðs friði. Ritari.

Ekki frá mörgu að segja

Nei, þetta er orðið heldur magurt. Fólk hugsar bara um hlaup og undirbúning fyrir hlaup. Allnokkur hópur einstaklinga mættur - þjálfari Reynisson í borgaralegum klæðum. Aðrir góðborgarar mættir: dr. Friðrik, Þorvaldur, Flosi, Magnús, Benedikt, Birgir, Einar blómasali, Una, Rúna, Hjálmar, Ósk, Helmut, ritari, Margrét þjálfari - og svo tveir nýir hlauparar, annar þýzkur, hinn íslenzkur, og svo próf. dr. Fróði og ætlaði langt.

Boð gekk út um að hlaupa út að "dælu" - menn hváðu. Jæja, þá, Skítastöð, sagði þjálfari. Fara rólega, en taka svo 3-8 spretti 300 m langa. Í þetta skiptið voru allir rólegir nema Flosi, sem fór í fylkingarbrjósti og vaknaði grunur um að hann ætlaði að teygja Benedikt á hratt skeið. Það gekk ekki eftir, því að Kaupþingskappinn var bara stilltur.

Ákveðið að fara Hlíðarfót og taka sprettina frá Skítastöð. Menn tóku sæmilega á því og náðum við átta góðum þéttingum. Rætt um að fasta um kvöldið v. snemms hlaups næsta morgun. "Já, ég ætla líka að fá mér pasta í kvöld" sagði blómasalinn. Þegar menn gerðu honum ljóst að dagsskipunin væri fasta og ekki pasta, þyrmdi yfir hann og hann lagðist í þunglyndi. Hálfur tómatur með hálffylltu vatnsglasi. Vigtun í fyrramálið. Eftir hlaup sem hefst kl. 6:25. Í gvuðs friði.

Trappað niður fyrir Berlín

Svo stutt var hlaup dagsins að það var eiginlega búið áður en það hófst. Bjössi að prófa sitt fyrsta hlaup eftir meiðsli og gekk vel. Dr. Friðrik mættur og Þorvaldur, Magnús og fleiri góðir hlauparar. Fá orð sögð á stétt, ákveðið að fara Hlíðarfót. Farið hratt út og þá voru gamalkunnugir aktörar í aðalhlutverkunum. Kannski óþarflega hratt! En þetta tók hratt af og hlaupi lokið áður en maður vissi af. Og í ljósi þess að verstu orðhákar Samtaka Vorra voru víðs fjarri var fátt markvert sagt og ekkert af viti.

Stutt í potti og svo haldið til kynningarfundar í safnaðarheimili Neskirkju þar sem farið var yfir undirbúninginn fyrir hlaup og dagskrána. Undir lokin var ég orðinn svolítið smeykur vegna allra varnaglanna og viðvarananna fyrir hlaupið. Mesta athygli vakti þó matseðillinn á Matz og Moritz sem við ætlum að borða á eftir hlaup, þar er hægt að fá ekta þýzkt hlaðborð og stóra bjóra! Ef ég þekki mitt fólk rétt mun ásýnd stóra bjórsins leiða hlaupara síðasta spölinn, eins og hann gerir á föstudögum.

Sprettir á miðvikudag og svo aftur á fimmtudagsmorgun kl. 06:25 frá VBL. Í gvuðs friði. Ritari.

Berlín - 1 vika

Æfingarnar

Síðasta vikan! Nú skiptir öllu máli að hvíla. Farið ekki yfir 30 km í vikunni. Mánudagsæfingin má missa sín ef þið hafið tekið æfingu um helgina. Það getur samt verið gott að hreyfa sig, hjóla, synda eða fara í góðan göngutúr. Gerið samt ekkert sem þið hafið ekki gert áður og takið því umfram allt rólega. Reynið að hvíla og sofa eins mikið þessa vikuna og þið getið – og borðið reglulega. Farið ekki að standa í einhverjum stórframkvæmdum núna! Á miðvikudaginn er nauðsynlegt að taka svolítið á en þó ekki þannig að þið verðið eftir ykkur. Takið nokkra spretti á þægilegum hraða. Við leggjum áherslu á að æfing sé tekin á fimmtudagsmorgni á fastandi maga, eftir það byrjum við að „hlaða“ okkur. Við leggjum einnig til að þið SKOKKIÐ á laugardeginum í Berlín. Það er gott að láta blóðið streyma aðeins eftir ferðalagið daginn áður og hvíld síðustu tvo daga.

 
Æfingaráætlun

Mánudagur: Rólegt, 6-8 km.

Miðvikudagur: Sprettir, 7-8 km. 3-8x300 sprettir (60-75s), -60s hvíld á milli.

Fimmtudagur: Morgunhlaup 8-12 km. Hlaupið áður en þið borðið morgunmat.

Laugardagur: Létt skokk í Berlín 3-4 km.

Sunnudagur: Maraþon.

Ljótu hálfvitarnir! (á norðlenzku)

Fyrstir  á vettvang trúir kappar Hlaupasamtakanna, Flosi, Magnús og ritari. Stuttu síðar Einar blómasali. Allir í útiklefa. Einar glottandi með plastpoka fullan af bolum merktum Hlaupasamtökum Lýðveldisins og Kappa Fling Fling. Hann fór að draga upp úr þessu herlegheitin og menn vildu finna sínar stærðir. Eitthvað dróst að fá réttu stærðirnar, því að mest voru þetta small og medium stærðir. Jæja, einhver misskilningur. Öthugum þetta eftir hlaup. Verum glaðir og reifir og þreytum okkar hlaup af karlmennsku.

Hvað um það, mættir góðir hlauparar. Professor Keldensis, Vilhjálmur Bjarnason (önugur), Denni skransali, Rúna og Ósk - auk áðurnefndra í útiklefa. Vilhjálmur sá ástæðu til þess að veita aðkomumanni á stétt munnlega áminningu fyrir að reykja vindling við Brottfarartröppur Laugar Vorrar. Hann sagði: "Við erum fanatískir gegn tóbaki, en frjálslyndir gagnvart áfengi!" Svo mörg voru þau orð.

Á föstudögum eru engir þjálfarar og því engin ræðuhöld eða fyrirmæli. Aðeins fastmæli. Bundið að við förum hefðbundið, um bakgarða 107 og þannig út í Öskjuhlíð. Mikill mótvindur og leiðindi. Menn voru stirðir framan af og fóru fetið. Rætt um Berlín, mataræði, Cadbury´s, íbúfen 600 og annað í þeim dúr. Rætt um ástand hlaupara fyrir maraþonævintýrið mikla og almennt mat viðstaddra að ástandð væri að mestu gott.

Það er gott að hlaupa um bakgarða 107, vindur hægur, en svo var ekki undan því vikist að horfast í augu við storminn í Skerjafirði. Þar sagði próf. dr. Keldensis "og hefst nú hlaupið" - m.ö.o. var farið að auka hraðann. En menn voru sammála um að það væri með eindæmum leiðinlegt að í veðri eins og þessu.

Það er ljúft að hlaupa þegar maður er orðinn heitur og þannig var það er komið var í Hi_Lux. Menn spurðu Ósk hvort hún vildi heyra Hi_Lux söguna. Ég hef heyrt hana, sagði Ósk. En viltu heyra vaselínsöguna, sagði einhver. Já, ég vil heyra hana. Nei, hrópaði Flosi. Ekki segja þá sögu! Ekkert varð úr sagnaflutningi að sinni svo að Ósk á hana bara inni, bezt að Ágúst segi söguna.

Það var farið af hraði upp brekkuna og svo hefðbundið um Veðurstofuhálendi, Hlíðar, Klambra og Hlemm. Áhöld um hvort fara skyldi um Sæbraut eða Laugaveg, S. Ingvarsson fór Sæbrautina, við hinir Laugaveg og önduðum að okkur vindlingareyk og útblæstri bifreiða, auk þess að klöngrast gegnum þvögu útlendinga sem virtust vera á óljósu róli.

Gott hlaup og ánægja meðal hlaupara. Nú er frá tvennu að greina. Vilhjálmur kom í pott og malaði eins og köttur. Kvaðst hafa orðið mikillar menningar aðnjótandi. Hefði hlaupið um 101 og komið inn á menningarheimili með 200 ára menningarsögu í Reykjavík. Hvert er húsið? var spurt. Menn sátu sem þrumu lostnir lengi vel, þar til ritari sagði: var þetta heimili S. Líndal við Bergstaðastræti? Rétt, sagði V. Bjarnason, þú ert meiri helvítis fávitinn að hafa ekki séð þetta strax. Næsta spurning: hver eru tengsl téðs aðila við 200 ára menningarsögu Höfuðborgarinnar? Menn horfðu hver á annan enda með endemum snauðir að menningu, nema matar- og drykkjarmenningu - en á endanum sagði ritari: skyldi það tengjast Hinu íslenzka bókmenntafélagi? Rétt, sagði V. Bjarnason, þið eruð ljótu dj... hálfvitarnir að vita ekki svona einfalda hluti. Einhvern veginn fannst manni að frændi manns og vinur, Ó. Þorsteinsson, hefði þurft að vera viðstaddur til þess að rétta hlut okkar Vesturbæinga.

Allt í einu rann dagsfagurt ljós upp fyrir Magnúsi: aumingja Biggi, hann hefur misskilið þetta allt saman með bolina. Biggi okkar er eftir allt saman ekki framkvæmdasamur maður og kæmi líklega ekki miklu í verk ef ekki væri fyrir Unni sína. Greyið hann Biggi hefur lesið á stærðamerkingar bolanna og túlkað S sem stórt, L sem lítið, M sem mjög stórt, og XXL sem extra extra lítið. Af þeirri ástæðu sitja stæltir líkamir hlaupara Hlaupasamtakanna undir því háði að þurfa að hlaupa í bolum í barnastærðum í Berlín, og þar fyrir utan í ermalausum bolum sem þykir ekki hæfa karlmennum

Einhverjir ku kjósa að hlaupa í fyrramálið kl. 10 - gott mál. Aðrir munu hvíla. Í gvuðs friði. Ritari.

I am not feeling too well myself...

Nei, þetta var sagt í mesta þunglyndi, God is dead, Nietzsche is dead and... Nema hvað, þar sem ritari ekur heim tröðina að Vesturbæjarlaug til fundar við vin sinn, Helmut, til skrafs og ráðagjörða fyrir Berlín, mætir honum óvænt sjón: hópur glæsilegra og vaskra hlaupara leggur upp frá Lauginni, hvar kennzl mátti bera á eftirtalda: Flosa, Margréti, Benna, Eirík Ö. Dressmann, Bigga, Unu - en þó ekki Einar blómasala, sem betur fer. Og einhverja fleiri sem ég man ekki í svipinn. Ég skrúfaði niður rúðuna á farkosti mínum og hrópaði ókvæðisorðum að þeim, ók síðan sem leið lá í stæði.

Ég lá í potti í klukkutíma og beið þess að Helmut kæmi til skrafs og ráðagjörða - en hann kom ekki. Mér leið eins og strákunum sem voru að bíða eftir Godot, bara fáránlegar. Sem betur fer lá ég í heitu vatni. Við brottför sá ég Flosa koma tilbaka, og aðeins fjær, á Hringbraut sá ég Benna, Eirík og Margréti hlaupa líkt og þau hefðu ekki farið neitt mjög langt á klukkutíma. Hvað er að fólki? Er von maður spyrji? Hefðbundið á morgun. Í gvuðsfriði, ritari.

Hlaupið með storminn í fangið - fæddur nýr öskurapi

Það leit illa út með þátttöku í hlaupi dagsins, ritari sat lengi einn í Brottfararsal, og útlit fyrir að hann færi aleinn út að hlaupa í dag. Það rifjaðist upp hlutskipti hins einmana hlaupara, einsemdin og allt það. Þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í hálfsex fóru hlauparar að streyma að, fyrstur próf. Fróði, svo dr. Friðrik, og svo hver á fætur öðrum. Mæting allgóð þegar upp var staðið. Ég get svarið það að þjálfarinn er orðinn álíka önugur og Vilhjálmur Bjarnason, hann er alltaf jafn vantrúaður á okkur í upphafi hlaups, vantreystir okkur og telur ósennilegt að nokkur maður muni fara að ráðleggingum hans í hlaupinu. Hvað um það, hvass hópur bara brattur í hávaðaroki.

Á Ægisíðu fengum við storminn í fangið og próf. Fróði sagði: "Þetta er yndislegt!" Menn áttu greinilega í mestu erfiðleikum með að berjast gegn óveðrinu, því að ólíklegustu aðilar fóru fyrir hópnum á hröðu tempói. Stefnan sett á Öskjuhlíð þar sem ætlunin var að taka brekkuspretti. Á leiðinni uppgötvaðist að fleiri geta haft hátt en Birgir: nýr öskurapi fundinn, mágurinn Eiríkur sem virðist vera illilega smitaður af of miklum samvistum við venzlamanninn. Hann gapaði eitthvað um markaði, afkomur, peninga, bla bla bla - ég gaf í og smásaman hvarf vaðallinn eyrum mínum.

Farið upp í Öskjuhlíð og dokað við fyrir ofan Hi-Lux. Safnast saman og svo teknir léttir sprettir 100 m upp brekkuna. Þjálfarinn talaði um að við ættum að "líða" upp brekkuna. Birgir var snöggur sem meistari orðhengilsháttarins og spurði: líða áfram eða líða illa? Já þið getið haft það eftir ykkar höfði, sagði þjálfarinn, og klappaði Birgi á ... kollinn. Þið hafið það jafnan þannig (eitt dæmið um önuglyndið, brjóta hárlitla menn niður á veikleikum þeirra). Það var gaman að spretta úr spori þarna í brekkunni í Öskjuhlíð, við tókum eftir ferðum manna sem virtust ekki vera komnir í útivistarlegum tilgangi, miðaldra skeggjaðir menn á Volvo. Það bættist í hópinn þegar við vorum þarna í brekkunni, blómasalinn, Hjálmar og Ósk náðu okkur og áttu góðar rispur.

Eftir sprettina var farið á rólegu tempói tilbaka um skógarstíga og svo hjá Gvuðsmönnum og tilbaka þá leið stytztu leið tilbaka. Margt skemmtilegt í boði við Laug og í potti. Upplýst að upplýsingarfundur Berlínarfara verður haldinn eftir hlaup mánudaginn næstkomandi í safnaðarheimili Neskirkju, þar sem við förum yfir praktískt atriði varðandi hlaupið. Ennfremur mættur í pott próf. dr. poeta Skerjafjardensis. Hann kunni að segja af "munnstórum" hlaupara sem hann mundi ekki nafnið á, en hljóp með ungri kvinnu. Þetta hljómaði næstum eins og vísbendingaspurning, en við stóðum á gati, komum þessum hlaupara engan veginn fyrir okkur. Nema hvað, skáldið gagnrýndi hlauparana fyrir að vera að masa meðan á hlaupi stóð. "Ha!" sagði hlauparinn, "þetta sýnir bara hvað við erum í góðu formi, að geta bæði hlaupið og talað samtímis! - og varpaðu fram stöku um það, skáld!" Varð þá skáldi á orði:

Hlaupararnir halda af stað,
hyggjast minnka spikið.
Auðveldlega efnist* það
ef þeir tala mikið.

(*Fyrirvari um misminni.)

Mættur í pott Björn Nagli, meiddur en í margfaldri meðferð, með sjúkraþjálfurum, naglastingurum og lyfjakokkteilblöndurum. Bjartsýnn á þátttöku í Berlín. Rætt um veitingastaði og almenna þátttöku. Næst hlaupið á morgun (fyrir suma) - hefðbundið hlaup n.k. föstudag á hefðbundnum tíma. Huga þarf að hlaupara september-mánaðar. Hver kemur til greina? Leggjum höfuðin í bleyti.


Týndur sonur snýr aftur

Flosi hnusaði út í loftið í Brottfararsal og sagði: "Fussumsvei, ég finn lykt af prófessor Fróða." Gat það verið? Var sá týndi snúinn tilbaka? Um síðir sást lúinn maður stíga upp tröppurnar úr kjallaranum og báru sumir kennsl á prófessorinn, sem hefur ekki sézt að hlaupum um nokkurra vikna skeið og búinn að missa úr öll skemmtilegu, löngu hlaupin okkar. Aðrir mættir: dr. Friðrik, Magnús, dr. Jóhanna, Helmut, Una, Margrét, Þorbjörg, Benedikt, Eiríkur og ritari.

Mjög ströng fyrirmæli gengu út í dag um hlaup: bara stutt og taka létta spretti. Þeim sem ekki ætluðu í Berlínarhlaup var gefinn kostur á öðrum útleiðum. Farið á þéttu stími út að Skítastöð. Þar skiptist hópurinn í tvennt eða þrennt, einhverjir fóru á Nes, aðrir héldu áfram austur, og þéttur hópur afrekshlaupara tók spretti: 400 - 300 - 200 - 100 með einnar mínútu hvíld á milli - þrjú holl þannig. Ætlunin var að fara þetta á hálfmaraþonhraða, en þegar á reyndi var hraðinn AÐEINS meiri. Hvað eiga menn líka að gera þegar þeir finna orkuna og úthaldið? Ritari var ánægður að geta svona nokkurn veginn hangið í þeim Margréti, Benna, Eiríki og Unu. Þessir sprettir voru teknir á leiðinni um Hlíðarfót og hjá Gvuðsmönnum lauk seinasta holli og við fórum á hálfmaraþonskokki tilbaka.

Eftir á fréttist af hlaupurum sem fóru 10-12 km á tempóinu 4:40 - 5, sem er nokkuð gott og sýnir hið góða form hlaupara. Sjaldan betra, allir í góðu ástandi, lítið um meiðsl. Góður pottur.

Kom það á óvart er heim var komið og rýnt var í rúðuna: hver blasti við þar?

Tvær vikur í Berlín - farið að hægjast um

Æfingarnar
Næstu vikurnar er hvíld aðalmálið en við hættum þó ekki að hlaupa, við þurfum að halda okkur á hreyfingu. Við minnkum kílómetramagnið mikið. Flestir ættu að hlaupa í kringum 30 km í heild á þremur æfingum. Það er ekkert langt þessa vikuna og fram að maraþoninu. Allt slíkt er búið og hefur ekkert upp á sig, skemmir frekar. Hraðaæfingar eða sprettir eru til þess að halda okkur í góðu formi. Við eigum að rúlla áfram án mikillar áreynslu og fá það á tilfinninguna að við séum full af krafti. Þó við köllum þetta spretti á alls ekki að taka þetta á þeim hraða sem við erum vön að taka slíkar æfingar á, heldur á hraðinn að liggja nálægt hálfmaraþonhraðanum. Við teljum að það sé æskilegt að taka sprettæfinguna á mánudeginum og tempóæfinguna á fimmtu- eða föstudegi en brekkusprettirnir mega helst missa sín. Á mánudeginum er boðið upp á tvo valkosti
, annars vegar mislanga spretti (svolítið erfið æfing) og hins vegar 300m spretti (þægileg æfing).

Æfingaáætlun
Mánudagur: a. Sprettir, 9 km. 3x400m-300m-200m-100m (100s-75s-50s,-25s) með 60s hvíld á milli. b. Sprettir, 9 km. 10x300 (10x80s) með 60s hvíld á milli. 3 km upphitun og niðurskokk. Miðvikudagur: Brekkusprettir, 9 km. 5-8x80-100m (25-35s). 5 km upphitun og 3 km niðurskokk

Fimmtudagur/föstudagur: Tempó, 10 - 13 km. 6-8 km á hálf maraþonhraða (alls ekki hraðar). 2 km upphitun og niðurskokk.

Laugardagur: Rólegt, 7 km.

Matur
Einhverjir eru farnir að huga að því hvernig þeir eiga að haga matarræðinu fyrir hlaup. Það liggur ekkert á því alveg strax við hugum að því vikunni fyrir hlaup. Gerið samt engar tilraunir í matarræði núna. Borðið jafnt yfir daginn en ekki borða fáar stórar máltíðir þannig að þið standið á blístri. Æskilegast er að borða kolvetnisríkan mat fyrir hlaup en próteinríkan mat eftir hlaup.


Gjallarhornssýkin grefur um sig

Brunahringing kl. 9:03. Er ekki verið að hlusta? Samvizka þjóðarinnar og álitsgjafi á eternum. "Já, Vilhjálmur minn, það má ekki skrúfa frá útvarpsviðtæki hvort heldur er morgun, kvöld eða um miðjan dag - alltaf skal maður heyra í rödd þinni. Og þarna um daginn komstu allt í einu inn í Síðasta lag fyrir fréttir - með rangt svar!" Skellt á. Uppi eru áhyggjur af gjallarhornssýki sem bara ágerist.

Fáeinir góðir menn mættir til hlaups á sunnudagsmorgni: Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús Júlíus og Ólafur ritari. Sagt frá viðburðum umliðinna daga, ráðstefnum á Nordica og í Háskólabíói, veizlur í framhaldinu, kappleikur hjá Knattspyrnuliði Vesturbæjarins í ausandi regni. Menn voru bara rólegir í Brottfararsal og ekki lagt í hann fyrr en 10:15. Jafnskjótt og komið var á Ægisíðu brast á með slíku óveðri að jafnast á við það versta sem við þekkjum, með roki í fangið og rigningu.

Svo illa lagðist þetta veður í hlaupara að við lá uppgjöf - en öngu að síður var haldið áfram. Hins vegar var ritari eitthvað þungur og stirður á sér eftir 25 km hlaup gærdagsins svo að hann ákvað að hafa þetta bara stutt í dag, líta á þetta sem létta upphitun. Þessi tillaga hlaup hljómgrunn hjá öðrum og var farinn Hlíðarfótur og um leið var komin slík blíða, sólskin og logn. Við liðum um nýja háskólahverfið sem sprettur upp við Öskjuhlíðina og fórum hjá Gvuðsmönnum. Þannig vestur úr.

Við tók löng seta í potti með miklu mannvali, allt frá Óla Björgvins til Einars blómasala - og allt þar á milli. Langt er síðan þeir hafa sézt, próf. dr. Einar Gunnar og dr. Baldur Símonarson. Vegna þess hversu ört skipti um fólk í potti þurfti Ó. Þorsteinsson að segja helztu sögur nokkrum sinnum, og taldii ég mig heyra eina söguna í fimmta sinn áður en lauk. Menn setji daginn 15. desember á sig og búi sig undir heimboð. Meira um það seinna.

Hefðbundið hlaup á morgun kl. 17:30 stundvíslega.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband