Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
13.9.2008 | 17:04
Mætt í seinna lagi
Ritari undi sæll við sitt í morgun þegar Brunahringing glumdi við - á hinum endanum var Der Blumenverkaufer og var eins og himinn og jörðu væru að farast. "Hvar ertu? Ertu ekki að koma í hlaup?" Ég spurði á móti hverjir væru mættir - "allir". Allir er temmilega óljóst svar. Því grunaði mig strax að það væru ekki mjög margir mættir. Kvaðst mundu mæta seinna. Mér er tjáð að það hafi verið slúðrað nokkuð um ástæður fjarveru minnar og allt lagt út á versta veg.
Ég mætti um hálftíu og sá aðeins reyfið af Blómasalanum og Stráknum á Hjólinu í útiklefa og staðfestist þar með vissa mín um fámenni að hlaupum. Ég hafði myndina af Árbæjarlaug í kollinum og þangað skyldi stefnt um Fossvog og Goldfinger. Það er einmanaleg iðja að hlaupa einn. En það þýðir að maður er ekki truflaður af orðagjálfri og hávaðasömum hlaupurum, er út af fyrir sig með hugsanir sínar.
Við Stíbblu mætti ég Flosa, Unu, Hjálmari og Ósk - þó voru á leið tilbaka, fóru eitthvað um 27 km eftir því sem mér skilst. Ég hélt áfram upp úr og gerði stanz við Árbæjarlaug. Svo var þetta bara eftir bókinni niður Elliðaárdalinn, undir Breiðholtsbraut, um Laugardal og Sæbraut tilbaka til Laugar. Þar hitti ég fyrir Blómasalann og þau hin í potti, Benedikt, Hjálmar, Ósk, Flosa og Eirík. Tvær vikur í Berlín, spennan vex, menn spá í tíma. Hvernig verður þetta?
8.9.2008 | 21:50
Hvað er að fólki?
Það var stífur mótvindur á Ægisíðu og nokkurn veginn eins leiðinlegt veður og hugsast getur að hlaupa í, samt voru menn hvassir og fóru fremstir á hröðu tempói. Farið út að Skítastöð og svo tvístraðist hópurinn. Ég spurði blómasalann hvað hann hefði fengið sér í hádegismat. "Samloku með remólaði og róstbiff." "Þú meinar, með róstbiff og remólaði.." sagði ég. "Nei," sagði blómasalinn eins og handhafi sannleikans. "Með remólaði og róstbiff." Það kom sumsé í ljós að hann hafði gætt sér á samloku með miklu remólaði. Er komið var út í Skítastöð var samlokan komin upp í vélindað, og virtist ekki vera á niðurleið. Ég varð samferða Flosa, blómasalanum og Friðriki aftur vesturúr og var aðalumræðuefnið samlokur og mismunandi gerðir áleggs og salats. Einnig var bryddað upp á bókmenntaumræðu, þar sem greint var frá manngerð sem er ljósfælin og mannfælin að degi til, en "vulkanaktig i könslivet" om natten. Gullkorn.
Það var farið afar hægt og sóttist okkur hlaupið seinna eftir því sem lengra dró, ásetningur um þétting á Ægisíðu féll niður, en Flosi geystist áfram og skildi okkur eftir í reykmekki, dr. Jóhanna og Helmut þar fyrir framan. Það er ekki gott að hlaupa með blómasalanum, það er bara talað um mat og allur taktur fer úr skorðum og maður slappast og verður þreyttur. Þegar kom að Hofsvallagötu hætti blómasalinn og sagðist vera orðinn veikur, samlokan væri komin upp í háls. Friðrik fór með honum til Laugar. Ritari hélt áfram á Nes á eftir Flosa og dr. Jóhönnu og Helmut. Það var svo búið að brjóta mann niður að maður slampaðist einhvern veginn áfram.
Ég var kominn á Suðurströnd þegar ég heyri í ökuföntum koma á ofsahraða eftir götunni og lágu á flautunni. Er þetta einhver sem vill ná sambandi við ritara, spurði sig ritari. Leit upp og sá glaðbeitt andlit blómasalans skína eins og tungl út um bílrúðuna á einhverri sportgræju. Sá ekki vel hver sat í farþegarsætinu. Held áfram og hugsa með mér: Nú! Hann var þá ekki veikari en þetta! Nema hvað, þegar ég er að koma að Lindarbraut kemur þessi sportbifreið á sama ólöglega hraða á móti mér og sá ég þá að dr. Friðrik sat í farþegasætinu og veifaði. Hvað er að fólki? hugsaði ég. Hætta hlaupi tl þess að fara að þenja sig á sportbíl.
Ég upp Lindarbraut og bara þreyttur. Norðanmegin sé ég Flosa teygja og við tökum sprett tilbaka. Nú sást hvað það skiptir miklu með hverjum maður hleypur: hvort það er feitur og latur blómasali, eða frískur og kraftmikill unglingakennari úr Vestbyen, það var sem sagt tekinn þéttingur frá Lindarbraut og alla leið að Grandavegi, tempóið 4:45. Eftir það lulluðum við tilbaka og komum tímanlega til að hitta fyrir Bjarna - og stuttu síðar komu Helmut, dr. Jóhanna, og Rúnar, Margrét og Eiríkur, höfðu tekið fyrrgreinda spretti, samtals 8 km, sem er ekki mikið, og eiginlega ekki til þess að segja frá.
Fólk er almennt í góðu formi og spennan vex fyrir Berlín. Stefnan að Hjálmar og Ósk panti fyrir okkur veitingastað eftir hlaup - því er nauðsynlegt að vita hversu margir vilja vera með í málsverði eftir maraþonið. Sömuleiðis þarf að huga að e-u kvöldið fyrir hlaup, góðri pastaveizlu, Helmut og Jóhanna tékka á því. Meira seinna. Í gvuðs friði. Ritari.
8.9.2008 | 14:37
Hlaupaáætlun - 3 vikur í Berlín
Nú eru einungis 3 vikur í Berlín og tími til kominn að hvíla. Mörgum finnst þetta vera erfiðustu vikur æfingaáætlunarinnar. Fólk verður stressað og finnst að það hafi ekki æft nóg og/eða því finnst að það sé fullt af orku og vill taka á. En það er ekki hægt að bæta miklu við, það er miklu nauðsynlegra að hvíla sig. Líkaminn er slitinn og þarf að ná sér áður en hann tekst á við maraþonið. Æfingar á næstu vikum eru fyrst og fremst hraðaæfingar til að halda okkur í formi og láta fætur ekki stirðna. Farið samt varlega og hlustið vel á líkamann, það er betra að taka því rólega núna en að hætta á meiðsli. Við skerum kílómetramagnið hratt niður þessar vikurnar. Þið sem hafið verið að hlaupa í kringum 80 km ættuð að fara langleiðina niður í 50 km (4 æfingar) og þið sem hafið verið í kringum 60 niður í 40 km (3 æfingar). Við eigum ekki að hlaupa mikið í einu fyrir utan næsta laugardag, en þá er síðasta langa hlaupið 25 27 km. Efir áreynslu síðustu viku ætti sú vegalengd ekki að vefjast fyrir neinum. Mánudagsæfingin er með þremur möguleikum: a. sprettæfingar, b. langt interval fyrir þá sem treysta sér ekki í spretti en vilja taka á, c. rólegt hlaup fyrir þá sem treysta sér í hvorugt og eru stirðir eftir langa hlaupið um helgina. Setjið samt nokkra þéttinga inn í hlaupið.
Æfingaáætlun
Mánudagur: a. Sprettir 8-10 km. 3-4x5x200. 40-50s hver sprettur. 30s hvíld á milli. 120s hvíld á milli 5, 10 og 15. 2-3 km upphitun og niðurskokk.
b. Interval 8-10 km. 5x1 km, 4:00 4:30. 90s hvíld á milli. 2-3 km upphitun og niðurskokk.
c. Rólegt hlaup 10-12 km, með nokkrum þéttingum.
Miðvikudagur: Brekkusprettir 9 - 10 km. 6-12x80-100m (25-35s). 5 km upphitun og 3 km niðurskokk.
Fimmtudagur eða föstudagur: Rólegt 5 7 km.
Laugardagur: Langt og rólegt 25 27 km. Hluti af leiðinni má vera á maraþonhraða.
Drykkir í BerlínÍ Berlín er bara boðið upp á vatn og te. Það er að vísu hægt að láta koma fyrir eigin blöndu á drykkjarstöðvum, en það eru mismunandi skoðanir er á því hvort það gangi upp eða ekki. Hægt er að hlaupa með belti og ættu birgðirnar að duga í helming hlaupsins. Í beltinu væri einnig hægt að vera með nokkur gel. Seinni hluta hlaupsins yrði maður að notast við vatnið. Kosturinn við þessa aðferð er að þið losnið við örtröðina á vatnsstöðvunum til að byrja með. Ókosturinn er að hlaupa með beltið sem gæti orðið pirrandi til lengdar. Best væri ef hægt væri að losa sig við beltið þegar ekki væri þörf á því lengur. Önnur aðferð væri að taka með sér flösku með íþróttadrykk sem notaður er á fyrstu 5 15 km og síðan hent en einnig vera með 2-4 bréf af geli í buxnastrengnum, vösum eða í gelbelti, sem skolað er niður með vatni á vatnsstöðum frá 15 35 km og enda síðan bara á vatni!
Í staðinn fyrir að hlaupa!
Eins og áður segir er nauðsynlegt að hafa hemil á sér það sem eftir er. Við þurfum hvíld. Ef ykkur leiðist skoðið þá frekar kortið, farið í gegnum hlaupið í huganum og farið á Google Earth og skoðið leiðina. Finnið út hvar þið búið. Skoðið einnig gögnin sem þið hafið fengið send heim. Hugsið um hvað þið ætlið að borða, hvernig þið ætlið að haga drykkjum, athugið hvort allur búnaður sem þið ætlið að nota sé til staðar og í lagi. Vantar ykkur gel, vaselín, fótakrem? Að hugsa um hlaupið og skipta því niður í huganum á eftir að hjálpa ykkur í hlaupinu sjálfu, það hefur sýnt sig. Það er gott að finna sér kennileiti á kortum og þegar þið farið í sjálft hlaupið þá á það eftir að hjálpa ykkur að staðsetja ykkur. Að geta séð hvað er eftir í huganum eða hvernig næsti áfangi mun vera hefur miklu meiri áhrifa en að vita hversu margir kílómetrar eru eftir eða eru búnir.
Frá þjálfurum | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2008 | 18:38
Lofræða
Ritari vitrari?
Mér finnst rétt að ritari vor fái aðeins aðhald hér á blogginu okkar
og einoki ekki einn þennan ágæta vettvang vorn fyrir hlaupatengda lífsspeki í bland
við annað.
Mér féll í fyrstu ekkert sérlega vel við þennan mann sem virtist ekki
víla það fyrir sér að nefna mann ýmsum nöfnum fjölskyldu minni, aldraðri móður og
fjarskyldum frænda til mikillar undrunar. En þetta átti eftir að breytast.
Ég hafði heldur ekki mikið álit á honum sem hlaupara. Taldi raunar að
hlaupin væru aðeins yfirskin til að geta fengið útrás á okkur eymingjunum.
Þegar ég svo sé manninn (Ólaf riddara, nei ég meina ritara) hlaupa
heilt maraþon í fyrra án þess að blása úr nös og ausa úr brunni visku og kærleika yfir
okkur minni hlaupara, fór ég að sjá hið stóra samhengi hlutanna.
Ólafur er einfaldlega hinn fullkomni leiðbeinandi sem leiðir oss á
hina þrengri og vandrataðri stigu hlauparans. Hann hefur í rólegheitum bent okkur á
með góðu fordæmi að þær stundir koma að við þurfum að slaka aðeins á, taka
langt með smá tempói þegar þjálfarinn segir brekkusprettir, vegna þess að líkami
vor segir okkur það.
Samt sem áður hefur Ólafur af sinn meðfæddu diplómasíu náð að fylgja
þjálfurum að mestu og er af sanngirni farinn að mæla með því að við hlýðum þeirra
fyrirmælum. Þó aldrei svo að við lokum eyrunum fyrir því sem líkami vor hefur að
mæla.
Ferfalt húrra fyrir Ólafi, Rúnari, Möggu, Hauki (sem kom þjálfurunum af atvinnuleysisbótunum) og okkur öllum hinum sem erum að fara til Berlínar nú í lok september
2008!
Biggi jógi
6.9.2008 | 16:08
Toppað fyrir Berlín - hlaupið kringum Elliðavatn
Mikill hugur í fólki - lögð áhersla á að menn mynduðu hópa og héldu sig í þeim, enda vitað fyrirfram að sumir færu hraðar en aðrir. Það er þægilegra að verða samferða öðrum upp á það að halda uppi tempói og rata rétta leið. Lagt í hann á hægum hraða. Veður var hreint með eindæmum, logn, hiti 10 stig, bjart - en regn hékk í loftinu. Gerist ekki betra. Við héldum hópinn framan af, en svo var fólk orðið óþolinmótt og það slitnaði á milli. Fremst fóru Rúnar, Margrét, Benedikt, Bjössi, Biggi og hinn nýi hlaupari. Þar á eftir vorum við Friðrik á góðu róli. Á eftir okkur komu svo blómasalinn, Rúna, Ósk og Hjálmar. Flosi hjólaði svo milli hópa og bar drykki í menn.
Þetta urðu nokkurn veginn hóparnir sem mynduðust og héldust, með smávægilegum tilfærzlum þó. Friðrik er sprettharður hlaupari og það var erfitt að halda í við hann, þó gerði ég það inn Fossvog, inn í Elliðaárdal og upp úr dalnum, í Víðidalinn. Er við komum að Breiðholtsbraut mættum við Bigga. Bjössi hafði skilið hann eftir með þeim orðum að hann ætlaði hægt, "þú nærð mér". Biggi var vatnslaus og orðinn þyrstur, hafði treyst á að aðrir björguðu sér með vatn, annað hvort Flosi eða Bjössi. En það er erfitt að treysta á aðra en sjálfa sig í hlaupi, það getur verið góður spotti í vatn þegar maður er orðinn þyrstur.
Við Birgir vorum með gel og punduðum á okkur, ég var búinn með tvo pakka um mitt hlaup. Um það leyti sáum við einkennilega sjón: Bjössi stóð kyrr á vegi og talaði í telefón sem Flosi hafði léð honum. Okkur heyrðist hann vera að panta akstur. Í ljós kom að hann hafði að eigin mati tognað og var ófær um að halda áfram. Hér voru meiðsli á ferð sem settu þátttöku í Berlín í fullkomna óvissu. Vonandi nær Björn að fá úrlausn sinna mála og kemst á rétt ról aftur með aðstoð góðs sjúkraþjálfara. Við skildum við hann og héldum áfram ferð okkar með vatninu.
Byggð er orðin mikil við austanvert vatnið, þar verður villugjarnt af þeim sökum, því umhverfið er breytt frá því við vorum þar síðast. Því tók við þvælingur þegar við ætluðum að skella okkur aftur niður í Víðidalinn, en það hafðist á endanum, og við settum á fullt stím niður í Elliðaárdal, farið allhratt, þeir Friðrik og Birgir á undan mér. Við hittumst svo aftur við Árbæjarlaug þar sem við stoppuðum fyrir teygjur, vatn og gel. Aftur haldið áfram og farið á tempóinu 5:13 niður Elliðaárdal - við vorum knúnir áfram af tilhugsuninni um sjóbað sem ákvörðun var tekin um að bjóða upp á við komu í Nauthólsvík. Sem fyrr var ég skrefinu á eftir þeim kumpánum - en Friðrik viðurkenndi eftir á að tempóið hefði verið fullhratt.
Ritari viðurkennir að hann er í mun betra formi nú en fyrir maraþonið í fyrra - fór alla leið án þess að finna til þreytu eða orkuleysis. Áður þurfti hann iðulega að stoppa og ganga langa speli sökum þreytu eða vegna þess að hann hafði ekki þrek til að halda áfram. Nú er allt annað upp á teningnum. Ekki leikur vafi á því að þetta er vegna þess að hann hefur getað æft án truflunar í allt sumar og að hann hefur við æfingar að einhverju marki haft hliðsjón af leiðbeiningum þjálfara og ekki að öllu leyti verið með mótþróa eða andóf þegar settar hafa verið hugmyndir um æfingar.
Það var sama stímið inn Fossvoginn og verulega ljúft að finna að maður átti enn heilmikið eftir á batteríunum. Stoppað í Nauthólsvík, þar stripluðu Birgir og Friðrik á plani og nutu hins svala sjávar. Ég skellti mér einnig í svala ölduna og leið vel. Svo var haldið áfram - við eins og spýtukallar fyrstu metrana vegna kælingarinnar, en svo var bara sett í fluggírinn og farið á 5:10 tilbaka, sem sýnir betur en nokkuð annað hvers konar formi maður er í. Er kom á Ægisíðu leið Birgi ekki nægilega illa svo að hann, trúr hugsjónum Samtaka Vorra, setti á fullt og reif sig fram úr okkur og endaði með fantagóðum þéttingi.
Við hittum nokkra hlaupara í Laug. Þau Einar og kompaní höfðu villst við vatnið og breyttu leiðinni, fóru 32 á endanum, en þó skal það sagt Einari til hróss og til staðfestingar á karaktér hans, að hann lengdi er komið var til Laugar og fór á endanum 35 km. Við hittum einnig Rúnar sem virtist býsna ánægður með frammistöðuna í dag.
Legið í potti um sinn og mál rædd. Nú er erfiðasta undirbúningi fyrir Berlín lokið, menn eru sáttir og tilbúnir að þreyta raunina. Birgir lofaði að semja lofrullu um ritara og verður hún birt jafnskjótt og hún berst.
5.9.2008 | 20:45
Létt upphitun á föstudegi fyrir langt
Í Brottfararsal höfðu menn áhyggjur af mataræði manna í hádeginu, frétzt hafði af manni sem fékk sér 3 bita af KFC kjúlla, baunastöppu, sveskjur og rúsínur - og raunar kom í ljós að þetta var bara byrjunin. Menn rifjuðu upp mynd sem Halldór P. Þorsteinsson hafði sent fyrr um daginn af óheppnum hlaupara. Er komið að því að við upplifum eitthvað svipað í okkar hópi? Hvað um það, rifjuð upp saga frá upphafsárum maraþonhlaupa þegar menn sem þurftu að gera númer tvö brugðu sér inn í húsagarða, leystu niður um sig og létu vaða. Þetta kallar maður að kunna að bjarga sér.
Það var algjör samstaða um það að fara hægt og rólega, taka þetta hlaup sem upphitun, nánast sunnudagsgöngu. Við vorum eins og Grundargengi á sunnudagsmorgni, og vantaði bara göngugrindurnar. Enda átti þetta bara að vera upphitun fyrir morgundaginn, þegar við förum 35 km. Nú er byrjað að breikka hlaupastíginn á Ægisíðu og er það ánægjulegt - minna ánægjulegt að hann á greinilega að liggja nær götunni, þannig að við getum örugglega hlaupið í menguninni frá bílatrafíkinni. Gaman, gaman!
Smásaman bættum við í hraðann og um miðja Ægisíðu vorum við komnir á góðan skrið. Ljóst var að Denni og Flosi ætluðu ekki að hlaupa langt á morgun, þeir geystust fram úr okkur hinum og fóru hratt. Við Einar héldum hópinn og ræddum um kjúklínga, sem Einar kallar skíthoppara. Hann fór vandlega yfir matseðil dagsins og kvartaði reglulega yfir því að hann væri farinn að segja til sín og hafa áhrif á hlaupagetu. Aftur og aftur varð að stoppa vegna þess að maginn í blómasalanum var ósammála viljanum til að hlaupa.
Við urðum snemma ásáttir um að fara stutt og hægt. Fórum um Nauthólsvík, upp Hi-Lux (spurt: hvar er Ágúst?), þráðbeint upp að Perlu og svo niður Stokk, hjá Gvuðsmönnum og þá leið tilbaka. Flosi var eins og ólmur hestur og tók hvað eftir annað á sprett og skildi okkur eftir, greinilega kominn tilbaka sem seríös hlaupari. Hann valdi leiðina tilbaka, um Vatnsmýri, yfir brýr og fen hjá Norræna húsinu, yfir um hjá Vigdísi og þannig til Laugar. Þetta var ljúft hlaup og létt og góð upphitun fyrir morgundaginn. Spurt var hvort menn mættu neyta bjórs fyrir morgundaginn. Ritari áréttaði áður út gengin fyrirmæli um algjört bindindi. Magnús mættur kvefaður í pott. Fram yfir Berlín. Sjáumst í fyrramálið, mæting kl. 8:30.
5.9.2008 | 20:08
Könnun á marathon.is - nokkur snilldarleg svör
Myndi það henta þér að hafa hlaupið á öðrum tíma, og ef svo, hvenær?
Sé ekki að neinn svarmöguleikanna eigi við.
Ég hefði kosið að svara þessu t.d.:
1) Já ég hefði kosið að hlaupa á betri tíma.
2) Já ég hefði kosið að hlaupa í fyrra því ég var í betra formi.
3) Ég hefði kosið að vera betur vaknaður seinna að deginum.
4) Mér myndi henta að hafa hlaupið t.d. á morgun, sé ég í betra formi.
5) Mér myndi hafa hentað að verið hafa uppi á öðrum tímum - með öðrum mönnum.
6) Mér myndi henta að líða best þegar mér líður illa.
Þ.G.
Gullkorn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2008 | 22:29
Ég heiti Léttfeti - ég er færleikur
Sumir hlaupa til að gleyma (Benedikt), sumir borða til að gleyma (blómasali) - ég hleyp til að hugsa. Svona eru mennirnir ólíkir, líkt og hlaup dagsins sýndi með ótvíræðum hætti. Frá því og fleiru er sagt hér á eftir.
Það er liðin tíð að fáein örvasa gamalmenni safnist saman til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, nú eru það harðsnúnir og harðskeyttir alvöruhlauparar sem taka af innlifun á viðfangsefnum dagsins. Í Brottfararsal voru pokar frá Bigga fullir af gelbeltum, treyjum, geli, sokkum o.fl. Hann var að sýna okkur þetta. Menn rifu þetta til sín og tæmdu allt, Biggi greyið náði ekkert að nótera hjá sér - nú bíður hans að sjá hvort menn eru svo heiðarlegir að gefa upp hvað þeir tóku. Menn fóru að máta, það sást í bert hold.
Hlauparar eru misjafnir og þarfir þeirra eru ólíkar. Áætlun þjálfara gekk út á stutt hlaup og snarpt, 12-15 km með tempói. Ritari hafði þörf og löngun fyrir lengra, búinn að birgja sig upp af geli og drykkjum. Ákveðinn í að fara 24. Einhverra hluta vegna vakti þessi ætlan ekki fögnuð á Brottfararplani og þjálfari brást ókvæða við, taldi þetta óráð og uppskrift að meiðslum. Ritari þekkir hins vegar eigin líkama bezt sjálfur og veit hvað er gott fyrir hann og ákvað að halda sig við sín plön. Skrokkurinn hreinlega öskraði á langt í dag. Við það sat.
Blómasalinn hafði lofað að koma langt með mér, en mætti tómhentur í hlaup og var bara hissa. Sveik gefin loforð og fór stutt. Ekki aðrir sem gáfu kost á sér í langt og því útlit fyrir að ég yrði einn í dag. Lagt í hann og farið austurúr um Sólrúnarvelli og inn í Nauthólsvík. Við Skítastöð gerðu sumir hlauparar stanz, en aðrir héldu áfram á hægu. Ég tíndi þau upp hvert af öðru, Villa, Helmut, dr. Jóhönnu, Rúnu, Bjarna og skildi þau svo eftir einhvers staðar við Kringlumýrarbraut og lagði í hann. Í Fossvoginum náði Rúnar mér og ítrekaði þá skoðun sína að ég ætti ekki að fara 24. Svo heyrði ég fnæsið í Benedikt að baki mér, en leiðir skildi við Víkingsvöll, ég upp í Kópavoginn, þeir beygðu í hina áttina og kunna að hafa farið Stokk, 16 km. Hver veit?
Ég fór sumsé í Kópavoginn og hjá Goldfinger. Á þessum kafla var líðan góð. Þegar ég kom í Mjóddina furðaði ég mig á því hversu hratt þessu yndi fram, ég hafði liðið áfram frá Vesturbæjarlaug í rómantískri tryllingu eða e-i fjarrænni firð og meðvitundarleysi. Hvað er að gerast, hugsaði ég með sjálfum mér. Engin þörf að stoppa við benzínstöð - farið áfram upp í Stekkina og yfir í Elliðaárdal. Þar fékk ég mér fyrsta gelskammtinn, kláraði eitt bréf. Drakk vel með. Hélt svo áfram upp að Árbæjarlaug. Hefðbundinn stanz með heimsókn á klósett, bætt á brúsa. Bætti á mig öðru gel-bréfi. Og haldið áfram.
Ég leið áfram niður Elliðaárdalinn og nýtti tímann til þess að huga að ýmsum framfaramálum er lúta að menntun í Lýðveldinu. Ekkert er jafn hreinsandi og hlaup. Hinn innri maður fer í gegnum algjöra hreinsun og stólpípu er ekki þörf. Hugurinn hreinsast og heiðríkja er yfir hugsuninni. Þetta er einn af meginkostum hlaupa, styrking andans. Jæja, hvað um það, heilsan var bara góð alla leið niðurúr og undir Breiðholtsbrautina. Fór sem leið lá um Miklubraut, stoppaði á Olís-stöðinni við Álfheima og bætti á brúsa. Áfram um Laugardal, Teiga og niður á Sæbraut. Þar hvarflaði að mér að ég væri líkari hrossi en manni, þvílíkt var tempóið. Faxið flaksaði í vindinum. Ég fór að humma línurnar úr lagi Hallbjörns um Léttfeta og þá frændur alla.
Kom til Laugar þegar klukkuna vantaði u.þ.b. 10 mín. í átta. Hitti fyrir þá kumpána Eirík og Benedikt og þeir voru orðlausir af aðdáun á þessum ofurhlaupara. Gekk innar og hitti fyrir þær frænkur Öfund og Afbrýðisemi, AKA Flosa og blómasalann. Þeir veittust að mér með andstyggilegheitum og sögðu að hlaup mín hefðu ekkert með hugsun að gera, ég væri bara að reyna að ná af mér ístrunni! Eftir þetta mætti ég Helmut, sem á alltaf til huggunarrík og uppbyggileg orð handa félögum sínum. Var einn í potti og hugsaði mitt ráð. Er ég gekk frá Laugu leið mér eins og ég væri að koma af léttu skokki á Ægisíðu. Meiðsli, my ass!
1.9.2008 | 21:30
Er síðasti Framsóknarmaðurinn útdauður?
Áætlun fjórðu viku liggur fyrir. Það skyldi farið stutt og snöggt. Mættir helztu Berlínarfarar nema Helmut og dr. Jóhanna, og menn er farið að lengja eftir prófessor Fróða sem alltaf er hugvitssamur og hugmyndaríkur þegar finna þarf góðar hlaupaleiðir að hausti. Menn hugleiddu hvort ekki væri tímabært að hann mætti í vinnu. Jú, er það ekki, spurði einhver, er ekki kennsla komin á fullt uppi á Melakleppi? Ja, er hann í svo mikilli kennslu þessi missirin? Já, nei, þá getur hann náttúrlega dulist langt fram á haust án þess að nokkur sakni hans. Þannig gekk dælan.
Meðal merkra viðstaddra skulu nefndir þeir dr. Karl og dr. Friðrik, Magnús tannlæknir, Þorvaldur, Flosi, Benedikt, Björn, Eiríkur, Hjálmar, Rúnar, Birgir, Una, Rúna, Einar blómasali og á endanum komu Ósk og Bjarni hlaupandi. Og að sjálfsögðu ritari og Vilhjálmur. Þjálfari gaf upp leiðarlýsingu, skv. hefð út að Skítastöð, sem ekki má kalla Kúkatanga eða Skeljungsstöð. Stöðva þar og bíða nánari leiðbeininga, þ.e.a.s. þeir sem vildu vera innan áætlunar. Þessi hlaupari hafði hins vegar ákveðið fyrirfram að fara lengra en áætlun gerði ráð fyrir, 69. Menn voru furðu lostnir yfir þessu og töldu djarflega hugað að hlaupi. Aðrir áætluðu að taka spretti, ekki segir af þeim hér, ritari missti af þeirri skemmtun.
Á leið í Skerjafjörðinn var rætt um undirbúning að Berlín, m.a. bindindi það sem innleitt hefur verið og aðrar viðlíka aðgerðir, en þær virðast hafa komið mörgum í opna skjöldu og sumir sem virðast ekki vera fyllilega sáttir við svo eindregnar kröfur. Er kom á leiðarenda hélt ég áfram og lét háðsglósur félaga minna sem vind um eyru þjóta. Heyrði skömmu síðar í hlaupara að baki mér og var þar kominn Bjarni og var ákveðinn í að fara 69 með ritara. Í Nauthólsvík var staldrað við vatnspóst og fékk ég mér orkugel, sem ég hef ofurtrú á þessar vikurnar. Svo var haldið áfram í Fosvoginn á góðu tempói. Þar mættum við Sif Jónsdóttur langhlaupara og félögum hennar, hún virtist hins vegar svo tekin af hlaupi að hún sá okkur ekki. Við áfram.
Við fórum hefðbundið og vorum bara í góðum gír, yfir árnar og aftur tilbaka. Um Laugardalinn og niður á Sæbraut, þar vorum við rétt lentir undir bíl sem kom á miklum hraða niður Kringlumýrarbraut, ökumaðurinn náði að hægja á sér, en þótti vissara að þeyta flautuna svona eftir á, rétt til að leggja áherslu á rétt sinn til að aka greiðlega um Borgarlandið. Ekki var bilbug á okkur að finna á Sæbraut og bara þeyst áfram. Lukum hlaupi heilu og höldnu og bara í góðum fíling. Í potti lágu félagar okkar og voru gleiðgosalegir rifjuðu upp kúrekasöngva Hallbjörns Hjartarsonar.
Næst verður farið langt. Í gvuðs friði, ritari.
1.9.2008 | 15:35
Æfingaáætlun fjórðu viku
Æfingarnar
Þetta er erfið vika með miklu kílómetramagni og lengsta hlaupinu sem þið takið fyrir Berlín eða 30 til 35 km. Ekki fara mikið yfir þrjá tíma. Flest ykkar ættu að vera með fimm æfingar (ef þið viljið taka sex æfingar eins og sum ykkar hafa verið að gera hafið hana þá rólega og ekki yfir 10 km. 6 8 km er fínt, helst sem morgunhlaup). Ef þið eruð þreytt getið þið stytt millilanga hlaupið um nokkra kílómetra. Fyrir langa hlaupið á laugardaginn þurfið þið að vera búin að ákveða hvað þið ætlið að drekka í Berlín. Notið ekkert nýtt í Berlín og þá meinum við allt, skó, föt, nærföt, sokka, húfur, salva, gel og drykki. Ef þið þurfið að endurnýja eitthvað fyrir Berlín gerið það þá í þessari viku og prufið það í næsta langa hlaupi.
Æfingaáætlun
Mánudagur: Sprettir eða þéttingar, 10 12 km. 5 km upphitun og 2 km niðurskokk. 6-10x400m. Ekki taka þá á fullri ferð (90s 100s 110s - 120s). Hafið góða hvíld á milli spretta, allt upp í 60s. Þeir sem treysta sér ekki í spretti ættu að setja 4-6 2 mín. þéttinga inn í hlaup dagsins.
Miðvikudagur: Tempó, 12 15 km. 3 km upphitun og 2 niðurskokk. 8 12 km tempó á hálf maraþon hraða ekki hraðar.
Fimmtudagur: Brekkusprettir, 10 12 km. Löng upphitun 5 km og 4 km niðurskokk. Stutt brekka 8 12 sprettir (30-40s hver).
Laugardagur: Langt og rólegt, 30 35 km. Ekki fara mikið yfir 3 tíma. Þið megið gjarnan setja inn örlítið hraðari kafla. Drekkið á leiðinni og borðið eins fljótt og þið getið að hlaupi loknu.
5 æfingin: Rólegt, millilangt, 14 17 km. Styttið ef þið eruð orðin mjög þreytt.