Ljótu hálfvitarnir! (á norðlenzku)

Fyrstir  á vettvang trúir kappar Hlaupasamtakanna, Flosi, Magnús og ritari. Stuttu síðar Einar blómasali. Allir í útiklefa. Einar glottandi með plastpoka fullan af bolum merktum Hlaupasamtökum Lýðveldisins og Kappa Fling Fling. Hann fór að draga upp úr þessu herlegheitin og menn vildu finna sínar stærðir. Eitthvað dróst að fá réttu stærðirnar, því að mest voru þetta small og medium stærðir. Jæja, einhver misskilningur. Öthugum þetta eftir hlaup. Verum glaðir og reifir og þreytum okkar hlaup af karlmennsku.

Hvað um það, mættir góðir hlauparar. Professor Keldensis, Vilhjálmur Bjarnason (önugur), Denni skransali, Rúna og Ósk - auk áðurnefndra í útiklefa. Vilhjálmur sá ástæðu til þess að veita aðkomumanni á stétt munnlega áminningu fyrir að reykja vindling við Brottfarartröppur Laugar Vorrar. Hann sagði: "Við erum fanatískir gegn tóbaki, en frjálslyndir gagnvart áfengi!" Svo mörg voru þau orð.

Á föstudögum eru engir þjálfarar og því engin ræðuhöld eða fyrirmæli. Aðeins fastmæli. Bundið að við förum hefðbundið, um bakgarða 107 og þannig út í Öskjuhlíð. Mikill mótvindur og leiðindi. Menn voru stirðir framan af og fóru fetið. Rætt um Berlín, mataræði, Cadbury´s, íbúfen 600 og annað í þeim dúr. Rætt um ástand hlaupara fyrir maraþonævintýrið mikla og almennt mat viðstaddra að ástandð væri að mestu gott.

Það er gott að hlaupa um bakgarða 107, vindur hægur, en svo var ekki undan því vikist að horfast í augu við storminn í Skerjafirði. Þar sagði próf. dr. Keldensis "og hefst nú hlaupið" - m.ö.o. var farið að auka hraðann. En menn voru sammála um að það væri með eindæmum leiðinlegt að í veðri eins og þessu.

Það er ljúft að hlaupa þegar maður er orðinn heitur og þannig var það er komið var í Hi_Lux. Menn spurðu Ósk hvort hún vildi heyra Hi_Lux söguna. Ég hef heyrt hana, sagði Ósk. En viltu heyra vaselínsöguna, sagði einhver. Já, ég vil heyra hana. Nei, hrópaði Flosi. Ekki segja þá sögu! Ekkert varð úr sagnaflutningi að sinni svo að Ósk á hana bara inni, bezt að Ágúst segi söguna.

Það var farið af hraði upp brekkuna og svo hefðbundið um Veðurstofuhálendi, Hlíðar, Klambra og Hlemm. Áhöld um hvort fara skyldi um Sæbraut eða Laugaveg, S. Ingvarsson fór Sæbrautina, við hinir Laugaveg og önduðum að okkur vindlingareyk og útblæstri bifreiða, auk þess að klöngrast gegnum þvögu útlendinga sem virtust vera á óljósu róli.

Gott hlaup og ánægja meðal hlaupara. Nú er frá tvennu að greina. Vilhjálmur kom í pott og malaði eins og köttur. Kvaðst hafa orðið mikillar menningar aðnjótandi. Hefði hlaupið um 101 og komið inn á menningarheimili með 200 ára menningarsögu í Reykjavík. Hvert er húsið? var spurt. Menn sátu sem þrumu lostnir lengi vel, þar til ritari sagði: var þetta heimili S. Líndal við Bergstaðastræti? Rétt, sagði V. Bjarnason, þú ert meiri helvítis fávitinn að hafa ekki séð þetta strax. Næsta spurning: hver eru tengsl téðs aðila við 200 ára menningarsögu Höfuðborgarinnar? Menn horfðu hver á annan enda með endemum snauðir að menningu, nema matar- og drykkjarmenningu - en á endanum sagði ritari: skyldi það tengjast Hinu íslenzka bókmenntafélagi? Rétt, sagði V. Bjarnason, þið eruð ljótu dj... hálfvitarnir að vita ekki svona einfalda hluti. Einhvern veginn fannst manni að frændi manns og vinur, Ó. Þorsteinsson, hefði þurft að vera viðstaddur til þess að rétta hlut okkar Vesturbæinga.

Allt í einu rann dagsfagurt ljós upp fyrir Magnúsi: aumingja Biggi, hann hefur misskilið þetta allt saman með bolina. Biggi okkar er eftir allt saman ekki framkvæmdasamur maður og kæmi líklega ekki miklu í verk ef ekki væri fyrir Unni sína. Greyið hann Biggi hefur lesið á stærðamerkingar bolanna og túlkað S sem stórt, L sem lítið, M sem mjög stórt, og XXL sem extra extra lítið. Af þeirri ástæðu sitja stæltir líkamir hlaupara Hlaupasamtakanna undir því háði að þurfa að hlaupa í bolum í barnastærðum í Berlín, og þar fyrir utan í ermalausum bolum sem þykir ekki hæfa karlmennum

Einhverjir ku kjósa að hlaupa í fyrramálið kl. 10 - gott mál. Aðrir munu hvíla. Í gvuðs friði. Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband