Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Framsækin samtök sækja inn á ný mið

Hlaupasamtök Lýðveldisins eru framsækin jafnréttissamtök, þau berjast fyrir jafnrétti kynjanna og leggja sig fram um að hvetja konur til þess að taka þátt í starfi Samtakanna. Meira um þetta seinna. Dagurinn var þunglyndislegur, það var dimmt yfir þegar um miðjan dag, alskýjað, rigning, einhver vindur, en ekki kalt. Reyndar bara hlýtt miðað við seinustu daga. Af þeirri ástæðu var fjöldi hlaupara mættir til hlaups: fyrstir og fremstir meðal jafningja skulu nefndir þeir próf. Fróði og próf. dr. S. Ingvarsson Keldensis, nýbúnir að hlaupa maraþon og standa sig með prýði, S. Ingvarsson fór á 3:18 og próf. Fróði fór hálfsofandi á 3:41, tók varla eftir því að hann væri að hlaupa. Aðrir: Karl, Flosi, Þorvaldur, Björn, Bjarni, Einar blómasali, Ólafur ritari, Helmut, dr. Jóhanna, Rúna og Denni skransali.

Veður var eins og það gerist bezt til hlaupa, nánast logn, hiti 4 gráður og duggregn eins og Svíinn segir. Rúna slóst í för með okkur á Plani. Við erum svo frjáls af okkur þegar við hlaupum þjálfaralaus á föstudögum, breytum leiðum, förum á okkar eigin tempói og þurfum ekki að taka þéttinga frekar en við viljum. Enda kom það í ljós að menn voru fremur rólegir, ef ekki beinlínis metnaðarlausir. Þorvaldur hafði ugg í brjósti vegna vindáttar og lagði til öfugan hring - niðurstaða var að fara bakgarða í 107 og þannig út að Skerjafirði, en svo Ströndina - við erum þrátt fyrir allt engir eymingjar.

Einhver æsingur var þrátt fyrir allt í fólki og menn voru að derra sig og vildu fara að færa upp hraðann. Við hin vorum hins vegar róleg og notuðum tímann vel til þess að ræða aðstæður. Nú blasir við að vextir fara hækkandi, afborganir fólks af hvers kyns lánum fara hækkandi, verðbólga á uppleið, laun lækkuð í sumum tilvikum, atvinnuleysi vaxandi, verðhækkanir framundan, kaupmáttarrýrnun óhjákvæmileg - en hvar eru aðgerðir stjórnvalda? Það blasir við að það eina sem mönnum dettur í hug að gera er að taka refsinguna fyrirfram út á þjóðinni, sem ekkert hefur til saka unnið og verðskuldar ekki þá valkosti sem bjóðast. Við höfum ekkert séð og blasir við að sögnin að "haarda" öðlist fastan sess í málinu í merkingunni "gera ekki neitt" eða "fljóta sofandi að feigðarósi". Þannig var stemmningin í þeim hópi sem ég hljóp í.

Nei, nei, við vorum rólegir. Ég og Bjössi og blómasalinn náðum góðum samhljómi þarna einhvers staðar í Hi_Lux og vorum í góðum fílíng, allir að chilla og bara að njóta þess að fara á rólegu tempói, engin ástæða til að vera að spenna upp hraða. Ræddum svolítið um matargerð enda er Björn fagmaður á því sviði, Einar áhugamaður. Á þessum kafla upphófst samræða svo framsækinnar tegundar að hlýtur að teljast byltingarkennd í vorum hópi. Er skemmst frá því að segja að þegar við komum niður í Hlíðar vorum við fóstbræður búnir að stofna kvennadeild Hlaupasamtakanna. En það atvikaðist þannig að okkar í millum fórum við að ræða aðstæður heimafyrir og töldum þá úrlausn sennilegasta að innvikkla konurnar í starf Hlaupasamtakanna. Við vorum innilega ánægðir með framtakið, sem lýsir bæði framsýni og áræðni, að ekki sé talað um jafnréttissýn. Þeir Björn og Einar Þór buðu þegar fram krafta kvenna sinna í þágu hinnar nýju deildar og töldu að þær gætu átt mikilvægt framlag í uppbyggingu þessarar merkilegu starfsemi. Hugsunin var sumsé sú að fá konur duglegra hlaupara til þess að hætta kvabba um að mikill tími fari í hlaup, mæta þess í stað til hlaupa og taka þátt í herlegheitunum, hætta í rándýrum líkamsræktarstöðvum sem skila engum árangri en taka þess í stað þátt í ódýru sporti og uppbyggilegu. Af þeirri ástæðu voru eftirtalin drög að reglum fyrir kvennadeild Hlaupasamtakanna samin:

1. Tilgangur með starfi sérstakrar kvennadeildar Hlaupasamtaka er að efla félagsanda meðal ektakvinna hlaupafélaga þannig að þeim glæðist skilningur á mikilvægi hlaupa og hætti þarafleiðandi kvabbi sínu um að hlaup taki of mikinn tíma frá fjölskylduvafstri.
2. Eiginmenn kvenlegra hlaupafélaga geta átt aðild að kvennadeild Hlaupasamtakanna séu ... (þurfum að hugsa þetta aðeins betur)
3. Markmiðið með starfrækslu kvennadeildar er að efla samstöðu meðal eiginkvenna hlaupara sem vantar skilning á mikilvægi hlaupa og skilja ekki hvers vegna hlaup þurfa að taka tíma frá hefðbundnum og eðlilegum fjölskylduskuldbindingum.

Þeir Björn og Einar vildu fá frekari ákvæði inn í reglurnar um þjónustu kvenna á hátíðum í Samtökunum, svo sem að þær skyldu settar í að hella upp á kaffi, baka kökur, þeyta rjóma og annað í þeim dúr, en ritarinn, sem er einn staðfastur femínisti og bolsjévík, hafnaði með öllu slíkum tillögum frá þessum eftirblívnu félögum okkar, sem enn eiga eftir að taka út nokkurn þroska. Kvennadeildin er sem sagt stofnuð og við væntum þess að eiginkonur félaga muni flykkjast undir merki hennar til þess að hafna daunillum líkamsræktarstöðvum og fara út í hreina loftið að hreyfa sig.

Þetta sýnir náttúrlega hversu gefandi og skapandi hlaup eru og hversu hugmyndaríkir hlauparar eru þegar þeir komast á flug. Við héldum bara áfram fóstbræður að spúa út hugmyndum og vorum óstöðvandi. Það var farið hefðbundið um Veðurstofuhálendi, Hlíðar, Klambra, Hlemm og niður á Sæbraut og þá leið tilbaka til Laugar. Er komið var tilbaka (og það skal viðurkennt að ég var með þeim seinustu, við fóstbræður, blómasalinn), var stemmning góð. Þá fóru menn á flug og skildu okkur aumingjana eftir. En blómasalinn er góður félagsskapur, við áttum gott samtal á leið okkar um Sæbraut, Svörtuloft, Geirsgötu, Mýrargötu og Ægisgötu. Fórum hægt, enda ekki að stefna að neinu. Aðrir á undan okkur.

Föstudagur. Pottur þéttsetinn. Mætt Sif Jónsdóttir sem þreytti Amsterdammaraþon nánast án aðstoðar fótanna, hún var slösuð og meidd og meiðzlin fóru bara versnandi en ekki bessnandi eftir því sem á hlaup leið. Próf. Fróði mætti seint til Potts. Hann var með umbúðir vinstra megin og sagði að "þeir" hefðu fjarlægt eitthvert líffæri, einhvern dælufjanda, sem gerði ekkert gagn. Sér liði miklu betur á eftir og væri miklu léttara að hlaupa nú en áður. Viðstaddir bentu honum á að s.l. miðvikudag hefði hann haft umbúðir hinu megin, hægra megin. "Nú? - var það?" sagði prófessorinn alveg hlessa.

Föstudagar eru alveg einstakir - þá er hlaupavikunni lokið og við erum í fullkominni afslöppun. Nú er að huga að árshátíð og Fyrsta Föstudegi, sem er næsta Föstudag. Þurfum að finna lókal fyrir árshátíð, skemmtiatriði og fleira í þeim dúr. Vonandi gengur það vel. Ég saknaði góðra félaga í hlaui kvöldsins, Magnús mætti að vísu í pott og sat lengi, en Birgir og Jörundur eru slíkar lykilpersónur í þvi sem framundan er að þeir mega ekki láta undir höfuð leggjast að mæta til hlaupa. Stærsta verkefni Samtakanna er að sannfæra okkar traustasta félaga og vin að hans staður sé hjá okkur. Einelti, skítkast og illt umtal sé okkar helzta og bezta aðalsmerki. Þar er engum hlíft og enginn undanskilinn. Framundan er Fyrsti Föstudagur og árshátíð sem haldin verður í heimahúsi. Meira um það seinna.


Stolt af stelpunum

Hlaupasamtök Lýðveldisins eru stolt af kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu sem hefur tryggt sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í Finnlandi á næsta ári með verðskulduðum sigri á frændum okkar Írum. Ritari sat og hágrét af stolti fyrir framan sjónvarpsrúðuna. Við fyllumst innilegri gleði og óskum stúlkunum okkar til hamingju með góðan sigur. Gefur okkur byr í seglin, nú verður látið skeika að sköpuðu og við munum streyma á hlaupum á morgun. Ísland er að rísa á ný.

Hlaup gerast bara betri - hvar endar þetta?

Maður er bara orðlaus eftir svona hlaup. Til að byrja með var slík örtröð á Plani að ekki var þverfótað eða hægt að skjóta inn orði. Allir helztu hlauparar Samtaka Vorra mættir, Jörundur, Magnús nýkominn frá New York, en þó vantaði einhverja. Samtals voru 22 hlauparar samankomnir og réð veður trúlega einhverju um mætingu, kominn fjögurra stiga hiti, logn, en þó hált víða á stígum. Alltaf bætast nýir í hópinn.

Sumir vildu fara langt, aðrir millilangt. Ágúst ætlaði 30 km, nýbúinn með maraþon´og fór 18 km í gær. Hann kvaðst hafa farið maraþonið hálfsofandi enda fór hann á 3:41 sem er hans fjórði lakasti tími. Jæja, hvað um það, Birgir á gormum og blómasalinn með balaklövu sem minnti einna helzt á höfuðbúnað kvenfólks í arabalöndum. Fórum hægt af stað á 6 mín. tempói, en settum fljótlega upp hraðann. Ég lenti í hópi með Flosa, dr. Jóhönnu, Jóhönnu "yngri", Flosa, Unu, Frikka, Birni, Bigga - og svo náði Rúnar okkur inn við Borgarspítala, eftir að hafa fylgt byrjendum af stað út að Skítastöð.

Við vorum góð! Við vorum flott! Mikill hraði, ekkert slegið af. 5 mín. tempó. Getur þetta gengið, hugsaði ég. Fleiri hugsuðu þannig. Þetta gat gengið, við réðum við tempóið, við gátum þetta, Þess vegna var þetta gaman. Brekkan upp hjá Borgarspítala upp að Bústaðavegi var ekki eins erfið og síðast, haldið inn í Háaleitishverfið og yfir göngubrú hjá Fram-heimili. Þetta heitir Þriggjabrúahlaup, þó það sé strangt til tekið aðeins tveggja brúa, því við förum ekki yfir göngubrúna hjá Grand-hótelinu heldur förum sem leið liggur niður á Sæbraut. Þar var hraðinn aftur settur upp og farið of hægt ef eitthvað var.

Það var ljóst að sárlega vantaði analytiker og álitsgjafa til þess að fara yfir málefni Sterling flugfélagsins. Einnig komu mál REI til umræðu og Geysir Green Energy - menn spurðu sig: hvernig hefði þetta ekki getað farið ef...? Hér söknuðu menn leiðsagnar félaga okkar Vilhjálms og varð ákafur grátur í potti yfir að njóta ekki lengur skýringa hans á því sem við dauðlegir skiljum ekki. Í potti var jafnframt hreyft því máli er jafnan til framfara horfir: árshátíð. Nú er komið að árshátíð Samtaka Vorra og þarf að fara að huga að salarkynnum, næringu og skemmtiatriðum. Þrátt fyrir dökkar horfur í efnahagslífi þjóðarinnar fellur árshátíð Hlaupasamtakanna ekki niður. Né heldur hið rómaða jólahlaðborð er menn mæta með fjölskyldur og vini og eiga kristilega kærleiksstund saman.

Eftir hlaup varð mér enn og aftur hugsað: hvílík gæfa að fá þessa fjármálakreppu, fjölmargir hlauparar sem hafa verið settir í farbann eru í slíku fantaformi að annað eins hefur ekki sézt í áraraðir. Ég er farinn að kvíða uppsveiflunni þegar ráðuneytisfólk verður aftur farið að flykkjast í flugvélarnar og fairð að missa af hlaupi, missa sig í áti og ólifnaði. Ekki gott. Hlaup kvöldsins var einstök upplifun sem fer í reynslusafnið og minningabankann sem eitt af þessum ógleymanlegu.

Vel mætt n.k. föstudag þegar við munum enn og aftur láta móðan mása og ... nei.

Hnípinn hlaupahópur saknar vinar í stað

Mánudagur kemur á eftir sunnudegi. Á sunnudeginum urðu þeir atburðir að líða hlaupafélögum seint úr minni. Þá urðu vinslit. Menn voru beygðir. Þeir söknuðu vinar í stað. Mestur var harmur í prentarastétt og ljóst að langt var í land að gróa myndi um heilt og góðir vinir taka saman skeiðið á Sólrúnarbraut við lauflétt fjármálahjal eða verðbréfarabb, og dýrkandi landið með lúpínueyðingu. En þrátt fyrir allt var mæting allgóð, líklega um 17 hlauparar og enn var það þannig að ritari hafði ekki nöfnin á öllum viðstöddum. Ritari kvartaði yfir vinnuaðstöðu, gerðar væru æ meiri kröfur um nákvæmni og vandvirkni í frásögnum, á meðan fjölgaði í hópnum og æ erfiðara yrði að fylgjast með því sem fólk segði. Hefur hann því lagt inn ósk um að ráðinn verði sekreter sem annast skrásetningu helstu viðburða, samtala og persónufræði, sem ritari sér svo um að setja í rétt samhengi að hlaupi loknu.

Ynidslegt haustveður, napur vindur sem beit mann í andlitið, en auð jörð. Þjálfarar mættir. Rúnar flutti ræðu um mikilvægi þess að halda hita á svæðum sem hætt væri við meiðslum. Ekki voru gefnar út leiðarlýsingar, sem fólkinu smalað niður á Ægisíðu, þar var farið á léttu tempói inn að Skítastöð. Þar var gefinn instrúx um fartlek (Ágúst sem betur fer víðsfjarri!), fyrst 2 mín. sprettur, 2 mín. hvíld, 3,5 mín. sprettur, 3,5 mín. hvíld, 5 mín. sprettur, 5 mín. hvíld og svo trappað niður í sömu tímum. Við af stað og var bara gaman að spretta úr spori. Rúnar, Eiríkur og Benni fremstir, svo kom Margrét og e-r með henni, þar á eftir við Bjössi, blómasalinn og Flosi. Farið um Nauthólsvík og út að Suðurhlíð. Upp á sæmilegu tempói. Uppi við Perlu var ritara farið að líða vel og við fórum niður stokkinn á fullri ferð. Við Einar vorum í góðum gír og tókum þétting frá göngubrúnni yfir Hringbraut og út að Sóleyjargötu, Bjössi og Flosi skammt undan.

Þetta var eitt af þessum frábæru hausthlaupum, stuttum og snörpum. Það er mikil blessun að vera kominn í ferðabann, nú mætir maður í öll hlaup og lætur skeika að sköpuðu, ekkert óhóf í mat eða drykk í útlöndum, engar slímsetur í flugvélum, bara hreyfing fjórum sinnum í viku. Eiginlega eru þetta lífsgæði af fyrsta flokki sem sjást bezt á holningu ritara, ennþá í sama góða forminu og í Berlín. Meira af hinu sama n.k. miðvikudag.   

Hetjur hlupu um héruð

Þar sem Vilhjálmur stóð í Brottfararsal og baðaði sig í aðdáun vina sinna, þeirra Ólafs Þorsteinssonar, Þorvaldar og Ólafs ritara, ryðst Jörundur inn með hávaðalátum og byrjar strax orðræðu sem stóð sleitulaust inn í kirkjugarð. Fyrst var að leiðrétta hvar Snorri prestur á Húsafelli hefði áður haft brauð, sem mun hafa verið í Aðalvík. VB hafði sagst vita þetta í Útsvari: Í Grunnavík, þaðan var amma mín. Ætlan Jörundar var sú að með því að blanda ömmu sinni í málið hafi VB verið að slá ryki í augu dómarans, sem hefði fipast og dæmt svarið rétt. Hitt var svo með Timbuktu sem Jörundur gúgglaði og fann í Ghana, en Garðahreppur sagði vera í Malí. Síðan hafði Jörundur athugasemdir við það að eðalReykvíkingur eins og Baldur Símonarson legði lag sitt við þetta sveitarfélag og léði því stuðning sinn og þótti illmannlega gjört að leggja spurningu um afdankaðan og löngu dauðan Hollívúddleikara fyrir Baldur, sem væri þekkt góðmenni.

Eftir mikinn orðaflaum var loks hægt að leggja af stað, en ÓÞ bað um orðið á tröppum VBL. Hann kvaðst hafa farið í verzlunarmiðstöð á höfuðborginni í gær og þar hefði vart verið þverfótað fyrir fólki í innkaupum og hann hefði ekki komist spönn frá rassi fyrir fólki sem kom til hans og vildi óska honum til hamingju með árangur Vilhjálms í spurningakeppninni. Vilhjálmur kvaðst ekki hafa orðið var að neinn vildi óska honum til hamingju. Þannig var það nú þennan sunnudagsmorgun. Allvel mætt, auk áðurnefndra voru Flosi og Bjarni.

Vindur á norðvestan, en ekkert sérlega kalt. Engu að síður leið okkur eins og hetjum sem eru að leggja í ófærur.  Afar hægt farið af stað. Jörundur hélt áfram ræðu sinni sem beindist að Vilhjálmi og hafði hátt. Vilhjálmur sagði: "Jörundur, haltu áfram!" þar með segjandi að hann frábæði sér pólitíska einræðu prentarans róttæka. Jörundur lét ekki segjast og hélt áfram með Vilhjálmi. Við aðrir á undan.

Í Nauthólsvík var stoppað eins og ævinlega er gert á sunnudagsmorgnum. Þar var flutt persónufræði svo margslungin og ítarleg að hlýtur að vera öllum viðstöddum ógleymanleg. Spurt var hvernig Vilhjálmur tengdist Oddi í Glæsi. Hér stóð m.a.s. VB á gati, en ÓÞ flutti með óbrigðulu minni og þekkingu tölu um ættir og tengsl sem lýsti mikilli mannþekkingu og persónufræði og setti frænda aftur á stall með mestu persónufræðingum Lýðveldisins. Síðan var spurt: hvert var bílnúmer Odds í Glæsi? Menn stóðu á gati - ýmsar getgátur en loks var gefin von um svar næsta sunnudag.

Það varð að halda áfram vegna þess að menn kólnuðu hratt niður. Loks gerðist það í kirkjugarði að Vilhjálmur náði að hrista Jörund af sér og fékk að hlaupa óáreittur. Við Miklubraut vorum við rétt búnir að valda stórslysi, kona sem kom akandi á bíl sínum rak augun í okkur og varð svo mikið um að hún snarhemlaði, og var nærri því búin að fá tvo bíla aftan á sig. Sem betur fer slapp þetta til, en tæpara mátti það vart standa.

Á Rauðarárstíg sagði Ólafur frændi minn okkur sögu af hrokkinkolli í Svörtuloftum sem hefði verið innan um fólk og menn hefðu tekið eftir miklum hlunki á handlegg hans, úri sem minnti á Rolex. Hann hefði tekið hlunkinn af hendi sér, lagt fyrir framan sig og sagt: "Þetta gaf Berlusconi mér." Vilhjálmur hafði strax skoðanir á málinu, kvaðst hafa hitt hrokkinkollinn sjálfur og beðið hann um að leyfa sér að skoða hlunkinn - og þetta hefði alls ekki verið neinn Rolex-hlunkur. Jæja, alltaf skal hann slá mönnum við og barna sögur þeirra.

Við fórum Laugaveginn vegna norðanáttarinnar, fáir á ferli, en þó voru kaffihús opin og reytingur af fólki þar innandyra, sjálfsagt allt útlendingar. Svo slitnaði hlaupahópurinn sundur og menn komu mjög misjafnlega til Laugar.

Vel mætt í pott - og Baldur flutti enn erindi sitt um worst case scenarios sem fyrst birtist í tölvupósti. Þar með setjandi okkur í nokkurn vanda - en ÓÞ og Jörundur reyndu að bjarga okkur með því að flytja enn og aftur sögur morgunsins. Farið yfir Útsvarsþáttinn og leitað eftir réttum svörum. Skyndilega birtist fólk sem alla jafna ætti að vera að hlaupa með okkur: Björn, blómasalinn og dr. Jóhanna. Engar skýringar gefnar á fjarveru. Setið góða stund og rætt um stöðu mála, góða Spaugstofu í gær. Hlaupasamtökin áttu tvo hlaupara í Haustmaraþoni, próf. S. Ingvarsson og próf. Fróða - báðir á fínum tímum. Í gvuðs friði.

Lýst yfir söknuði - hvar er blómasalinn?

Hvað gefur okkur hlaupurum gleði? Hvað knýr okkur til þess að hlaupa áfram, þrátt fyrir að vetur er brostinn á og helztu áfangasigrar sem stefnt var að frá byrjun árs séu að baki? Enginn hvati lengur, ekkert að stefna að – hvers vegna hlaupum við? , það kom í ljós í hlaupi dagsins. Menn hlaupa fyrir ánægjuna, fyrir samveruna, fyrir félagsskapinn, fyrir gáfurnar, fyrir kímnina, fyrir sögurnar, fyrir manngæðin. Og fyrir endorfínið, sem að vísu streymir í litlu magni þessar vikurnar, sökum kulda og þess hvað maður er latur að hreyfa sig.

Þeir sem mættir voru eru gamalkunnir og gamalgrónir hlauparar, og bara, gamlir. Nema kannski Rúna. Aðrir mættir: Dr. Friðrik, Flosi, Bjarni, Bjössi, Biggi, ritari, Benni.  Þéttur hópur og engir þjálfarar þannig að frelsið ríkti ofar hverri kröfu. Við réðum okkur sjálf og gátum ákveðið hvert yrði farið og hversu hratt. Af þeirri ástæðu var bara farið hefðbundið. Það var kalt í veðri, og fór kólnandi, frost á jörðu og mátti hafa allan vara á. Flestir sæmilega klæddir, enginn var á stuttbuxum, en þó kom sú hugmynd upp að hlaupa nakinn til þess að mótmæla einhverju. Ekki vitað hverju eða hverjum.

Þéttur hópur og allir samtaka um að hlaupa af gleði og ánægju, láta lönd og leið vangaveltur um vegalengdir og tíma. Nei, nei, það var of gott til að vera satt. Benni og Bjössi hurfu á undan okkur hinum. Flosi og Rúna. Ég sat uppi með Bigga sem hafði frá mörgu að segja eins og venjulega. 20 m fyrir aftan okkur voru svo Bjarni og Friðrik og virtist verða vel til vina. Þannig var skiptingin í dag á Sólrúnarbraut.

Fílingur góður en menn eitthvað stirðir. Biggi hættur við maraþon sökum sinameiðsla og því verður Ágúst einn á ferð á morgun. Hált undirlag og þurftu menn mjög að gæta fóta sinna. Ég náði til dæmis að segja Birgi ævisögu mína á leiðinni frá grásleppuskúrunum við Ægisíðu og út að Flugvelli, hann var mjög impóneraður og kvaðst vilja breyta lífi sínu til samræmis við áherzlur mínar og gerast Framsóknarmaður. Ég hváði og spurði hvaðan hann hefði fengið þá hugmynd: jú, þú sagðist hafa verið Framsóknarmaður í tvö ár, gengið um með vinstraglott í tvö ár 1971-1973. Hér var mér öllum lokið. Ég hef löngum haft Birgi grunaðan um að vera svag fyrir Framsókn, en hér kom hann út úr skápnum og lýsti því beinlínis yfir að Framsókn væri framtíðin, þar væri örlögsíma æskunnar fólgin. Ég leiddi þetta hjá mér, enda vorum við að nálgast Nauthólsvík, og við sáum Bjössa og Benna hverfa upp Hi-Lux, framan við okkur voru Rúna og Flosi, en að baki okkar kom Bjarni fnæsandi.

Einhvers staðar í námunda við Hi-Lux sameinuðumst við og vorum orðin fimm: Flosi, Rúna, Birgir, Bjarni og ritari. Sáum grunsamlega bíla og töldum okkur vera að upplifa ný Hi-Lux ævintýr – en svo var ekki, allt í sómanum. Upp brekkuna, tekið á því. Svo var nú bara skeiðað áfram hefðbundið.

Menn söknuðu blómasalans. Því var eðlilegt að talið bærist að honum. Rætt var um hin efnilegu og glæsilegu börn hans og mærðu menn þennan félaga okkar og töldu hann afbragð annarra að upplagi og lífshamingju.

Þetta var svolítið flokkaskipt í dag. Björn og Benedikt voru einhvers staðar langt á undan okkur og koma ekki við okkar sögu. Flosi og Bjarni þar á eftir og köru að fara Sæbraut. Við hin skynsömu, ég, Birgir og Rúna, fórum Laugaveginn til þess að sleppa við norðangarrann. Greið leið vestur úr og ekki margt manna á þessari helztu verzlunargötu Reykvíkinga. M.a. rifjaði Rúna upp æskudaga sína með blómasalanum í Melaskóla og kom þar okkur margt á óvart. Við Birgir þrýstum á Rúnu að segja hið sanna, var hann svona, var hann hinsegin, hvernig var hann? En komumst lítt áleiðis.

Pottur heitur og góður og menn voru rólegir, tóku sér góðan tíma til þess að ræða málin. Mættir auk hlaupara Stefán og dr. Einar Gunnar.

Hlauparar eru stoltir af félaga sínum, Vilhjálmi Bjarnasyni, sem sýndi snilldartakta í Útsvari í kvöld.  

Björn upplýsti að boðið væri til veizlu í félagsheimili Framsóknarmanna á Seltjarnarnesi í kvöld. Hvert tilefnið var fékkst ekki upplýst, en þó virtust óhugnanlega margir vera á Framsóknarslóðum í kvöld.  


Orða er vant til að lýsa hlaupi

Ef kjötið sem ég notaði í spaghettísósuna mína í kvöld var af nauti þá skal ég hundur heita. Pakkningin var merkt "ungnautahakk" - en ég þekki ungnautahakk og þetta var ekki ungnautahakk. Pakki keyptur í Bónus og þar á bæ kunna menn að bjarga sér. EF þetta var hestur þá er ég ánægður - en get ég verið viss? Minnir mig á það þegar frænka mín, sveitakonan á Syðra-Velli, eiginkona Þorsteins, bróður Guðna frá Brúnastöðum, fór í bæinn í heimsókn, kom við í Bónus að kaupa sér góða nautasteik. Þegar hún steikti kjötið fann hún gamalkunnugan ilminn af hesti, þarfasta þjóninum, og hún ætti að vita ef einhver. En eins og ég segi, þessi missirin reyna menn að bjarga sér eins og þeir bezt geta. Öruggast er að halda sig bara við Melabúðina og treysta því að Frikki plati okkur ekki.

Ekki mjög margir mættir í hlaup dagsins. Það bar helzt til tíðinda í útiklefa að Björn uppgötvaði að hann var buxnalaus. Fór í stuttbuxur í þeirri von að einhver góð sál (t.d. Þorvaldur) myndi lána sér síðbuxur. En Þorvaldur mætti ekki. Pétur ekki á staðnum til þess að redda málum. Björn eins og grár köttur út um allt að reyna að bjarga þessu. En komst að þeirri niðurstöðu að hann yrði að hlaupa í stuttbuxum, eða réttara sagt, í sundskýlu, ef maður á að vera nákvæmur. Annað eins hefur nú gerst: Bjarni hljóp ber að ofan í sumar.  Það var ekki fögur sjón. En það var í sumar. Nú er kominn nístingskaldur vetur. Og þar munar. Félagar Björns hlógu innilega að ástandinu og höfðu greinilega mikla ánægju af þessum vanda hans. Á endanum lét þó Birgir tilleiðast og léði Birni stuttbuxur, sem björguðu því sem bjargað varð.

Mættir: Flosi, Björn, Bjarni, Ágúst, Ólafur ritari, Benedikt, Rúnar, Birgir, Margrét, Una, Ósk, Hjálmar og ein stúlka í viðbót sem mig vantar nafnið á. Þokkaleg mæting, en þó minni en marga óveðursdaga. Það er eins og það sé vinsælla að hlaupa þegar veður eru válynd. Snjór á jörðu eins og menn vita, kalt en ekki mikill vindur. Enn er bjart þegar við leggjum í hann, en orðið dimmt þegar komið er tilbaka og því eru sumir hlauparar í endurskinsfatnaði. Það mátti hlaupa varlega því víða var hált og það tefur alltaf för að þurfa að huga að undirlagi. Úti á stétt var þjálfari í einhvers konar afneitun eða mórölskum vanda - hann var beðinn um leiðbeiningar, en sagði bara: til hvers, þið farið ekkert eftir þessu! Hvaða vitleysa, sögðu menn, og heimtuðu leiðbeiningar. Féllst þá þjálfari á að gera tillögu um hlaupaleið. Þriggja brúa hlaup varð niðurstaðan, sláandi líkindi með Þriggja gljúfra stíflu í Kína. Svona á sinn hátt.

Það er jafnan lagt í hann á rólegu nótunum. Samt var einhver æðibunugangur í Reyni og Benedikt, og Flosa, þeir voru langt á undan öðrum þegar á Ægisíðu. Sjálfur var ég ekki vel upplagður fyrir hlaup, fann fyrir einhverju í kálfa og saknaði þess andlega styrks sem maður bjó að í aðdraganda maraþonhlaups. Nú eru hlaupin bara raun, og maður vill helst sleppa þeim. En það má ekki bugast, það verður að halda úti starfsemi Hlaupasamtakanna. Líklega þarf að fara að blása til félagslegrar samkomu og þétta raðirnar.

Leiðir skildi við Kringlumýrarbraut, við vorum sjö sem héldum áfram og stefndum á Brýrnar þrjár, aðrir fóru Suðurhlíðar. Við sem héldum áfram fórum upp hjá Borgarspítala, yfir Bústaðaveg og inn í Háaleitishverfi, þaðan hjá Kringlu, yfir Miklubraut, hjá Fram-heimili (hélt niðri í mér andanum), út að Kringlumýrarbraut og þá leið niður á Sæbraut. Hér var mér farið að líða bærilega og hélt í við hitt liðið án þess að hafa mikið fyrir því. Sæbrautin var breið og greið, en dimm, og fólk á ferli. Hér var heldur bætt í og farið á góðu tempói.

Það var tekið á því í þessu hlaupi og menn vel heitir er komið var til Laugar. Þá voru Suðurhlíðingar að hypja sig heim og vildu ekki deila með okkur menningarstund í potti. Svo að það voru aðeins Benedikt, Flosi, Ágúst og ritari sem áttu gæðastund í barnapottinum. Þar kom góð saga. Hún er svona: Kona nokkur var slæm í mjöðmum og átti erfitt um svefn. Hún gat hvorki sofið á hægri né vinstri hlið. Ráðagóður vinur spurðu hví hún svæfi þá ekki á bakinu: Ja, þá er hann (við skulum segja maður hennar heiti Guðjón) Guðjón minn kominn um leið. En, geturðu þá ekki bara sofið á maganum. Þá brosti konan góðlátlega og sagði: Þú þekkir greinilega ekki hann Guðjón minn. Þessa sögu sagði okkur prófessor Fróði. Og í beinu framhaldi voru rifjaðar upp sögur sem voru sagðar hér á hlaupum á árum áður og voru svo grófar að forhertir karlmenn bliknuðu eins og fermingardrengir. Hér varð nostalgíu vart. Einnig var rætt af upplýsingu um einelti. Þar erum við félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sérfræðingar.

Ágúst stefnir á maraþon á laugardag. Maraþon er ræst við Elliðaár um kl. 9. Hlaupaleiðin er með endemum óintressant: fram og aftur blindgötuna. Frá Elliðaám að Hofsvallagötu, sömu leið tilbaka, og svo aftur sama rútt. Þannig geta menn reiknað út hvenær þeir vilja vera staddir við Hofsvallagötuhorn til þess að hvetja Ágúst áfram. Fyrst rétt fyrir 10, svo aftur kl. 12. Ef menn nenna að bíða. Sem við hljótum að vera reiðubúnir að gera fyrir félaga okkar. Tala ekki um ef svo skyldi fara að Birgir okkar tekst á við þetta verkefni líka.

En venjulegir hlauparar hlaupa næst á föstudag kl. 16:30. Vel mætt.

Kalt

Það var kalt í kvöld. Hiti við frostmark, hvass vindur á norðvestan. Við þessar aðstæður er það sérstök áskorun að mæta til hlaupa og spretta úr spor út Ægisíðu. Félagar Hlaupasamtakanna eru þekktir fyrir að fjölmenna til hlaupa þegar aðstæður eru þeim andstæðar og jafnvel óvinveittar. Þeim líður bezt illa. Að hlaupa einir í myrkri, kulda og móti stormi - það er hin sanna sæla. Því var það sérstakt tilhlökkunarefni að mæta til hlaups í dag. Mættur stór hópur hlaupara og vegna hinna sérstöku aðstæðna skulu þeir allir nefndir: Una, Þorbjörg, Margrét, Ósk, og tvær til viðbótar sem ég hef ekki nöfnin á (engin furða, nýjar konur daglega), dr. Friðrik, Magnús Júlíus, Flosi, Ágúst, Bjössi, Eiríkur, Benedikt, Hjálmar og ritari. Jú og Rúnar þjálfari.

Heit umræða í útiklefa um ástand mála. Björn vill byltingu, vill blóð. Við hinir erum stilltari, við höldum að stjórnvöldum þætti óheppilegt að fá byltingu ofan í slæma stöðu mála. Enn bætast við aðilar í periferíu Samtakanna og eru orðnir hluti af umræðunni, ónefndur stjórnmálafræðiprófessor er farinn að blanda sér í samtöl og hlýtur að koma sterklega til álita sem næsti hlaupari án hlaupaskyldu. Sjáum tl hvað æxlast.

Löng samvera í Brottfararsal. Nú er svo komið að hlauparar hafa ekki metnað til þess að fara langt. Nú er farið stutt. 10-12 km. Þjálfarar orðnir hálf andlausir, orðnir eins og hluti af hópnum og vilja bara þjást með okkur í stað þess að kvelja okkur. Ákveðið að fara um garða til að byrja með og sjá svo til. Lentum á gröfu og jarðvinnumönnum á leið okkar sem lokuðu fyrir frjáls hlaup. Sumir kusu að klifra yfir gröfuna, aðrir skynsamari og breyttu leiðinni, kom í sama stað niður, við mættumst aftur við Arnargötu.

Eftir þetta var farið í Skerjafjörð, Nauthólsvík og inn að Garði, þar var tekin vinstribeygja upp á skógarstíg upp í Öskjuhlíðina, gamall leynistígur sem Flosi þekkti. Farið um skógarstíga um stund, komið út á Flugvallarveg og út hjá Gvuðsmönnum. Svo vesturúr. Þessir léttstígu lögðu lykkju á leið sína undir Hringbraut, fóru eitthvert inn í hverfi og svo í Vestbyen, Kirkjugarðsstíg, Ljosvallagötu og eitthvað. Ég fór hins vegar Hringbraut og stytztu leið tilbaka. Var þungur og óinnblásinn í dag.

Eftir hlaup höfðu einhverjir orð á að þetta hefði verið gaman. Það er einkennilegt hvað hin perversa skynjun félaga Hlaupasamtakanna á því hvað er skemmtilegt er fljót að sökkva inn hjá fólki. Líklega vegna þess að maður endurtekur hlutina nógu oft... Í útiklefa flutti Skerjafjarðarskáld vísuna sem Birgir sendi okkur um daginn, þessa:

Hugarvíl og harmur dvín
er horfi ég á frúna.
Hún er eina eignin mín
sem ekki rýrnar núna.

Og lét á sér skilja að hann hefði orkt þetta.


Gæðahlaup - góður pottur

Saga ritara á föstudag var haldin staðarfræðilegri ónákvæmni. Það vissi Jörundur. Sagan var um Kristján á Garðsstöðum og bjó alla sína tíð fyrir vestan. Hann fékk m.ö.o. ekki brúði sína til sín suður eins og sagði í pistli. Hún kom vestur. Fyrir þetta er skömm ritara ævarandi og gott ef téður Kristján gengur ekki aftur og ofsækir ritara, það fullyrti Jörundur. En ritari heyrir sögur af þessu tagi hvern morgun í Morgunpotti og er gleyminn á nöfn. Margar sögur eru til af Kristjáni og tilsvörum hans. M.a. þessi þegar hann var úti að keyra á bíl sínum sem var að verða benzínlaus og næsta benzínstöð var British Petroleum Company. "Nei, heldur ek ég benzínlaus á næstu Essostöð en að verzla við BP."

Mættir á fögrum októbermorgni: Vilhjálmur, Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Flosi, Jörundur, Bjarni, Magnús Júlíus, ritari og Ólaf hinn þýzki. Menn nokkuð vígreifir og óbugaðir. Ekki versnaði þegar Ólafur Stefánsson handboltakappi mætti í útiklefa eftir sundferð og honum mætti herhvöt um að koma heim að bjarga þjóðinni. Hann sagðist aðeins fást við það sem hann væri góður í. Hið sama ætti að gilda um þá sem störfuðu í Seðlabankanum og ef þér réðu ekki við störf sín ættu þeir að finna sér annan starfsvettvang.

Ekki var ætlunin að vinna nein afrek á þessum morgni, enda er mig farið að gruna að hlaup séu bara yfirskin hjá þessum hópi til þess að hittast og eiga uppbyggileg samskipti og menningarlegar samræður. Kalt, en logn, og því ljúft að streyma fram Ægisíðuna. Magnús Júlíus þurfti á Kirkjuráðsfund og fór því stutt, eitthvað aðeins lengra en Skítastöð. Ólafur Þ. og Vilhjálmur áttu samleið og hefur slík samstaða ekki sézt um alllangt skeið. Vilhjálmur upplýsti að árið hefði verði gott fyrir Ólaf, hann hefði átt þess kost að helga sig uppáhaldsiðju sinni af miklum krafti allt árið: jarðarfarir hefðu verið margar og hann oftar en ekki verið beðinn um að halda í hanka.  Í Nauthólsvík var staldrað við og beðið eftir öftustu hlaupurum, sem voru þó ekki mjög langt undan. Við tók löng sögustund og urðu menn að kveðja sér hljóðs og biðja um orðið - svo eftirsótt var að fá að segja frá. Hér komu þeir hver af öðrum, Jörundur, Vilhjálmur og Ólafur Þorsteinsson og sögðu sögur. Ólafur sagði stytzta sögu.

Jörundi varð tíðrætt um Kristján á Garðsstöðum og Vilhjálmur vildi spjalla um fjármálamógúla sem íslenzka þjóðin dýrkaði og liti á sem hálfgvuði en væru í reynd bara skúrkar. Þjóð sem ekkert skilur eða vill  læra á ekkert betra skilið.

Við stöldruðum óvenjulengi við í Nauthólsvík, sem er gott og merki um að Hlaupasamtökin séu að ná vopnum sínum. Er þá von til þess að afgangurinn af þjóðinni eigi sér möguleika. Áfram um Flanir (Ristru Flanir ef menn voru búnir að gleyma staðarnöfnum). Kirkjugarður. Beðið eftir Vilhjálmi. Hann hélt áfram reiðilestri sínum hér í Garðinum, þessum kyrrláta stað, þar sem íbúarnir láta sig litlu varða það sem ryð og mölur fær grandað. Dagurinn var merkilegur fyrir þá sök að við vorum uppfullir af speki og fyndni við hvert fótmál og við hvert stopp - aldrei varð okkur orða vant, ævinlega datt okkur eitthvað merkilegt í hug að segja. Er nú annar bragur á Samtökum Vorum en var síðastliðinn sunnudag, þegar menn voru bara beygðir og sögðu fátt.

Bómasalinn hefur verið fastur þátttakandi í sunnudagshlaupum, en var ekki mættur í dag. Þá rifjaðist upp fyrir viðstöddum að hann hugðist ferðast til Amsturdamms á þessum degi með fulla ferðatösku af evrum í þeim tilgangi að fjárfesta í þarlendum viðskiptatækifærum. Mun hér á ferðinni útfærzla á viðskiptahugmynd Birgis og getur fært Íslendingum nýja og bjarta framtíð. Einhver spurði hvort hann væri ekki bara að fara aftur í bómasölubransann, hafandi í huga að í Hollandi má kaupa mikið af blómum. Nei, hann hefur algjörlega snúið baki við svoleiðis fátæktarhokri - nú eru það bara stóru tækifærin sem blíva.

Efst á Veðurstofuhæð hurfu þeir Flosi, Bjarni og Ólaf hinn þýzki. Okkur hinum fannst þeir taka hlaupið fullalvarlega. Við stoppuðum á öllum stöðum þar sem hefðin býður að stöðvað sé: Othars Platz, við Svörtuloft, Ægisgötu - en létum okkur svo hafa það að hlaupa niður Hofsvallagötu. Líklega eru sunnudagshlaup einhver mest gefandi hlaup, svona intellektúellt talað, aðra daga er yfirleitt bara talað um það sem við erum að gera: hlaup. Svoldið nördalegt.

En samræður, ræðuflutningur og samtöl á hlaupi dagsins voru aðeins forsmekkurinn að því sem koma skyldi. Potturinn var þéttsetinn og hefur sjaldan verið jafnöflugur, þar voru mættir, auk hlaupara með hlaupaskyldu, dr. Einar Gunnar, dr. Baldur, Mímir, Stefán, Þorbjörg (sem er að vísu með hlaupaskyldu en gerði ekki nánari grein fyrir sér). Hér var ekki töluð vitleysan. Hér flaut vizka og persónufræði. Vilhjálmur spurði hvaða fjall væri 1069 m hátt og mætti þekkja út frá einhverju stærðfræðikjaftæði sem ég man ekki að segja frá (NB ég er máladeildarstúdent frá Reykjavíkur Lærða Skóla). Menn komu með margar tilgátur: Keilir, Tröllakirkja, Herðubreið... Þið eruð asnar! sagði Vilhjálmur. Nei, þetta var Búlandstindur. Og svona hélt þetta áfram, vísbendingaspurningar, fróðleikur af ýmsu tagi og komust færri að en vildu með sín framlög og sjónarmið.

Hér er rétti staðurinn til þess að vekja athygli lesenda á spurningaþættinum Útsvar, sem verður á dagskrá Ríkissjónvarps n.k. föstudag, en þá keppir Vilhjálmur fyrir hönd nágrannasveitarfélagsins, og dr. Baldur bíður við símann sem bezti vinur Vilhjálms þegar og ef nauðsyn krefur. En af frammistöðu hans í potti í dag þótti það næsta ósennilegt. Í gvuðs friði, nýtt hlaup á morgun.


Þvílíkur kraftur - þvílíkar hetjur!

Þetta var einn af þessum klassísku dögum haustsins þegar menn safnast saman til hlaupa og fá ekki við neitt ráðið, líkaminn öskrar á hlaup og hreyfingu og það rifjast upp hlaup liðinna tíma þegar hetjur liðu um héruð í haustsvalanum, uppgötvuðu nýja stíga í henni Reykjavík, svitnuðu og reyndu á þrek og úthald. Mættir til hlaupa: Þorvaldur, Flosi, próf. Fróði, Vilhjálmur, Björn (þeir virtust hafa náð fullum sáttum), Bjarni, Kalli, Denni og loks birtist Rúna - auk þess var ritari mættur.

Við tók lýðræðisleg umræða á Plani og rómversk rekistefna um leiðir, markmið og hraða. Ýmsar hugmyndir höfðu poppað upp um daginn - en þegar upp var staðið þótti öruggast að fara hefðbundið, þá kæmi ekkert óvænt upp á og ró hinna viðkvæmari í hópi vorum yrði ekki raskað. "En við skulum bara fara hægt og stutt og halda hópinn" sagði einhver vitur hlaupari. "Já, það skulum við gera" sagði einhver annar. Almenn samstaða um að fara hægt og stutt. Í upphafi hlaups virtist sem menn ætluðu í alvöru að standa við þessa áætlun.

En það gat náttúrlega ekki enst lengi. Við héldum hópinn furðu lengi, en svo fóru menn að hnappa sig saman. Ritari endaði með Birni, Bjarna, Flosa og próf. Fróða. Áður en við vissum orðið af né ástæðu vorum við komnir á fullt blúss, en inn á milli hægðum við ferðina. Einhvern veginn æxlaðist það svo að þar sem við erum vanir að taka þéttinga á föstudögum var farið hægt, og þar sem farið er hægt á föstudögum fórum við á fullu stími. Til þess að gera spennuna ekki óbærilega fyrir lesendur skal upplýst hér og nú að meðaltempóið í þessu hlaupi var 5:20 - og fór niður í 4:30 á Sæbraut.

Nema hvað, þessir fimm fræknu hlauparar, allir meira eða minna farlama og meiddir, fóru á hörkustími um Nauthólsvík, Hi-Lux og Veðurstofu. Á leiðinni var m.a. rætt um nýuppkomið framleiðslumál í Hafnarfirði þar sem háskólaborgarar nýttu þekkingu sína til þess að framleiða ólögleg efni er valda miklum skaða okkar minnstu bræðrum og systrum. Prófessorinn fékk vart hamið reiði sína yfir þessari misnotkun þekkingarinnar og fann sig knúinn til þess aö öskra út í loftið. Við það missti hann þrótt lungna og kraft og var eins og sprungin blaðra á eftir.

Við áfram um Hlíðar, Klambratún og um Hlemm. Sökum þess hversu veður var hagstætt, suðrænn vindur, var ákveðið að fara niður á Sæbraut. Þar gerðust ævintýrin. Menn höfðu haft góð orð um þéttinga - en þetta var makalaust. Flosi tók á rás og skildi aðra eftir, en bróðir hans, ritari, sætti sig ekki við að liggja óbættur hjá garði og rifjaði upp orð sem féllu um daginn: Af því að við getum það, af því bara! Gaf í og hér var farið á 4:30. Félagar okkar fylltust aðdáun og virðingu er þeir sáu kraftinn og hraðann, en létu sig ekki dreyma um að reyna að ná okkur. Hægt á við Tónlistarhús og farið á hægu tölti eftir það tilbaka til Laugar. Ágúst lengdi við mót Ægisgötu og Mýrargötu og hefur líklega farið hátt í 20 km er upp var staðið, miðað við endurkomu til Laugar. Aðrir beint í pott. Ægisgatan var ritara erfið og ljóst að bæði maraþon og miðvikudagur sitja enn í honum. Nei, nú verða bara farin hin styttri hlaupin, 10-15 km.

Potturinn var vel heitur og við hæfi á haustdegi sem þessum að láta notalegan hita leika um þreytta vöðva og liði. Ekkert óvænt hér, en setið alllengi og rætt um rauðvín og rauðvínsdrykkju. Sögð sagan af manninum sem fór í sveitina, við skulum segja Borgarfjörðinn til þess að gera þetta svolítið áhugavert. Hann kynntist heimasætum, systrum, tók þær tali og leist vel á þær. En ákvað á endanum að sér litist betur á aðra systurina. Hvarf aftur í bæinn og fór að rita henni heit bréf og endaði með því að bera upp bónorð. Því var vel tekið og ákveðið að tilvonandi brúður kæmi í bæinn á tilsettum tíma. Kæmi með skipi. Hann ákvað að mæta brúði sinni á bryggjunni. Þegar skipið leggst að kemur í ljós að það var hin systirin sem kom með skipinu. Maðurinn hafði sumsé ruglast á nöfnum systranna. Giftist henni engu að síður. Vinir hans spurðu: af hverju giftistu henni, þetta var ekki sú sem þú varst hrifinn af? "Nú, hvað átti ég að gera? Konan var komin suður!" Svona sögur eru gjarnan sagðar í morgunpotti VBL og þar eru ekki sagðar nafnlausar sögur. En ritara skyrti nöfn hér.

Hvað næst? Að hverju skal stefnt? Aðeins að halda í horfinu - Fyrstu Föstudagar fyrir bí? Nei, hér þarf að efla félagsandann og efna til hátíðar. Prófessorinn hyggst þreyta maraþonhlaup um næstu helgi og fara rólega. Einnig hefur heyrst að Birgir stefni á það sama þótt það sé ekki skynsamlegt manni sem nýverið hefur lokið Berlín. En við finnum upp á einhverju til þess að fagna félögum vorum. Í gvuðs friði, ritari.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband