Gæðahlaup - góður pottur

Saga ritara á föstudag var haldin staðarfræðilegri ónákvæmni. Það vissi Jörundur. Sagan var um Kristján á Garðsstöðum og bjó alla sína tíð fyrir vestan. Hann fékk m.ö.o. ekki brúði sína til sín suður eins og sagði í pistli. Hún kom vestur. Fyrir þetta er skömm ritara ævarandi og gott ef téður Kristján gengur ekki aftur og ofsækir ritara, það fullyrti Jörundur. En ritari heyrir sögur af þessu tagi hvern morgun í Morgunpotti og er gleyminn á nöfn. Margar sögur eru til af Kristjáni og tilsvörum hans. M.a. þessi þegar hann var úti að keyra á bíl sínum sem var að verða benzínlaus og næsta benzínstöð var British Petroleum Company. "Nei, heldur ek ég benzínlaus á næstu Essostöð en að verzla við BP."

Mættir á fögrum októbermorgni: Vilhjálmur, Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Flosi, Jörundur, Bjarni, Magnús Júlíus, ritari og Ólaf hinn þýzki. Menn nokkuð vígreifir og óbugaðir. Ekki versnaði þegar Ólafur Stefánsson handboltakappi mætti í útiklefa eftir sundferð og honum mætti herhvöt um að koma heim að bjarga þjóðinni. Hann sagðist aðeins fást við það sem hann væri góður í. Hið sama ætti að gilda um þá sem störfuðu í Seðlabankanum og ef þér réðu ekki við störf sín ættu þeir að finna sér annan starfsvettvang.

Ekki var ætlunin að vinna nein afrek á þessum morgni, enda er mig farið að gruna að hlaup séu bara yfirskin hjá þessum hópi til þess að hittast og eiga uppbyggileg samskipti og menningarlegar samræður. Kalt, en logn, og því ljúft að streyma fram Ægisíðuna. Magnús Júlíus þurfti á Kirkjuráðsfund og fór því stutt, eitthvað aðeins lengra en Skítastöð. Ólafur Þ. og Vilhjálmur áttu samleið og hefur slík samstaða ekki sézt um alllangt skeið. Vilhjálmur upplýsti að árið hefði verði gott fyrir Ólaf, hann hefði átt þess kost að helga sig uppáhaldsiðju sinni af miklum krafti allt árið: jarðarfarir hefðu verið margar og hann oftar en ekki verið beðinn um að halda í hanka.  Í Nauthólsvík var staldrað við og beðið eftir öftustu hlaupurum, sem voru þó ekki mjög langt undan. Við tók löng sögustund og urðu menn að kveðja sér hljóðs og biðja um orðið - svo eftirsótt var að fá að segja frá. Hér komu þeir hver af öðrum, Jörundur, Vilhjálmur og Ólafur Þorsteinsson og sögðu sögur. Ólafur sagði stytzta sögu.

Jörundi varð tíðrætt um Kristján á Garðsstöðum og Vilhjálmur vildi spjalla um fjármálamógúla sem íslenzka þjóðin dýrkaði og liti á sem hálfgvuði en væru í reynd bara skúrkar. Þjóð sem ekkert skilur eða vill  læra á ekkert betra skilið.

Við stöldruðum óvenjulengi við í Nauthólsvík, sem er gott og merki um að Hlaupasamtökin séu að ná vopnum sínum. Er þá von til þess að afgangurinn af þjóðinni eigi sér möguleika. Áfram um Flanir (Ristru Flanir ef menn voru búnir að gleyma staðarnöfnum). Kirkjugarður. Beðið eftir Vilhjálmi. Hann hélt áfram reiðilestri sínum hér í Garðinum, þessum kyrrláta stað, þar sem íbúarnir láta sig litlu varða það sem ryð og mölur fær grandað. Dagurinn var merkilegur fyrir þá sök að við vorum uppfullir af speki og fyndni við hvert fótmál og við hvert stopp - aldrei varð okkur orða vant, ævinlega datt okkur eitthvað merkilegt í hug að segja. Er nú annar bragur á Samtökum Vorum en var síðastliðinn sunnudag, þegar menn voru bara beygðir og sögðu fátt.

Bómasalinn hefur verið fastur þátttakandi í sunnudagshlaupum, en var ekki mættur í dag. Þá rifjaðist upp fyrir viðstöddum að hann hugðist ferðast til Amsturdamms á þessum degi með fulla ferðatösku af evrum í þeim tilgangi að fjárfesta í þarlendum viðskiptatækifærum. Mun hér á ferðinni útfærzla á viðskiptahugmynd Birgis og getur fært Íslendingum nýja og bjarta framtíð. Einhver spurði hvort hann væri ekki bara að fara aftur í bómasölubransann, hafandi í huga að í Hollandi má kaupa mikið af blómum. Nei, hann hefur algjörlega snúið baki við svoleiðis fátæktarhokri - nú eru það bara stóru tækifærin sem blíva.

Efst á Veðurstofuhæð hurfu þeir Flosi, Bjarni og Ólaf hinn þýzki. Okkur hinum fannst þeir taka hlaupið fullalvarlega. Við stoppuðum á öllum stöðum þar sem hefðin býður að stöðvað sé: Othars Platz, við Svörtuloft, Ægisgötu - en létum okkur svo hafa það að hlaupa niður Hofsvallagötu. Líklega eru sunnudagshlaup einhver mest gefandi hlaup, svona intellektúellt talað, aðra daga er yfirleitt bara talað um það sem við erum að gera: hlaup. Svoldið nördalegt.

En samræður, ræðuflutningur og samtöl á hlaupi dagsins voru aðeins forsmekkurinn að því sem koma skyldi. Potturinn var þéttsetinn og hefur sjaldan verið jafnöflugur, þar voru mættir, auk hlaupara með hlaupaskyldu, dr. Einar Gunnar, dr. Baldur, Mímir, Stefán, Þorbjörg (sem er að vísu með hlaupaskyldu en gerði ekki nánari grein fyrir sér). Hér var ekki töluð vitleysan. Hér flaut vizka og persónufræði. Vilhjálmur spurði hvaða fjall væri 1069 m hátt og mætti þekkja út frá einhverju stærðfræðikjaftæði sem ég man ekki að segja frá (NB ég er máladeildarstúdent frá Reykjavíkur Lærða Skóla). Menn komu með margar tilgátur: Keilir, Tröllakirkja, Herðubreið... Þið eruð asnar! sagði Vilhjálmur. Nei, þetta var Búlandstindur. Og svona hélt þetta áfram, vísbendingaspurningar, fróðleikur af ýmsu tagi og komust færri að en vildu með sín framlög og sjónarmið.

Hér er rétti staðurinn til þess að vekja athygli lesenda á spurningaþættinum Útsvar, sem verður á dagskrá Ríkissjónvarps n.k. föstudag, en þá keppir Vilhjálmur fyrir hönd nágrannasveitarfélagsins, og dr. Baldur bíður við símann sem bezti vinur Vilhjálms þegar og ef nauðsyn krefur. En af frammistöðu hans í potti í dag þótti það næsta ósennilegt. Í gvuðs friði, nýtt hlaup á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband