Hetjur hlupu um héruð

Þar sem Vilhjálmur stóð í Brottfararsal og baðaði sig í aðdáun vina sinna, þeirra Ólafs Þorsteinssonar, Þorvaldar og Ólafs ritara, ryðst Jörundur inn með hávaðalátum og byrjar strax orðræðu sem stóð sleitulaust inn í kirkjugarð. Fyrst var að leiðrétta hvar Snorri prestur á Húsafelli hefði áður haft brauð, sem mun hafa verið í Aðalvík. VB hafði sagst vita þetta í Útsvari: Í Grunnavík, þaðan var amma mín. Ætlan Jörundar var sú að með því að blanda ömmu sinni í málið hafi VB verið að slá ryki í augu dómarans, sem hefði fipast og dæmt svarið rétt. Hitt var svo með Timbuktu sem Jörundur gúgglaði og fann í Ghana, en Garðahreppur sagði vera í Malí. Síðan hafði Jörundur athugasemdir við það að eðalReykvíkingur eins og Baldur Símonarson legði lag sitt við þetta sveitarfélag og léði því stuðning sinn og þótti illmannlega gjört að leggja spurningu um afdankaðan og löngu dauðan Hollívúddleikara fyrir Baldur, sem væri þekkt góðmenni.

Eftir mikinn orðaflaum var loks hægt að leggja af stað, en ÓÞ bað um orðið á tröppum VBL. Hann kvaðst hafa farið í verzlunarmiðstöð á höfuðborginni í gær og þar hefði vart verið þverfótað fyrir fólki í innkaupum og hann hefði ekki komist spönn frá rassi fyrir fólki sem kom til hans og vildi óska honum til hamingju með árangur Vilhjálms í spurningakeppninni. Vilhjálmur kvaðst ekki hafa orðið var að neinn vildi óska honum til hamingju. Þannig var það nú þennan sunnudagsmorgun. Allvel mætt, auk áðurnefndra voru Flosi og Bjarni.

Vindur á norðvestan, en ekkert sérlega kalt. Engu að síður leið okkur eins og hetjum sem eru að leggja í ófærur.  Afar hægt farið af stað. Jörundur hélt áfram ræðu sinni sem beindist að Vilhjálmi og hafði hátt. Vilhjálmur sagði: "Jörundur, haltu áfram!" þar með segjandi að hann frábæði sér pólitíska einræðu prentarans róttæka. Jörundur lét ekki segjast og hélt áfram með Vilhjálmi. Við aðrir á undan.

Í Nauthólsvík var stoppað eins og ævinlega er gert á sunnudagsmorgnum. Þar var flutt persónufræði svo margslungin og ítarleg að hlýtur að vera öllum viðstöddum ógleymanleg. Spurt var hvernig Vilhjálmur tengdist Oddi í Glæsi. Hér stóð m.a.s. VB á gati, en ÓÞ flutti með óbrigðulu minni og þekkingu tölu um ættir og tengsl sem lýsti mikilli mannþekkingu og persónufræði og setti frænda aftur á stall með mestu persónufræðingum Lýðveldisins. Síðan var spurt: hvert var bílnúmer Odds í Glæsi? Menn stóðu á gati - ýmsar getgátur en loks var gefin von um svar næsta sunnudag.

Það varð að halda áfram vegna þess að menn kólnuðu hratt niður. Loks gerðist það í kirkjugarði að Vilhjálmur náði að hrista Jörund af sér og fékk að hlaupa óáreittur. Við Miklubraut vorum við rétt búnir að valda stórslysi, kona sem kom akandi á bíl sínum rak augun í okkur og varð svo mikið um að hún snarhemlaði, og var nærri því búin að fá tvo bíla aftan á sig. Sem betur fer slapp þetta til, en tæpara mátti það vart standa.

Á Rauðarárstíg sagði Ólafur frændi minn okkur sögu af hrokkinkolli í Svörtuloftum sem hefði verið innan um fólk og menn hefðu tekið eftir miklum hlunki á handlegg hans, úri sem minnti á Rolex. Hann hefði tekið hlunkinn af hendi sér, lagt fyrir framan sig og sagt: "Þetta gaf Berlusconi mér." Vilhjálmur hafði strax skoðanir á málinu, kvaðst hafa hitt hrokkinkollinn sjálfur og beðið hann um að leyfa sér að skoða hlunkinn - og þetta hefði alls ekki verið neinn Rolex-hlunkur. Jæja, alltaf skal hann slá mönnum við og barna sögur þeirra.

Við fórum Laugaveginn vegna norðanáttarinnar, fáir á ferli, en þó voru kaffihús opin og reytingur af fólki þar innandyra, sjálfsagt allt útlendingar. Svo slitnaði hlaupahópurinn sundur og menn komu mjög misjafnlega til Laugar.

Vel mætt í pott - og Baldur flutti enn erindi sitt um worst case scenarios sem fyrst birtist í tölvupósti. Þar með setjandi okkur í nokkurn vanda - en ÓÞ og Jörundur reyndu að bjarga okkur með því að flytja enn og aftur sögur morgunsins. Farið yfir Útsvarsþáttinn og leitað eftir réttum svörum. Skyndilega birtist fólk sem alla jafna ætti að vera að hlaupa með okkur: Björn, blómasalinn og dr. Jóhanna. Engar skýringar gefnar á fjarveru. Setið góða stund og rætt um stöðu mála, góða Spaugstofu í gær. Hlaupasamtökin áttu tvo hlaupara í Haustmaraþoni, próf. S. Ingvarsson og próf. Fróða - báðir á fínum tímum. Í gvuðs friði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband