Framsækin samtök sækja inn á ný mið

Hlaupasamtök Lýðveldisins eru framsækin jafnréttissamtök, þau berjast fyrir jafnrétti kynjanna og leggja sig fram um að hvetja konur til þess að taka þátt í starfi Samtakanna. Meira um þetta seinna. Dagurinn var þunglyndislegur, það var dimmt yfir þegar um miðjan dag, alskýjað, rigning, einhver vindur, en ekki kalt. Reyndar bara hlýtt miðað við seinustu daga. Af þeirri ástæðu var fjöldi hlaupara mættir til hlaups: fyrstir og fremstir meðal jafningja skulu nefndir þeir próf. Fróði og próf. dr. S. Ingvarsson Keldensis, nýbúnir að hlaupa maraþon og standa sig með prýði, S. Ingvarsson fór á 3:18 og próf. Fróði fór hálfsofandi á 3:41, tók varla eftir því að hann væri að hlaupa. Aðrir: Karl, Flosi, Þorvaldur, Björn, Bjarni, Einar blómasali, Ólafur ritari, Helmut, dr. Jóhanna, Rúna og Denni skransali.

Veður var eins og það gerist bezt til hlaupa, nánast logn, hiti 4 gráður og duggregn eins og Svíinn segir. Rúna slóst í för með okkur á Plani. Við erum svo frjáls af okkur þegar við hlaupum þjálfaralaus á föstudögum, breytum leiðum, förum á okkar eigin tempói og þurfum ekki að taka þéttinga frekar en við viljum. Enda kom það í ljós að menn voru fremur rólegir, ef ekki beinlínis metnaðarlausir. Þorvaldur hafði ugg í brjósti vegna vindáttar og lagði til öfugan hring - niðurstaða var að fara bakgarða í 107 og þannig út að Skerjafirði, en svo Ströndina - við erum þrátt fyrir allt engir eymingjar.

Einhver æsingur var þrátt fyrir allt í fólki og menn voru að derra sig og vildu fara að færa upp hraðann. Við hin vorum hins vegar róleg og notuðum tímann vel til þess að ræða aðstæður. Nú blasir við að vextir fara hækkandi, afborganir fólks af hvers kyns lánum fara hækkandi, verðbólga á uppleið, laun lækkuð í sumum tilvikum, atvinnuleysi vaxandi, verðhækkanir framundan, kaupmáttarrýrnun óhjákvæmileg - en hvar eru aðgerðir stjórnvalda? Það blasir við að það eina sem mönnum dettur í hug að gera er að taka refsinguna fyrirfram út á þjóðinni, sem ekkert hefur til saka unnið og verðskuldar ekki þá valkosti sem bjóðast. Við höfum ekkert séð og blasir við að sögnin að "haarda" öðlist fastan sess í málinu í merkingunni "gera ekki neitt" eða "fljóta sofandi að feigðarósi". Þannig var stemmningin í þeim hópi sem ég hljóp í.

Nei, nei, við vorum rólegir. Ég og Bjössi og blómasalinn náðum góðum samhljómi þarna einhvers staðar í Hi_Lux og vorum í góðum fílíng, allir að chilla og bara að njóta þess að fara á rólegu tempói, engin ástæða til að vera að spenna upp hraða. Ræddum svolítið um matargerð enda er Björn fagmaður á því sviði, Einar áhugamaður. Á þessum kafla upphófst samræða svo framsækinnar tegundar að hlýtur að teljast byltingarkennd í vorum hópi. Er skemmst frá því að segja að þegar við komum niður í Hlíðar vorum við fóstbræður búnir að stofna kvennadeild Hlaupasamtakanna. En það atvikaðist þannig að okkar í millum fórum við að ræða aðstæður heimafyrir og töldum þá úrlausn sennilegasta að innvikkla konurnar í starf Hlaupasamtakanna. Við vorum innilega ánægðir með framtakið, sem lýsir bæði framsýni og áræðni, að ekki sé talað um jafnréttissýn. Þeir Björn og Einar Þór buðu þegar fram krafta kvenna sinna í þágu hinnar nýju deildar og töldu að þær gætu átt mikilvægt framlag í uppbyggingu þessarar merkilegu starfsemi. Hugsunin var sumsé sú að fá konur duglegra hlaupara til þess að hætta kvabba um að mikill tími fari í hlaup, mæta þess í stað til hlaupa og taka þátt í herlegheitunum, hætta í rándýrum líkamsræktarstöðvum sem skila engum árangri en taka þess í stað þátt í ódýru sporti og uppbyggilegu. Af þeirri ástæðu voru eftirtalin drög að reglum fyrir kvennadeild Hlaupasamtakanna samin:

1. Tilgangur með starfi sérstakrar kvennadeildar Hlaupasamtaka er að efla félagsanda meðal ektakvinna hlaupafélaga þannig að þeim glæðist skilningur á mikilvægi hlaupa og hætti þarafleiðandi kvabbi sínu um að hlaup taki of mikinn tíma frá fjölskylduvafstri.
2. Eiginmenn kvenlegra hlaupafélaga geta átt aðild að kvennadeild Hlaupasamtakanna séu ... (þurfum að hugsa þetta aðeins betur)
3. Markmiðið með starfrækslu kvennadeildar er að efla samstöðu meðal eiginkvenna hlaupara sem vantar skilning á mikilvægi hlaupa og skilja ekki hvers vegna hlaup þurfa að taka tíma frá hefðbundnum og eðlilegum fjölskylduskuldbindingum.

Þeir Björn og Einar vildu fá frekari ákvæði inn í reglurnar um þjónustu kvenna á hátíðum í Samtökunum, svo sem að þær skyldu settar í að hella upp á kaffi, baka kökur, þeyta rjóma og annað í þeim dúr, en ritarinn, sem er einn staðfastur femínisti og bolsjévík, hafnaði með öllu slíkum tillögum frá þessum eftirblívnu félögum okkar, sem enn eiga eftir að taka út nokkurn þroska. Kvennadeildin er sem sagt stofnuð og við væntum þess að eiginkonur félaga muni flykkjast undir merki hennar til þess að hafna daunillum líkamsræktarstöðvum og fara út í hreina loftið að hreyfa sig.

Þetta sýnir náttúrlega hversu gefandi og skapandi hlaup eru og hversu hugmyndaríkir hlauparar eru þegar þeir komast á flug. Við héldum bara áfram fóstbræður að spúa út hugmyndum og vorum óstöðvandi. Það var farið hefðbundið um Veðurstofuhálendi, Hlíðar, Klambra, Hlemm og niður á Sæbraut og þá leið tilbaka til Laugar. Er komið var tilbaka (og það skal viðurkennt að ég var með þeim seinustu, við fóstbræður, blómasalinn), var stemmning góð. Þá fóru menn á flug og skildu okkur aumingjana eftir. En blómasalinn er góður félagsskapur, við áttum gott samtal á leið okkar um Sæbraut, Svörtuloft, Geirsgötu, Mýrargötu og Ægisgötu. Fórum hægt, enda ekki að stefna að neinu. Aðrir á undan okkur.

Föstudagur. Pottur þéttsetinn. Mætt Sif Jónsdóttir sem þreytti Amsterdammaraþon nánast án aðstoðar fótanna, hún var slösuð og meidd og meiðzlin fóru bara versnandi en ekki bessnandi eftir því sem á hlaup leið. Próf. Fróði mætti seint til Potts. Hann var með umbúðir vinstra megin og sagði að "þeir" hefðu fjarlægt eitthvert líffæri, einhvern dælufjanda, sem gerði ekkert gagn. Sér liði miklu betur á eftir og væri miklu léttara að hlaupa nú en áður. Viðstaddir bentu honum á að s.l. miðvikudag hefði hann haft umbúðir hinu megin, hægra megin. "Nú? - var það?" sagði prófessorinn alveg hlessa.

Föstudagar eru alveg einstakir - þá er hlaupavikunni lokið og við erum í fullkominni afslöppun. Nú er að huga að árshátíð og Fyrsta Föstudegi, sem er næsta Föstudag. Þurfum að finna lókal fyrir árshátíð, skemmtiatriði og fleira í þeim dúr. Vonandi gengur það vel. Ég saknaði góðra félaga í hlaui kvöldsins, Magnús mætti að vísu í pott og sat lengi, en Birgir og Jörundur eru slíkar lykilpersónur í þvi sem framundan er að þeir mega ekki láta undir höfuð leggjast að mæta til hlaupa. Stærsta verkefni Samtakanna er að sannfæra okkar traustasta félaga og vin að hans staður sé hjá okkur. Einelti, skítkast og illt umtal sé okkar helzta og bezta aðalsmerki. Þar er engum hlíft og enginn undanskilinn. Framundan er Fyrsti Föstudagur og árshátíð sem haldin verður í heimahúsi. Meira um það seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband