Hlaup gerast bara betri - hvar endar þetta?

Maður er bara orðlaus eftir svona hlaup. Til að byrja með var slík örtröð á Plani að ekki var þverfótað eða hægt að skjóta inn orði. Allir helztu hlauparar Samtaka Vorra mættir, Jörundur, Magnús nýkominn frá New York, en þó vantaði einhverja. Samtals voru 22 hlauparar samankomnir og réð veður trúlega einhverju um mætingu, kominn fjögurra stiga hiti, logn, en þó hált víða á stígum. Alltaf bætast nýir í hópinn.

Sumir vildu fara langt, aðrir millilangt. Ágúst ætlaði 30 km, nýbúinn með maraþon´og fór 18 km í gær. Hann kvaðst hafa farið maraþonið hálfsofandi enda fór hann á 3:41 sem er hans fjórði lakasti tími. Jæja, hvað um það, Birgir á gormum og blómasalinn með balaklövu sem minnti einna helzt á höfuðbúnað kvenfólks í arabalöndum. Fórum hægt af stað á 6 mín. tempói, en settum fljótlega upp hraðann. Ég lenti í hópi með Flosa, dr. Jóhönnu, Jóhönnu "yngri", Flosa, Unu, Frikka, Birni, Bigga - og svo náði Rúnar okkur inn við Borgarspítala, eftir að hafa fylgt byrjendum af stað út að Skítastöð.

Við vorum góð! Við vorum flott! Mikill hraði, ekkert slegið af. 5 mín. tempó. Getur þetta gengið, hugsaði ég. Fleiri hugsuðu þannig. Þetta gat gengið, við réðum við tempóið, við gátum þetta, Þess vegna var þetta gaman. Brekkan upp hjá Borgarspítala upp að Bústaðavegi var ekki eins erfið og síðast, haldið inn í Háaleitishverfið og yfir göngubrú hjá Fram-heimili. Þetta heitir Þriggjabrúahlaup, þó það sé strangt til tekið aðeins tveggja brúa, því við förum ekki yfir göngubrúna hjá Grand-hótelinu heldur förum sem leið liggur niður á Sæbraut. Þar var hraðinn aftur settur upp og farið of hægt ef eitthvað var.

Það var ljóst að sárlega vantaði analytiker og álitsgjafa til þess að fara yfir málefni Sterling flugfélagsins. Einnig komu mál REI til umræðu og Geysir Green Energy - menn spurðu sig: hvernig hefði þetta ekki getað farið ef...? Hér söknuðu menn leiðsagnar félaga okkar Vilhjálms og varð ákafur grátur í potti yfir að njóta ekki lengur skýringa hans á því sem við dauðlegir skiljum ekki. Í potti var jafnframt hreyft því máli er jafnan til framfara horfir: árshátíð. Nú er komið að árshátíð Samtaka Vorra og þarf að fara að huga að salarkynnum, næringu og skemmtiatriðum. Þrátt fyrir dökkar horfur í efnahagslífi þjóðarinnar fellur árshátíð Hlaupasamtakanna ekki niður. Né heldur hið rómaða jólahlaðborð er menn mæta með fjölskyldur og vini og eiga kristilega kærleiksstund saman.

Eftir hlaup varð mér enn og aftur hugsað: hvílík gæfa að fá þessa fjármálakreppu, fjölmargir hlauparar sem hafa verið settir í farbann eru í slíku fantaformi að annað eins hefur ekki sézt í áraraðir. Ég er farinn að kvíða uppsveiflunni þegar ráðuneytisfólk verður aftur farið að flykkjast í flugvélarnar og fairð að missa af hlaupi, missa sig í áti og ólifnaði. Ekki gott. Hlaup kvöldsins var einstök upplifun sem fer í reynslusafnið og minningabankann sem eitt af þessum ógleymanlegu.

Vel mætt n.k. föstudag þegar við munum enn og aftur láta móðan mása og ... nei.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband