Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
15.10.2008 | 22:37
Fyrirsjáanleg leiðindi
Ágúst ætlaði að fara langt og syngja "Þrjú tonn af sandi" alla leiðina. Aðrir vildu fara skemmra, en ritari var ekki fráhverfur því að fara á gamalkunnar slóðir í Elliðaárdal. Lagt í hann eftir hefðbundnar kýtur á Brottfararplani. Flosi tók forystuna fljótlega í hlaupi og skildi aðra eftir, menn áttu ekki gott með að skilja hvaðan þessi kraftur og hraði væri kominn. Aðrir rólegir. Í raun var það ánægjulegt að við skyldum halda hópinn alla leið inn að Kringlumýrarbraut. Hér héldu Flosi, Benedikt, Ágúst og ritari áfram auk Unu. Aðrir hafa líklega farið Suðurhlíðar. Mættum Laugahópi í Fossvogi og í honum miðjum bróður okkar Flosa, Þorvaldi. Við Víkingsvöll viku þeir Flosi og Benedikt af leið og fóru líklega 69 - en við Ágúst fórum inn í Kópavog, upp brekkuna Yndislegu. Framhjá Goldfinger, prófessorinn athugaði dyrnar til öryggis, en enn og aftur var læst.
Svo var bara haldið áfram hefðbundið í Breiðholtið og upp að Stíbblu. Þar hélt Ágúst áfram og kvaðst ætla kringum Elliðavatn. Það sem mælti gegn þessum áformum var einkum tvennt: við vorum að nálgast snjólínu og það var orðið nokkuð kalt. Myrkur var að skella á og lýsing við Elliðavatn er af skornum skammti. Þar eru stígar með steinnibbum upp úr skógarbotninum og prófessorinn er þekktur fyrir að lyfta ekki fótum mjög hátt á hlaupi, þekktur raunar að því að reka tærnar í og taka flugið. Þegar steinnibbur og myrkur fara saman - ja, þá kann það ekki góðri lukku að stýra. Ég óttaðist að hann myndi ekki skila sér til byggða aftur. Fór sjálfur yfir Stíbblu og stytztu leið tilbaka.
Ólíkt því sem var í sumar hafði ég enga ánægju af þessu langa hlaupi. Það var kalt í efri byggðum og ég andaði að mér köldu lofti sem fór illa í lungun á mér. Ég var einn, hafði ekki félagsskap af skemmtilegu fólki. Ég var þungur á mér, mikið klæddur og nennti ekki að standa í þessu. Þegar komið var í Fossvoginn aftur var ég eiginlega ekki að nenna þessu. Skollið á niðamyrkur og maður átti á hættu að hlaupa niður gangandi vegfarendur í dalnum. Þraukaði þó og lauk hlaupi sem var með eindæmum leiðinlegt. Hefði betur farið að tilmælum þjálfara að fara styttra, maður er einfaldlega ekki búinn að jafna sig nóg eftir maraþon til þess að fara svona langar leiðir. Svo er alltaf þyngra að hlaupa í fullum herklæðum.
Það voru náttúrlega allir félagar farnir þegar maður kom tilbaka. Hitti þó Bjarna í útiklefa. Hann sagði mér skemmtilega anekdótu: Þorvaldur hafði lánað Birni jakka að hlaupa í. Björn gerðist sekur um vanskil eftir hlaup. Þorvaldur kom í útiklefa og horfði (að sögn Bjarna) tryllingslega í kringum sig: "Hvar er Björn?" Bjarni benti á töskuna hans og sagði: "Ja, dótið hans er alla vega hér." Þá öskraði Þorvaldur: "Er mannhelvítið búinn að troða jakkanum mínum niður í hlaupatöskuna sína!" Æddi út þeygi kátur.
Hvað er framunda? Meiri kvöl.
13.10.2008 | 22:13
Geðhlaup
Það var allt annað líf að hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í dag. Þegar ritari mætti í Brottfararsal var Vilhjálmur Bjarnason þegar mættur og búinn að króa kanadískt sjónvarpsteymi af úti í horni og hélt ádíens. Þegar Jörundur kom var hann líka drifinn út í horn og kynntur sem síðasti kommúnistinn á Íslandi, 67 ára ungmenni sem hlypi eins og hind. Mér var ekki ljóst hvað þarna var í gangi eða hvað verið væri að kynna, Hlaupasamtök eða kynlega kvisti. Það setti að mér ugg þegar ég sá hvað VB var... kátur. Sumir hlauparar hafa talið það merki um vonda hluti. Hraðaði mér í útiklefa og sá á leiðinni Þorvald gera æfingar á mottu í líkamsræktarsal sem minntu á eitthvað indverskt
Í útiklefa var þegar mannmergð, mættir Björn og Bjarni, stuttu síðar Flosi, Einar blómasali og Helmut. Þetta var bara fyrirboði um það sem varð í hlaupinu, mæting hreint með ólíkindum og almennt góð stemmning. Dr. Friðrik, dr. Jóhanna, báðir þjálfarar, próf. dr. Fróði, Eiríkur, Una og svo fullt af hlaupurum sem ég þekkti ekki. Kanadíska teymið var að snövla í kringum okkur, hafði langt viðtal við Villa úti á stétt og við færðum okkur út til þess að komast í mynd. Þjálfari flutti pistil um hlaup dagsins og greinilegt að það á að fara að herða á hlaupurum, fyrirmæli um Skítastöð og Nes og þéttinga á milli.
Menn eru raunverulega í góðum fílíng þessi missirin og allir að koma til eftir Berlín. Það var farið á léttu skeiði út, farið hefðbundið um Hagamel og þannig út á Suðurgötu og út í Skerjafjörð. Blómasalinn ólmur eins og foli sem ærslast fram úr öðrum hlaupurum, greinilegt að hann ætlaði að gera rósir í hlaupi dagsins. Rifjuð upp viðskiptahugmynd Birgis frá gærdeginum, hún útfærð frekar og þróuð með aðstoð góðra manna. Tempóið var undir 5 mín. Og ekki alveg það sem maður hafði hugsað sér. Stemmning þó öll önnur en í þunglyndislegu sunnudagshlaupinu menn bara léttir og sprækir og sáu ekkert nema tækifæri framundan.
Ekki var slegið af á Ægisíðu, gefið í ef eitthvað var, blómasalinn og Eiríkur og lá einhver ósköp á. Svo gerðist það fyrirsjáanlega, blómasalinn gafst upp við Hofsvallagötu og gekk beygður til Laugar. Eiríkur hélt áfram á Nes, sem og við hin. Neshópur var á sínum stað, en nokkuð gisinn og vantaði margar mikilvægar persónur. Ekki var slegið af hraðanum hér, áfram kringum 5 mín. Tempó. Ég fór Lindarbraut ásamt með ótilgreindu fólki (maður þekkir orðið ekki helminginn af fólkinu sem hleypur með okkur), Ágúst og Bjarni fóru fyrir golfvöll, hvað um aðra varð veit ég ekki. Það gekk vel að halda uppi hraða og eygði ég hina hröðu hlaupara alllengi en var þó alla jafna einn. Ekkert nýtt þar!
Komið á ný til Laugar. Þar stóðu hlauparar á stétt og teygðu. Það fylgir því alltaf sérstök stemmning að hlaupa á haustin og minnir á bernskuárin þegar maður var götustrákur. Upplýst er að ferðum ritara fækkar mjög á næstunni og hann getur hlaupið ótruflaður í allan vetur án þess að tefjast af utanferðum og öllum þeim ósóma sem þeim fylgja. Jörundur var með skemmtilega kenningu á stétt sem hann kenndi próf. Fróða. Sá hafði sagt að við vöðvasliti væri gott að innbyrða prótein. Með sömu röksemdafærslu mætti fullyrða að við beinbroti væri gott að innbyrða beinamjöl.
Pottur óvenjuvel mannaður, þótt ekki væri VB viðstaddur. Margt rætt af speki og þó tók steininn úr þegar Ágúst upplýsti að hann væri þegar kominn með lagið Þrjú tonn af sandi á heilann fyrir Sahara-hlaupið og óttaðist að það myndi sitja fast í höfðinu á honum meðan á hlaupi stæði. Þannig glataðist mikilvægur tími við það að hrista hausinn í hlaupinu til þess að losna við lagið úr höfðinu.
Samþykkt að hlaupa langt n.k. miðvikudag. Tillaga um 24 km. Ja, ekki styttra sagði Ágúst og vildi helst fara 28 km. Enda er hann í prógrammi fyrir Sahara. Hlauparar mæti með drykki með sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2008 | 16:24
Á sunnudagsmorgni
Á leiðinni inn Sólraunarbraut reyndi ég að leiða talið að hlaupum og öðru uppbyggilegu - en menn féllu jafnóðum í sama barlóminn og svartsýnisrausið. Staldrað við í Nauthólsvík og beðið eftir Ólafi Þorsteinssyni, sem var venju fremur hægur í dag. Til þess að lífga upp á sellskapið var ákveðið að óska eftir klámsögu. Eina klámið sem ÓÞ datt í hug var nýleg skilnaðarsaga.. Þótti heldur rýrt. Hlaupið framhjá HR sem sumir viðstaddra töldu að myndi fljótlega sameinast HÍ með meðfylgjandi gráti og gnístran tanna. Haldið áfram á hægu tempói, inn í kirkjugarðinn sem þótti afar vðeigandi viðkomustaður á þessum tímum. Kíktum á eitt nýlegt leiði, en könnuðumst ekki við viðkomandi. Áfram hefðbundið um Veðurstofuhálendi og þannig áfram. Hér fór einhver að segja frá leikhúsför, stykkið var Fýsn, merkilegt verk og skemmtilegt - en þunglyndislegt í aðra röndina. Ekki verður hann skafinn af okkur, menningarbragurinn, alltaf er gefandi fyrir andann að hlaupa í þessum hópi.
Við biðum eftir ÓÞ á Rauðarárstígnum, sem undirstrikar enn og aftur samstöðuna í hópnum: hér er enginn skilinn eftir. Það var ákveðið að fara Laugaveginn vegna ríkjandi norðanáttar og vegna þess að við vildum sjá hann eins og við munum aldrei sjá hann aftur. Veröld sem var. Við bentum á öll fyrirtækin sem við töldum að myndu rúlla á næstu vikum og mánuðum. Birgir, sem er mikill frumkvöðull og hugsuður, kom fram með nýja viðskiptahugmynd sem hægt væri að finna stað í verzlunarhúsnæði blómasalans og hann geta lagt til súlur, sklirúm, rúm frá ameríska hernum og Birgir og ritari myndu leggja til hugvit, verkvit og handverk. Starfsemi af þessu tagi gæti orðið mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið í landinu.
Fáir á ferli á Laugavegi og í miðbæ, enda veður ekki þesslegt að bjóði til mikillar útiveru. Tíðindalítið eftir þetta, lengd hlaups á að gizka 11 km. Pottur vel mannaður: dr. Einar Gunnar, dr. Baldur Sím., Jörundur kominn af 69 hlaupi með Pétri Reimarss., Helga og Stefán, svo komu dr. Jóhanna og Helmut óhlaupin. Setið fram undir eitt og rætt margt gáfulegt. Jörundur með áhyggjur af því að Lúpínuandstæðingafélagið fylltist af Sjálfstæðismönnum, þeir væru orðnir honum sammála í pólitík.
Nú gildir ekkert annað en halda ótrauður áfram og því verður hlaupið á morgun kl. 17:30 - við höldum okkar striki hvað sem á dynur. Það kostar ekkert að hlaupa og fylla sig af súrefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2008 | 18:38
Hlaupið inn í kirkjugarð
Gullkorn frá varariturum í fjarveru Aðalritara. Birgir jógi hefur orðið:
"Það var misglaðbeittur hópur fólks sem kom saman fyrir framan laug nú
á miðvikudaginn klukkan seytján þrjátíu. Engum blöðum þurfti um það
að fletta að sumum var heitt í hamsi eftir að hafa misst allt sitt
sparifé, á meðan greina mátti glott á vörum annarra sem túlka mátti
sem: Saggði ég ekki að þetta myndi fara svona?
Prófessor Fróði (Á. Kvaran) var himinlifandi yfir að hafa skráð sig
og borgað með Evrum í Sahara maraþonið, því ef hann hætti við fengi
hann endurgreitt í Evrum sem í dag kostar eitt stykki c.a. 300 kall.
Þegar Fróði greiddi fyrir hlaupið var Evran i 120.
Magga þjálfari benti lýðnum á að þeir sem hlupu Berlín ættu enn um
sinn að slæpast þetta örfáa kílómetra á lullandi tempói og mælti með
Hlíðarfæti. Af stað löggðu síðan um það bil þessir: Flosi, Ágúst
Kvaran, Magga, Þorvaldur, Einar blómasali, Helmut og Jóhanna, Rúna,
Magnús og Una. Ég gleymi örugglega einhverjum og biðst forláts á því.
Það bar síðan fátt til tíðinda þar til hópurinn kom að
Fossvigskirkjugarði að bjartsýnismennirnir Flosi & Co fóru niður
brekkuna en Birgir, Þorvaldur, Helmut, Jóhanna o.fl. fóru inn í
kirkjugarðinn. Fannst það vel við hæfi í þessu ástandi öllu saman þar
sem allt virðist á vonarvöl.
Síðan var þetta blanda af föstudegi og sunnudegi þar sem farið var
til vinstri við Veðurstofuna og síðan gegnum Klambratúnið.
Laugavegurinn var hlaupinn til að sjá ástand landans í kreppunni.
Nokkrir rónar gerðu aðsúg að okkur og við vorum ekki rónni fyrr en
við vorum komin í Grjótaþorpið. Rakleitt síðan til laugar með
örstuttu stoppi í Melabúðinni þar sem ég kastaði vatni, nei ég meina
kveðju, á Friðrik sem stóð gleiður við innganginn og horfði á
sjónvarpið. Melabúðin var í danska sjónvarpinu nú í vikunni og því
orðin heimsfræg. Mættum blómasalanum á hlaupum út úr lauginni og
beint inn í bíl við konunnar. Sást grilla í matvörupoka í bílnum svo
líklega hefur hungrið verið farið að sverfa að.
Síðan var haldið í pott en þeir voru allir fullir af útlendingum sem
eru strax mættir til að drekka ódýrasta bjór í heimi. Já nú er hún
Snorrabúð stekkur og spurning hvort ekki eigi að endurreisa Sambandið
og Miklagarð með slagorðið mikið fyrir litið?"
Próf. dr. Fróða segist svo frá sama hlaupi:
"Jú það var hlaupið. Allgóð mæting: Margret, kona að nafni Sirrý
(fornleifafræðingur), Birgir símalandi, Sigurður Ingvarsson forhlaupinn og
bætti við hlaupi með okkur, Flosi, Una, Þjóðverjinn, sem enginn þekkir,
Magnús tannlæknir, Bjarni, Blómasalinn, Rúna, Helmut, Jóhanna, Þorvaldur,
undirritaður og hugsanlega einhverjir fleiri. Við Nauthól skildu leiðir.
Ég, Siggi og Flosi héldum áfram inn Fossvogsdal. Nálægt Víkingsheimili
stytti Flosi, en við Siggi héldum áfram Goldfinger og upp að stíbblu og
niður dalinn norðanmegin. Þar yfirgaf Siggi mig og hélt heim á leið. Ég
hélt áfram til baka Fossvogsdalinn og lagði samtals 21.89 km að baki
(verkjalaus). Þetta var 5. hlaupið í röð á 4 dögum (sjá:
http://www.hi.is/~agust/hlaup/ak/hlak07.xls): Í gær hljóp ég tvö hlaup: í
og úr vinnu, með bakpoka heimleiðina. Stefnir í um 100 km þessa viku! Nú
er alvaran hafin.
Annars er fátt að frétta héðan nema hvað allt er í kaldakolum og við erum á
góðri leið að sökkva Breska heimsveldinu með okkur!
Farðu svo að koma þér heim: Bjórinn er ódýrari hér!"
Til þess að klykkja út kemur ein ágæt vísa eftir ónefndan organista:
Menn sér fara vildu að voða
í vitleysu af fyrstu gráðu,
því útrásin var eintóm froða
eins og vinstri grænir spáðu.
Í gvuðs friði, ritari.
6.10.2008 | 20:35
Það eina vitræna í stöðunni: halda áfram að hlaupa!
Nokkrir af mikilvægustu hlaupurum Hlaupasamtaka Lýðveldisins gerðu sér harðla vel ljóst í dag að í stöðunni var ekkert annað að gera en fara út að hlaupa. Af þeirri ástæðu mætti úrval hlaupara og voru óbugaðir, þessir mættir: dr. Friðrik, dr. Jóhanna, Magnús Júlíus, próf. dr. Ágúst, Helmut, Þorvaldur, Einar blómasali, Birgir jógi, Þorbjörg, Margrét þjálfari, ritari og þýzkur maður sem ég hef ekki nafnið á. Afhentur septemberlöber með viðeigandi næringarefnum og kartöfluFLÖGUM. Einar fékk sérstök verðlaun frá Flosa: fullan poka af smarties.
Við stóðum stapplandi á stétt og börðum okkur til hita. Ágúst tók sér góðan tíma til að búast til hlaups, var mun lengur að en blómasalinn. Er upp var komið tók hann ekki strikið út á stétt. Nei, hann fór beint inn á klósett. Þá var okkur öllum lokið og hlupum af stað. Upp á Víðimel, út á Suðurgötu og suður í Skerjafjörð. Hratt tempó, fjaðurmögnun hreyfinganna sláandi. Veður var nokkru skárra en við ætluðum í fyrstu, en miklar bollaleggingar voru framan af og strategískar ákvarðanir undirbúnar. En þegar upp var staðið var bara tekinn nokkuð hefðbundinn mánudagur. Út að Skítastöð og svo tilbaka.
Mættum fámennum Neshópi með Denna og Rúnu innanborðs - en þau voru bara brött. Haldið áfram á hröðu skeiði út Ægisíðuna. Flestir létu staðar numið eftir Aumingja, 5,5 km - en við Þorvaldur höfðum ekki fengið nóg og héldum áfram í næsta sveitarfélag. Fórum samt ekki langt, enda óþarfi, aðeins út að Hagkaup og svo um húsagarða tilbaka til Laugar.
Ekki veit ég hvað varð af próf. Fróða - hans varð ekki vart eftir að hann brá sér á dolluna. Aðrir hlauparar voru í potti og tóku af alvöru þátt í umræðum um ýmsan vanda sem að steðjar. Báru menn sig karlmannlega og töldu ýmis ráð í stöðunni: fara að veiða fisk, kaupa rófur í sveitinni, selja Fréttablaðið, og flytja til Svalbarða. Af þessu sézt hversu uppbyggileg hlaup eru og uppspretta endalausra hugmynda til þess að brjótast gegnum brimgarðinn. Í gvuðs friði. Ritari.
1.10.2008 | 21:11
Líf eftir maraþonhlaup
Nei, maraþon í Berlín var ekki lokapunkturinn. Lífið heldur áfram og hlaupin halda áfram. Mættur þéttur hópur úrvalshlaupara, sumir meiddir og haltir, aðrir góðir. Mættir: dr. Sjúl, dr. Friðrik, dr. Magnús Júlíus, próf. dr. Ágúst, dr. Jóhanna, Rúnar, Flosi, Birgir, Una, Jörundur og ritari. Hátíðarstund í brottfararsal þar sem Berlínarhlaupurum var fagnað og fengu hamingjuóskir fyrir velheppnað hlaup. Kalt úti og vindasamt og ekki gott útlit. Ákveðið að fara aðeins stutt, Aumingja út að Skítastöð, 5 km í mesta lagi. Sigurður Ingvarsson bættist í hópinn þegar við vorum að leggja í hann.
Ýmiss konar stirðleiki í gangi, Ágúst meiddur en stefnir ótrauður á Sahara-hlaup. Flosi og Sigurður voru einna frískastir og fóru á undan öðrum. Við Rúnar létum nægja að fara í Skerjafjörðinn og þaðan tilbaka, aðrir fóru lengra, sumir Hlíðarfót, einhverjir jafnvel 9 km - og Flosi fór fullan 69, 17 km. Legið í potti um stund eftir hlaup og þangað kom blómasalinn bugaður af þróun efnahagsmála. Það er farið að kólna núna og maður er farinn að finna fyrir því.
Fyrsti Föstudagur á föstudag. Afhentur september-löber. Hver hreppir hann?
1.10.2008 | 12:28
Hlaupið í Berlín - eintóm hamingja!
Ritari sat með þeim feðgum blómasalanum og Ólafi syni hans. Þegar vélin var komin í loftið dró ég upp öskju með pastasalati af beztu gerð og hóf að háma í mig. Upplitið á blómasalanum! "Þú ert verri en ég! Myndavél, myndavél!" - en hann var lokaður inni og myndavélin uppi í hólfi, svo að ég slapp við myndatöku. Blómasalinn var hins vegar duglegur að smella af alla ferðina og koma þær myndir vonandi fljótlega hér inn á blogg.
Við lentum heilu og höldnu í Berlín eftir þriggja tíma þægilegt og tíðindalaust flug. Treystum algjörlega á Helmut að koma okkur inn í borgina og reyndist hann hinn ágætasti leiðsögumaður. En vegna framkvæmda þurftum við óvænt að skipta um lest á leiðinni og fengum um leið nasasjón af næturlífi Berlínarbúa á föstudagskvöldi. Komum á hótelið, sem var í húsi frá um 1900. Svo var steðjað á fínan pastastað, Vapiano, sem er með mjög nýstárlegu sniði. Maður fær afhent kort og fer á milli, pantar pasta hér með sósu að eigin vali og allt eldað fyrir framan mann, fer svo á annað borð og pantar drykk. Og þegar upp er staðið fer maður með kortið og greiðir fyrir það sem neytt hefur verið. (Blómasalinn "gleymdi" að skila sínu Vapiano-korti.)
Á laugardeginum var vaknað snemma, um 9:00, etinn árbítur sem var vel útilátinn og álitlegur - en að mestu haldið sig við efni sem henta hlaupurum. Svo tókum við lestina út að Paulsternsstrasse og gengum þaðan, eða fylgdum mannfjöldanum, sem gekk aðeins í eina átt - Berlin Vital, þar sem menn sækja skráningargögn. Þetta var aðeins stærra en að sækja gögn í Laugardalshöllina, rúmlega 40 þús. manns, mikill hiti og mikil mannþröng. Maður elti fólkið og komst á endanum í 16 þús. fm. húsnæði með skráningaraðstöðu, sölu- og upplýsingabásum, m.a. um ýmis önnur maraþon. Ritari fór upp á aðra hæð, sótti pakkann sinn, fékk upplýsingar um að bolinn mætti sækja niðri og flöguna með því að halda áfram. Ég sá mynd af flögu við endann á ganginum, fór þangað og þar var strikamerkið á skráningargögnum skannað saman við flöguna - "Kristjánsson" sagði maðurinn. "Richtig!" sagði ég, harðla stoltur. Fór svo niður og náði í bolinn.
Þeir hefðu átt að hlæja meira að Þorvaldi
Á svæðinu var gríðarlegur fjöldi fólks, veitingar út um allt, kúbönsk hljómsveit lék suður-ameríska tónlist. Og verzlunarbásar út um allt, með dýrum varningi - ekkert sem beinlínis heillaði. Auðvelt var að týna mannskapnum og svo fór og höfðu menn samband um SMS til þess að eiga samleið tilbaka á hótel. Ferðin tók einar fjórar klukkustundir - þannig að það var gott að fara að hvíla sig eftir hádegið. Svo var mætt í móttöku kl. sex síðdegis í hlaupafatnaði og farið út í létt skokk. Helmut var búinn að finna létta leið og fórum við hana á hægu og þægilegu tempói, allir fundu að þeir voru tilbúnir í átökin daginn eftir. Á leiðinni týndust Rúna, blómasalinn og Birgir. En þar sem við stóðum við hótelið og teygðum komu téðir hlauparar fyrir hornið með óskilgreindan angistarsvip á andliti og Birgir sagði: "Það er komið upp ástand." Ástand? sagði einhver, hvaða ástand? "Jú," sagði Birgir - "þar sem við hlupum, ég, blómasalinn og Rúna, sagði ég: það verður skrýtið að hlaupa án flögu á morgun." Rúna brást ósennilega við og spurði af hverju þeir ætluðu að hlaupa án flögu - en þeir urðu bara forviða og sögðu: við fengum enga flögu - það var engin flaga í pakkanum! Ekki veit ritari hvort Rúna útskýrði fyrir þeim með flöguna - en það voru orð að sönnu: þetta var ástand! Klukkan orðin 18:00 og skrifstofa hlaupsins búin að loka. Paníkk!
Helmut tók stjórnina hér, pantaði leigubíl og það var ekið í hendingskasti til Berlin Vital og allt lamið utan í þeirri von að finna mætti einhvern sem gæti leiðrétt hið óheppilega ástand. Á endanum fannst einhver manneskja sem vildi skoða málið, útvegaði flögur og sagði að þær yrðu skráðar um nóttina. Fyrir vikið frestaðist kvöldverður hjá flestum, ritari fór einn út og át pasta á litlum stað - aðrir munu hafa gert eitthvað svipað. Svo var farið í koju. Stóri dagurinn framundan.
Þáttur af Irmu
Ólafur Adólfsson kom með þeim Rúnu og Friðrik. Hann ætlaði að freista þess að fá sig skráðan í stað Irmu, sem er kærasta hans. Hún hafði skráð sig til hlaups en hætt við. Hann var með vegabréfið hennar meðferðis. Allir viðstaddir sögðu að það yrðu allnokkur tormerki á því að breyta skráningunni, Þjóðverjar væru svo formfastir. Hann yrði líklega handtekinn fyrir að vera með vegabréf annarrar manneskju og ákærður fyrir mansal. Ólafur var hvergi banginn og fór bara brattur á Vital. Hann var búinn að kokka upp einhverja makalausa lygasögu um að Irma hefði ruglast við skráninguna og sett sjálfa sig í stað Ólafs. Sagan rann ljúflega ofan í starfsfólkið á Vital og Ólafur gekk út fyrstur manna með öll sín gögn án þess að hafa þurft að sýna vegabréf Irmu.
Þeir Frikki fóru svo bara á fótboltaleik, Hertha Berlin vs. Energie Cottbus, sem lauk með sigri Cottbus, en það lið vermir neðsta sætið í Bundesligunni. Þeir lýstu mikilli stemmningu á leiknum og voru ánægðir er þeir gengu út. Á leiðinni spurði Frikki: Óli, hvar eru gögnin þín? Hafði hann þá gleymt öllu inni á áhorfendasvæðinu, þ.m.t. vegabréfi Irmu.
Hlaupið
Svefn er mikilvægur fyrir hlaup. Ég held að flestir hafi sofið ágætlega, en það þurfti að vakna um kl. 6 til þess að fara í morgunverð, því meiningin var að fara á lestarstöðina kl. 7. Eiríkur svaf yfir sig og var ræstur með miklum látum. Tókum lestina frá Zoologischer Garten til Hauptbahnhof - aragrúi fólks á ferð, allir á leið í haupið. Það var heilmikið fyrirtæki að koma sér inn á svæðið, losa sig við yfirhafnir, og koma sér á réttan stað í hlaupinu. Kamrar út um allt og ákveðið að skella sér á dolluna. Við blómasalinn stilltum okkur upp í biðröð, en höfðum áhyggjur af að við myndum ekki ná. Sáum Benna brosmilda álengdar og kölluðum á hann, báðum hann að þurrka brosið af andlitinu. Svo þegar til átti að taka var enginn toilettpappír á mínum kamri og ég lét mér nægja að tæma sokkinn. Fór út og hleypti næsta manni inn. Sá hafði greinilega einhverjar ranghugmyndir um kamra því að hann kom óðara út og kúgaðist af því sem hann hafði séð og fundið á kamrinum, settist á hækjur og var fráleitt undir það búinn að hlaup 42 km - almennur hlátur í nágrenninu.
Svo var bara að koma sér í hólfið sitt. Við Einar vorum flokkaðir með eymingjum, settir í H-Block. Ég fræddi Einar á því að H-Block hafi verið eitthvert alræmdasta fangelsi frelsiselskandi frænda okkar á N-Írlandi hér á árum áður. Þetta reyndist raunsönn lýsing á þrönginni sem beið okkar í upphafi hlaups, þetta var eins og fangelsi, svo þétt var þröngin að maður hljóp ekki fyrstu 10 km - það var lullað. En stemmningin var yfirgengileg, það var klappað og sungið og fólk frá yfir 100 þjóðlöndum saman komið í einum tilgangi: þreyta hlaup saman og hafa gaman af.
Veður var með miklum ágætum, 16 stiga hiti, lítilll vindur og bjart yfir. Við blómasalinn áttum samleið fyrstu 10 km og vorum allan tímann að mjaka okkur framar í þrönginni, sem mér fannst á endanum óskynsamlegt því það tók of mikla orku frá manni. Danskir fánar voru afar áberandi við hliðarlínuna og hvatningaróp á dönsku, m.a.s. sáust grænlenzkir fánar, en fáir íslenzkir. Við rákumst á Sigurð Gunnsteinsson sem skeiðaði hlaupið af léttleik og krafti, en sáum ekki til Haile eða Jörundar. Eftir 10 km leyfði ég blómasalanum að halda áfram að fara fram úr en ákvað sjálfur að slaka á og vera á tempói sem hentaði mér - virtist það skynsamlegt þegar upp var staðið.
Ich bin ein Berliner
Þúsundir Berlínarbúa hvöttu hlaupara nánast alla leiðina og má heita að hliðarlínan hafi verið ein óslitin röð fagnandi fólks og tónlistaratriða. Aftur og aftur fann maður fögnuðinn og kraftinn streyma um sig og niður í fætur, þar með eflandi þrek og þrótt og löngun til þess að standa sig vel. Ýmislegt bar fyrir augu á leiðinni, einn hlaupari hljóp berfættur, það voru blindir hlauparar með leiðsögufólk (dr. Jóhanna misskildi þetta eitthvað og hneykslaðist á fólki sem var að binda sig saman!), svo voru sumir sem gengu eða voru á hjólastólum. Einnig bar fyrir augu hlaupara í skondnum búningum, svo sem úr Axterix. Loks kom að því að íslenzkur fáni sást á lofti borinn uppi af sjálfum sendiherranum, Ólafi Davíðssyni.
Vegna þess hversu skynsamlega ég hljóp fyrri hlutann gerðist það í fyrsta skipti í maraþonhlaupi hjá mér að ég gat hlaupið alla leiðina án þess að þurfa að stoppa. Ég fékk mér alltaf vel að drekka og dældi í mig orkugeli og fann þar af leiðandi aldrei fyrir "múrnum" - tíndi inn hvern kílómetrann á fætur öðrum án þess að finna fyrir þreytu eða orkuskorti. Kom á rífandi ferð inn á Unter den Linden og tók glæsilegan lokasprett og átti nóg inni. Leið bara vel eftir hlaup, en sá að öðru gegndi um félaga mína, sem höfðu flestir farið á betri tíma en ég. Sumum leið beinlínis illa og á ég bágt með að sjá hvað er unnið með því að pína sig svo að maður er alveg í rusli á eftir. Hvað um það, við hittumst á Reunion-svæðinu og bárum saman bækur okkar. Óljóst var hvort Birgir og blómasalinn fengju tímann gefinn upp út af flöguveseninu, en það mun hafa rætzt úr því. Allir luku hlaupi og var það eitt og sér sérstakt ánægjuefni.
Farið heim á hótel og hvílt. Um kvöldið var farið á veitingastaðinn Max og Moritz og etinn hefðbundinn þýzkur matur og drukkinn bjór með. Það var fagnaðarefni að geta loks sleppt bannsettu pastanu og leyft sér sukk í mat og drykk.
Pistill Ritara | Breytt 5.10.2008 kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)