Hnípinn hlaupahópur saknar vinar í stað

Mánudagur kemur á eftir sunnudegi. Á sunnudeginum urðu þeir atburðir að líða hlaupafélögum seint úr minni. Þá urðu vinslit. Menn voru beygðir. Þeir söknuðu vinar í stað. Mestur var harmur í prentarastétt og ljóst að langt var í land að gróa myndi um heilt og góðir vinir taka saman skeiðið á Sólrúnarbraut við lauflétt fjármálahjal eða verðbréfarabb, og dýrkandi landið með lúpínueyðingu. En þrátt fyrir allt var mæting allgóð, líklega um 17 hlauparar og enn var það þannig að ritari hafði ekki nöfnin á öllum viðstöddum. Ritari kvartaði yfir vinnuaðstöðu, gerðar væru æ meiri kröfur um nákvæmni og vandvirkni í frásögnum, á meðan fjölgaði í hópnum og æ erfiðara yrði að fylgjast með því sem fólk segði. Hefur hann því lagt inn ósk um að ráðinn verði sekreter sem annast skrásetningu helstu viðburða, samtala og persónufræði, sem ritari sér svo um að setja í rétt samhengi að hlaupi loknu.

Ynidslegt haustveður, napur vindur sem beit mann í andlitið, en auð jörð. Þjálfarar mættir. Rúnar flutti ræðu um mikilvægi þess að halda hita á svæðum sem hætt væri við meiðslum. Ekki voru gefnar út leiðarlýsingar, sem fólkinu smalað niður á Ægisíðu, þar var farið á léttu tempói inn að Skítastöð. Þar var gefinn instrúx um fartlek (Ágúst sem betur fer víðsfjarri!), fyrst 2 mín. sprettur, 2 mín. hvíld, 3,5 mín. sprettur, 3,5 mín. hvíld, 5 mín. sprettur, 5 mín. hvíld og svo trappað niður í sömu tímum. Við af stað og var bara gaman að spretta úr spori. Rúnar, Eiríkur og Benni fremstir, svo kom Margrét og e-r með henni, þar á eftir við Bjössi, blómasalinn og Flosi. Farið um Nauthólsvík og út að Suðurhlíð. Upp á sæmilegu tempói. Uppi við Perlu var ritara farið að líða vel og við fórum niður stokkinn á fullri ferð. Við Einar vorum í góðum gír og tókum þétting frá göngubrúnni yfir Hringbraut og út að Sóleyjargötu, Bjössi og Flosi skammt undan.

Þetta var eitt af þessum frábæru hausthlaupum, stuttum og snörpum. Það er mikil blessun að vera kominn í ferðabann, nú mætir maður í öll hlaup og lætur skeika að sköpuðu, ekkert óhóf í mat eða drykk í útlöndum, engar slímsetur í flugvélum, bara hreyfing fjórum sinnum í viku. Eiginlega eru þetta lífsgæði af fyrsta flokki sem sjást bezt á holningu ritara, ennþá í sama góða forminu og í Berlín. Meira af hinu sama n.k. miðvikudag.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband