Þeir síðustu verða fyrstir...

Mikið rigndi í dag er þessi hlaupari mætti til hlaups, engu að síður var ákveðið að fara í útiskýli. Ég grennslaðist fyrir um Iðnaðarbankahúfuna mína og hlaupavettlingana sem ég hef ekki fundið um tíma, ef einhverjir góðir félagar hafa óvart stungið þeim niður hjá sér mega þeir láta vita, og ef vel stendur á, að skila þeim. Mættir: Flosi, Kalli, Jörundur, Haukur, Magnús, Guðmundur, Ólafur ritari, Una, Þorbjörg og Rúnar þjálfari. Svo mætti Birgir á síðustu stundu niðurrigndur á reiðhjóli sínu, og órakaður blómasali birtist rétt um það bil er hlaup átti að fara af stað. Hann sýndi engan asa á sér, settist niður og fór að draga upp kvittanir úr ýmsum vafasömum verzlunum sem hann hafði heimsótt í Danmerkurferð sinni í gær. Kvaðst hafa fengið far með einkaþotu um morguninn, og verið kominn í fríverzlunina um kvöldið. Af kvittunum mátti sjá hvílíkur bílífis- og óreglumaður hér er á ferð, og vanrækir þar að auki hlaupin sem gætu hugsanlega verkað gegn þessum óhófslifnaði.

Þjálfari lagði línurnar fyrir hlaup og uppálagði okkur að hvíla kjálkana á leiðinni - lagðist það illa í viðstadda og kom upp kurr í liðinu. Varð þjálfari tilneyddur að hörfa á þessum punkti, en bað menn að gæta þess að hafa ökklana slaka og hlaupa hallandisk ívíð framávið. Kalt og blautt utandyra eins og s.l. mánudag - merkilegt með þessa þjálfara og veðrið sem fylgir þeim! Lagt í hann. Nú var ritari ekki síðastur, hann hljóp fremstur í flokki með þeim Magnúsi og Guðmundi á 5 mín. tempói. Ég reyndi að fiska einhverjar sögur upp úr Magnúsi eftir sóknarnefndarfund, en þær samkomur virðast farnar að vera ansi bragðdaufar, engar safaríkar sögur lengur. Einhvers staðar í Skerjafirði fór Una fram úr okkur og höfðum við á orði hvílíkur hlaupari þar færi, skeiðaði fyrirhafnarlaust áfram og virtist ekkert hafa fyrir því að fara á tempói vel undir 5 mín. En hinir hlunkarnir voru langt fyrir aftan og erfiðuðu, samt heyrðist alltaf í Birgi, hann samkjaftaði ekki.

Búið var að gefa út tvær leiðarlýsingar, 8 km og 10 km. Vitanlega fórum við lengri leiðina, austur Flanir og fyrir neðan kirkjugarð, út að Suðurhlíð. Þar er löng og erfið brekka sem sumir menn dásömuðu á Brottfararplani, hún væri löng og krefjandi og það væri beinlínis yndislegt að hlaupa hana. Sömu menn sáust ekki í þessari brekku. Við Magnús, Jörundur og Haukur fórum brekkuna. Upp hjá Perlu og þaðan niður á Stokk. Upplýst var að hringt hefði verið í próf. Fróða. Hann er tognaður og hefur fengið tilmæli um að hvíla í þrjár vikur, en ætlar að hvíla í átta vikur. Heimildarmaður sagði að prófessorinn væri bugaður, og hefði verið stutt í kjökrið þar sem þeir skiptust á orðum gegnum símalínurnar. Var þá haft á orði að varla væri Karl snúinn tilbaka til hlaupa þegar prófessorinn hyrfi af vettvangi. Menn voru sammála um að þetta væru dæmigerð byrjendamistök, verandi með tilmæli frá lækni um að hvíla í þrjár vikur, mæta til hlaups og segjast ætla bara að hlaupa hvíldarhlaup, enga spretti, en spretta svo úr spori, reka tána í, taka flugið, fá harkalega lendingu og togna í leiðinni. Það væri eitthvað að hjá svona fólki. Eftir á var spurt hvort svona menn fengju ekki sjálfkrafa einkaflugmannsréttindi - "jú," var svarað "og það líka á hjóli; hann ku vera einkar lunkinn á flughjóli".

Er komið var niður að Valsheimili mættum við þjálfaranum og hann lét okkur taka þrjá hálfrar mínútu spretti, það var ágætt. Komum blautir og þrekaðir tilbaka. Hittum fyrir hina styttingana á Stétt. Þar var rætt um grasmaðka, sem eru stórir og afkastamiklir á Norðurlöndunum, Birgir lýsti því þegar hann sá mikla maðkaveitu hafandi nagað upp heilt belti af lúpínu. Hér lyftist Jörundur allur og andlit hans lýsti eins og tungl í fyllingu. Mun þetta hafa verið á Flönum á Sunnmæri. Rætt áfram um nágrannaerjur þeirra Birgis og Jörundar, köttinn Birgis sem ævinlega mígur og skítur undir pallinum hjá Jörundi og hvernig maður gerir út af við ketti. Einhver nefndi edik, Birgir hótaði með smjörsýru á móti. Magnús vildi leggja Birgi lið og bauðst til að skjóta lúpínufræjum yfir á lóð Jörundar...

Þannig lauk þessu hlaupi, áberandi var fjarvera ónefndra fóstbræðra, og var þarafleiðandi mikið rætt um þá, sérkenni þeirra og fyrirætlanir. Gott hlaup. Ritari.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Takk fyrir pistilinn.

Ég hljóp 10.7 kílómetra í dag -- ég stefni að því að hlaupa á sömu dögum og samtök lýðveldisins þótt hér skíni sól og ég sé ekki að herðast á mótlætinu á sama hátt og þið.

Með vinsemd og virðingu,

Kári

Kári Harðarson, 19.9.2007 kl. 20:15

2 Smámynd: Hlaupasamtök Lýðveldisins

Ég sé að það er um og yfir 20 stiga hiti í Rennes og heiðskírt næstu daga - maður vorkennir ekki svona fólki! Ritari.

Hlaupasamtök Lýðveldisins, 20.9.2007 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband