Mikil persónufræði á sunnudegi

Helztu máttarstólpar sunnudagsdeildar Hlaupasamtakanna voru mættir til hlaups í morgun, sunnudag, eða þeir Ólafur Þorsteinsson, Vilhjálmur Bjarnason, Magnús, Þorvaldur, ritari og Birgir. Einkennilegt að ekki fleiri mættu, eins og dagurinn var tilvalinn til hlaupa. Í Brottfararsal var mættur Birgir Þorgilsson, einn þeirra er léku fyrstir handknattleik fyrir hönd Þjóðarinnar í landsleik - leikurinn fór fram fyrir um 60 árum á Melavellinum og lyktaði 3-3. Vilhjálmur hafði orð á þessu og um sama leyti mætir fóstbróðir hans til leiks, sá fær samstundis spurninguna: í hvaða íþrótt keppti þessi maður fyrir Þjóð sína? Ólafur svaraði að bragði: það var í handknattleik. Og hélt áfram og spurði: ert þú ekki mágur Matthíasar Mathiesen, fv. ráðherra? Jú, rétt til getið. Hér var greinilega farið að krauma í Vilhjálmi og hann hóf að undirbúa svæsnar vísbendingaspurningar.

Lagt í hann á rólegu nótunum, og vorum við frændur þó sýnu rólegri en aðrir, enda um margt að ræða. Ritari er nýbúinn að rífa eldhúsið hjá sér og hefur ekki getað eldað máltíð í tvær vikur, allt stendur autt, ryk yfir öllu, stofan undirlögð af eldhúsáhöldum og drasli. Ekki alveg ástandið sem er til þess fallið að lyfta andanum, þvert á móti, menn eru daufir yfir ástandinu. En það er hressandi að hitta félagana og fá góðan skammt af uppörvandi. Við lentum fyrir bragðið langt fyrir aftan hina, en náðum þeim í Nauthólsvík. Þar var með stuttu millibili skellt á mannskapinn svo níðingslegum vísbendningaspurningum að menn spurðu bara á móti: hver er vísbendingin? Spurt var hvernig fyrrnefndur handboltakappi tengdist fyrrverandi ráðherra í Lýðveldinu - hér glotti VB, en ÓÞ sýndi sama tóma svipinn og síðasta sunnudag. Það beinlínis hlakkaði í álitsgjafanum yfir meintri vankunnáttu þess fyrrnefnda í persónufræðinni. Samtímis var deilt um það hver væri persónufróðasti Íslendingurinn og sýndist sitt hverjum. Minnt var á grein í Viðskiptablaðinu fyrir fáeinum árum, viðtal við ónefndan cand. oecon. af Víkingslækjarætt og ekur bifreiðinni R-158 og hleypti slíku báli í blaðasölu í Höfuðstaðnum að eftir það kom ekki annað til greina en Viðskiptablaðið kæmi út á hverjum degi. En engin svör. Jú, álitsgjafinn upplýsti að téður handboltakappi væri kvæntur Ragnheiði Gröndal, systur Benedikts, fyrrv. utanríkisráðherra. En hann lét ekki þar við sitja: fleiri torskildar vísbendingar sem skiluðu fleiri tómum augum.

Áfram í Garðinn, þar sneru bæði Birgir og Ó. Þorsteinsson við. Aðrir áfram og verður að segjast eins og er að hraði var aukinn og á endanum fóru Magnús, Þorvaldur og ritari á hraða sem er hreint skandalös fyrir sunnudagshlaup. Þetta er ekki skemmtilegt! Ekki orð af viti sagt frá Harmahlíð og það sem eftir lifði hlaups, nema ef vera skyldi ádrepa á lögreglu fyrir hörð viðbrögð við því þegar menn missa kókdós úr lúkunni á sér á götu úti að nóttu til - 10.000 ríkisdalir. Takk fyrir!

Í potti var margt gáfumanna: dr. Einar Gunnar, dr. Baldur, Sif Jónsdóttir nýkomin úr Berlínarmaraþoni þar sem hún fór fulla porsjón á 3:32:05 og er glæsileg frammistaða. Jörundur mættur líka og blómasalinn, óhlaupinn eins og venjulega. Staldrað stutt við í potti. Blómasali þurfti að hitta fólk. Ritari þurfti að fara heim að flísaleggja eldhúsgólf. Lauk við 15 fm á þremur klukkutímum. Þá rigndi á Bræðraborgarstíg. Rætt um kosningahorfur í Bretlandi, og fyrirætlan hlaupara um þátttöku í Berlínarmaraþoni á næsta ári.

Á morgun: hlaup með þjálfara samkvæmt áætlun.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

3:32:05!  Það er nú alveg ótrúlega flott.  Til hamingju, Sif!

Kári Harðarson, 8.10.2007 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband