Vinslit?

Er von maður spyrji hvort vinslit hafi orðið í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í dag í hefðbundnu Mánudagshlaupi, sem var svo óhefðbundið og óvenjulegt sem orðið getur, og lái manni hver sem vill. En meira og nánar og í pistli dagsins, sem ef að líkum lætur, verður óvenju langur sökum þeirra miklu atburða er urðu á tiltölulega stuttu hlaupi.

Fyrst er frá því að greina að til hlaups mættu Þorvaldur, Ágúst, Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Ólafur ritari, Friðrik læknir, Haukur, Una, Þorbjörg, Margrét þjálfari, Jóhanna hlaupari sem ég kann ekki að greina nánar frá (sumsé ekki dr. Jóhanna), Helmut, og svo karlmaður sem ég kann ekki að nefna. Það var náttúrlega arfavitlaust veður og ekki hundi út sigandi, og var þjálfara bent á það að alla daga sem hún hefði þjálfað hefði veður verið með ólíkindum leiðinlegt. Varð fátt um svör hjá þjálfara. Það var kalt og blautt utandyra og ljóst að menn verða að fara að draga upp vetrargírið, húfur og vettlinga og síðbuxur. Eins og menn skilja var ástandið ekki gott hjá þessum hlaupara, nýkominn frá Skotlandi, en skozkir eru gleðimenn og matmenn. Hann sýndi þá hyggni að halda sig með öftustu mönnum, enda var frá nógu að segja. Vildi svo til að þeir frændur og nafnar voru aftastir í hlaupi dagsins og má segja að ekki hafi fallið niður tal allt hlaupið. Var m.a. sagt frá merkilegum kappleik í Edínaborg, Hearts Midlothian gegn Glasgow Rangers, leik sem lyktaði með sigri Hearts, 4-2, og mætti til samanburðar segja, að leik KR og FH hefði lyktað með 6-1 sigri KR, svo söguleg var stundin, og hefur annað eins ekki gerst í samanlagðri sögu Hearts, sem hófst 1875. Þar léku 40 íslenzkir áhorfendur lykilhlutverk, íklæddir litum stuðningsmanna Hearts og öskruðu sig hása af æsingi, og hefði sumum óupplýstum viðstöddum dottið í hug að hér væru sannar fóboltabullur mættar á svæðið.

Það er allt í lagi að hlaupa aftastur. Mikilvægt er að mönnum líði vel á hlaupi og að þeir reyni ekki um of á sig, umfram það sem eðlilegt getur talist. Þannig var okkur nafna farið, lengi hlaups hlupum við með Vilhjálm fyrir framan okkur. Svo kom Helmut, maður sem er svo illa meiddur að kraftaverki er næst að hann skuli fara fetið, hann tætir fram úr okkur, og ætti að vera fjötraður við spítalabörurnar, nei, það er bara sprett úr spori, við á eftir, enn aftastir. Lengi hlaups virtist sem við værum að ná Vilhjálmi, en þá gaf þessi léttfeti úr öðru sveitarfélagi í og skildi okkur eftir. Við áttum í hávaðasamræðum, m.a. um téðan Vilhjálm, en hann lét sem hann yrði ekki var við okkur.

E-s staðar á Nesvegi mættum við Neshópi, hróp voru gerð að Vilhjálmi, líklega til þess að heiðra hann. Hrópin voru eitthvað á þessa leið: "Heill sé þér, ó!, þú mikli álitsgjafi!, Vilhjálmur.. o.s.frv." Okkur brá mikið við þetta og vorum lengi að jafna okkur á eftir. Svo mættum við okkar fólki sem kom hlaupandi á móti okkur - þá var þéttingur í gangi. Faxaskjólsþéttingur. Við fórum Faxaskjólið á hægu tölti, en sameinuðumst svo hinum í þéttingi um Faxaskjól. Þaðan í sund, enda menn þungir og hægir á sér eftir aðgæzluleysi síðustu daga. Við stóðum á tröppum Vesturbæjarlaugar þegar próf. Fróði kom haltrandi tlbaka, líklega búinn að slíta vöðva, að eigin sögn. Hann fékk greiningu læknis á tröppunum: það er ekkert að þér, þú hefðir betur farið í sjóinn s.l. miðvikudag! Ágúst hafði sumsé tekið einn sprettinn, rekið tána í og átt flug í vændum, en kaus að lenda fyrst á eigin forsendum. Þá var eins og eitthvað slitnaði í bakinu á honum.

Í potti urðu geysilega miklar umræður, vísbendingaspurning sem VB mátti glíma lengi dags við, en réð á endanum. Vinslit urðu milli ákveðinna aðila í potti, m.a. voru sumir ásakaðir um að taka ekki hlaup með þjálfurum alvarlega - þá urðum við frændur kyndugir á svipinn, en ekkert meira. Það rifjaðist upp fyrir ritara að Karl var mættur til hlaups í dag og var bara brattur. Næst er hlaupið á miðvikudag. Verður farið langt? Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband