Ungur maður með glæsilega framtíð að baki mætir til hlaups

Það er skammt stórra högga á milli í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Í síðustu viku mætti Ólafur Þorsteinsson í fyrsta skipti til reglulegs hlaups í miðri viku í áratugi. Í dag gerist það að Karl kokkur mætir eftir áralanga fjarveru, eins og hann hafði lofað í sumar. Hann er óðum að ná sér af meiðslum og var inntur fregna af stöðu mála í bakteríu- og veirufræðum. Þar á bæ eru menn á vaktinni. Enn var Ó. Þorsteinsson mættur með Iðnaðarbankahúfuna, og Flosi kom til þess að hjóla með hópnum. Þar með voru mættir einhverjir mestu máttarstólpar og víðfrægir hlauparar Samtaka Vorra - og varla á það bætandi, en nei! Téðum dánumönnum til viðbótar voru mættir margir aðrir frægir hlauparar og afreksmenn, miðaldra gæðablóð sem elska allt er lífsanda dregur og setja svip á umhverfi sitt: Vesturbæinn. Ein kona mætti, Rúna. Þjálfarinn Rúnar lagði línurnar fyrir hlaup og bað menn að hlusta eftir því hvernig skórnir létu: eftir þeir rispuðust mikið við undirlagið værum við að hlaupa vitlaust og skapa óþarfa mótstöðu. Magnús sagði hugsi: hef ég verið að hlaupa vitlaust í tuttugu ár?

Það vakti athygli að próf. Fróði var ekki mættur, þótt miðvikudagur væri og kostur ger á sjóbaði. Viðstaddir töldu að líklega væri verið að þvo hlaupagírið hans eins og það leggur sig. Hvaðan þeim kom sú vitneskja er mér hulið. Þegar svo ágætur hlaupari og afreksmaður sem prófessorinn mætir ekki gerbreytist stemmningin í hlaupi, menn verða afslappaðir og tillögur um að fara hægt og stutt fá hljómgrunn án þess að menn þurfi að lýsa yfir því að þeir séu aumingjar. Það var gefið út að farið yrði stutt og á rólegu tempói, sjóbaði sleppt. Ég hafði áhyggjur af því að Gísli og Friðrik myndu ærast, en þeir héldu ró sinni og voru bara heimspekilegir yfir tillögunni. Septemberbaði er enda lokið, og þótt Gísli hafi misst af því gefst enn tími til að bæta úr því.

Það voru farnar bakgarðaleiðir, gamalkunnar leiðir gegnum bakgarða Vesturbæjarins sem yfirleitt eru farnar þegar vindur blæs (sem hann gerði ekki nú) - farið fremur rólega svo að hópurinn tvístraðist ekki. Komið út á Suðurgötu og farið í Fjörðinn. Hér yfirgaf Karl hópinn, og stuttu síðar snöri frændi minn, Ó. Þorsteinsson, við. Það er eins og hann þrjóti örendi þegar VB er ekki með til hlaupa, hann þrífst bezt á umtali og aðfinnslum álitsgjafans. Ég fór þetta bara rólega og var búinn að gefa þá áætlun út að ég færi Aumingja, fékk mér vel að eta í hádeginu og ekki í miklu hlaupastuði, með mér ætluðu Björn kokkur og Birgir jógi. Björn kokkur er öðruvísi kokkur en Kalli kokkur, Björn er í kokkamennsku, en kokkamennska Kalla er annars eðlis. Um þetta var kallsað á hlaupum eins og venjulega og ekki við öðru að búast. Birgir talaði hátt og mikið eins og venjulega, m.a. um org sem stundað er í Vesturbæjarlaug á morgnana. Sagan segir að Birgir hafi átt yndislega æsku í Vestbyen, sem aðeins var trufluð af ástarkalli sem vakti hann á morgnana og hann taldi vera frá óræðri fuglstegund, fuglinn hrópaði í falsettu: Vilb Org. Birgi fannst þetta ljótt org, hann vaknaði á morgnana við orgið og fannst hlutskipti sitt ekki gott. Nú er staðan sú að á morgnana vakna íbúar svæðisins sem markast af Einimel í suðri, Kaplaskjólsvegi í vestri, Hringbraut í norðri, og Birkimel í austri, af miklu orgi í falsettu sem kemur úr hálsi fyrrgreinds Birgis. Svona er Sagan, hún fer í hringi og hefur okkur þátttakendurna að leiksoppi. Höfum við ekkert lært?

Farið í Nauthólsvík og þar stóðumst víð þá freisting að fara í sjó, sem er synd í sjálfu sér, hefði verið gaman að gera prófessornum þá skráveifu að fara án hans í sjó. Sumir vildu fara um Hlíðarfót, Björn beygði af og fór Hlíðarfót, sem var í trássi við fyrirmæli þjálfara, sem einhver kallaði kroppatemjara. Þjálfarinn vildi teygja okkur aðeins lengra, fara um stígana í Öskjuhlíðinni, það væri litlu lengra, en vel þess virði að fara. Hann var upplýstur um merkingu hugtaksins "ágústínsk stytting" og að við værum vön tillögum af þessu tagi, um styttingar sem leiddu til lengingar. Engu að síður var farið að tilmælum þjálfara, farið upp í Hi-Lux og þar inn í skóginn í vesturátt, á skógarstígum og niður á Hlíðarfót. Þar var ég allt í einu orðinn aftastur, en var alveg sama, og lýsir það vel þeirri afslöppuðu stemmningu sem ríkti í dag, enginn asi, engin taugaveiklun yfir tímum - bara reynt að njóta hlaups og þeirrar ununar að vera úti í náttúrunni í fögru haustveðri, úri, 14 stiga hita, í vaskra sveina hópi.

Við Friðrik rákum lestina, af fjórtán manna hópi, og áttum heimspekilegar samræður um það sem gæðir lífið lit og fjörvi. Sett fram kenning um hlaupara, með skírskotun til aldurs og hlaupatíma. Er komið var í pott vék kvenfólk undan og við höfðum pottinn út af fyrir okkur. Upp kom byltingarkennd hugmynd um að leggja af minningagreinaritun í Dödens avis - og virtist oss það ekki einasta vera sneið til Ó. Þorsteinssonar, heldur beinlínis atlaga að helzta áhugamáli hans og því sem heldur sunnudagshlaupum gangandi, áratugum, ef ekki öldum eftir að þau hófust (munið Papeyjarhlaupin!) - þjóðfræði og persónufræði. Á endanum var þessi máttlausa tilraun kveðin í kútinn og staðfest að upplýsingar, fregnir og fróðleikur af náunganum sé einhver traustasta undirstaða í starfsemi Hlaupasamtakanna, hefur sama hlutverki að gegna og vítamínsprauta afreksmanninum (með fyrirvara um að vítamínsprauta sé yfirleitt til, ég hef aldrei séð hana, þaðanafsíður fengið hana, enda er ég ekki afreksmaður í neinum skilningi og vafamál að vítamínsprauta bætti þar úr því sem upp á vantar). Upplýst að Ísland væri einu marki yfir í kappleik við frændur vora N-Íra.

Næstu daga dvelur ritari með frændum vorum, Skotum, og mætir ekki aftur til hlaupa fyrr en n.k. mánudag. Lifið heil á meðan, hlaupið af krafti!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband