Færsluflokkur: Pistill Ritara

Sundraður, splundraður hópur - hvað er gaman við það?

Hlaupasamtök Lýðveldisins stæra sig af miklum félagsþroska og samheldni félaga, sem varðveita gáska sinn og fjör, innbyrðis trúnað og traust, einlægni og réttsýni gegnum þykkt og þunnt. Í vorum hópi er hugað að smæstu og stærstu bræðrum og systrum - í eiginlegri sem óeiginlegri merkingu, andlegri sem líkamlegri. Ekkert mannlegt lætur oss ósnortin. Af þeirri ástæðu þótti sumum ástæða til að hafa orð á þeirri þróun sem orðin er í seinni tíð, að sundra hlaupahópnum með æfingum sem mismuna svo hlaupurum að sumir verða síðastir og aðrir aftastir. Meira um það seinna.

Reykjafellshlaup sat enn í þessum hlaupara er hann mætti til Laugar. Þar voru fyrir á Fleti Flosi, Bjarni, Benni, Eiríkur - og svo komu þeir hver af öðrum, próf. Fróði, Þorvaldur, Ingi, dr. Jóhanna, þjálfararnir Rúnar og Margrét, og loks kom Einar blómasali hlaupandi þegar klukkuna vantaði 3 mín. í hálfsex. Þótti það furðu mikil stundvísi af þessum óstundvísa einstaklingi. Enn á ný minntu Hlaupasamtökin á tilveru sína með háværri nærveru í Brottfararsal, mikilli fyrirferð og almennri truflun. Rætt af mikilli speki um ýmis þarfleg málefni, ísbirni, svæfingartækni, flutningatækni og fleira sem hvílir á landanum þessa dagana. Veður allgott, seytján stiga hiti, léttskýjað, en einhver vindur.

Margrét var full miskunnar og mannúðar eftir hið ágæta hlaup í gær og var alveg til í að leyfa mannskapnum að fara rólega. Ágúst fullvissaði sig um að enginn yrði stimplaður eymingi þótt hægt yrði farið. Allt þetta breyttist jafnskjótt og Rúnar mætti á svæðið og greinilegt að hann hafði ekki hugsað sér að gefa nein grið. Við vorum hins vegar svo klók að við kölluðum ekki eftir neinum leiðbeiningum um hlaup, og svo var bara lagt í hann. Þorvaldur í einkennilegri múnderíngu, stuttbuxum og bol sem almennt myndi flokkast sem hversdagsfatnaður. Þegar hann var spurður hverju þessi útrústning sætti sagðist hann ekki enn vera búinn að endurheimta tösku sína úr Amríkuflugi - líklega kemur hún ekki úr þessu, en hún innihélt allt hans hlaupasortíment. Kennir þar ýmissa grasa.

Ekki verður hjá því komist að óska hinum ýmsustu dimitöntum til lukku með áfangann, í aldursröð þessum: Ó. Þorsteinssyni Víkingi, útskrifuðum Sérlegum Meistara í gæðastjórnun úr Verkfræðideild; próf. Flúss Meistara í Viðskiptastjórnun; Birgiri Jóga Meistara í því sama og próf. Flúss. Þessum þremur, námfúsu félögum vorum færum vér einlægar heillaóskir á þessum tímamótum, Jafnframt sem við áréttum fyrri fyrirætlanir frænda vors og vinar, Ó. Þorsteinssonar um Víkingssöguhlaup föstudaginn er næst kemur, 20. júní.

Hvað um það hópurinn lagði í hann. Í upphafi hlaups braust út deila um hvort ónefndur blómasali hlypi í hreinum hlaupafatnaði eður ei - blómasalinn bað mig að þefa af sér - ég afþakkaði. Ágúst var með getgátur um að blómasalinn væri farinn að nota nýja tegund af þvottaefni, sem væri illaþefjandi frá framleiðendum, hann er alltaf til í að sjá ljósu hliðarnar.

Þrátt fyrir að það væri mánudagur var ekki farinn hefðbundinn mánudagshringur, um Hagamel, Birkimel, Suðurgötu og þanninn - nei, það var steðjað niður á Ægisíðu og farinn Öfuguggi. Hér er þörf á nýsköpun og nýbreytni, því að hlauparinn staðnar og verður þreyttur sem fer alltaf sömu leið. Vér þurfum á hugarorku og frumkvöðlahugsun manna eins og próf. Fróða til þess að finna nýjar og óvæntar leiðir svo að við getum endurnýjað gleðina af því að hlaupa. Ellegar rifja upp gamla takta af fyrri hlaupum, Neshlaup með Bakkavörum eða hlaupum upp um botnlanga á Nesi eins og tíðkast hafa.  Hvað um það, við létum okkur hafa það að að slampast áfram eins og verksmiðjuþrælar, sama ganginn enn einu sinni. Sem fyrr sagði sat stirðleiki í vöðvum eftir erfiðar brekkur gærdagsins og vorum við sum á því að fara bara rólega í dag. Benedikt er að æfa fyrir hálfmaraþon í Óshlíð þar sem hann ætlar að bæta sig og því voru teknir sprettir þegar enginn átti von á.

Svo var einhver millihópur á undan okkur, próf. Fróði, Bjössi, þjálfararnir og einhverjir fleiri sem ég formerkti ekki, og ég skildi ekki hvað voru að gera. Þessi hópur fór aðeins á undan, við hin skynsömu, ritari, dr. Jóhanna, Bjarni og Eiríkur héldum okkur á skynsamlegum nótum. Um örlög blómasala, Flosa og Inga veit ég ekki og kann engar sögur af afrekum þeirra þennan daginn.

Við fengum nokkuð stífan vindstreng í fangið á Sólrúnarbraut og á stundum svo mikinn að vart mátti nema mannsins mál. Þetta eru leiðinlegustu skilyrðin að hlaupa við, en bilbug var ekki á okkur að finna, við héldum áfram. Vissum sem var að þessu myndi linna og á heimleiðinni fengjum við vindinn í bakið. Ekki var teljanlega vizku að hafa á þessum kafla - en almennan fróðleik um afkomendur Einars ríka.

Við veltum töluvert fyrir okkur almennum umferðarreglum á hlaupastígum þar sem fólk mætist á ýmsum farartækjum: tveimur jafnfljótum, hjólum, línuskautum, með kerrur, börn á hlaupahjólum, menn með skíðastafi - vitleysan er margföld! Hvenær fáum við fyrsta slysið þar sem einhver hraðafanturinn á reiðhjóli, sem heldur að reinin "hans" tryggi honum að enginn verði á vegi hans, lendir á einhverjum óvita sem hleypur út undan sér? Oft hefur maður hugleitt í þessum dúr þegar þessi fífl bruna framhjá manni í einhverjum keppnisham. Hér er þörf á umferðarreglum. Ekki er síður þörf að taka á ökumönnum sem fara með bíla sína upp á gangstéttir og loka fyrir alla umferð gangandi og hlaupandi vegfarenda, slíka dóna sáum við í kvöld og fóru töluvert í taugarnar á okkur.  Líklega er best að hafa síma meðferðis á hlaupum framvegis og tilkynna þessi brot til lögreglu.

Nema hvað, það er farið um Suðurhlíðar á léttu tempói og gefið í síðasta spölinn. Svo niður frá Perlu og aftur út í Nauthólsvík. Hér spurði Þorvaldur: hvaða öfuguggaháttur er þetta? Svona höfum við aldrei hlaupið! Nú fór að taka verulega í vöðva hjá langþreyttum hlaupurum. Hér eftir var farið rólega tilbaka til Laugar.

Setið stutt í potti, en ég man að rætt var um loðfíla. Deilt um hversu langt menn hefðu farið, sumir virtust hafa tekið þéttinga, við tókum mjög virðulega vegalengd, próf. Fróði lengdi og kom langsíðastur til Laugar, gvuð má vita hvað honum gengur til! En í potti er jafnan ljúfust stund og var þar margt af mikilli speki rætt.

Nú er spurning með miðvikudaginn, er skynsamlegt að fara langt? Meiddum manni nýstignum upp úr veikindum, ofáti og drykkju? Auk þess er beðið eftir endanlegri staðfestingu frænda vors og vinar, Formanns Vors til Lífstíðar, á fyrirætlunum um Víkingssöguhlaup n.k. föstudag. Í gvuðs friði, ritari. 

Reykjafellshlaup hið fyrsta

Ný hefð hefur orðið til í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, Reykjafellshlaup að sumri, og verður sagt frá því fyrsta á þessum blöðum.

Mættur við Vesturbæjarlaug kl. 9:30 vaskur hópur hlaupara sem hugði á langt hlaup, rúma tuttugu og tvo kílometra, alla leið upp að Varmárlaug í Mosfellssveit. Hér má fyrstan nefna dr. Ágúst Kvaran sem hugðist hlaupa með tvö barnabörn sín í kerru, ellefu mánaða gamla tvíbura sem við til einföldunar skulum kalla Ágúst og Ágústu. Þetta var fyrsta hlaup þessara nýju einstaklinga, en sannarlega ekki hið síðasta, ef marka má afann. Búið var um hina nýju félaga í sérútbúinni kerru með mörgum fínessum og skyldi nú reynt hversu tækist til með að hlaupa með þessa auknu byrði.

Aðrir mættir: Rúna, Brynja, Margrét, Rúnar, Birgir, Helmut, dr. Jóhanna, nýr hlaupari sem mun heita Ósk, Friðrik í Melabúðinni, - ekki man ég hvort fleiri voru mættir við Laug. Jörundur bættist við á Ægisíðu, Björn kokkur í Nauthólsvík og Magnús, Denni, Eiríkur og Ólafur ritari við Víkingsheimili. Veður þokkalegt til hlaupa, 12 stiga hiti, skýjað og rigningardropar, en lítill vindur. Við félagarnir biðum inni í Víkinni og langfyrst þangað voru Margrét, Rúnar og Friðrik, aðrir töluvert langt á eftir. Slógumst í för og héldum á vit ævintýranna. Farið sem leið liggur undir Breiðholtsbraut og yfir Elliðaárnar yfir hjá Rafstöð eða þar um bil og svo undir Miklubraut og út á Sævarhöfðann. Bryggjuhverfi, upp úr Grafarvogi brekkuna hræðilegu, stöðvað við benzínstöð og fyllt á brúsa, og haldið áfram. Þá tók við Listaverkabrekkan (niður á við) og svo hver brekkan á fætur annarri. Við fórum fyrir golfvöllinn hjá Korpúlfsstöðum, sem er býsna löng leið, og tók verulega á að fara allar þessar brekkur.

Menn voru misvel á sig komnir, sumir nýrisnir af öldrykkju - aðrir með löng hlaup að baki í vikunni. Það reyndist Ágústi erfið raun að ýta kerrunni á undan sér og varð Helmut að hjálpa honum í síðustu og erfiðustu brekkunum. Það var ófögur sjón sem mætti sómakærum borgurum sem voru úti á morgungöngu með ungviði sín: tveir karlmenn að ýta barnakerru á undan sér. Hvar endar þetta?

Leiðin var einkar falleg og gaman að sjá að hlaupið er nær eingöngu á göngustígum og sárasjaldan að þurfti að fara yfir götur og gatnamót. Maður fann á sér að hér var í uppsiglingu nýtt hlaup og ný hefð í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Á sama tíma vorkenndi maður þeim félögum sem tóku þá ákvörðun að halda sig heima og sofa á sitt græna í stað þess að fara út og spretta úr spori.

Við náðum í Varmárlaug á um tveimur tímum og skelltum okkur í pott. Eftir klukkutíma í potti var haldið á slóðir Helmuts í Mosfellssveit, Reykjafelli í nágrenni Reykja. Þar var slegið upp mikilli veizlu með brauði, ostum, hráskinku, salati af mörgum sortum, og tertum á eftir. Er hér var komið hafði bæst í hópinn og var sannkallaður fjölskyldudagur haldinn í fögru umhverfi og góðu veðri. Þarna var setið góða stund og notið góðs félagsskapar og góðra veitinga. Þökk Helmut og Jóhanna! Nýtt hlaup er orðið til!



Bjórinn og lýsið flaut

Varpað fram vísbendingarspurningu í Brottfararsal. Spurt var um Framsóknarmann. Sýndi merki um skapbræði þegar eitthvert eftirtalinna atriða voru gagnrýnd: a) sauðkindin; b) Jónas frá Hriflu; c) Framsóknarflokkurinn; d) bændur; e) landbúnaðurinn almennt. Þegar grandalausir menn veltu fyrir sér e-u því sem þeir töldu ámælisvert við framangreind málefni, brást umspurður aðili harkalega við, spratt upp í Morgunpotti og jós ókvæðisorðum yfir málshefjanda. Þegar viðkomandi brást aumlega við og spurði: má ekki hafa skoðun á hlutunum? Þá var svarað: Nei, svona "skoðanir" á að kveða niður í fæðingu!

Vilhjálmur Bjarnason, sem nálgast það að vera persónufræðingur af kalíber Ó. Þorsteinssonar, sá strax í hendi sér hver þetta var. Var hann fæddur á Ruslafelli í Þingeyjarsýslu? Rétt! Var hann þjónustumaður landbúnaðarins fram til æviloka? Rétt! Var hann alnafni fyrrnefnds Hriflu-Jónasar? Rétt! Spurt var um búmálastjóra, Jónas Jónsson. Ágúst spurði: er þetta vísbendingaspurning? Það er bara dapurlegt þegar mætast hinir tveir falangar Hlaupasamtakanna, gáfumennirnir og hlaupararnir, þá afhjúpast svona hyldjúp fáfræði - og manni blöskrar þegar heyrist spurt: Hver var Jónas Jónsson?

Mætt til hlaupa: próf. Fróði, Vilhjálmur, Björn kokkur, Birgir jógi, dr. Jóhanna, Brynja, Benedikt, Denni og Friðbjörn af Nesi, Ólafur ritari og Einar blómasali. Rætt um þörfina á því að vekja athygli á starfsemi Hlaupasamtakanna og samþykkt að efna til sameiginlegra hjólreiða nakinna hlaupara einhvern góðviðrisdaginn á næstunni til þess að vekja eftirtekt meðborgaranna á framsækinni starfsemi í Vesturbænum. Einnig rætt um Reykjafellshlaup og undirbúning þess. Denni tilkynnti að boðið yrði til bjóðs á veröndinni hjá honum eftir hlaup. Mikinn óþef lagði um allt plan og var lyktin rakin til ónefnds blómasala sem "gleymt" hafði að þvo hlaupafatnað sinn eftir seinasta hlaup. Voru það eindregin tilmæli Hlaupasamtakanna til frú Vilborgar að fylgjast vel með hlaupatösku ektamakans og tryggja að þar yrði eðlileg endurnýjun og hreinsun eftir því sem verkast vill.

Lagt í hann og var farið hægt. Sérstök ástæða er til að nefna hlaup dr. Jóhönnu þessa vikuna, hlaupið á mánudag, minningarhlaup á þriðjudag 13 km, miðvikudag 24 km, fimmtudag hlaup í Mosfellsbænum, og svo hlaup aftur í dag, rúmir 11 km. Ágúst fór áhugavert hlaup á miðvikudaginn eð var, 32 km, um Kársnes, milli Breiðholts og Kópavogar, að Elliðavatni, og þaðan niður úr. Um þetta gengu margar sögur þegar við lögðum upp í hlaup dagsins. Óþefurinn af ónefndum hlaupara ætlaði alla viðstadda að drepa og reyndu menn ýmist að hlaupa fyrir framan hann eða aftan til þess að bæta lífsgildi sín. Ekki má gleyma hávaðanum kringum Birgi sem enn á eftir að láta Sjúl smúla sér innan eyrun svo að hann nemi nokkurn veginn mælt mál.

Það var farið hægt, það verður bara að segja það eins og er. Ég var ánægður með það því ég hef ekki hlaupið í tvær vikur og er enn að ná mér eftir meiðsli. Þó var Benedikt eitthvað að sperra sig, en menn leiddu það hjá sér. Hann kvaðst hafa heyrt af hlaupi í Bolungarvík sem kallaði í hæfileika hans. Hlaupið er eftir fáeinar vikur og stendur undirbúningur yfir af fullu.

Það fór að draga sundur með fólki einhvers staðar við flugvöll - og fyrirsjáanlegir atburðir gerðust. Velt vöngum yfir hvar valdir hlauparar væru, svo sem Helmut og strákurinn úr Skjólinu á hjólinu. Hann er í klósettinu, sagði dr. Jóhanna. Ha, í klósettinu? spurðu menn forviða. Já það er verið að undirbúa fyrir sunnudaginn og allar mögulegar uppákomur, svo sem number two. Er hann ekki með mann í þessu, spurði einhver. Það mætti þá fara til nágrannans, eða nota kattasandinn eins og í Klovn. Menn bara brattir. Strákurinn á hjólinu líklega að horfa á fóbbolta.

Farið á þokkalegum hraða, rifnar upp lúpínur á Flönum til heiðurs Jörundi. Upp Hi-Lux og brekkan tekin rólega. Hérna byrjaði Birgir að svindla, tók hverja styttinguna á fætur annarri og náði þannig forskoti sem hann hélt til loka. Við hin vorum lögleg.

Þegar upp var staðið voru farnir rúmir ellefu kílómetrar, sem telst hefðbundið. Að hlaupi loknu var haldið til veizlu að Vallarbraut á Nesi að Denna og voru þar í boði veitingar. Góður dagur, gott hlaup að baki og framundan Reykjafellshlaup.  

Bloggað frá Brussel

Ritari Hlaupasamtakanna er staddur á flugvellinum í Brussel og bíður heimferðar. Var fyrr í dag á fundi hjá EFTA - eftir fundinn rölti ég gegnum götur og garða og sá mér til hrellingar vakra hlaupara spretta úr spori. Samvizkubitið alveg að drepa mann, ekkert hlaupið síðustu tvær vikur og formið versnar bara. Kílóunum fjölgar og ástand allt slæmt. Ég er hálffeginn að enginn skuli hafa í sér döngun til þess að segja frá nýlegum afrekum, hlaupum og útivist, það færi alveg með mann. Því bið ég ykkur, kæru félagar, um að halda áfram að þegja og bíða þess að ég snúi heim á ný og taki upp fyrri iðju - það styttist í það. Líklega föstudagshlaup. kv. ritari.

Nýr afrekshlaupari krýndur

Hlaupið frá Laugu í Laugardal í dag, hlauparar dr. Jóhanna, Helmut, Björn kokkur og Einar blómasali. Samfélag allt í Vesturbæ er sundrað. Ég hitti fastagest Laugar Vorrar í gufubaðinu í Laugardalnum, og hann var gráti næst, sagði að vikan væri ónýt. Þegar ég svo sagði honum að Laugin opnaði ekki af nýju fyrr en á mánudagsmorgun, þá fór hann að hágráta eins og Vestfirðingurinn í dýflissunni hjá Jóni Hreggviðssyni og hafði haft í frammi galdra og yrði örugglega brenndur. Enginn var brenndur að Laugu að þessu sinni.

Eftir því var tekið að ónefndur prófessor var í morgunúbbarti og talaði fjálglega um langhlaup sem þreytt verður á morgun, 7. júní. Prófessorinn komst í gegnum allan textann án þess að nefna Hlaupasamtök Lýðveldisins á nafn einu sinni. Þetta verður tekið til athugunar og skoðunar hjá Aganefnd Hlaupasamtakanna og téðum aðila útmæld hæfileg refsing fyrir athæfið.

Hlaup mun hafa tekist með ágætum á þessum fagra degi, en ritari átti þess ekki kost að vera með sökum meiðsla. Lá hins vegar í afslökunarpotti  og var því sem næst sofnaður þegar hann var vakinn upp með ærzlum félaga sinna. Aðdragandi þeirrar sögu var sá að Helmut taldi sig sjá fjallmyndun í legupotti og taldi sig þekkja þykkildið. Hann hrópaði til félaga sinna: Kæru bræður, getur verið að belgurinn sá hinn mikli tilheyri ritara, og handan við belginn leynist andlist og vera ritara öll? Jú, þarf ekki að athuga málið, og í grallaraskap sínum ákváðu menn að hrella ritara með´því að hoppa ofan í pottinn og skvetta vatni á ritara þar sem hann var nær því sofnaður. Legið í potti um stund og rætt um þarfleg málefni, áhyggjur reifaðar af stöðu hlaupara sem standa illa.

Á Mimmanum mættust valinkunnir einstaklingar og réðu ráðum sínum. Þar var mættur dr. Denni af Nesi, dr. Jóhanna, Helmut og ritari. Við þetta tækifæri var afhentur maílöberinn þeim hlaupara sem þótti einna helzt verðskulda viðurkenningu og virðingu félaga sinna: Helmut Hinrichsen, hlaupari sem hefur einsett sér að verða betri hlaupari og þvertekur fyrir að detta í leiðindi og mælingar eins og aðrir ónefndir svokallaðir hlauparar. Og er góður félagi í leiðinni. Féllu fögur tár í athöfninni og fylltust menn auðmýkt yfir svo ágætu vali á hlaupara maímánaðar.

Nú eru góð ráð dýr: Formaður Vor til Lífstíðar hefur boðað hlaup og samtöl að Nesi á sunnudag er kemur. Ritari verður því miður á leið til Brussel þann dag, en mun hugsanlega baðast í viðurkenndri Laug á Höfuðborgarsvæðinu, líklega Sundhöllu við Barónsstíg þann hinn sama dag. Í gvuðs friði, ritari.

Fullkomið hlaup

Mættir til hlaups: Helmut, dr. Jóhanna, prófessor Fróði, Björn kokkur, Jörundur, Birgir, Einar blómasali, Bjarni, Anna Birna, Vilhjálmur, Ólafur ritari, Rúnar þjálfari, Kalli, Eiríkur sjaldséni, Benedikt hljóðláti, Kári og Magnús. Og svo strákurinn á hjólinu. Vilhjálmur kvaddi sér hljóðs á tröppunum, kvaðst hafa hringt í Gísla félaga okkar og sagt honum að hann væri aumingi. Gísli samsinnti því og kvaðst mundu mæta til hlaups á föstudag. Þá verður honum jafnframt afhent afmælisgjöf sem Vilhjálmur tók að sér að velja af sínu alkunna listfengi. Var ræðunni vel tekið og lýstu margir þá þegar yfir vilja til að mæta.

Þjálfari flutti tölu um skó og nauðsyn þess að huga að skókaupum tímanlega til þess að vera ekki að hlaupa á nýlegum skóm í maraþoni. Töldu viðstaddir að þjálfara hefði mælst sköruglega og ekki var síður dáðst að því að Rúnar náði að þagga niður í Birgi eitt augnablik meðan hann talaði. En bara eitt augnablik, svo byrjaði dælan aftur að ganga. Dr. Jóhanna lagði til breytta hlaupaleið frá því sem vanalegt er. Þegar prófessor Fróði heyrði þetta sagði hann: Já, en þetta er breyting! Varð hvítur sem nár í framan og fór að sýna byrjunareinkenni kvíðakasts, greip í handriðið við tröppurnar sér til stuðnings. Síðan var bara lagt í hann. Veður gott, bjartviðri, 12 stiga hiti, en smávindur framan af. Farið hægt af stað enda stóð til að fara langt.

Það blés aðeins á Ægisíðu, en ekki svo að það truflaði. Þegar veður er eins og það var í dag vekur það manni furðu að ekki skuli vera fleiri að hlaupum - þetta var afar ljúft. Hersingin var bara róleg, m.a.s. sá sem þegir - hann var rólegur enda á leið á Mývatn. Blómasalinn samkjaftaði ekki, blaðraði út í eitt um hækkanir á stáli úti í heimi. Þá sagði Benedikt: Það hefur aldrei meitt neinn að þegja.

Er frá leið fór hópurinn að grisjast og aðeins lítill hópur hélt í Kópavoginn. Próf. Fróði, ritari, dr. Jóhanna, Helmut, Birgir og Einar. Tveir síðustu þó alllangt á eftir okkur hinum. Fórum niður í Voginn og héldum svo á Kársnesið. Þar dúkkaði Bjössi upp, öllum til mikillar furðu, enginn skildi hvaðan hann kom. Hvað um það, áfram var haldið fyrir Kársnesið og yfir sunnanmegin. Alltaf var strákurinn á hjólinu að sniglast í kringum okkur, berandi í okkur drykkina. Prófessorinn sagði okkur að stuttur stanz yrði gerður í Lækjarhjalla, þar sem myndarleg húsmóðir biði okkar með veitingar úti á svölum og elskulegt viðmót. Er þangað kom var enginn heima og ekkert að hafa. Voru það vonbrigði. Ekkert stoppað, keyrt áfram.  Það veitti mér einskæra gleði að ég skyldi geta fengið mér að drekka af bláa Gatoradinum sem blómasalinn hafði keypt og skilið eftir að bögglabera stráksins. Hugsa sér, fá að drekka ókeypis!

Hér voru hlauparar farnir að lýjast, enda eru brekkurnar í Kópavogsdalnum erfiðar. Við héldum upp úr dalnum og inn í Reykjavík, komnir með aðskilnaðarkvíða eftir svo langa fjarveru. Undir Breiðholtsbraut, hjá benzínstöð. Hér skildu leiðir, Björn og Ágúst fóru upp að Stíbblu - en við hin fórum niður í Elliðaárdal og tókum stefnuna á Fossvoginn með það í huga að fara stytztu leið heim.

Við vorum orðin ansi lúin er hér var komið og fórum fretið. Við vorum hins vegar ánægð með frammistöðuna. Ég varð að ganga nokkrum sinnum sökum þreytu - en þegar upp var staðið reyndist hlaup 23,8 km. Björn og Ágúst fóru 28 - Einar og Birgir 18 km. Aðrir væntanlega eitthvað styttra. Í potti var 6 mánaða sköllóttur drengur. Björn horfði á hann og sagði: Heyrðu, hann er alveg eins og ég! Rifjaðar upp minningar úr menntaskóla og öðrum skólum. Niðurstaða: langt hlaup og lýjandi - en uppbyggilegt á yndisfögrum degi. Í gvuðs friði, ritari.

Grunnt á afrekin, alvöruhlauparar á ferð

Ekki var veður hlaupalegt, hvass vindur af austri og fremur kalsalegt. En hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins láta slíkt ekki á sig fá: geysilega góð mæting var þar sem fremsta meðal jafningja mátti þekkja dr. Friðrik, dr. Karl, Magnús Júlíus,  próf. Fróða og fleiri góða hlaupara. Þá voru mættir tveir þjálfarar, en slíkt er jafnan fyrirboði válegra tíðinda. Kom það enda á daginn er út var komið að þjálfarar hugðust bjóða upp á fartleik. Hér dæstu sumir, og varð lítillar hrifningar vart. En tuttugu manna hópur lagði í hann þegar búið var að stilla tæki.

Kári varaði aðvífandi og grunlausa vegfarendur við því að hér væru þungaflutningar á ferð og mönnum best að vara sig. Haldið niður á Ægisíðu og þar tók mótvindurinn við - ekki skemmtilegt! Mér til mikillar furðu náði ég að hanga í fremstu hlaupurum, en sá listi var eftir bókinni. Dagsskipunin var að fara út að Dælustöð og hefja fartleikinn eftir það. Er þangað var komið var Benedikt leyft að halda áfram án þess að taka þátt í leiknum. Ég spurði hvort hann væri með sérkjör - en var þá sagt að Benni væri að fara í Mývatnsmaraþon og mætti ekki hlaupa. Helmut og dr. Jóhanna og einhverjir fleiri héldu áfram án þess að stoppa, við hin stöldruðum við og hlýddum  á fyrirmæli þjálfara. Svo var lagt í hann eftir að þjálfarar höfðu áréttað hvað "fartleikur" er og hvað hann er ekki.

Það var farið á fullu stími frá Dælustöð út að lyftingatækjum, og svo aftur frá Strikinu í Nauthólsvík upp á Flanir og hægt eftir brekkuna fyrir neðan kirkjugarð. Hægt út að Kringlumýrarbraut og svo sprett úr spori upp Suðurhlíðar. Þrátt fyrir að ég næði í sveigjanlegri merkingu þeirra orða að "halda í við" hina - teygðist eitthvað á halarófunni. Í brekkunni neðan við Perluna heyrði ég hróp og köll. Ég leit upp og sá hund á harðaspretti í áttina til mín. Sá einnig að eigandinn stóð álengdar og kallaði á hundinn. Hundurinn hafði hins vegar rekið augun í hóp hlaupara og sá að þar var mikið gaman í gangi, miklu skemmtilegra að blanda geði við þetta fólk en einhvern fúlan hundeiganda. Hundurinn, sem reyndist vera af Doberman-gerð, kom á harðaspretti til mín og köldum svita sló út um mig allan, ég fékk adrenalín-skot og fann fyrir auknum krafti í skrokknum, tók vel á því á síðasta kaflanum upp brekkuna.

Hundurinn reyndist vel þjálfaður og hinn prúðasti, en afar fjörlegur. Hann hljóp fram og tilbaka milli okkar og vildi greinilega leika. Við höfðum hins vegar efasemdir um að taka hann í hópinn, spurning hvort ekki sé nóg að hafa einn hund í Hlaupasamtökunum (Töru). Hundurinn var núna kominn langt frá eiganda sínum og endaði með því að slást í för með erlendu ferðafólki sem þarna var á ferð. Við áfram niður brekkuna. Svo var farið Flugvallarveg tilbaka út í Nauthólsvík og tekinn nýr sprettur. Það kom ritara skemmtilega á óvart að ná því sem næst að hanga í þessum afrekshlaupurum sem hann naut heiðursins að hlaupa með, þjálfurunum tveimur, Bjössa, Ágústi, Birgi og svo tveimur ungum sem ég hef ekki nöfnin á. Þrátt fyrir nokkra fjarveru og slitróttar æfingar er grunnt á líkamlegan styrk og úthald - maður verður fljótur að ná sér á strik á ný.

Fartleikur hentar vel til þess að þagga niður í Birgi, hann þarf að taka svo vel á því að hann getur ekki talað. 

Hittum þau Helmut, dr. Jóhönnu og Kára við Laug - þau höfðu farið sömu leið og við að því er Helmut fullyrti (?) en farið hratt yfir og því náðum við þeim ekki! Ég var með strengi eftir sunnudagshlaupið, og vakti það furðu mína og annarra viðstaddra, sem fóru háðuglegum orðum um sunnudagahlaupin, þetta minnti meira á gönguferðir með gömlu fólki sem ræddi um ættfræði, gyllinæð og bílnúmer. Við Bjössi og Ágúst lentum í félagsskap við skemmtileg ungmenni sem vildu ræða hlaup, atvinnuhorfur og framtíðaráform. Rætt var um þekkt góðmenni og fylgdu persónulýsingar, einn smándurinn benti á ritara og sagði um viðkomandi: Hann er miklu feitari en þessi... Jæja, þar fór það!

Næst miðvikudagur, Ágúst ætlar 30 km - aðrir líklega eitthvað skemmra. Í gvuðs friði, ritari.

Hlaupið af list á sunnudegi

Vilhjálmur spurði mig hvort ég hefði skilið póstinn frá Ólafi Þorsteinssyni sem Hlaupasamtökunum barst s.l. föstudag. Hann fullyrti að erindið hefði verið með öllu óskiljanlegt. Hlauparar hefðu staðið á stétt á föstudaginn og reytt hár sitt í ergelsi yfir að fá svo margræðar sendingar. Ég lýsti skoðun minni á því  hvað pósturinn hefði fjallað um og í framhaldi af því bað VB mig að senda ritskýringu á hlaupahópinn og útskýra inntak póstsins. En í stuttu máli fjallaði pósturinn um fyrirhugað föstudagshlaup 20. júní á slóðir Víkinga í Fossvogi, gönguferð um sýningu með leiðsögn og innbyrðzlu próvíants að því loknu. Flóknara var það nú ekki.

Mættir á þessum fagra sunnudagsmorgni voru Ó. Þorsteinsson, V. Bjarnason, Þorvaldur, Jörundur, Einar blómasali og Ólafur ritari. Harðsnúinn hópur og til alls líklegur. Ritari búinn að missa töluvert úr og orðinn slakur. Úti á stétt lýsti blómasalinn hlaupi föstudagsins, ef hlaup skyldi kalla, því staldrað var við á ekki færri en þremur myndlistarsýningum og á einni fasteignasölu og innbyrtur mikill matur, snittur, plokkfiskur, o.fl., og mikill drykkur. Maður er alveg hættur að skilja svona íþróttaiðkun sem hefur sem helzta takmark að komast í matar- og drykkjarveizlur og verða sér þar til skammar með óhófi og græðgi.

Ekkert rætt um Júróvisjón, en hins vegar lýsti Ó. Þorsteinsson ferð sinni í miðbæinn í gær um miðjan dag og bar saman við fyrri tíma þegar ungir menn léku knattspyrnu á túninu framan við Reykjavíkur Lærða Skóla og fólk gekk prúðbúið upp Bankastræti og niður í Austurstræti og allt var með öðrum blæ en nú. Nú má um miðjan dag í miðbæ Reykjavíkur sjá fótboltalið af fillibittum illa til reika og málaðar konur með vafasaman starfsvettvang að gyrða sig í brók. Þetta þurfa heiðvirðir heimilisfeður að horfa upp þegar þeir bregða sér í bæinn ásamt dætrum á fermingaraldri að nálgast próvíant á Jómfrúnni. Hér var öllu náttúrlega snúið á haus og frændi gerður tortryggilegur: "Hvað segiru, varstu að koma AF Jómfrúnni?" og annað eftir því.

Farið á skynsamlegri ferð inn í Nauthólsvík. Samt entist blómasalanum ekki erindi lengra en inn í Skerjafjörð, þá gafst hann upp segjandi að hann væri illa fyrirkallaður. Þvílíkt og annað eins hefur ekki gerst í mannaminnum, nema menn hafi beinlínis verið meiddir. Eða þegar Magnús hefur þurft að bregða sér á Kirkjuráðsfund. Svo fáheyrð þótti þessi framkoma að um hana var rætt alla leið inn í Nauthólsvík. Þar tók við saga á ensku af konu og pí og tí sem Vilhjálmur sagði. Mikið grín - mikið gaman eins og segir í kvæðinu.

Sem vænta mátti rann berserksgangur á Jörund á Flönum þegar hann rak augun í lúpínuna. Réðst á hana sem óður væri og sleit upp heilu flókana. En hann róaðist nokkuð í kirkjugarðinum þar sem kyrrðin ríkir ofar hverri kröfu. Persónufræðin á fullu, rætt um fólk og bílnúmer. Vísbendingar.

Á Hlemmi varð óvæntur atburður: hópurinn fór nýja leið, meðfram lögreglustöðinni út á Snorrabraut og svo niður á Skúlagötu. Var þetta að sögn gert vegna framkvæmda við Tónlistarhús sem mjög trufla hlaup þessi missirin. Var þetta þó ekki mótmælalaust, þar sem við frændur og nafnar vildum fara hefðbundið, enda vanir því að gera alltaf allt eins.

Vel mannaður pottur, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar og fleira fólk. Loks dúkkaði upp ónefndur blómasali og var með afsakanir á reiðum höndum, og var umfram allt dapurlegt að sjá hlaupara, sem af mörgum hefur stundum verið talinn lofandi, fara svo illa með góðan hlaupadag. En á morgun er nýr hlaupadagur og þá verður hlaupið. Framundan margir spennandi viðburðir og óhætt að segja að félagslíf sé í miklum blóma í Samtökum Vorum. Ritari.  

Hlaupari snýr aftur

Hvöss orð hafa gengið manna á milli á eternum. Heitstrengingar og hótanir, gælur og glefsur, köpuryrði og hæðni. Ritari mættur á ný til hlaupa eftir fjarveru og hlaupaleysi. Aðrir mættir: Björn kokkur, Birgir jógi og Rúnar þjálfari. Hlýtt í veðri, en stíf austanátt. Fréttir af miðvikudagshlaupi voru helztar þær að einhverjir hlupu ekki út af einhverjum fóbboltaleik í sjónvarpinu. Þeir sem hlupu kvörtuðu yfir illum þef sem lagði af hlaupafatnaði ónefnds blómasala. Þykir því enn og aftur ástæða til þess að brýna fyrir hlaupurum að tryggja að fatnaður sé þveginn að loknu hverju hlaupi.

Lofað hafði verið löngu hlaupi, en þegar til átti að taka virtust menn eitthvað tímabundnir, og ég skildi það svo að það væru brýn störf að mikilvægum mannúðarmálum sem hindruðu löng hlaup. Hið rétta kom í ljós í lok hlaups. Hann var hvass á Ægisíðu og menn fengu storminn í fangið. En létu það ekki á sig fá og tóku á honum stóra sínum. Óvenjumikið af hjólreiðafólki á stígnum, sumir fóru mjög hratt og óvarlega og gera sér greinilega ekki ljóst hve hættan er mikil að slys verði þegar óvitar hreyfa sig með ófyrirsjáanlegum hætti (og hér er ég ekki að vísa til hlaupara í ónefndum Hlaupasamtökum sem sumum kynni að virðast hegða sér óskynsamlega á hlaupum).

Þrátt fyrir að vart heyrðist mannsins mál í storminum heyrðist í Birgi alla leið. Loud and clear. Ritari var furðu sprækur eftir langa hvíld frá hlaupum, þrátt fyrir veikindi og hvers kyns óreglu. Hinir voru einnig allgóðir. Eftir því var tekið að búið er að skrúfa frá vatni á fontum á leiðinni og ber að fagna því.

Við fórum upp Flanir (grasi gróin hæð austur af Nauthólsvík) - þar er lúpínan að taka við sér og tímabært að ónefndir lúpínuóvinir taki til óspilltra málanna. Ritari mátti þola ýmsar glósur á leiðinni, að hann væri feitur og þungur, liti út eins og dráttarklár, Sörli. Birgir kvaðst hlaupa í Sörlaskjóli og fyndi ekki fyrir vindi. Farið upp Suðurhlíðar og ekki slegið af. Hér var í raun gefið í og tempóið keyrt upp. Áfram hjá Perlu, niður Stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Keyrt á fullu stími vestur úr. Björn sagði okkur af kynnum sínum af Gústafi Agnarssyni, lyftingamanni, og voru þær allar í klassiskum anda Íslendingasagna. Hetjudáðir og hreystibrögð.

Þeir Björn og Birgir voru stutt í potti, lá einhver ósköp á. Þegar ég gekk á þá viðurkenndu þeir að ætlunin væri að horfa á Júróvisjón. Ég hváði og lýsti yfir furðu minni á þessu kúltúrleysi. Svo rann það upp fyrir mér að meginástæða þess að ekki fleiri hlauparar voru mættir í dag til hlaupa væri þessi: menn vildu ekki missa af Júróvisjón. Fóbbolti í gær, Júróvisjón í dag! Hvar er karlmannslundin? Hvert stefna þessi Samtök? Ég bara spyr. Skyldu menn sniðganga hlaup á morgun til þess að missa ekki af útsölu á fótlagaskóm? Nú þurfa menn að fara að taka sér taki, framundan er maraþon. Nú þarf að fara að hlaupa af alvöru og eftir áætlun. Hver ætlar að gera áætlun? Ritari er mættur til starfa.  

Frá Laug til Laugar

Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins reis árla úr rekkju á þessum fagra laugardegi í maí, tók til hlaupafatnað og hélt til Laugar. Nú hefur ekki verið hlaupið í viku vegna embættisanna og úr því skyldi bætt. Klukkan var hálfníu og fáir á ferli. Veður kjörið til hlaupa, 10 stiga hiti og úrkoma í nánd. Hitti Flosa í útiklefa - hann sagði að blómasalinn hefði verið dreginn í 15 km hlaup í gær og fengið ókeypis orkudrykk sér til styrkingar. Mætti séra Ólafi í anddyri Laugar, hann rak upp hæðnishlátur þegar hann sá mig á stuttbuxum - það er hlegið að manni hvarvetna.

Ég lagði í hann einn og yfirgefinn, eins og venjulega, og mætti strax mótvindi á Ægisíðu, en hugsaði gott til glóðarinnar að fara langt á þessum morgni. Hugsaði um brekkuna í Kópavogi, hugsaði um Goldfinger, Stíbblu, Árbæjarlaug. Planið var sem sagt að fara langt, mjög langt. Ekkert bar til tíðinda inn í Nauthólsvík, og í raun ekki heldur inn í Fossvog. Til að gera langa sögu stutta má raunar segja að ekkert hafi borið til tíðinda allt hlaupið, nema að það var hlaupið. Og hlaupið. Ég mætti nokkrum hlaupurum á leiðinni, en ekki mörgum. Leið vel eftir brekkuna hjá Lönguvitleysu, og raunar alla leiðina upp að Árbæjarlaug, hugsaði um það eitt hvað þetta væri yndislegt, veðrið, náttúran, allt saman.

Staldraði við efra og bætti á mig vatni, hélt svo áfram niðurúr. Fór að finna til þreytu í Laugardalnum, en ekki svo að það truflaði mig, bætti vel á mig vökva, enda rann svitinn í stríðum straumum. Lauk hlaupi á viðunandi tíma, enda er þessi hlaupari alltaf að bæta sig.

Næst hlaupið á morgun, hvítasunnudag, kl. 10:10, frá Vesturbæjarlaug.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband