Grunnt á afrekin, alvöruhlauparar á ferð

Ekki var veður hlaupalegt, hvass vindur af austri og fremur kalsalegt. En hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins láta slíkt ekki á sig fá: geysilega góð mæting var þar sem fremsta meðal jafningja mátti þekkja dr. Friðrik, dr. Karl, Magnús Júlíus,  próf. Fróða og fleiri góða hlaupara. Þá voru mættir tveir þjálfarar, en slíkt er jafnan fyrirboði válegra tíðinda. Kom það enda á daginn er út var komið að þjálfarar hugðust bjóða upp á fartleik. Hér dæstu sumir, og varð lítillar hrifningar vart. En tuttugu manna hópur lagði í hann þegar búið var að stilla tæki.

Kári varaði aðvífandi og grunlausa vegfarendur við því að hér væru þungaflutningar á ferð og mönnum best að vara sig. Haldið niður á Ægisíðu og þar tók mótvindurinn við - ekki skemmtilegt! Mér til mikillar furðu náði ég að hanga í fremstu hlaupurum, en sá listi var eftir bókinni. Dagsskipunin var að fara út að Dælustöð og hefja fartleikinn eftir það. Er þangað var komið var Benedikt leyft að halda áfram án þess að taka þátt í leiknum. Ég spurði hvort hann væri með sérkjör - en var þá sagt að Benni væri að fara í Mývatnsmaraþon og mætti ekki hlaupa. Helmut og dr. Jóhanna og einhverjir fleiri héldu áfram án þess að stoppa, við hin stöldruðum við og hlýddum  á fyrirmæli þjálfara. Svo var lagt í hann eftir að þjálfarar höfðu áréttað hvað "fartleikur" er og hvað hann er ekki.

Það var farið á fullu stími frá Dælustöð út að lyftingatækjum, og svo aftur frá Strikinu í Nauthólsvík upp á Flanir og hægt eftir brekkuna fyrir neðan kirkjugarð. Hægt út að Kringlumýrarbraut og svo sprett úr spori upp Suðurhlíðar. Þrátt fyrir að ég næði í sveigjanlegri merkingu þeirra orða að "halda í við" hina - teygðist eitthvað á halarófunni. Í brekkunni neðan við Perluna heyrði ég hróp og köll. Ég leit upp og sá hund á harðaspretti í áttina til mín. Sá einnig að eigandinn stóð álengdar og kallaði á hundinn. Hundurinn hafði hins vegar rekið augun í hóp hlaupara og sá að þar var mikið gaman í gangi, miklu skemmtilegra að blanda geði við þetta fólk en einhvern fúlan hundeiganda. Hundurinn, sem reyndist vera af Doberman-gerð, kom á harðaspretti til mín og köldum svita sló út um mig allan, ég fékk adrenalín-skot og fann fyrir auknum krafti í skrokknum, tók vel á því á síðasta kaflanum upp brekkuna.

Hundurinn reyndist vel þjálfaður og hinn prúðasti, en afar fjörlegur. Hann hljóp fram og tilbaka milli okkar og vildi greinilega leika. Við höfðum hins vegar efasemdir um að taka hann í hópinn, spurning hvort ekki sé nóg að hafa einn hund í Hlaupasamtökunum (Töru). Hundurinn var núna kominn langt frá eiganda sínum og endaði með því að slást í för með erlendu ferðafólki sem þarna var á ferð. Við áfram niður brekkuna. Svo var farið Flugvallarveg tilbaka út í Nauthólsvík og tekinn nýr sprettur. Það kom ritara skemmtilega á óvart að ná því sem næst að hanga í þessum afrekshlaupurum sem hann naut heiðursins að hlaupa með, þjálfurunum tveimur, Bjössa, Ágústi, Birgi og svo tveimur ungum sem ég hef ekki nöfnin á. Þrátt fyrir nokkra fjarveru og slitróttar æfingar er grunnt á líkamlegan styrk og úthald - maður verður fljótur að ná sér á strik á ný.

Fartleikur hentar vel til þess að þagga niður í Birgi, hann þarf að taka svo vel á því að hann getur ekki talað. 

Hittum þau Helmut, dr. Jóhönnu og Kára við Laug - þau höfðu farið sömu leið og við að því er Helmut fullyrti (?) en farið hratt yfir og því náðum við þeim ekki! Ég var með strengi eftir sunnudagshlaupið, og vakti það furðu mína og annarra viðstaddra, sem fóru háðuglegum orðum um sunnudagahlaupin, þetta minnti meira á gönguferðir með gömlu fólki sem ræddi um ættfræði, gyllinæð og bílnúmer. Við Bjössi og Ágúst lentum í félagsskap við skemmtileg ungmenni sem vildu ræða hlaup, atvinnuhorfur og framtíðaráform. Rætt var um þekkt góðmenni og fylgdu persónulýsingar, einn smándurinn benti á ritara og sagði um viðkomandi: Hann er miklu feitari en þessi... Jæja, þar fór það!

Næst miðvikudagur, Ágúst ætlar 30 km - aðrir líklega eitthvað skemmra. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband