Fullkomið hlaup

Mættir til hlaups: Helmut, dr. Jóhanna, prófessor Fróði, Björn kokkur, Jörundur, Birgir, Einar blómasali, Bjarni, Anna Birna, Vilhjálmur, Ólafur ritari, Rúnar þjálfari, Kalli, Eiríkur sjaldséni, Benedikt hljóðláti, Kári og Magnús. Og svo strákurinn á hjólinu. Vilhjálmur kvaddi sér hljóðs á tröppunum, kvaðst hafa hringt í Gísla félaga okkar og sagt honum að hann væri aumingi. Gísli samsinnti því og kvaðst mundu mæta til hlaups á föstudag. Þá verður honum jafnframt afhent afmælisgjöf sem Vilhjálmur tók að sér að velja af sínu alkunna listfengi. Var ræðunni vel tekið og lýstu margir þá þegar yfir vilja til að mæta.

Þjálfari flutti tölu um skó og nauðsyn þess að huga að skókaupum tímanlega til þess að vera ekki að hlaupa á nýlegum skóm í maraþoni. Töldu viðstaddir að þjálfara hefði mælst sköruglega og ekki var síður dáðst að því að Rúnar náði að þagga niður í Birgi eitt augnablik meðan hann talaði. En bara eitt augnablik, svo byrjaði dælan aftur að ganga. Dr. Jóhanna lagði til breytta hlaupaleið frá því sem vanalegt er. Þegar prófessor Fróði heyrði þetta sagði hann: Já, en þetta er breyting! Varð hvítur sem nár í framan og fór að sýna byrjunareinkenni kvíðakasts, greip í handriðið við tröppurnar sér til stuðnings. Síðan var bara lagt í hann. Veður gott, bjartviðri, 12 stiga hiti, en smávindur framan af. Farið hægt af stað enda stóð til að fara langt.

Það blés aðeins á Ægisíðu, en ekki svo að það truflaði. Þegar veður er eins og það var í dag vekur það manni furðu að ekki skuli vera fleiri að hlaupum - þetta var afar ljúft. Hersingin var bara róleg, m.a.s. sá sem þegir - hann var rólegur enda á leið á Mývatn. Blómasalinn samkjaftaði ekki, blaðraði út í eitt um hækkanir á stáli úti í heimi. Þá sagði Benedikt: Það hefur aldrei meitt neinn að þegja.

Er frá leið fór hópurinn að grisjast og aðeins lítill hópur hélt í Kópavoginn. Próf. Fróði, ritari, dr. Jóhanna, Helmut, Birgir og Einar. Tveir síðustu þó alllangt á eftir okkur hinum. Fórum niður í Voginn og héldum svo á Kársnesið. Þar dúkkaði Bjössi upp, öllum til mikillar furðu, enginn skildi hvaðan hann kom. Hvað um það, áfram var haldið fyrir Kársnesið og yfir sunnanmegin. Alltaf var strákurinn á hjólinu að sniglast í kringum okkur, berandi í okkur drykkina. Prófessorinn sagði okkur að stuttur stanz yrði gerður í Lækjarhjalla, þar sem myndarleg húsmóðir biði okkar með veitingar úti á svölum og elskulegt viðmót. Er þangað kom var enginn heima og ekkert að hafa. Voru það vonbrigði. Ekkert stoppað, keyrt áfram.  Það veitti mér einskæra gleði að ég skyldi geta fengið mér að drekka af bláa Gatoradinum sem blómasalinn hafði keypt og skilið eftir að bögglabera stráksins. Hugsa sér, fá að drekka ókeypis!

Hér voru hlauparar farnir að lýjast, enda eru brekkurnar í Kópavogsdalnum erfiðar. Við héldum upp úr dalnum og inn í Reykjavík, komnir með aðskilnaðarkvíða eftir svo langa fjarveru. Undir Breiðholtsbraut, hjá benzínstöð. Hér skildu leiðir, Björn og Ágúst fóru upp að Stíbblu - en við hin fórum niður í Elliðaárdal og tókum stefnuna á Fossvoginn með það í huga að fara stytztu leið heim.

Við vorum orðin ansi lúin er hér var komið og fórum fretið. Við vorum hins vegar ánægð með frammistöðuna. Ég varð að ganga nokkrum sinnum sökum þreytu - en þegar upp var staðið reyndist hlaup 23,8 km. Björn og Ágúst fóru 28 - Einar og Birgir 18 km. Aðrir væntanlega eitthvað styttra. Í potti var 6 mánaða sköllóttur drengur. Björn horfði á hann og sagði: Heyrðu, hann er alveg eins og ég! Rifjaðar upp minningar úr menntaskóla og öðrum skólum. Niðurstaða: langt hlaup og lýjandi - en uppbyggilegt á yndisfögrum degi. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband