Sundraður, splundraður hópur - hvað er gaman við það?

Hlaupasamtök Lýðveldisins stæra sig af miklum félagsþroska og samheldni félaga, sem varðveita gáska sinn og fjör, innbyrðis trúnað og traust, einlægni og réttsýni gegnum þykkt og þunnt. Í vorum hópi er hugað að smæstu og stærstu bræðrum og systrum - í eiginlegri sem óeiginlegri merkingu, andlegri sem líkamlegri. Ekkert mannlegt lætur oss ósnortin. Af þeirri ástæðu þótti sumum ástæða til að hafa orð á þeirri þróun sem orðin er í seinni tíð, að sundra hlaupahópnum með æfingum sem mismuna svo hlaupurum að sumir verða síðastir og aðrir aftastir. Meira um það seinna.

Reykjafellshlaup sat enn í þessum hlaupara er hann mætti til Laugar. Þar voru fyrir á Fleti Flosi, Bjarni, Benni, Eiríkur - og svo komu þeir hver af öðrum, próf. Fróði, Þorvaldur, Ingi, dr. Jóhanna, þjálfararnir Rúnar og Margrét, og loks kom Einar blómasali hlaupandi þegar klukkuna vantaði 3 mín. í hálfsex. Þótti það furðu mikil stundvísi af þessum óstundvísa einstaklingi. Enn á ný minntu Hlaupasamtökin á tilveru sína með háværri nærveru í Brottfararsal, mikilli fyrirferð og almennri truflun. Rætt af mikilli speki um ýmis þarfleg málefni, ísbirni, svæfingartækni, flutningatækni og fleira sem hvílir á landanum þessa dagana. Veður allgott, seytján stiga hiti, léttskýjað, en einhver vindur.

Margrét var full miskunnar og mannúðar eftir hið ágæta hlaup í gær og var alveg til í að leyfa mannskapnum að fara rólega. Ágúst fullvissaði sig um að enginn yrði stimplaður eymingi þótt hægt yrði farið. Allt þetta breyttist jafnskjótt og Rúnar mætti á svæðið og greinilegt að hann hafði ekki hugsað sér að gefa nein grið. Við vorum hins vegar svo klók að við kölluðum ekki eftir neinum leiðbeiningum um hlaup, og svo var bara lagt í hann. Þorvaldur í einkennilegri múnderíngu, stuttbuxum og bol sem almennt myndi flokkast sem hversdagsfatnaður. Þegar hann var spurður hverju þessi útrústning sætti sagðist hann ekki enn vera búinn að endurheimta tösku sína úr Amríkuflugi - líklega kemur hún ekki úr þessu, en hún innihélt allt hans hlaupasortíment. Kennir þar ýmissa grasa.

Ekki verður hjá því komist að óska hinum ýmsustu dimitöntum til lukku með áfangann, í aldursröð þessum: Ó. Þorsteinssyni Víkingi, útskrifuðum Sérlegum Meistara í gæðastjórnun úr Verkfræðideild; próf. Flúss Meistara í Viðskiptastjórnun; Birgiri Jóga Meistara í því sama og próf. Flúss. Þessum þremur, námfúsu félögum vorum færum vér einlægar heillaóskir á þessum tímamótum, Jafnframt sem við áréttum fyrri fyrirætlanir frænda vors og vinar, Ó. Þorsteinssonar um Víkingssöguhlaup föstudaginn er næst kemur, 20. júní.

Hvað um það hópurinn lagði í hann. Í upphafi hlaups braust út deila um hvort ónefndur blómasali hlypi í hreinum hlaupafatnaði eður ei - blómasalinn bað mig að þefa af sér - ég afþakkaði. Ágúst var með getgátur um að blómasalinn væri farinn að nota nýja tegund af þvottaefni, sem væri illaþefjandi frá framleiðendum, hann er alltaf til í að sjá ljósu hliðarnar.

Þrátt fyrir að það væri mánudagur var ekki farinn hefðbundinn mánudagshringur, um Hagamel, Birkimel, Suðurgötu og þanninn - nei, það var steðjað niður á Ægisíðu og farinn Öfuguggi. Hér er þörf á nýsköpun og nýbreytni, því að hlauparinn staðnar og verður þreyttur sem fer alltaf sömu leið. Vér þurfum á hugarorku og frumkvöðlahugsun manna eins og próf. Fróða til þess að finna nýjar og óvæntar leiðir svo að við getum endurnýjað gleðina af því að hlaupa. Ellegar rifja upp gamla takta af fyrri hlaupum, Neshlaup með Bakkavörum eða hlaupum upp um botnlanga á Nesi eins og tíðkast hafa.  Hvað um það, við létum okkur hafa það að að slampast áfram eins og verksmiðjuþrælar, sama ganginn enn einu sinni. Sem fyrr sagði sat stirðleiki í vöðvum eftir erfiðar brekkur gærdagsins og vorum við sum á því að fara bara rólega í dag. Benedikt er að æfa fyrir hálfmaraþon í Óshlíð þar sem hann ætlar að bæta sig og því voru teknir sprettir þegar enginn átti von á.

Svo var einhver millihópur á undan okkur, próf. Fróði, Bjössi, þjálfararnir og einhverjir fleiri sem ég formerkti ekki, og ég skildi ekki hvað voru að gera. Þessi hópur fór aðeins á undan, við hin skynsömu, ritari, dr. Jóhanna, Bjarni og Eiríkur héldum okkur á skynsamlegum nótum. Um örlög blómasala, Flosa og Inga veit ég ekki og kann engar sögur af afrekum þeirra þennan daginn.

Við fengum nokkuð stífan vindstreng í fangið á Sólrúnarbraut og á stundum svo mikinn að vart mátti nema mannsins mál. Þetta eru leiðinlegustu skilyrðin að hlaupa við, en bilbug var ekki á okkur að finna, við héldum áfram. Vissum sem var að þessu myndi linna og á heimleiðinni fengjum við vindinn í bakið. Ekki var teljanlega vizku að hafa á þessum kafla - en almennan fróðleik um afkomendur Einars ríka.

Við veltum töluvert fyrir okkur almennum umferðarreglum á hlaupastígum þar sem fólk mætist á ýmsum farartækjum: tveimur jafnfljótum, hjólum, línuskautum, með kerrur, börn á hlaupahjólum, menn með skíðastafi - vitleysan er margföld! Hvenær fáum við fyrsta slysið þar sem einhver hraðafanturinn á reiðhjóli, sem heldur að reinin "hans" tryggi honum að enginn verði á vegi hans, lendir á einhverjum óvita sem hleypur út undan sér? Oft hefur maður hugleitt í þessum dúr þegar þessi fífl bruna framhjá manni í einhverjum keppnisham. Hér er þörf á umferðarreglum. Ekki er síður þörf að taka á ökumönnum sem fara með bíla sína upp á gangstéttir og loka fyrir alla umferð gangandi og hlaupandi vegfarenda, slíka dóna sáum við í kvöld og fóru töluvert í taugarnar á okkur.  Líklega er best að hafa síma meðferðis á hlaupum framvegis og tilkynna þessi brot til lögreglu.

Nema hvað, það er farið um Suðurhlíðar á léttu tempói og gefið í síðasta spölinn. Svo niður frá Perlu og aftur út í Nauthólsvík. Hér spurði Þorvaldur: hvaða öfuguggaháttur er þetta? Svona höfum við aldrei hlaupið! Nú fór að taka verulega í vöðva hjá langþreyttum hlaupurum. Hér eftir var farið rólega tilbaka til Laugar.

Setið stutt í potti, en ég man að rætt var um loðfíla. Deilt um hversu langt menn hefðu farið, sumir virtust hafa tekið þéttinga, við tókum mjög virðulega vegalengd, próf. Fróði lengdi og kom langsíðastur til Laugar, gvuð má vita hvað honum gengur til! En í potti er jafnan ljúfust stund og var þar margt af mikilli speki rætt.

Nú er spurning með miðvikudaginn, er skynsamlegt að fara langt? Meiddum manni nýstignum upp úr veikindum, ofáti og drykkju? Auk þess er beðið eftir endanlegri staðfestingu frænda vors og vinar, Formanns Vors til Lífstíðar, á fyrirætlunum um Víkingssöguhlaup n.k. föstudag. Í gvuðs friði, ritari. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband