Bjórinn og lýsið flaut

Varpað fram vísbendingarspurningu í Brottfararsal. Spurt var um Framsóknarmann. Sýndi merki um skapbræði þegar eitthvert eftirtalinna atriða voru gagnrýnd: a) sauðkindin; b) Jónas frá Hriflu; c) Framsóknarflokkurinn; d) bændur; e) landbúnaðurinn almennt. Þegar grandalausir menn veltu fyrir sér e-u því sem þeir töldu ámælisvert við framangreind málefni, brást umspurður aðili harkalega við, spratt upp í Morgunpotti og jós ókvæðisorðum yfir málshefjanda. Þegar viðkomandi brást aumlega við og spurði: má ekki hafa skoðun á hlutunum? Þá var svarað: Nei, svona "skoðanir" á að kveða niður í fæðingu!

Vilhjálmur Bjarnason, sem nálgast það að vera persónufræðingur af kalíber Ó. Þorsteinssonar, sá strax í hendi sér hver þetta var. Var hann fæddur á Ruslafelli í Þingeyjarsýslu? Rétt! Var hann þjónustumaður landbúnaðarins fram til æviloka? Rétt! Var hann alnafni fyrrnefnds Hriflu-Jónasar? Rétt! Spurt var um búmálastjóra, Jónas Jónsson. Ágúst spurði: er þetta vísbendingaspurning? Það er bara dapurlegt þegar mætast hinir tveir falangar Hlaupasamtakanna, gáfumennirnir og hlaupararnir, þá afhjúpast svona hyldjúp fáfræði - og manni blöskrar þegar heyrist spurt: Hver var Jónas Jónsson?

Mætt til hlaupa: próf. Fróði, Vilhjálmur, Björn kokkur, Birgir jógi, dr. Jóhanna, Brynja, Benedikt, Denni og Friðbjörn af Nesi, Ólafur ritari og Einar blómasali. Rætt um þörfina á því að vekja athygli á starfsemi Hlaupasamtakanna og samþykkt að efna til sameiginlegra hjólreiða nakinna hlaupara einhvern góðviðrisdaginn á næstunni til þess að vekja eftirtekt meðborgaranna á framsækinni starfsemi í Vesturbænum. Einnig rætt um Reykjafellshlaup og undirbúning þess. Denni tilkynnti að boðið yrði til bjóðs á veröndinni hjá honum eftir hlaup. Mikinn óþef lagði um allt plan og var lyktin rakin til ónefnds blómasala sem "gleymt" hafði að þvo hlaupafatnað sinn eftir seinasta hlaup. Voru það eindregin tilmæli Hlaupasamtakanna til frú Vilborgar að fylgjast vel með hlaupatösku ektamakans og tryggja að þar yrði eðlileg endurnýjun og hreinsun eftir því sem verkast vill.

Lagt í hann og var farið hægt. Sérstök ástæða er til að nefna hlaup dr. Jóhönnu þessa vikuna, hlaupið á mánudag, minningarhlaup á þriðjudag 13 km, miðvikudag 24 km, fimmtudag hlaup í Mosfellsbænum, og svo hlaup aftur í dag, rúmir 11 km. Ágúst fór áhugavert hlaup á miðvikudaginn eð var, 32 km, um Kársnes, milli Breiðholts og Kópavogar, að Elliðavatni, og þaðan niður úr. Um þetta gengu margar sögur þegar við lögðum upp í hlaup dagsins. Óþefurinn af ónefndum hlaupara ætlaði alla viðstadda að drepa og reyndu menn ýmist að hlaupa fyrir framan hann eða aftan til þess að bæta lífsgildi sín. Ekki má gleyma hávaðanum kringum Birgi sem enn á eftir að láta Sjúl smúla sér innan eyrun svo að hann nemi nokkurn veginn mælt mál.

Það var farið hægt, það verður bara að segja það eins og er. Ég var ánægður með það því ég hef ekki hlaupið í tvær vikur og er enn að ná mér eftir meiðsli. Þó var Benedikt eitthvað að sperra sig, en menn leiddu það hjá sér. Hann kvaðst hafa heyrt af hlaupi í Bolungarvík sem kallaði í hæfileika hans. Hlaupið er eftir fáeinar vikur og stendur undirbúningur yfir af fullu.

Það fór að draga sundur með fólki einhvers staðar við flugvöll - og fyrirsjáanlegir atburðir gerðust. Velt vöngum yfir hvar valdir hlauparar væru, svo sem Helmut og strákurinn úr Skjólinu á hjólinu. Hann er í klósettinu, sagði dr. Jóhanna. Ha, í klósettinu? spurðu menn forviða. Já það er verið að undirbúa fyrir sunnudaginn og allar mögulegar uppákomur, svo sem number two. Er hann ekki með mann í þessu, spurði einhver. Það mætti þá fara til nágrannans, eða nota kattasandinn eins og í Klovn. Menn bara brattir. Strákurinn á hjólinu líklega að horfa á fóbbolta.

Farið á þokkalegum hraða, rifnar upp lúpínur á Flönum til heiðurs Jörundi. Upp Hi-Lux og brekkan tekin rólega. Hérna byrjaði Birgir að svindla, tók hverja styttinguna á fætur annarri og náði þannig forskoti sem hann hélt til loka. Við hin vorum lögleg.

Þegar upp var staðið voru farnir rúmir ellefu kílómetrar, sem telst hefðbundið. Að hlaupi loknu var haldið til veizlu að Vallarbraut á Nesi að Denna og voru þar í boði veitingar. Góður dagur, gott hlaup að baki og framundan Reykjafellshlaup.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband