Færsluflokkur: Pistill Ritara

Hvass á austan

Það heyrir til sögunni og skráist hér með á bækur að hlaupið var í Hlaupasamtökum Lýðveldisins föstudaginn 2. maí 2008 og Strákurinn á Hjólinu átti afmæli. Af því tilefni sungu menn vitanlega afmælissönginn á miðjum stígnum á Ægisíðu. Mættir margir valinkunnir hlauparar svo sem eins og dr. Friðrik, dr. Jóhanna, próf. dr. Fróði, dr. Karl, og nokkrir í viðbót, Kári og Birgir - og ritari var einnig mættur. Og Strákurinn á Hjólinu. Hlaup allt var hófstillt, enda sat enn þreyta í skrokkum eftir erfitt miðvikudagshlaup. Við slepptum sprettum, en fórum hratt yfir og héldum hraða vel. Veður fagurt.

Að kvöldi var svo komið saman Fyrsta Föstudag á heimili Helmuts og Jóhönnu, þar sem bakaðar voru flatbökur og drukkinn mjöður með. Björn flutti hugnæma tölu um mikinn afreksmann og hlaupagarp sem vel væri að því kominn að taka móti verðlaunum sem hlaupari aprílmánaðar: ritari Hlaupasamtakanna. Ritari þakkaði af auðmýkt auðsýndan heiður.

Sunnudag 4. maí var annað upp á teningnum, þá var þungbúið veður og blés ákaflega af austri. Mættir til hlaups Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Einar blómasali og ritari. Þungt hljóð í mönnum eftir dapurlegt gengi Garðabæjar gegn Reykjavík í Útsvari - en VB var ekki á svæðinu og því fór sem fór. Það var farið hægt út og hlaupið rólega alla leið. Á Ægisíðu lentum við í stífri austanátt og svo miklu roki að vart heyrðist mannsins mál. Staðnæmst í Nauthólsvík og gerð úttekt á menntakerfinu og starfi innan Evrópusambandsins.

Áfram inn í kirkjugarð og rætt um endurmenntun ríkisstarfsmanna og þá ánægju sem hafa má af því að leita sér frekari menntunar. Þetta er mikið afmælisár, margir núverandi og fyrrverandi hlauparar sem fylla einhvern tuginn, mikið um veizluhöld, sumum er boðið, öðrum  ekki, svona er þetta bara!

Nú eru aðstæður slíkar við Tónlistarhúsið nýja að þar er ófært hlaupurum og fara verður yfir Kalkofnsveginn að Seðlabanka og halda þannig áfram gegnum Kvosina. Miklar framkvæmdir framundan á Kvisthaga, um þær var rætt fram og tilbaka og gefin góð ráð.

Pottur var þéttsetinn öndvegisfólki, var þar mættur Jörundur hlaupari sem er á batavegi eftir meiðsli. Aðrir  fastagestir sem sækja í félagsskap Hlaupasamtakanna eftir upplýstum samræðum.

Ritari hverfur nú til embættisverka á erlendri grundu, en hleypur næst fimmtudaginn 8da maí - langt.

Meinlegur misskilningur

Þessi hlaupari var ekki að nenna að fara að hlaupa í kvöld. Í fyrsta lagi varð honum ekki svefnsamt. Í öðru lagi flaug hann norður á Akureyri með morgunvélinni og ók að Laugum í Reykjadal þar sem ráðuneytismenn áttu ánægjulegan fund með Norðanmönnum. Hápunkti var náð er matreiðslumaður staðarins galdraði fram kótiléttur í raspi, lostæti sem ávallt hefur slökkt sól skynseminnar í hug ritara og eru til frægar sögur af því frá því hann var þriggja ára að jólaborðhaldi og kunni sér ekki hóf. Kótiléttur vekja með ritara kenndir sem liggja djúpt og laða fram hegðun sem þekkist fremur með úlfum sléttunnar en siðmenntuðum forsvarsmönnum mennta og menningar í Lýðveldinu. Ég missi, m.ö.o., stjórn á mér og sökkvi tönnunum í þennan gómsæta mat. Eina sekúndu flögraði að mér að það væri e.t.v. ekki skynsamlegt á hlaupadegi að eta tvöfaldan skammt af kótiléttum - en ég sló þær vangaveltur frá mér er ég gaumgæfði góðgætið á disk mínum.

Fló suður með vélinni 14:25 og þótti mikið til koma hvað þetta er þægilegur ferðamáti,  maður röltir út í vél 10 mín. fyrir flugtak og er lentur 40 mín. síðar- kominn heim 5 mín þar á eftir. Þurfti að halla mér um stund sakir svefnleysis og til þess að geta hlaupið - en varð enn hugsað til hádegisverðarins. Jæja, ég hugsaði sem svo að það yrðu nóg af briggskipum til þess að þvælast með ef heilsan leyfði ekki átakahlaup sem jafnan eru í boði í mánudögum.

Fjölmargir hlauparar mættir á þessum mánudegi: Ágúst, Friðrik, Björn, Benedikt. Una, Elín Soffía, Kári, Birgir, Ólafur ritari, Sigurður Ingvarsson, og svo þjálfarar tveir: Margrét og Rúnar. Það vakti þegar ugg að Rúnar skyldi mæta á mánudegi - hvað var í gangi? Athygli vakti að hvorki dr. Jóhanna né Helmut voru mætt til hlaupa.

Úti á stétt urðu tíðindi sem virkuðu eins og sprengja: nú ætlum við að gera nokkuð frábrugðið, við ætlum að breyta til. Þekktir forsvarsmenn reglu og stöðugleika í Samtökum Vorum voru gripnir kvíða og sögðu: Breyta? Á að breyta til? Það var ekki sagt mér að það ætti að breyta til...! Angistarsvipur færðist yfir andlit sumra viðstaddra, en þjálfarinn hélt áfram ótrauður: Við ætlum að fara í Fartleik. Hér spruttu fram taugaveiklaðar hláturgusur hjá sumum sem kunna ekki sænsku, og halda að þetta sé amerískur leikur. Prógrammið var sumsé að taka þétttinga eins og við höfum tekið á umliðnum árum og eru ekkert nýtt fyrir okkur og hvíla á milli. Breytingin er fólgin í því að fartleikur er hraðari en tempó. Eða svo sagði þjálfari.

Það var lagt í hann, og menn voru kvíðnir, því að hér lágu breytingar í loftinu sem voru ekki til þess fallnar að stuðla að andlegri heilbrigði félagsmanna. Farið að vísu hægt af stað, og ég fór mjög hægt, sá fyrir mér að vera með allra öftustu mönnum, fara afar hægt og afar stutt. Fann fyrir kótiléttunum í belgnum, en taldi mikilvægt engu að síður að taka þátt í hlaupi. Hópurinn var hægur framan af og engar gloríur í gangi. Ég endaði með Birgi og Kára sem tóku því rólega og ætluðu sér engin stórvirki á þessum degi. Við Dælustöð var hins vegar ekki vikist undan verkum, þar beið hópurinn og þjálfararnir og það var bara að gefa í. Farið á hröðu brokki út í Nauthólsvík. Það var erfitt, en það kom mér á óvart að ég réð við þokkalegan hraða. 

Hópurinn beið út við  Kringlumýrarbraut eftir hraðaaukningu númer tvö og svo var tekinn þriðji þéttingurinn upp Suðurhlíðar. Upp að Plani, þaðan niður að Flugvallarvegi, þaðan suðurúr og þétt út í Nauthólsvík. Þetta var mönnum erfitt, og sumir hinna eldri hlaupara kvörtuðu yfir hraðanum. Hér varð vart misskilnings um fartleikinn, og varð það til þess að sumir hertu hlaupin til þess að forðast gufur sem ekki áttu neitt skylt við náttúrulegan ilm Öskjuhlíðar.

Hægt tilbaka, nema hvað sumir gátu ekki á sér setið að herða hlaupin á ný og stofna heilsu okkar í hættu. Teygt mikið og lengi í Móttökusal. Þjálfarinn spurði hver þessi Magic væri sem hefði verið með í för s.l. miðvikudag - var það Strákurinn á Hjólinu? Heitir hann Magic? Eða voruð þið að drekka Magic, þann ógeðslega drykk, fullan af kolsýru, koffíni, þrúgusykri og öðrum óþverra sem hentar ekki hlaupurum? Hér urðum við stúm - vissum ekki hvað við ættum að segja. Og sögðum  eitthvað í þá veruna að þetta hafi bara verið strákur á hjóli sem dúkkaði upp með orkudrykk. Já, forðist hann, sagði þjálfarinn.

Framundan eru bara spennandi tímar. Á miðvikudag er stefnt á Árbæjarlaug, 25 km - með nóg af orkudrykkjum í beltum. Blómasalinn horfinn úr landi. Tilboð í Byko á borvélum.


Hávaðamengunin var nær óbærileg

Þrátt fyrir að Birgir hafi margoft fært það í tal við Sjúl að fá afnot af haugsugunni og láta smúla innan eyrun og sjúga út allan óhroðann sem þar hefur safnast fyrir á langri ævi hefur hann enn ekki látið verða af því. Var þó Sjúl meir en tilbúinn að veita liðsinni endurgjaldslaust, enda hefur hann hagsmuni Hlaupasamtakanna í fyrirrúmi og hyggur ævinlega að velferð hlaupara. Það er nefnilega með endemum hversu hljóð nær lítt að penetrera þykkan massann sem hefur hlaðist innan í hlustina á félaga okkar og veldur því að hann meðtekur alls ekkert af því sem sagt er við hann, og telur sig knúinn til þess að tala mjög hátt svo að fólk heyri örugglega tíðendin sem hann hefur að flytja.

Þetta er eiginlega orðið vandræðalegt því að hlauparar hafa aðeins tvo kosti í stöðunni: hlaupa á undan Birgi eða láta sig síga aftur úr. Birgir er jafnan feitur og þungur er hann kemur undan vetri, svo er og nú. En hann er mikill og kappsfullur hlaupari og fljótur að ná sér á strik. Því er það ekki kostur í stöðunni að detta aftur úr - en það er áskorun að vera á undan honum því helvítið er svo snöggur, þótt feitur sé. En þetta var sumsé málið í dag, hvernig hleypur maður Birgi af sér. Við vorum nokkrir saman í baráttunni félagarnir: Benni og Bjössi fremstir, þeir sluppu við vandann, Benni hljóp fram og tilbaka og lék sér að því að auka hraðann og hægja ferðina, trúlega mest til þess að gera lítið úr okkur eldri og hægari mönnum. Bjössi hélt áfram eins og eimreið og leit hvorki til hægri né vinstri. Ég náði að hanga í próf. dr. Fróða og var nokkuð sáttur við það, í grennd voru Helmut og Jóhanna, aðrir þar fyrir aftan.

Þetta var þungt framan af, tempó 5:25. Svo smá-jukum við hraðann og vorum komnir á stím við flugvöll. Út í Nauthólsvík og upp Hi-Lux, þéttingur upp brekkuna eins og venja er á föstudögum. Hvílt lítillega, haldið áfram í selskap við Helmut og dr. Jóhönnu hjá kirkjugarði, og þá heyrðum við í Birgi og jukum aftur hraðann. Farið sem leið lá upp hjá Veðurstofu, niður hjá MH og svo niður á Miklubraut. Fengum frítt færi yfir hjá ljósunum og engin þörf að hætta lífinu. Sprettur eftir bekkinn á Klambratúni og hvílt á Othar´s Platz. Hér bryddaði prófessorinn upp á einkennilegum umræðum um hvað menn gera á kvöldin, hann sæti við Garmin-tæki sitt og skoðaði leiðir, hraða, vegalengdir, púls, hæð yfir sjávarmáli og fleira í þeim dúr. Við hinir nefndum alternatíva iðju, svo sem lestur góðra bóka, fara á leikrit, eiga uppbyggileg samskipti við maka sína - hér þaggaði prófessorinn niður í okkur eins og við værum argasta klámpakk og krafðist þess að áfram yrði hlaupið: "Erum við komnir hingað til að blaðra eða til að hlaupa?"

Niðri við Sæbraut dundu ósköpin yfir: Birgir náði okkur og byrjaði með sinn orðavaðal, eða líklega hefur hann aldrei hætt honum. Þá var okkur Ágústi alveg lokið og við gáfum í á Sæbraut og létum okkur hverfa. Hin sátu eftir í reykskýi, alveg gáttuð á þessum hraða sem þarna var demonstreraður. Við vorum svo ánægðir með stöðu mála að við ákváðum að lengja - slepptum Ægisgötu og fórum út í Ánanaust og svo í átt að Nesi og tilbaka um Grandaveg. Samtals 12,35 á meðaltempói í kringum 5 mín. km. - hraðast 3.20. Ágúst las upp alla romsuna á plani, meðalpúls, minnsta púls, mesta púls, og fannst þetta ægilega mikil vísindi. Svo var farið inn að teygja og Birgir stóð yfir öllum og leiðbeindi, en líklega hefur hann átt betra með að nema mælt mál hér því að hann var hættur að kalla, og var tiltölulega sæmilegur.

Svo var pottur og þar mættu Kári og Sif Jónsdóttir, langhlaupari. En ég gleymdi að nefna ýmsa hlaupara sem mættir voru, og skulu helztir nefndir dr. Friðrik, Kalli kokkur og sonur, próf. dr. Anna Birna, og Strákurinn á Hjólinu með fyrninga af Magic. Hann er voða duglegur. Svo var Einar blómasali og var bara ánægður með sína frammistöðu í dag. Kannski má hann vera það. Ekki má heldur gleyma félögum úr Neshópi: Rúnu, Brynju og Denna. Setið lengi í potti og lífsgátan krufin.

Ævintýrin gerast á hlaupum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins

Stundum hefur það verið sagt að við séum öðruvísi. Víst er að félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins eru sumir hverjir kynlegir kvistir og binda bagga sína ekki sömu hnútum og aðrir þegnar Lýðveldisins. Það sannaðist enn á ný í hlaupi dagsins hvílík flóra safnast saman á planinu fyrir framan Vesturbæjarlaug þegar hlaup stendur fyrir dyrum, hvílíkt mannval! Hvílíkur mannauður! Hver sérvitringurinn upp af öðrum. En sagan hefst í búningsklefa karla í kjallara Laugarinnar. Þar voru mættir Magnús, Þorvaldur, Ágúst og Pétur baðvörður. Það fóru meldingar á milli þeirra í hálfkæringi. Einn sagði eitthvað í þá veruna að nú væri liðið ár frá brunanum í Austurstræti og enn væru húsin jafnljót, ekkert hefði gerst. Já, enn eitt árið liðið, við verðum bara eldri og kyngetunni fer bara hrakandi. En Ágúst, sem er alltaf á jákvæðu nótunum, léttur og kátur eins og honum er einum lagið, alltaf til í að sjá og vekja athygli á björtu hliðunum, segir: Já, en strákar, við verðum bara þroskaðri og þroskaðri með hverju árinu! Já, segir einhver, ég myndi sætta mig við töluvert mikinn vanþroska og fá tilbaka eitthvað af kyngetu fyrri ára!

Það voru tveir þjálfarar mættir og reyndu eins og venjulega að telja kjarkinn úr hlaupurum, spurðu hvað ætti að fara langt, hvort það væri skynsamlegt, og þannig fram eftir götunum. Spurðu hvort enginn ætlaði í ÍR-hlaupið á morgun, 5 km, við sögðum að það tæki því ekki að fara í hlaupadressið fyrir svona spottakorn. Nei, heldur skyldi farið langt, enda miðvikudagur, lágmark 22 km upp að Stíbblu, sumir jafnvel lengra, 25 km upp að Árbæjarlaug. Aðrir styttra. Vel mætt, helztu hlauparar, valinkunn góðmenni. Aftur mættur strákurinn úr Hagaskóla á hjólinu.

Það var lagt í hann, veður frekar dumbungslegt, 7 stiga hiti, einhver vindur, sólarlaust og von á rigningu. Fara hægt af stað og vera rólegur. Öllum til mikillar furðu tókst að halda tempói niðri alla Ægisíðuna, en þá þegar hófst nokkur umræða um mat, og olli það gremju ónefndra hlaupara sem vilja banna öll samtöl á hlaupum. Ekki nóg með að menn séu að tala, það er verið að tala um mat!

Síðan gerist það að hinn ævintýragjarni Þorvaldur rekur augun í plastkerald í Skerjafirðinum og ákveður að láta þá ögrun ekki fram hjá sér fara: vill sparka í keraldið, en mætir þá ofjarli sínum, keraldið reynist þyngra og stærra en virtist í fyrstu, þvælist millum fóta Þorvaldar og er við það að fella hann, en hinn fótvissi og fótfrái hlaupari kemur niður standandi og reyndist vaxinn þeirri raun að takast á við keraldið. Uppákoman olli titringi í hópnum og vorum við nokkra stund að ná áttum á ný - en hún hafði ekki varanlegar afleiðingar á frammistöðu hlaupara.

Áfram haldið í Fossvoginn, þar fundum við fyrir austanstæðum vindinum, en létum hann ekki trufla okkur, þjálfararnir yfirgáfu okkur, Magnús og Þorvaldur fóru Suðurhlíðar, en helztu hlauparar héldu áfram á vit ævintýranna á Goldfinger og í Elliðaárdal. Farið upp brekkuna úr Fossvogsdal, sem er alltaf jafn indæl, inn í Smiðjuhverfi, Ágúst fór inn á Goldfinger - en sagði að stelpurnar hefðu fúlsað við honum svona sveittum. Strákurinn úr Hagaskóla var kominn og bar í okkur orkudrykki - voru þeir vel þegnir og nýttust vel. Undir Breiðholtsbraut og upp í hverfi. Þetta voru Benni, Ágúst, Sjúl, Helmut, Björn, dr. Jóhanna og Ólafur ritari (og strákurinn á hjólinu).

Þegar komið var upp að Stíbblu var ljóst að Ágúst og Benni ætluðu lengra, stefndu á Laugina uppi í hæðunum, en við hin létum okkur nægja að fara yfir Stíbblu. Þar fengum við meiri orkuvökva og hérna leið okkur vel. Nú var bara leiðin heim framundan og það var ágæt tilfinning. Niður hjá Rafstöð og svo hefðbundið, ekkert óvænt og haldið góðum hraða. Komum tilbaka á tímanum 2:03 - alla vega við Sjúl, sem vorum bara í góðum málum. Þau hin eitthvað á undan. Teygt í Sal - svo komu þeir Ágúst og Benni, stjarfir af áreynslu, slefandi og komu vart upp orði. Nema hvað Benni hafði gert uppgötvun: í 25 km löngu hlaupi er gott að fá orkudrykk. Ágúst hafði meira að segja gert sér vonir um að orkudrykkurinn sem strákurinn á hjólinu bar í þá yrði til þess að Benni færi að tala, en varð ekki kápan úr því klæðinu, sem fyrr er það prinsipp hjá þessum þögla að segja ekki orð í hlaupi. Var um það rætt að þetta minnti á Finnann sem sagði þegar einhver sagði Skál! - har vi kommit hit för att prata eller för att dricka? 

Er komið var tilbaka var þar staddur Einar óheiðarlegi og reyndi að telja okkur trú um að hann hefði farið 69 - menn brugðust misvel við þeirri frétt og töldu vafa leika á sannleiksgildi þessara upplýsinga, en kusu að gera ekki mikið mál úr því. Verið í potti um sinn og rædd málin framundan, Fyrsti Föstudagur 2. maí n.k. og tilhögun öll. Næst hlaupið á föstudag, vonandi með þéttingum.

Hlaup gerast alvarleg

Það er sannarlega gleðiefni að Hlaupasamtök Lýðveldisins geta státað af einhverjum frambærilegasta Formanni sem nokkur samtök hafa átt. Ekki einasta er hann stolt og sómi Samtakanna út á við, hann ber með sér og breiðir út hinn hógværa andblæ Samtaka Vorra hvar sem hann kemur. Nú síðast í Ríkisgufunni, í viðtali í tilefni af 100 ára afmæli knattspyrnufélagsins Víkings. Þar sem vér lúsiðnir erfiðismenn Lýðveldisins sátum að iðju vorri á þessum morgni og skrúfuðum frá Gufunni, barst ómþýð rödd Foringja vors á öldum ljósvakans, þar sem hann færði mikil tíðindi, og var sjálfum sér líkur. Deginum var borgið!

Nú er vorið komið og því fjölmenna hlauparar í útiklefa að klæðast hlaupafatnaði; algengt er að sjá berleggjaða karlmenn í stuttum buxum og léttklædda. Glaðværðin er við völd, spennan liggur í loftinu fyrir hlaup dagsins. Verður sprett úr spori, verður tekið á því, verða þéttingar, Nes og Bakkavarir? Hver veit? Bara þjálfarinn. Ekki höfum við mikið um það að segja.

Nú var slíkur fjöldi hlaupara mættur til hlaups, nálægt tuttugu manns, og verður því ekki nein upptalning hér á þeim sem hlupu, en allt var það afreksfólk á sinn hátt, og með í för var aftur hundurinn Tara. Þjálfarinn var hin meðfærilegasta í dag og eiginlega með bezta móti, virtist lesa hug okkarn um hlaupaleiðir dagsins. Það hafði nefnilega kvisast út að áhugi væri á Nesi og Bakkavörum. Það kom okkur því skemmtilega á óvart að ákveðið var að fara hefðbundið um Hagamel, Furumel, út á Suðurgötu, suður í Skerjafjörð og taka sprett frá Dælustöð. Menn heyrðu misvel hversu langt ætti að þétta, sumum heyrðist sagt út að Hofsvallagötu, öðrum að það ætti ekki að hægja ferðina fyrr en komið væri á Suðurströnd.

Það var kunnugleg uppstilling á Ægisíðu þegar sprett var úr spori og sömu leikendur í aðalhlutverkum sem sperrtu sig og létu dólgslega. Mættum Neshópi, þessum hógværa og lítilláta hópi sem ávallt mætir okkur með bros á vör og góðum óskum um gott hlaup. Þar ríkir jöfnuður og samstaða, en hjá okkur reyndi hver hlauparinn af öðrum að sprengja næsta mann. Haldið áfram eftir Hofsvallagötu og lengt á Nes. Ég hægði aðeins á mér, þar eð ég taldi að spretti væri lokið. Sá svo að það var misskilningur og neyddist til að gefa aftur í út Nesveginn. Náði hinum hlaupurunum á Suðurströnd þar sem þau voru alveg sprungin. Haldið áfram og teknar tvær Bakkavarir. Próf. Fróði mótmælti hástöfum og sagði að það hefði bara átt að taka eina Bakkavör - "þjálfarinn sagði það" sagði þessi margreyndi hlaupari. Við gerðum gys að honum og hann fór í fýlu, ákvað að stytta og fór aðra leið en við hin.

Við söknuðum vinar í stað þar sem áður stóð bíllinn hans Magnúsar - nú er þar ekkert. Áfram um hæðina og niður Kallabrekku, Lindarbraut og svo út á Norðurströnd. Hér var enn kraftur í mannskapnum og það var bara gefið í, nóg orka eftir - farið á þéttu tempói alla leið tilbaka að Lýsishúsi, engir millibekkjaþéttingar - þetta var einn samfelldur þéttingur. Tempóið undir 5 mín.

Teygt vel að loknu hlaupi. Ágúst lýsti yfir að aðeins einn hefði hlýtt þjálfaranum. "Nú? Hver var það?" spurðu menn. "Það var ég!" Menn voru sammála um að það væri mikil framför, og alla vega einum hlaupara fleira en almennt hlýða þjálfurum í hópi vorum.

Ljóst er að sumir hlauparar eru að vakna til lífsins og keppnin um apríllöberinn harðnar með hverju hlaupinu. E.t.v. hafa sumir sannfrétt að næsti apríllöber verður krýndur við hátíðlega athöfn hinn 2. maí næstkomandi. Það er Fyrsti Föstudagur. Nánar um þennan viðburð á póstlista Samtakanna, fylgist vel með næstu dægrin.


Slysalegur misskilningur...

Á sunnudagsmorgnum hittast nokkrir félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í Vesturbæjarlaug og gera sig klára fyrir hlaup. Menn voru í hátíðarskapi því að dagurinn var merkilegur: félagi vor Vilhjálmur Bjarnason kominn í úrslit í Útsvari - og átti auk þess afmæli. Voru honum færðar árnaðaróskir af því  tilefni. Viðstaddir auk VB: Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Bjarni, Birgir og Ólafur ritari.  Menn rifjuðu upp spurningarnar úr keppninni s.l. föstudag og dáðust að vísdómi þeirra Garðbæinga. Á sama tíma féllu ummæli sem misskildust með þeirri afleiðingu að misklíð kom upp í hópi vorum og greri ekki um heilt meðan á hlaupi stóð - var af þeirri ástæðu óþarflega þungt í mönnum.

Veður var afar gott, hiti um 8 stig, nánast logn og bjart yfir. Hópurinn hélt glaðbeittur af stað, en fór hægt yfir eins og venja er á sunnudögum. Þeir hávaðamenn, Birgir og Bjarni, sáu að miklu leyti um spjallið og hefur það trúlega heyrst vítt og breitt um grundir. Aðrir voru rólegir og einbeittu sér að hlaupinu. Stöðvað á réttum stöðum, en eitthvert andleysi gerði vart við sig og lítið varð úr söguflutningi. Hins vegar voru ýmis þjóðþrifamál rædd ofan í kjölinn, m.a. ferjun bíla austur á land í upphafi áttunda áratugarins, en fyrir því stóðu þeir Bjarni og VB.

Hefðbundin hlaupaleið sem áður hefur verið lýst á spjöldum þessum og óþarfi að staldra um of við leiðarlýsingu. Á Rauðarárstíg sáum við hóp af heimilislausu fólki sem komið hafði sér fyrir á strætóbekk - en lét ekki ófriðlega. Áfram niður á Sæbraut og hafði Ó. Þorsteinsson þá dregist nokkuð aftur úr. Við hinir héldum áfram og gerðum ekki stanz eftir það, nema stuttlega á Ægisgötu.

Jörundur var að Laugu, óhlaupinn, enda meiddur. Úrval manna í potti, m.a. Bjarni Fel. með ádíens um beztu knattspyrnumenn allra tíma. Var margt fróðlegt í því efni.

Á morgun er nýtt hlaup: mánudagshlaup með tempói.

Bara bjart framundan

Hlaupasamtökin hafa ævinlega verið þess hvetjandi að menn leituðust við að bæta árangur sinn í hlaupum, ef hugur þeirra stefndi til þess. En við höfum jafnframt rýmt fyrir þeim sem gerðu það ekki að úrslitaatriði hver árangur væri af hlaupum - lögðu sumsé meiri áherslu á nærveru og samveru. Þetta sjónarmið var víðs fjarri á þessum hlaupadegi, föstudegi, sem er hlaupadagur án þjálfara, þegar mýsnar geta leikið sér. Góðir menn vöktu athygli á þessari staðreynd og frelsistilfinningin flaut um Brottfararsal. Mættir: dr Friðrik (sem heimtaði að það yrði skráð að hann var mættur í stuttum hlaupabuxum), prof.dr. Fróði, dr. Jóhanna, Bjössi, Einar blómasali, Rúna, ritari, Þorvaldur, Denni, Kári og.. dr. Jóhanna. Benni.

Þessi hópur fór rólega af stað, hægt og rólega. M.a.s. blómasalinn var fremstur um sinn, - en svo kom náttúrlega að því að hinir eiginlegu hlauparar tóku til sinna ráða. Meðaltempó var 5:18  á þeim sem fremstir fóru. Áfram haldið upp Hi-Lux, já nú man ég, það var strákur úr Hagaskóla með okkur, sá sami og Ágúst veitti athygli s.l. föstudag. Upp Hi-Lux á þéttingi, og þá voru nú eiginlega bara þessir helztu strákar og dr. Jóhanna með. Farið um Veðurstofuhálendi, Hlíðar, Klambra með þéttingi, og var ég stoltur að ná að hanga í fremstu hlaupurum. Á Sæbrautinni var Brautin breið og það var gefið í.

Í potti var gæðatími. Þar voru lagðar línur um skemmtanir næstu vikna - fá þeir einir upplýsingar sem hlaupa. Ég samdi við Kára um að leiðrétta villur í bremsum á reiðhjólafák mínum.  Það flækti málið að á sama tíma var félagi okkar, Vilhjálmur Bjarnason, að keppa fyrir sveitarfélag sitt í spurningakeppni og við höfðum einsett okkur að fylgjast með frammistöðunni. Niðurstaðan var sú að ég mætti til Kára og horfði með fjölskyldunni á VB gersigra fólk úr Mosó - svo fórum við út í bílskúr að laga reiðhjólið. Blómasalinn kom að fylgjast með framkvæmdum og gekk allt vel - þetta var gæðastund, eins og sagt er.  

Skrýtin tilfinning...

Það var sannarlega einkennileg tilfinning að ganga inn Brottfararplan á fimmtudegi í þeim tilgangi að þreyta hlaup. "Fimmtudagur? Hvers konar viðundur er maður eiginlega?" varð þessum hlaupara hugsað. Fór sem leið lá í útiklefa og klæddist þar í hlaupagallann í viðurvist Söngvara Lýðveldisins, sem tónar, ræskir sig og rymur eins og sannur tenór. Ég óttaðist að þetta yrði einmanalegt, en vanur því að hlaupa einn herti ég upp hugann og hvarf til Brottfararsalar í þeirri trú að þetta færi nú líklega einhvern veginn á endanum. Þar var þá Rúnar þjálfari að undirbúa hlaup. Smám saman birtust æ fleiri hlauparar: Þorbjörg, Kalli kokkur, dr. Friðrik, Margrét þjálfari, fjórir hlauparar sem ég hef ekki nöfnin á, og loks kom hlaupandi sjálfur Einar blómasali.

Það sveif einhver minniháttarfíling yfir hópnum, eins og saman væri komið safn af lúserum, eða þannig upplifði ég stemmninguna. Reyndi þó að berja í brestina og vera uppbyggilegur, allir þyrftu að byrja einhvers staðar og svona, menn væru ekki heimsmeistarar í fyrstu tilraun og þannig áfram. En það var fremur dapurlegur hópur sem lagði í hann og ljóst að engin afrek yrðu unnin á þessum degi, frekar spurning um að panta sjúkrabíl til að fylgja okkur, og leigja ýmis hjálpartæki hjá Hjálpartækjamiðstöð, sjúkrarúm, hjólastóla, göngugrindur, hækjur  og hvaðeina.

Nema hvað, Rúnar ákveður að fara með okkur að húsabaki um Haga og út á Suðurgötu, allt gengur það vel. Rætt lítillega um Berlínarmaraþon og skráningar þar. Fljótlega er blómasalinn farinn að blanda sér í umræðu fremstu manna og þá kemur einn vaselínbrandari. Svo fer hann að rifja upp mataræðið í Köben - hamborgarar, sósur, franskar, steikur, bjór - hér spurði Margrét: hefurðu enga stjórn á þér? Nei, ég hef enga stjórn...

Nú var mannskapurinn kominn út á Suðurgötu og stefnan tekin á dælustöð/skítastöð. Mistur í lofti af háfjöllum eftir því sem Þorbjörg sagði. Nú voru hinir þyngri menn farnir að dragast aftur úr og mynduðu breiðfylking. Fremstur hljóp sá er hér ritar og er þó engi afreksmaður í hlaupum, fannst þetta furðu einkennilega tilfinning að vera fremstur, eins og að vera að hlaupa með leikskólabörnum. Nema hvað, öðru hverju dúkkuðu þjálfararnir upp til að sýna samstöðu með þessum einmana hlaupara, sem þó hafði fylgd af Þorbjörgu út í Nauthólsvík. Eftir það kom Margrét þjálfari í stuttan tíma og hljóp með út að Kringlumýrarbraut en hefur svo líklega snúið við eða farið Suðurhlíðar. Ég fór yfir brúna og setti strikið á Fossvoginn.

Nú tók við hlutskipti hins einmana langhlaupara, en það þekkjum við og þarf ekki að koma á óvart. Ég bölvaði sjálfum mér að hafa gleymt að taka með mér æpodinn sem ég erfði frá dótturinni þegar hún fékk æpodinn drengsins þegar hann fékk nýjasta æpodinn. Og þurfti því að láta mér nægja eigin hugrenningar alla leiðina í Fossvoginn, inn að Víkingsheimili og yfir Elliðaár. Aftur yfir og upp á Stokk. Þá leið tilbaka. Mig grunar að tempóið hafi verið 5:20 - en var sosum ekki með áreiðanlegt mælitæki, svona Garmin sem allir eru að tala um og skreyta sig með, en mér kæmi ekki á óvart að tempóið hafi verið allhratt. Hlaupið var hratt og fyrirhafnarlítið, fór 16 km án þess að blása úr nös eða fá hjartaáfall. Aðrir fóru eitthvað styttra, Þorbjörg og félagar fóru 11 km - Suðurhlíðar.

Það var góð tilfinning að koma tilbaka á Móttökuplan og teygja. Nú er ég farinn að taka teygju (eða beygju) sem Biggi kenndi mér og vill láta blómasalann taka: beygju allra beygja, fara niður á hækjur sér og beygja höfuðið milli hnjánna - þessi beygja kemur í veg fyrir bakverki.

Næst hlaupið á morgun, föstudag. Vel mætt. Í gvuðs friði, ritari.

Grænmetisætumatur getur verið góður!

Oft er rætt um mat í ranni voru, einkum eftir hlaup þegar hlauparar eru þreyttir og svangir. Þá er gjarnan spurt: hvað færð þú í kvöldmat? Eldar frúin? Svör eru með ýmsu móti, meira um það seinna. Veður var hreint með eindæmum í kvöld og ekki einleikið hvað veðrið leikur við okkur dag eftir dag. Enda sýndi sig að mikill áhugi var á hlaupi í kvöld, mættur stór hópur af einvalaliði, svo stór að enginn einn verður tilgreindur öðrum fremur, nema ef vera skyldi Jörundur stórhlaupari, og Sigurður Ingvarsson nýkominn úr frækilegu Flóahlaupi. Þjálfarinn Margrét lagði línur: hlaup í sólinni á Sólrúnarvöllum, austur að Dælustöð, þaðan á spretti alla leið út að Kringlumýrarbraut, rólega upp Suðurhlíðar og yfir hjá Perlu og niður stokkinn; sprettur frá Gvuðsmönnum og að BSÍ - eftir það rólega, möguleiki á lengingu við Suðurgötu, aftur út í Skerjafjörð, allt eftir smekk.

Ekki sá ég betur en hundur væri með í för í kvöld, það gæti hafa verið missýning; en ef rétt er mun það í fyrsta skipti sem hundur hleypur með Hlaupasamtökunum, altént í minni ritara. Rifjuð upp vísa sem ort var í morgunpotti, og er svona:

Davíð á sér formælendur fáa,
í felur leitar núna höndin bláa.
En Vigfús trúir enn
með þrælsins þráa,
þó að titri merarhjartað smáa.

Kristjáni Skerjafjarðarskáldi fannst að það ætti að standa "fuglshjartað smáa" - en það er smekksatriði og önnur saga sem ekki verður til lykta leidd hér.

Skipun um að fara rólega af stað. Ég hélt mig við Jörund sem ávallt hleypur skynsamlega af stað í hlaupum, samt fórum við á tempóinu 5:31; aðrir enn verri, Ágúst, Benni, Sigurður - þið þekkið sögulok. Samt hélt hópur hlaupara...hópinn, og fór Kári í fylkingarbrjósti. Það átti þó eftir að breytast er á hlaupið leið. Þegar kom að Dælustöð settu hlauparar í fluggírinn og sprettu úr spori, ja, þessir helztu alla vega, ritari þar á meðal. Þetta er löng leið að hlaupa á fullum dampi, en maður lét sig hafa það og sló ekki af fyrr en við Suðurhlíðar. Þar beið hópurinn sem á undan hafði farið og svo var farið upp Hlíðina.

Maður var þreyttur eftir átökin, en leið samt vel upp brekkuna og upp að Perlu; sá að Bjössi var eitthvað að slóra á undan mér, en svo stakk hann sér niður hlíðina niður að Hlíðarenda og hvarf á spretti. Ég á eftir, en átti ekki séns að ná fremstu hlaupurum. Þó fór ég að tilmælum þjálfara og tók sprett frá Gvuðsmönnum og út að BSÍ, eða því sem ég taldi að hún ætti við með BSÍ, girðingunni hjá flugvellinum, það hentaði mér ágætlega. Áfram á hægu tölti út að Háskóla, sá að Bjössi köri að fara stytztu leið til Laugar, en hin fóru suður Suðurgötu mót Keili, ég á eftir. Það var farið yfir engið hjá flugvellinum og greinilegt að leti var hlaupin í mannskapinn; ekki nennti ég að elta ólar við svona fólk og fór því um Starhaga og mætti hópnum á stígnum og urðum við samferða tilbaka. Tekið var eftir þeim rithöfundum Þ. Eldjárn og A. Indriðasyni á brautinni.

Allir voru sammála um að þetta hefði verið aldeilis frábært hlaup, þó gengu dylgjur um styttingar fram og tilbaka, en allt í gamni sagt. Þráðurinn var tekinn upp frá sunnudagshlaupi með því að Jörundur fræddi Ágúst um hina sönnu íslenzku sagnalist, sem Vilhjálmur hafði miðlað deginum áður, og var í fámálli mótsögn við frásagnarhátt Ó. Þorsteinssonar, með sínum málalengingum, útúrdúrum, milliköflum, og óljósu endalokum. Jörundur endursagði einfalda sögu VB með skýrri persónusköpun, einfaldri atburðarás, fáum persónum, risi, díalók og móral. Ágúst var impóneraður og heimtaði meira af hinu sama. Ekki stóð á félögum hans að tína til sögur í sama anda, m.a. eina sem Magnús sagði í sunnudagshlaupi, þótt stutt hefði verið og endað á fundi Kirkjuráðs. Sagan var hins vegar einföld og með skýrum boðskap. Loks kom ein góð frá ritara, sem endaði á Vaselíni - og varð sumum á orði að segja að hér væri komin ný Vaselín-saga. Rifjað upp að Vaselín-sögur þarf að segja í brekkum, helzt þar sem mótlætið er við það að buga hlaupara og þeir þurfa aukakraft til að sigrast á mótlætinu.

Menn tóku sér góðan tíma til að teygja, enda skynsamlegt að byrja snemma að venja vöðvana við þau átök sem framundan eru. Kári kom af löngu hlaupi og mun hafa farið á sínum eigin hraða alla leið út að Kringlumýrarbraut og í raun sömu leið og aðrir, þótt hægar væri farið. Það er ánægjulegt að sjá menn taka teygjurnar alvarlega - það mættu ónefndir blómasalar taka sér til fyrirmyndar. Þar vantar sárlega upp á teygjurnar, eins og prof. dr. BigJoke hefur sýnt fram á með áþreifanlegum hætti.

Áhugaverð umræða um mat í potti. Ritari var einhvern veginn þanninn staðsettur að hann lenti hjá nokkrum karlrembum, sem kváðust nánast geta sest að kvöldverðarborði og konan væri tilbúin með kvöldmatinn. Hér stefndi í vandræði, en prof. dr. Fróði, sem er Mannasættir par excellence, sagði, til þess að forða vandræðum: Vitið þið, grænmetisætumatur getur stundum bara verið góður! Á þesssum bjartsýnu nótum lauk nokkurn veginn samtali kvöldsins í potti, og hver hvarf til síns heima, sæll í sinni að afloknu vel heppnuðu hlaupi.

Spennandi ný hlaupaleið verður í boði næstkomandi miðvikudag - hver þorir? Ritari.

Er ekki sunnudagur? Hvar eru hlaupararnir?

Er nema von að Guðmundur Pétursson lögmaður spyrði um viðveru hlaupara á þessum morgni þegar klukkan var orðin tíu og lítið bólaði á þeim. Ég gaf mig fram og kvaðst vera einn þeirra og kynnti mig sem frænda og nafna Ólafs Þorsteinssonar. Ekki datt mér í hug sterkari leikur, og kom það á daginn að lögmanninum fannst mikið koma til um frændsemi þessa. Svo komu þeir hver af öðrum til hlaupa, Vilhjálmur, Magnús, Ólafur Þorsteinsson, Jörundur og Birgir. Það upphófust hefðbundnar orðastimpingar milli manna, rætt um utanlandsferðir og bruðl opinberra starfsmanna með almannafé. Jörundur sagði hverjum sem heyra vildi að hann hefði gert fjóra fyrrv. Sjálfstæðismenn að sósíalistum,  og nafngreindi þá Gylfa Magnússon, Vilhjálm Bjarnason, Sigurð Gunnsteinsson og Gísla Ragnarsson, með því einu að umgangast þá og upplýsa um skaðsemdir kapítalismans við hvert tækifæri. Ekki fékkst staðfest hjá viðstöddum að rétt væri með farið.

Ólafur nafni minn upplýsti um fyrirsjáanleg námslok sín í júní næstkomandi og óskaði eftir að Vilhjálmur gæfi kost á sér til mikilvægra trúnaðarstarfa í því sambandi, sem er lýsandi fyrir velvilja frænda míns í garð Vilhjálms og það traust sem hann hefur á honum. En Vilhjálmur hefur sem sagt lýst yfir efasemdum um inntak þess náms er Ólafur stundar, gæðastjórnun, og hefur látið hafa eftir sér að Ólafi væri nær að tileinka sér meiri gæðastjórnun í frásögnum sínum, þær séu bæði misvísandi, ónákvæmar og á stundum jafnvel beinlínis rangar. Öllu þessu hefur Ó. Þorsteinsson tekið af stöku jafnaðargeði sem sýnir hver gæðasál hann er.

"Hvaða starfstitil hefurðu svo að námi loknu?", spurðu menn, "gæðingur?" Þessi hæðnisyrði fóru sem golan um eyrun á Ólafi og höfðu engin áhrif á hann. Fyrrnefndir hlauparar lögðu upp í hlaup en fóru sér hægt. Færð  var allgóð þótt snjóað hefði um nóttina, og í reynd ágætisveður til hlaupa. Magnús yfirgaf okkur fljótlega, einhvers staðar í Skerjafirði, og gaf engar skýringar á brotthvarfi, einhver orð féllu um möguleika Magnúsar á aðild að Kirkjuráði Íslands og að það útskýrði hið stutta hlaup, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Áfram haldið og sagðar fallegar sögur. M.a. hóf Ólafur að segja sögu með miklum útúrdúrum, óljósum vísunum, og eins og ávallt tókst honum að koma Vilhjálmi Bjarnasyni að á einhvern ævintýralegan hátt. Þetta gagnrýndi Vilhjálmur á staðnum og kvartaði sáran yfir þessum frásagnarhætti. Sagði þess vegna stutta sögu, beinskeytta og hnitmiðaða, tók hana sem dæmi um hvernig sögur ættu að vera. Það var saga um reykingar ungmenna og verður ekki höfð eftir.

Farið hefðbundið og gengið langar leiðir meðan sögur voru sagðar og staða efnahagsmála krufin. Við höfum líklega verið fremur lengi á leiðinni því klukkan var að verða tólf er komið var tilbaka. Það vantaði vini vora, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, í pottinn. Vilhjálmur var aðeins stutt og hvarf á brott þegar umræðan barst að fótlagaskóm. Þegar við Birgir og Jörundur vorum einir eftir dúkkaði loks sárþjáður maður, blómasali nokkur, upp, teipaður í bak og fyrir með bleiku límbandi, kominn undir hendur fagfólks og á því von um bata. Af þessum sökum var setið lengur en alla jafna í potti og horfur ræddar.

Á morgun er hlaupið á ný - en það er alvöruhlaup með þjálfara.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband