Færsluflokkur: Pistill Ritara

Átök í Skerjafirði

Hér segir frá hlaupi er fór fram í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á þjóðhátíðardegi Frakka, 14. júlí 2008. Ný hlaupaáætlun fyrir vikuna lá fyrir af hálfu þjálfara og var ljóst að ekki yrði slegið af, enda undirbúningur fyrir Berlín á fullu. Einar blómasali er búinn að undirbúa móttöku og próvíant að Sendiráði Lýðveldisins – eina spurningin er hversu margir munu mæta þangað. Tekið er eftir ákveðnu misræmi í skráningum manna í hlaupið, sumir hlaupa í liðinu “Kommúnistarnir” – aðrir í Hlaupasamtökum Lýðveldisins og einhver með e-m Hlaupahópi Lýðveldisins – enn aðrir eru án nokkurrar heimvistar. Hér þarf að taka til og koma reiðu á hlutina. Lagt er til að menn lagfæri skráningar sínar (Birgir leiðbeinir um hvernig það er gert) og skrái sig undir Hlaupasamtok Lydveldisins. Slíkt á að vera hægt að heimasíðu hlaupsins.

 

Mættir eftirtaldir í hlaup dagsins: Þorvaldur, Ágúst, Flosi, Kalli, Rúnar, Ólafur ritari, Una, Ósk, Jóhanna, dr. Jóhanna, Helmut – og líklega ekki fleiri – óvenjumargar konur í dag og greinilegt að við erum farin að trekkja að okkur áhugavert klíentel. Þjálfari lagði línur á stétt og Þorvaldi falið að leiða hópinn um garða Vesturbæjarins út á Suðurgötu, sem er vandrataður stígur sem menn villast gjarnan á. Það tókst nokkurn veginn. Svo var sett á stím í Skerjafjörðinn og voru menn á óþarflega mikilli siglingu miðað við að við áttum að taka fartleik frá Skítastöð.

Stöðvað við Skítastöð. Dúkkaði ekki upp ónefndur blómasali í óþveginni hlaupatreyju sem mikinn óþef lagði af. Hann hafði mætt seint til hlaups, sem er ekkert nýmæli, og kvartaði yfir því að hópurinn hafði lagt í hann án hans. Viðstaddir nefndu fyrirbærið “klukka” – góð kunnátta á slíkt verkfæri gæti hjálpað mönnum að mæta á réttum tíma. Ávallt væri lagt af stað í hlaup á réttum tíma.

 

Það sló í brýnu milli þeirra Unu og dr. Jóhönnu, önnur vildi halda áfram, hin vildi snúa á Nesið. Þetta stefndi í óefni, menn óttuðust að handalögmál brytust út og því var leitað að lýðræðislegri lausn, hluti hópsins fór á Nes, aðrir fóru í fartleik út í Nauthólsvík – fyrst út að útskotinu með bekkjunum við flugvöllinn, farið á þokkalegum hraða. Svo aftur úr Nauthólsvík og út fyrir sumarbústað, aftur upp Suðurhliðar og upp á bílastæði. Þegar þangað var komið spurði blómasalinn hvort þetta væri ekki Perlan. Er það ekki veitingastaður? Er ekki hægt að fá mat þarna inni, eitthvað með majonesi? Menn hlustuðu ekki á þetta og héldu áfram niður Stokkinn og niður á Flugvallarveg.

Fjórði spretturinn var svo tekinn út að nýbyggingu Háskólans í Reykjavík. Eftir það var okkur bannað að spretta úr spori, en við vorum rétt að hitna upp, svo að það var erfitt að halda aftur af fólki á leiðinni tilbaka, þetta minnti helzt á ólma hesta. Þegar upp var staðið sýndi sig að við fórum um 14 km – Nesfarar fóru á Lindarbraut, líklega um 12 km án spretta.

 

Sif Jónsdóttir langhlaupari mætti í pott hafandi hlaupið Laugaveginn og rekið tána í eina steininn sem var á leiðinni og slasað sig. Nokkuð rætt um flísalagnir, sem tekið hefur athygli sumra hlaupara frá eðlilegri starfsemi Samtaka Vorra. Einnig um dósasafnanir, ruslsöfnun og fleira tengt. Framundan er langt  á miðvikudag, þá má hefja drykkjuna ef marka má þjálfarann. Í gvuðs friði, ritari.  


Skíthælar, drullusokkar og aðrir Framsóknarmenn...

Föstudagur jafngildir frelsi, engir uppáþrengjandi þjálfarar með fyrirmæli, umvandanir og breytingar. Aðeins tilhugsunin um gleðina sem fylgir því að hlaupa frjáls úti í náttúrunni, safnandi í sarpinn, finnandi rússið af endorfíninu ólga í blóðinu. Tilhlökkunin var alger.

 

Mikill fróðleikur, mikil vísindi hafa horfið út í tómið, þegar menn hafa ritað á blogg Moggans, og það tekur upp á því að detta út um það bil sem verki er lokið. Þetta er orðið svo þreytandi að ritari fer að ráðum Benedikts og skrifar bloggið inn í word-skjal og flytur það yfir. Mættir í útiklefa Flosi, Vilhjálmur og Ólafur ritari. Sögð sagan af nútímaþægindum BMW bifreiða sem hafa aukaútbúnað til hægðarauka fyrir ökumenn með kúlur að hvíla.

Mættur myndarlegur hópur til hlaupa, Ágúst, Þorvaldur, Rúna, Brynja, dr. Jóhanna, Benedikt – auk fyrrnefndra sem voru í útiklefa. Upplýst var um neyðarfund í Hlaupasamtökunum í gær, þegar rætt var um þá uppákomu er varð í Lækjarhjalla s.l. miðvikudag þegar þrátt fyrir gefin fyrirheit að engar veitingar var að hafa. Var samþykkt að gefa þeim Lækjarhjallahjúum eitt tækifæri í viðbót til þess að bæta ráð sitt, ella verður þetta sveitarfélag sniðgengið með öllu, og þess vegna haldið í Havnefjord, eitthvert afskekktasta byggðarlag á höfuðborgarsvæðinu.

Vindar frelsis léku um hlaupara á Brottfararplani, svo mjög að það dróst að leggja í hann. Á endanum tók dr. Jóhanna af skarið og hélt af stað. Aðrir á eftir. Svo einkennilega vildi til að sumir ákváðu að vera hraðari en aðrir, þarf vart að taka fram hverjir það voru. Þeim lá einfaldlega meira á en öðrum. Það skemmtilega var að við dr. Jóhanna náðum að hanga í þeim alla leið inn í Nauthólsvík, en þá var gleðin búin. Þeir hurfu, en við lögðum í Hi-Luxinn. Velt vöngum um afdrif hlaupara sem eitt sinn þótti efnilegur, svo mjög að hann hlaut Maílöberinn, en hefur vart sést hlaupa eftir það. Grannvaxinn, gránandi herramaður með hreim sem ku valda læraskjálfta hjá eðlilega náttúruðum konum.

Rifjað upp að á Ægisíðu var ekið kampavínslitum eðaljeppa framhjá okkur, flautað, veifað, var þar kominn sjálfur Formaður Vor til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víkingur. Þótti viðstöddum eðlilega mikið til koma viðburð þennan og voru menn snortnir, og fáir hvarmar lausir við vökva. En áfram haldið þó.

Eftir Nauthólsvíkina var lítið annað að gera en fara hefðbundið um Öskjuhlíð, Veðurstofuhálendi, framhjá Söng- og Skákskólanum við Litluhlíð og þannig áfram um Klambra um Hlemm og niður á Sæbraut. Mér varð á orði við Otharsplatz að þetta væri sannkallað tempóhlaup – dr. Jóhanna var ekki frá því að þetta væri rétt mat. Áfram á fullu stími

Í potti var úrvalsfólk. Jörundur óhlaupinn enda meiddur eftir að hafa heyrt hljóðlausan smell í baki við jarðvinnu í garði sínum – eftir það hefur hann verið frá hlaupum og missir af Laugavegi á morgun. Birtist ónefndur blómasali óhlaupinn og hafði engar gildar afsakanir sér til afbötunar. Með þungar áhyggjur af mörkuðum. Próf. Fróði orðinn drafandi af tilhugsuninni um fyrsta drykk kvöldsins. Einhver spurði: er bara talað um áfengi í þessum Hlaupasamtökum? Nei, var svarið, aðeins á Föstudögum. Í gvuðs friði. 


Töðuilmur í Kópavogsdalnum

Hlaup eru umfram allt andleg íþrótt. Hlaup snúast um viljastyrk, um baráttu andans við ytra hylkið sem kýs leið minnstu mótstöðu, er aðdáandi vellíðunarlögmálsins og allt það. Meira um það seinna. Nú er að segja frá áhyggjum manna á brýningu þjálfara til drykkju. Ekki einasta hamraði hann á nauðsyn drykkju í tvígang á þessum degi með skriflegum hætti. Áfram var haldið að hamra járnið á Brottfararplani, brúsar grandskoðaðir og spurt hvort menn væru ekki örugglega með nóg. Þó tók steininn úr þegar blómasalinn var búinn að lýsa miklum súkkulaðiinnkaupum svo hljóp á tugum kílóa - þá brast þjálfarinn á með heilræðum um að blómasalinn þyrfti að finna sér svolítið heilnæmari fíknir, svo sem eins og áfengisfíkn. Geturðu ekki farið að drekka meira, Einar, og borða minna af súkkulaði? Breyta alla vega þannig til að fíknin leggist ekki á belginn á þér... eða eitthvað í þá veruna. Þannig voru umræður manna á Plani.

Miðvikudagur, langt. Mættir menn sem höfðu ekki sést um stund, svo sem eins og dr. Friðrik, einnig Flosi, að öðru leyti þekktar stærðir, þ.m.t. téður blómasali. Flestir ætluðu langt, á Kársnes. Áhyggjur af að liðsstjóri var ekki mættur, en hafði þó lýst áhuga á að fara á Kársnesið. Lagt í hann með áréttingu frá þjálfara um að herða drykkjuna. Farið furðu hratt af stað miðað við að fólk ætlaði að fara 20+. Ritari fann það þegar í upphafi hlaups að Esjuganga frá kvöldinu áður sat enn í honum, en þá var kjagað á Þverfellshorn  á einum og hálfum tíma í yndislegu veðri þegar gróður er í blóma. Nokkuð erfið ganga og e.t.v. ekki það skynsamlegasta fyrir hlaupara sem ætlaði að fara langt daginn eftir. En skid og lago... eins og Daninn segir. Látum reyna á það.

Ekki skildi ég þörfina á að fara svona hratt - lenti á endanum í félagsskap með Rúnu og blómasalanum, við ein virtumst hafa stoð fullrar skynsemi í þessu hlaupi, m.a.s. þjálfarinn yppti öxlum þegar hann var spurður hvort þetta væri skynsamlegur hraði. En vissum okkar viti, vissum hvað við réðum við og hvað hentaði okkur. Beygðum af braut í Skerjafirði og héldum í Kópavoginn, Flosi fylgdi á eftir okkur, svo var prófessor Keldensis eitthvað að snövla þarna líka, og á undan okkur í fjarska var próf. Fróði. En prófessorunum lá eitthvað mikið á og höfðu greinilega ekki í hyggju að blanda geði við okkur venjulega hlaupara. En við höfðum engar áhyggjur, vissum sem var að það myndi bíða okkur dúkað borð í Lækjarhjalla 40 með drykkjum og öðru. Og þar myndu þeir bíða okkar félagarnir og verða okkur svo samferða um sveitir Kópavogs.

Ritari skildi þau Rúnu og Einar eftir enda voru þau í djúpum samræðum um ýmis málefni sem komu hlaupum lítið við, svo sem eins og þá aðferð blómasalans að kaupa 10 kg af súkkulaði í Bónus gagngert til þess að geta sýnt konu sinni fram á rúmfang þeirra 10 kílóa sem hann gæti losnað við ef hann hlypi jafnmikið og efni standa til. Ókosturinn við þessa aðferð er augljóslega sá að súkkulaðið þarf að borða og enginn er betur til þess fallinn en súkkulaðitröllið sjálft. Áfram suður yfir á suðurhluta Ness. Slegin tún og taðan ilmaði í Kópavogi. Menn staupuðu sig með reglulegu millibili og allt gekk vel. Áfallið kom þegar ritari kom í Lækjarhjallann - þar voru engin dúkuð borð á stétt né heldur veitingar eða vinaleg andlit - svo að það var bara að halda áfram. Ég notaði tækifærið og teygði lítillega - ætlaði svo að halda áfram, en þá var blístrað, þar voru Rúna og blómasalinn á ferð, ég ákvað að verða þeim samferða. Er hér var komið var farið að draga af fólki og hér kom andinn við sögu, ekki vínandinn, nei, keppnisandi hins óbugaða hlaupara. Fórum upp úr Kópavogi og héldum yfir í Reykjavík, skoðuðum legsteina á leiðinni sem var gagnlegt. Fylltum á vatnsbrúsa við Olís í Mjódd.

Svo var haldið niður í Elliðaárdal og þá leið tilbaka inn í Fossvog og áleiðis í pott. Erfitt var það en við lukum því með glæsibrag. Ritari missti 1,5 kg á leiðinni - er það slæmt? Þrátt fyrir mikla vökvun. Ekki var marga félaga að sjá í Laug - nánar tiltekið vorum við þrjú ein. Sif Jónsdóttir langhlaupari var á tröppum er við komum tilbaka og var rætt um Laugaveginn, Pétur Blöndahl og fleira áhugavert. Svo þegar við Einar vorum að klæða okkur í útiklefa kom Flosi aðframkominn eftir 21 km hlaup. Líklega þarf að fara að hlusta á ráðleggingar þjálfara um aukningu vegalengda að hlaupum, gæta að hlutföllum þar.

Sól og sjór og ... tempó

Veður yndislegt í dag þegar Hlaupasamtök Lýðveldisins söfnuðust saman til hlaupa frá Vesturbæjarlaug kl. 17:30, sól, hiti 14 gráður, hægur andvari, lágsjávað. Ritari reyndi að æsa til sjóbaða, en hlaut litlar undirtektir. Mættur fjölmennur hópur til hlaupa og ekki er ég viss um ég muni nöfn allra, en þarna voru próf. Fróði (mættur grunsamlega snemma), Vilhjálmur (í grunsamlega góðu skapi), dr. Jóhanna, Björn, Bjarni, Una, Þorbjörg, Sigurður Ingvarss., Benedikt, óþekkt kona, og þjálfararnir, Margrét og Rúnar.

Nú er komið að alvöru lífsins, búið að senda út þjálfunaráætlun á hópinn og gengið út frá að hlauparar leggi sig fram um að fylgja henni. Allt gert til undirbúnings Berlínarmaraþoni. Vilhjálmur heimtaði Neshlaup og fékk sínu framgengt, þjálfararnir lúffuðu fyrir þessum etableraða hlaupara og álitsgjafa - ekki að þræta við Vilhjálm Bjarnason! Mörg Garmin-tæki í hleðslu og tafði það brottför - óþolandi að tæki sem eiga að mæla hlaup eru farin að tefja fyrir brottför. Loks voru allir klárir og þá var lagt í hann. Lagt upp með tempó-hlaup, fara rólega út að Skítastöð í Skerjafirði og taka sprettinn þaðan, ýmist 5 eða 7 km, út að Lindarbraut, beztu hlauparar máttu fara lengra. Á Brottfararplani fór fram þekktur kýtingur um hefðbundin málefni, en leiddi ekki til handalögmála né varanlegra vinslita, svo vitað sé.

Lagt í hann, brýnt fyrir fólki að fara að kaupa sér nýja hlaupaskó til þess að hlaupa til. Farið á hægu tempói inn Hagamel, og þá leið út á Suðurgötu, þekktir hlaupafantar röðuðu sér fremst, og í raun ótrúlegt að sjá þekkta meiðslagemsa byrja á því að spretta úr spori þegar línan var að fara rólega út að Skítastöð. Aðrir rólegir og hlupu skynsamlega í þeim tilgangi að hita upp fyrir átökin. Viðburðalítið út að Stöð, þar var gerður stanz - nema hvað dr. Jóhanna hélt áfram og kaus að fara ekki á tempói. Aðrir settu í gírinn, próf. Fróði var með vesin út af mælitækinu sínu sem hann kann ekki á, það voru þessir og þessir gluggar, og hinir ýmsustu valkostir - hann fékk hjálp frá velviljuðum konum sem kunnu meira um mælingar en hann.

Svo var brennt af stað. Tempó er afstætt hugtak. Við fórum í einum hnapp, ritari, Bjössi, Bjarni og fleiri góðir hlauparar. Svo hrópaði Rúnar að við félagarnir færum allt of hratt - ættum að hægja á okkur. Ekki þurfti að segja okkur þetta tvisvar, alla vega ekki mér, ég hægði strax og fór á tempói sem hentaði mér. Það kom mér á óvart að sjá próf. Fróða frekar slakan í tempóinu og hélt ekki í við fremstu hlaupara, sem voru Rúnar, Magga, Una, Sigurður Ingv., og svo óþekkta konan.

Hver fór á þeim hraða sem hentaði honum/henni, og þótti mér ganga furðu vel að halda hraða. Engu að síður var ég einn - eins og venjulega, sá fólkið á undan mér fara í Skjólin, mættum félögum vorum af Nesi úr TKS, þ. á m. Rúnu, Júnílöbernum, og sópuðust að henni árnaðaróskir í miðju hlaupi. Ekki var slakað á í Skjólum, heldur haldið áfram, enda átti tempóið að vara að lágmarki út að Lindarbraut. Ég tíndi upp Bjarna á Nesi, svo skemmtilega vildi til að hann hafði gleymt treyju í dag og hann þrætti fyrir að hafa gleymt henni, sagðist hafa ætlað að hlaupa berbrjósta, sem hann gerði, og er slíkt hetjubragð að verður skráð í annála Hlaupasamtakanna og mun lifa sem sérstakt afrek Samtaka Vorra.

Farið á Nesið og þar fundum við próf. Fróða einan og yfirgefinn og illa á sig kominn. Hann kvaðst vera meiddur, hefði farið í fjallgöngu og fóturinn snúist 360 gráður, en þó enn fastur við líkamann. (Hér varð ritara hugsað: hvað eru menn að fara í fjallgöngu sem eru að undirbúa Zahara-hlaup?). Hvað um það, hér gildir kamratskapið eins og Svíarnir segja, við fylktum liði og héldum á Nesið, Una virtist ætla eitthvað styttra. Út á Nesið í Sefið og út að Strönd, ekki varð úr því að ritari athugaði sundaðstæður, elti félaga sína út að Gróttu, prófessorinn alveg búinn greyið og kvartaði sáran yfir meiðslum sínum, snúnum ökkla, sem að vísu gerði ekki vart við sig á hlaupum. Þeir þreyttu kapphlaup að vatnspóstinum við hákarlakofann, Bjarni og Gústi, þar drukku þeir báðir stóran, svo sagði Gústi: nú förum við rólega tilbaka. Áður en menn vissu af voru þeir komnir á fullan skrið og héldu tempói áfram. Sem betur fer var annar brunnur á Nesi - báðir þurftu að brynna sér og supu stóran. Gústi sagði: nú förum við rólega tilbaka. Endurtók sagan sig, þeir tveir gleymdu sér, skildu ritara eftir og geystust af stað. Raunar fór það svo að þéttingurinn sem hófst við Skítastöð entist allt til Grandavegar - þá loksins fór að rofa til hjá þessum meiddu hlaupurum og þeir féllust á að leyfa mér að fylgja þeim.

Við Laug var hópurinn saman kominn og menn/konur teygðu ákafliga. Veður fagurt, gróður í blóma, mannlíf í Vesturbæ eins og bezt verður körið. Menn veittust að bankaauðvaldinu og varð sú rimma sumum félögum órum erfið. Setið um sinn í potti, Björn komst á skrið með sögur og entust þær alla leið í útiklefa, en Björn er einstakur sagnamaður og alltaf viðburðaríkt þegar hann er nálægur. Nú hyggur hann á strandhögg í ríki Breta og Franka, mun synda Ermarsund með fleirum. Við óskum honum góðs gengis.

Næsta hlaup miðvikudag, stemmning fyrir Kársnesi með viðkomu í Lækjarhjalla, áfram um Breiðholt, val á leiðum um Elliðaárdal ellegar Fossvogsdal og sjósund í Nauthólsvík, vel mætt. Ritari.

Fámennt að hlaupum

Fjórir mættir á sunnudagsmorgni: Þorvaldur, Vilhjálmur, Bjarni og ritari. Skylduhlustun á Rás 2 í fyrramálið, mánudag, kl. 7:30 þegar rætt verður um brotthvarf Baugs frá landinu. Upplýst að Ó. Þorsteinsson var á Túndru. Vilhjálmur er áhyggjufullur yfir að ritari sé að tileinka sér alla ósiði frænda síns og þegar svo verði komið eigi hann tæplega erindi á mannamót. Nefndur hópur hljóp hefðbundinn sunnudag án þess að nokkuð frásagnarvert gerðist, ennað en að ættir manna voru greindar  og farið fögrum orðum um okkur Dannebrogsmenn. Fagurt veður, 12-13 stiga hiti, skýjað og logn. Fáir á ferli.

Hvernig væri að fara á Nesið á morgun? kv. ritari.

Afmæli

Ritari Hlaupasamtakanna fyllti fimmta tuginn í gær, 28. júní 2008. Af því tilefni var haldin mikil afmælisveizla að heimili ritara og mætti margmenni að samfagna. Við það tækifæri voru flutt mörg ávörp og eru tvö þeirra birt hér á eftir, bæði flutt af ritara sjálfum.

Ávarp I.

Ágætu afmælisgestir!

 

Ég hef stundum tekið saman líf mitt á þann hátt að helstu afrek mín heiti Hildur og Gunnar og að ég sé umborinn af Írisi.

 

Þrátt fyrir að ég geti skreytt mig með álíka mörgum háskólagráðum og Georg Bjarnfreðarson – þá er það þetta sem skiptir máli þegar upp er staðið. Fjölskyldan.

Faðir minn segir mér að þegar ég var fæddur hafi sólin risið upp yfir Esjuna. Séð frá Mosgerði 17 í Smáíbúðahverfinu.

 

Ég bjó um sinn í Svíþjóð, sem er gott land að búa í. En á úrslitastundu komst ég að þeirri niðurstöðu að það væru lífsgæði að búa á Íslandi. Þessi hugmynd hefur verið tekin saman í ljóðlínunum: Land, þjóð og tunga – þrenning sönn og ein. Þetta má einnig orða þannig að maður líti á það sem forréttindi að búa í þessu fallega landi, tala þetta fallega tungumál og búa innan um þetta brjálaða fólk sem kallar sig Íslendinga.

Hvergi eru þó lífsgæðin meiri en hér í Vesturbænum, þar sem Húnahópur Vesturbæjarlaugar á heimkynni sín og Hlaupasamtök Lýðveldisins safnast saman til hlaupa, til glens og galskapar og til sjóbaða öðru hverju.

Ykkur hef ég ásamt fjölskyldu minni boðið til fimmtugsafmælis míns vegna þess að maður vill gleðjast með góðum.

 

Ég býð ykkur öll innilega velkomin í þessa hógværu veizlu og vona að þið njótið stundarinnar og félagsskaparins og þeirra veitinga sem kunna að vera bornar fram.

Ávarp II.

Ágætu afmælisgestir!

 

Það er ekki tekið út með sældinni að eiga afmæli um mitt sumar. Nú þegar liðin eru 50 ár frá fæðingu minni er við hæfi að horfa um öxl og grennslast fyrir um aðstæður um miðja síðustu öld.

Ég fæddist á laugardegi, og er áttunda barn foreldra minna. Fæðingarstaður var Mosgerði 17, í námunda við Háagerðisskóla, Breiðagerðisskóla og nálægt Víkingsvellinum, sem er mörgum okkar mjög kær, og þar sem háðir voru miklir bardagar við illþýði úr Hólmgarði. Faðir minn hefur sagt mér að þegar ég var fæddur hafi sól stigið upp yfir Esjuna. Því geta menn staðsett sig í Mosgerðinu upp úr miðnætti hinn 28. júní ár hvert og beðið þess að sól rísi – þá vita þeir fæðingarstund mína.

Á uppvaxtarárum mínum var það siður að senda börn í sveit á sumrin, jafnskjótt og skóla lauk. Flest systkini mín voru send í sveit, en ekki tókst alltaf að finna pláss fyrir okkur minni börnin. Af þeim sökum kom fyrir að maður var í bænum sumarlangt, meðan félagarnir voru í sveit. Það var einmanalegt. En það þýddi líka að ekki þótti taka því að halda upp á afmæli manns. Ég man ekki til þess að nokkurn tíma hafi verið haldið upp á afmæli mitt í æsku því engum var að bjóða.

Á hinn bóginn var jafnan slegið upp veizlu þegar bræður mínir áttu afmæli og ekkert til sparað. Varð þetta til þess að ég vissi vart hvað afmæli var fyrr en ég var orðinn stálpaður. Fyrir kom að manni var boðið í afmæli félaganna – en þegar það frestaðist að ég byði þeim á móti var tekið fyrir slík heimboð. Stundum ráfaði ég einmana um Mosgerðið meðan afmælisgleði stóð yfir að Mosgerði 23 eða Mosgerði 19 og krakkafjöld fyllti hús – en ég einn utan dyra og skildi ekki hvað ég hafði til saka unnið.

 

Ef þetta er ekki einmanaleiki – ja, þá skil ég ekki hugtakið.

Því urðu straumhvörf í lífi mínu er ég uppgötvaði hóp vinalausra aumingja sem alltaf gerðu allt eins og leið greinilega bezt illa. Hópur þessi hljóp frá Vesturbæjarlaug og virtist vera nákvæmlega sú tegund félagsskapar sem hæfði mér sem vinalausum einstaklingi. Þetta voru Hlaupasamtök Lýðveldisins, hópur hávaðasamra einstaklinga sem níðist hver á öðrum, segir sögur, fer með persónufræði, setur af ríkisstjórnir, myndar nýjar, skiptir um flokksformenn eins og handklæði, og annað eftir því.

 

Þeir sem hér eru saman komnir í dag skiptast í nokkra hópa: Húnahópurinn undir forystu Örlygs Hálfdánarsonar, Hlaupasamtökin undir forystu Ó. Þorsteinssonar, og svo einstaka villuráfandi sauðir, félagar mínir úr Hinu Íslenzka Eimfélagi, Aðalsteinn og Stefán, og ekki má gleyma fjölskyldunni, föður mínum, systur sem komin er alla leið frá Svíþjóð. Það fylgir sögu að ég ber mismunandi nöfn eftir því hvert samhengið er: Ólafur, Grétar, ritari, kansellisti, Pabló.  Ég veit eiginlega ekki hver ég er lengur.

 

Ég býð ykkur öll innilega velkomin og bið ykkur að njóta þeirra veitinga sem kunna að vera bornar fram, eins og tengdafaðir minn orðaði það í brúðkaupi okkar Írisar fyrir hartnær 20 árum síðan. Ræðuhöld eru nú heimil.


Ritari rís úr öskustónni

Það þurfti ofurmannlegt átak að ákveða að mæta af nýju til hlaupa eftir niðurlægingu og háðung mánudagskvöldsins þegar ritari fór 10 km á 50:03 - en ekki 49:11 eins og hann hélt. Erfiðast yrði að mæta glotti félaganna og háðsglósum þeirra. Engu að síður var ákveðið að láta slag standa og mæta. Illu er bezt aflokið. Þegar á hólminn var komið var það bara Rúnar sem hafði orð á "óheppninni" - aðrir virtust hafa gleymt óförunum. Mættir: Flosi, Þorvaldur, Vilhjálmur, Jörundur, dr. Jóhanna, Rúna, Birgir, Elín Soffía, Kári, Anna Birna, Rúnar, Magga, ritari og Sigurður Ingvarsson. Einar blómasali kom síðastur - en ekki var beðið eftir honum, hann forgangsraðar vitlaust og lætur félaga sína sitja á hakanaum. Af þeirri ástæðu var lagt í hann þó svo blómasalinn væri ekki tilbúinn.  Raunar var það tillaga Birgis og meiningin að kenna blómasalanum lexíu.

Flosi hafði á orði að það væri mikill malandi sem streymdi frá Birgi og þetta væri í fyrsta skipti sem hann tæki eftir því. Jörundur sagðist hafa látið bóna bílinn sinn í dag. Það fannst Birgi óþarfi, hann myndi aldrei bóna sína bíla. Nei, þú og Magnús eigið ljótustu bílana í Vesturbænum. Það dytti engum í hug að bóna svona bíla.

Lagt í hann án leiðarlýsingar, þjálfarar voru ekki með neinar tillögur á reiðum höndum, það var bara ætt af stað og það kæmi bara í ljós hvert yrði farið. En miðvikudagar eru dagar hinna löngu hlaupa. Smásaman kokkaði dr. Jóhanna upp áætlun um Kársneshlaup, 22 km. Við vorum fimm sem fórum á Kársnesið, dr. Jóhanna, Rúna, ritari, Jörundur og Birgir, og þá leið í Breiðholtið og svo í Laugardalinn, samtals 24 km. Sigurður Ingvarss. var á randi í kringum okkur, en fór fram úr, tók lengingar, kom tilbaka og hvarf svo aftur, rúma 27 km. Rúna fór að rukka dr. Jóhönnu um hlaupaáætlun, var ekki meiningin að fara 22? Jújú, en nú skulum við fara hérna - bætti svo við vegalengdina. Þegar upp var staðið fórum við 24 km en ekki 22.

Hlaupið var erfitt og tók á okkur, en við kláruðum okkur vel frá þessu.

 Í gvuðs friði, ritari. 


Miðnæturhlaup í miðnætursól - með eftirmála

Góð mæting af hálfu Hlaupasamtakanna í Miðnæturhlaupið 2008. Þar mátti þekkja andlit Helmuts, dr. Jóhönnu, ungherrans Teits, Flosa, Rúnars, Einars blómasala, Sigurðar Ingvarss, Birgis, ritara - auk þess sem Rúna og Friðrik voru mætt og teljast til periferíunnar. Vel má vera að fleiri hafi verið - en fjöldinn var slíkur að auðvelt var að missa af fólki. Ekki man ég til þess að hafa séð svo marga þátttakendur í þessu hlaupi - og engin furða, veður einstakt til útiveru og hlaupa.

Ég fór að ráðum Rúnars og hitaði upp í 15 mín. fyrir hlaup til þess að eyða ekki orku í upphitun í byrjun hlaups. Ekki er ég frá því að upphituninn hafi ráðið úrslitum er upp var staðið. Einhvern veginn æxlaðist það svo að ég lenti sem oftar með Einari blómasala þegar ræst var, en svo virðist sem við höfum svipað tempó, og höfum auk þess verið kallaðir bræður og feitabollur að hlaupum. Tempóið var allhratt þegar í byrjun, en við réðum vel við það. Tókum fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum og notuðum hvert tækifæri til þess að komast á auð svæði og sleppa úr þrönginni, sem var frekar mikil í byrjun hlaups.

Þegar kom að 5 km markinu skildi ég blómasalann eftir og varð ekki var við hann aftur fyrr en að hlaupi loknu. Fann að krafturinn var enn til staðar, svo og úthaldið. Tók vel á því og svitnaði mikið og hélt tempói. Fór að hugleiða hvort raunhæft væri að vera undir 50 mín. - hafði sosum ekki sett mér nein markmið í upphafi, en fann að e.t.v. væri það ekki alveg vonlaust. Aðeins fór að draga af mér eftir 7 km- en ég náði engu að síður að halda hraðanum nokkurn veginn uppi. Það sem knýr mann áfram við þessar aðstæður er tilhugsunin um að heyra hratt tiplið í blómasalanum að baki sér þegar hann nær mér og fer fram úr. Ég hugsaði með mér að það mætti alls ekki gerast. Gaf þess vegna í niður Reykjaveginn og fór fram úr nokkrum hlaupurum.

Mér var mikil ánægja í því að sjá tímann í markinu um það er ég kom: 49:11 - í fyrsta skipti er ég að fara 10 km undir 50 mín. Furða mín var enn meiri að sjá blómasalann dúkka upp stuttu á eftir mér. Hann var móður og másandi og stundi hvað eftir annað: Ég hefði náð þér! Ég hefði náð þér... - en botnaði ekki setninguna, og ég varð að gera það fyrir hann: ... ef ég hefði ekki farið svona hratt? Stuttu síðar kom Þorvaldur bróðir minn, sem jafnan hefur skilið mig eftir á hlaupum og sagði: Þú tókst ekki eftir mér þegar þú tókst fram úr mér á öðrum hring? Hér varð mér ljóst að sigur minn var margfaldur í kvöld. Ég var í fyrsta sinn að fara 10 km undir 50 mín; ég dró blómasalann með mér í fyrsta skipti undir 50 mín. - því það sem hélt honum í gangi allan seinni hringinn var vonin um að ná þessum hraðskreiða hlaupara sem var rétt fyrir framan hann; og ég er farinn að hlaupa hraðar en bróðir minn (hann að vísu 9 árum eldri en ég).

Ég gumaði af afrekum mínum í potti og bætti við að ég ætti annað afrek: að koma blómasalanum í fyrsta skipti í gegnum heilt maraþon. "Já," sagði dr. Jóhanna, "mikið er blómasalinn heppinnn að eiga svona góða vini!". Jóhanna og Helmut á góðum tíma - Helmut hefði náð miklu betri tíma ef hann hefði ekki glapist á að fara að tala við Birgi á leiðinni og hlusta á hann flytja lög eftir Schubert. Ekki setið mjög lengi í potti, hann fylltist fljótlega af mannakjöti og við töldum ekki ástæðu til að bíða eftir verðlaunaafhendingunni - okkur leið öllum eins og sigurvegurum og töldum víst að sprettirnir þeirra Möggu og Rúnars væru að skila sér í betri tímum.

Næst langt á miðvikudag, engir sprettir, Stíbbla, Árbæjarlaug, eða hvað. Í gvuðs friði á Jónsmessu. Ritari.

Eftirmáli
Það var sosum auðvitað að eitthvað hefði brugðist. Mér er sagt að markklukkan hafi verið vitlaus sem nam 55 sekúndum og því hafi tími minn verið 50:03 - fjórum sekúndum frá hinu langþreyða marki þótt það hafi ekki verið sérstakt markmið. Björgunin kom hins vegar frá Sigurði Ingvarssyni, sem með sínu óskeikula Garmin mælitæki komst að því að Miðnæturhlaupið hefði í raun verið 127 m lengra en 10 km - og því hafi ég hlaupið 10 km á innan við 50 mín. Meira að segja blómasalinn hafi verið á innan við 50 mín. Engu að síður stendur tíminn 50:03 sem vitnisburður um ókomna framtíð um algjöran aumingjaskap undirritaðs - og ekki að vita nema maður fari bara inn í skáp og dragi eitthvað gamalt yfir sig. Í gvuðs friði - á morgun er langt og sjóbað ef gvuð lofar. Ritari.


Víkingssögusýning - sögulegt hlaup og fallegt með sjóbaði

Hér reyndi á hverjir mega teljast sannir Vesturbæingar og sannir og traustir þegnar Formanns Vors til Lífstíðar, Ó. Þorsteinssonar Víkings. Búið var að gefa út greinargóða fyrirætlan um hlaup og menningu, yfirlit um sögu Víkings frá hendi einhvers persónufróðasta manns sem þekkist í Vesturbænum, og þekkir alla Víkinga með nafni af því einu að sjá þá á mynd. Mættir til þess að njóta veizluborðsins voru sannir Vesturbæingar og sannir Vinir Formanns: Flosi, Ólafur ritari, Birgir, Þorvaldur, Einar blómasali, Kári, Anna Birna og Margrét þjálfari. Veður ævintýri líkast, bara sól, vindur, sandur og haf. Hér var ekki verið að kýta eða hreyta ónotum í fólk, nei, hér ríkti eindrægnin ofar hverri kröfu.

Ekki var mikill vandræðagangur á Plani - heldur lagt í hann. Það skal viðurkennt að ritari var þungur, saltfiskur í hádeginu. En þetta gekk einhvern veginn. Hlaup tíðindalítið, nema hvað einhver forvitnaðist um afdrif V. Bjarnasonar álitsgjafa. Ó. Þorsteinsson vissi hið sanna, VB staddur í Slóveníu. Hafði misst af aðalfundi Eimskipa sem þurfa á kröftum hans að halda nú sem aldrei fyrr.

Haldið áfram, en gerð stopp á milli og hvílt. Rifin upp lúpína á Flönum. Tíðindalaust allt til Víkur. Þar leiddi Ó. Þorsteinsson okkur um sali eins og óðalsbóndi, bauð upp á kex, osta, sérvalið rauðvín frá Wolf Blass (Thunderbird Juice) og svalandi svaladrykki. Við vorum leiddir um sögusýninguna, fengum að sjá gamlar myndir af Melavelli, Valsvelli og Laugardalsvelli, myndir af gömlum hetjum og gömlum sigurvegurum.

Að veizlu lokinni var ákveðið að hlaupa tilbaka - en Ólafur Þ. tók leigubíl til Laugar. Við töltum af stað og vorum þungir á okkur. M.a.s. Flosi og Þorvaldur skildu okkur Birgi og blómasalann eftir. Er nær dró Nauthólsvík brast á þung umræða um sjóbað - blómasalinn var neikvæður, kvaðst hafa fjóra munna að metta sem myndu kvaka er hann kæmi heim. Við Birgir afslappaðri og ákváðum að skella okkur í svala ölduna eftir hálfs árs fjarveru. Það var yndislegt, manni leið eins og endurfæddum á eftir og sá eftir að hafa vanrækt þessa góðu iðju svona lengi.

Komin til Laugar stóð blómasalinn á Plani blaðskellandi við Rúnu. Þá lá honum ekki meira á en þetta, munnarnir máttu kvaka áfram. Farið í potta og chillað, blómasalinn á leið upp úr þegar ég fór ofan í. Þó var hann enn í útiklefa þegar ég fór upp úr - á snakki við Birgi. Ég vona bara að fjölskylda hans hafi ekki orðið hungurmorða á meðan.

Dagurinn var fagur og velheppnaður - einstakt tækifæri til þess að blanda saman hreyfingu, góðum félagsskap, næringu og menningu. Mættu fleiri taka sér þetta framtak Ó. Þorsteinssonar til fyrirmynda og standa fyrir uppbyggilegri starfsemi á vettvangi Hlaupasamtakanna.

Mr Fartmeister

Hér verður allt sagt eins og það var og ekkert dregið undan. Sannleikurinn nær fram að ganga. Meira um það seinna.

Það fyrsta sem ég sá er ég mætti í Brottfararsal var Björn kokkur glaðbeittur - gengið til útistufu og þar gerði dr. Flúss sig kláran til hlaups - kominn niður í hlauptæka þyngd. Við ræddum saman um líkamsþyngd og hversu erfiðlega gengur að ná henni niður. Þegar blómasalinn mætti þyngdist umræðan enn frekar og við bættist fall krónunnar, evran í 128 krónum í dag. Ég fór út. Mættur próf. Fróði, nýbúinn að skrá sig í Sahara-hlaupið á næsta ári, sem er sérstakt áhyggjuefni.

Aðrir mættir: Helmut, dr. Jóhanna, Ingi, Kalli, Kári, þjálfararnir Margrét og Rúnar, ritari, Þorvaldur og Birgir. 12 stiga hiti, sól og einhver vindur á norðan. Miðvikudagar eru dagar hinna löngu hlaupa - en í þetta skiptið var ekki alveg ljóst hverjar fyrirætlanir menn höfðu - engar vegalengdir fengust gefnar upp, svo að menn fóru af stað í fullkominni óvissu og með þá ógn hangandi yfir sér að þjálfararnir voru tveir í dag, sem er aldrei gott teikn.

Farið furðu hægt af stað og rætt um möguleika þess að rekast á ísbirni á leiðinni, og þótti engum ósennilegt. Nú hófust umræður um fyrirætlanir próf. Fróða um eyðimerkurhlaup. Hann bókaði sig í dag og greiddi litlar 400 evrur fyrir - og það var bara staðfesting á því að hann ætlar að hlaupa. Hann á eftir að blæða hundruðum þúsunda og fær ekkert fyrir það annað en sársaukann - eins og Birgir sagði. Það er ekkert inni í þessum kostnaði annað en vatnið í Sahara, en vatnið þar er dýrara en benzín. Þetta er hins vegar ekki stærsta áhyggjuefnið, heldur hitt að Ágúst er svo smár fyrir mann að hann týnist auðveldlega í öllu þessu sandflæmi sem Sahara er. Fræg er sagan af ítalska hlauparanum sem var týndur í Sahara í níu daga og endaði með að leggja sér leðurblökur til munns. Eðlilegur undirbúningur fyrir slíkt hlaup er þá að menn venji sig við að borða leðurblökur. Góð byrjun væri að prófa krókódílaæluna hans Bjössa sem hann hefur bætt við matseðil blómasalans í þeirri von að það takist að lækka líkamsþyngd þessa vors matkæra bróður.

Hlaupið af léttleika áfram, en fullhratt þannig að m.a.s. þjálfararnir mæltu með að menn færu hægar. Það gekk erfiðlega að tempra hraðann, óðar en maður vissi af var búið að skrúfa hraðann upp. Hliðarvindur alla leið inn í Nauthólsvík, en svo tók Esjan af okkur það mesta. Mönnum varð tíðrætt um tölvupóst sem borist hafði fyrr um daginn, í klassískum, margslungnum anda Ó. Þorsteinssonar, svo snúinn og samsettur að James Joyce hefði gengið fyrir ætternisstapann hefði honum borist fregn af þessari snilld! Vér fávísir og illa innréttaðir áttum hins vegar erfitt með að átta okkur á boðskap Formanns Vors til Lífstíðar, en þráðum þeim mun meira að skilja hverjar fyrirætlanir hans voru. Staðfestir þetta enn og aftur það sem vér höfum fullyrt að okkur dauðlegum er ekki gefið að skilja það sem snillingarnir skrifa í skýin.

Er kom að Víkingsvelli helltist valkvíðinn yfir ritara, búið var að tala um að fara langt, andinn var reiðubúinn, en líkaminn mótmælti, afleiðingar af hinu bráðskemmtilega Reykjafellshlaupi sem þreytt var s.l. sunnudag. Ég sá mér leik á borði þegar Þorvaldur fetaði sig í áttina að Stokki, svo tók ég eftir blómasalanum í eiturgrænum hlaupabol og vissi að hann var veikur fyrir. Hann gerði sig líklegan til þess að fara upp í Kópavog, Goldfinger og allt það dæmi. Helmut, dr. Jóhanna, Ágúst, Bjössi tóku kúrsinn upp í Kópavog án þess að velta vöngum, blómasalinn hikaði. Ég gekk á lagið og sagði: Við erum aumingjar! Hann dokaði við og virtist ekki þurfa að velta vöngum lengi til þess að sannfærast að ég færi með rétt mál. Hann kom með okkur Þorvaldi og var stefnan sett á Stokk. Þegar nær dró Elliðaám hins vegar færðist kapp í blómasalann og hann sagði að heiður okkar væri í veði, við gætum ekki gerst þeir eymingjar að fara Stokk, lágmarkið væri 69. Við Þorvaldur keyptum þetta með semingi en létum okkur hafa það að steðja yfir árnar og svo aftur tilbaka og upp á Miklubraut.

Við Einar töldum að þessi leið væri Þorvaldi nýmæli, svo villugjarn var hann alla leiðina, rápaði út og suður og vildi alls ekki fylgja lögboðinni hlaupaleið, þurfti æ ofan í æ að leiðrétta kúrsinn hjá honum. "Nei, ekki þangað - hérna!" hrópuðum við aftur og aftur. Ég fann að Reykjafellshlaupið sat enn í mér og blómasalinn viðurkenndi að það sæti einnig í sér.  Strengir og verkir í skrokknum, eymsli í ökkla. Svo var keyrt áfram viðstöðulaust og aldrei slakað á. Þó skal viðurkennt að það var "lengt" um Laugaveginn og hann valinn fyrir þær sakir að þar ferðast gjarnan ungar snótir sem kunna að vilja berja augum unga og stælta líkami gamalla hlaupara. Var margt slíkra á Laugaveginum og mikið augnakonfekt að hafa í okkur félögum sem skeiðuðum vakurlega niður verzlunargötuna.

Komum til Laugar Vorrar hafandi lagt að baki 17 km - og verður að teljast allgott miðað við ástand mannskapsins. Í Laugu var mætt Sif Jónsdóttir langhlaupari nýhlaupin og var helzt erindi hennar að grennslast fyrir um boðskap Formanns Vors til Lífstíðar, hverjar fyrirætlanir væru. Ekki gátum við Einar leyst úr vandkvæðum hennar. Það var legið í potti og rætt um matargerð á landsbyggðinni og flugferðir. Um það er við yfirgáfum svæðið sást til annarra hlaupara, höfðu þau farið um 24-25 km - bilun!

Svo er bara að sjá til hvort mál skýrist fyrir föstudaginn. Í gvuðs friði, ritari.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband