Mr Fartmeister

Hér verður allt sagt eins og það var og ekkert dregið undan. Sannleikurinn nær fram að ganga. Meira um það seinna.

Það fyrsta sem ég sá er ég mætti í Brottfararsal var Björn kokkur glaðbeittur - gengið til útistufu og þar gerði dr. Flúss sig kláran til hlaups - kominn niður í hlauptæka þyngd. Við ræddum saman um líkamsþyngd og hversu erfiðlega gengur að ná henni niður. Þegar blómasalinn mætti þyngdist umræðan enn frekar og við bættist fall krónunnar, evran í 128 krónum í dag. Ég fór út. Mættur próf. Fróði, nýbúinn að skrá sig í Sahara-hlaupið á næsta ári, sem er sérstakt áhyggjuefni.

Aðrir mættir: Helmut, dr. Jóhanna, Ingi, Kalli, Kári, þjálfararnir Margrét og Rúnar, ritari, Þorvaldur og Birgir. 12 stiga hiti, sól og einhver vindur á norðan. Miðvikudagar eru dagar hinna löngu hlaupa - en í þetta skiptið var ekki alveg ljóst hverjar fyrirætlanir menn höfðu - engar vegalengdir fengust gefnar upp, svo að menn fóru af stað í fullkominni óvissu og með þá ógn hangandi yfir sér að þjálfararnir voru tveir í dag, sem er aldrei gott teikn.

Farið furðu hægt af stað og rætt um möguleika þess að rekast á ísbirni á leiðinni, og þótti engum ósennilegt. Nú hófust umræður um fyrirætlanir próf. Fróða um eyðimerkurhlaup. Hann bókaði sig í dag og greiddi litlar 400 evrur fyrir - og það var bara staðfesting á því að hann ætlar að hlaupa. Hann á eftir að blæða hundruðum þúsunda og fær ekkert fyrir það annað en sársaukann - eins og Birgir sagði. Það er ekkert inni í þessum kostnaði annað en vatnið í Sahara, en vatnið þar er dýrara en benzín. Þetta er hins vegar ekki stærsta áhyggjuefnið, heldur hitt að Ágúst er svo smár fyrir mann að hann týnist auðveldlega í öllu þessu sandflæmi sem Sahara er. Fræg er sagan af ítalska hlauparanum sem var týndur í Sahara í níu daga og endaði með að leggja sér leðurblökur til munns. Eðlilegur undirbúningur fyrir slíkt hlaup er þá að menn venji sig við að borða leðurblökur. Góð byrjun væri að prófa krókódílaæluna hans Bjössa sem hann hefur bætt við matseðil blómasalans í þeirri von að það takist að lækka líkamsþyngd þessa vors matkæra bróður.

Hlaupið af léttleika áfram, en fullhratt þannig að m.a.s. þjálfararnir mæltu með að menn færu hægar. Það gekk erfiðlega að tempra hraðann, óðar en maður vissi af var búið að skrúfa hraðann upp. Hliðarvindur alla leið inn í Nauthólsvík, en svo tók Esjan af okkur það mesta. Mönnum varð tíðrætt um tölvupóst sem borist hafði fyrr um daginn, í klassískum, margslungnum anda Ó. Þorsteinssonar, svo snúinn og samsettur að James Joyce hefði gengið fyrir ætternisstapann hefði honum borist fregn af þessari snilld! Vér fávísir og illa innréttaðir áttum hins vegar erfitt með að átta okkur á boðskap Formanns Vors til Lífstíðar, en þráðum þeim mun meira að skilja hverjar fyrirætlanir hans voru. Staðfestir þetta enn og aftur það sem vér höfum fullyrt að okkur dauðlegum er ekki gefið að skilja það sem snillingarnir skrifa í skýin.

Er kom að Víkingsvelli helltist valkvíðinn yfir ritara, búið var að tala um að fara langt, andinn var reiðubúinn, en líkaminn mótmælti, afleiðingar af hinu bráðskemmtilega Reykjafellshlaupi sem þreytt var s.l. sunnudag. Ég sá mér leik á borði þegar Þorvaldur fetaði sig í áttina að Stokki, svo tók ég eftir blómasalanum í eiturgrænum hlaupabol og vissi að hann var veikur fyrir. Hann gerði sig líklegan til þess að fara upp í Kópavog, Goldfinger og allt það dæmi. Helmut, dr. Jóhanna, Ágúst, Bjössi tóku kúrsinn upp í Kópavog án þess að velta vöngum, blómasalinn hikaði. Ég gekk á lagið og sagði: Við erum aumingjar! Hann dokaði við og virtist ekki þurfa að velta vöngum lengi til þess að sannfærast að ég færi með rétt mál. Hann kom með okkur Þorvaldi og var stefnan sett á Stokk. Þegar nær dró Elliðaám hins vegar færðist kapp í blómasalann og hann sagði að heiður okkar væri í veði, við gætum ekki gerst þeir eymingjar að fara Stokk, lágmarkið væri 69. Við Þorvaldur keyptum þetta með semingi en létum okkur hafa það að steðja yfir árnar og svo aftur tilbaka og upp á Miklubraut.

Við Einar töldum að þessi leið væri Þorvaldi nýmæli, svo villugjarn var hann alla leiðina, rápaði út og suður og vildi alls ekki fylgja lögboðinni hlaupaleið, þurfti æ ofan í æ að leiðrétta kúrsinn hjá honum. "Nei, ekki þangað - hérna!" hrópuðum við aftur og aftur. Ég fann að Reykjafellshlaupið sat enn í mér og blómasalinn viðurkenndi að það sæti einnig í sér.  Strengir og verkir í skrokknum, eymsli í ökkla. Svo var keyrt áfram viðstöðulaust og aldrei slakað á. Þó skal viðurkennt að það var "lengt" um Laugaveginn og hann valinn fyrir þær sakir að þar ferðast gjarnan ungar snótir sem kunna að vilja berja augum unga og stælta líkami gamalla hlaupara. Var margt slíkra á Laugaveginum og mikið augnakonfekt að hafa í okkur félögum sem skeiðuðum vakurlega niður verzlunargötuna.

Komum til Laugar Vorrar hafandi lagt að baki 17 km - og verður að teljast allgott miðað við ástand mannskapsins. Í Laugu var mætt Sif Jónsdóttir langhlaupari nýhlaupin og var helzt erindi hennar að grennslast fyrir um boðskap Formanns Vors til Lífstíðar, hverjar fyrirætlanir væru. Ekki gátum við Einar leyst úr vandkvæðum hennar. Það var legið í potti og rætt um matargerð á landsbyggðinni og flugferðir. Um það er við yfirgáfum svæðið sást til annarra hlaupara, höfðu þau farið um 24-25 km - bilun!

Svo er bara að sjá til hvort mál skýrist fyrir föstudaginn. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband