Færsluflokkur: Pistill Ritara
11.8.2008 | 21:44
He knows no fear, he knows no danger. He knows nothing.
Ekkert að veðri, að því er virtist. Það var kallað eftir áætlun en þjálfari var alveg blankur. Virtist sem hann væri hættur að trúa á áætlanir, gaf þó út leiðarlýsingu: hefðbundið út að Skítastöð og þaðan tempó eftir smekk, 6 km fyrir þá sem ætla 10 í Reykjavíkurmaraþoni 10 fyrir þá sem ætla hálft. Það var lagt í hann, eitthvað voru menn með það á óhreinu hvað hefðbundið væri en ekki Margrét þjálfari, hún leiðrétti kúrsinn þegar hersingin stefndi niður á Ægisíðu, farið skyldi um Hagamel. Nú eru þjálfarar helztu gæzlumenn reglu og festu í Samtökum Vorum og gæta þess að menn breyti í engu frá föstum sið.
Farið á upphitunartempói út í Skerjafjörð sem var hratt tempó. Prófessor Fróði kom hlaupandi úr Kópavogi og ákvað að halda rakleiðis aftur í sveitarfélagið en sleppa þéttri æfingu með félögum sínum. Aðrir fylgdu fyrirmælum þjálfara og sprettu úr spori vestur úr. Farið á 5 mín. tempói, sumir hraðar. Aðrir hægar. Ég var í slagtogi við blómasalann, Helmut ekki langt undan. Björn og dr. Jóhanna þar fyrir framan. Haldið á Nesið. Eiginlega má segja að það hafi verið hlaupið í kyrrþey, því fólk fór á slíkum hraði að tóm gafst ekki til menningarlegra samskipta.
Sumir sveigðu á Lindarbraut, aðrir áfram að golfvelli og beygðu þar, enn aðrir fóru fyrir golfvöll, það voru þeir sem ekki hlustuðu á þjálfarann eða misskildu hann. Við Helmut og dr. Jóhanna fórum að golfvelli og svo með ströndinni að Gróttu. Við seinni vatnspóstinn var mig farið að svíða svo í augu af svitanum að ég varð að stoppa og lauga andlitið í köldu vatninu.
Þéttur pottur í Laugu, við fylltum setlaug og sátum góða stund og ræddum þörf málefni. Í útiklefa var Söngvari Lýðveldisins og hafði skoðanir á hlaupum. Taldi að við ættum ekki að vera að hlaupa þetta, slíta malbikinu og hnjánum á okkur. Við myndum enda á spítala eftir 3-4 ár með þessu áframhaldi. Ekki að vísu grannvaxnir menn eins og Magnús, en þessi (bendir á ritara), hann er nú með einn aukaþingeying utan á sér. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það þýðir að hlaupa með þennan umframfarangur.
Menn hafa áhyggjur af Berlín og því sem þar getur gerst. Rætt um sameiginlegt ákall þegar menn mæta í mark. Verða allir í lagi? Næst langt.
6.8.2008 | 23:29
29,08 km - tempó 5:14.
Tíðindalaust út í Skerjafjörð, þar mættum við Kára og dr. Önnu Birnu á e-u undarlegu róli sem enginn áttaði sig á. Kári reyndi að grípa til blekkinga með því að hlaupa aftur á bak, en gat ekki dulist. Þung undiralda kynlífsóra alla leið út í Nauthólsvík og jafnvel lengra, svo mjög að ritari mun ekki greina nánar frá því sem menn létu sér um munn fara af virðingu fyrir fjölskyldum og nánustu venzlakreðsum. E.t.v. voru hér greinanleg áhrif Hinsegin daga og rifjuð upp leðurbuxnaeign Hlaupasamtakanna.
Þjálfararnir hlaupa aldrei langt, þess vegna geta þeir spennt upp hraðann eins og þeim sýnist. Við sem ætluðum langt pössuðum okkur á þessu og fórum á upphitunartempói. Bjössi virtist eitthvað á báðum áttum hvert hann ætlaði, en ákvað svo að fylgja okkur Ágústi og Bigga á Kársnes, en varaði okkur við mikilli skítalykt bæði á nesinu og í sjálfum Kópavogsdal. Það hnussaði í Ágústi og hann kannaðist ekki við neinn óþef í heimabæ sínum. Hér fóru menn að auka hraða hlaups, enda orðnir vel heitir.
Fórum hratt um Kársnes og svo austurúr. Mættum ungum stúlkum, líklega úr HK, sem voru í æfingahlaupi. Tókum upp spjall við þær og sögðum það helzta af okkur, Björn gekk fram fyrir skjöldu til þess að impónera dömurnar, sagði að við hefðum lagt upp frá Vesturbæjarlaug og ætluðum 28 km. Já er það? sögðu dömurnar, heyrðu vinur, ég held þú sért að missa af félögum þínum. Svona kommentarar virka ekki vel á menn. Birgir talaði óskaplega mikið og hátt alla leiðina - en nam ekki nema ca. 58% af því sem við sögðum við hann -- og varð ítrekað að segja hlutina aftur og jafnvel byrja frásagnir frá byrjun því hann hafði ekki verið að fylgjast með. Þetta tók frá okkur orku.
Ólíkt því sem var s.l. miðvikudag efldumst við með hverju skrefi í Kópavogsdal og fórum æ hraðar. E-s staðar upphóf Birgir mikinn fróðleik um mikilvægi þess að innbyrða prótein fyrir hlaup. Menn mótmæltu, og sögðu, þú ert að rugla próteini saman við kolvetni. Björn lét einhverjar glósur fjúka. Erfiðar brekkur framundan, en Lækjarhjalli nálgaðist og Ágúst lofaði viðurgjörningi - "ef Ólöf sé heima" missti hann út úr sér þegar við vorum að koma á stéttina hjá honum heima.
Jæja, hvað um það. Frú Ólöf birtist þegar Ágúst var búinn að berja allt utan heima hjá sér í fimm mínútur. En Birgi var hvergi að sjá. Hann hafði dregist aftur úr þegar við komum upp brekkurnar - og við göluðum á hann, en fengum ekkert svar. Drukkum vel af svaladrykkjum og fengum m.a.s. gel til að bæta að orkubirgðirnar. Enn enginn Birgir. Hér fórum við að hugsa hvort við hefðum móðgað hann, hvort Björn hefði sært hann með ummælum sínum. Ágúst varð hugsi og sagði svo: Gaman væri að sjá Birgi spældan. Á endanum sáum við að við svo búið gat ekki gengið - Birgir hlaut að hafa fótbrotnað eða liðið í ómegin - við urðum að halda áfram ef við áttum ekki að stirðna upp. Áfram upp úr Dalnum og hefðbundið inn í Mjódd - upp Holtið og yfir í Elliðaárdalinn, upp að Árbæjarlaug þar sem við gerðum stuttan stanz og áttum vinalegar viðræður við ungviði bæjarhlutans.
Áfram niður úr á fantastími - Ágúst og Björn skiptust á upplýsingum um tempó, sem iðulega var í kringum 5/km. Við vorum allir í góðum málum og létum engan bilbug á okkur finna, fórum hjá Rafstöð og yfir Elliðaárnar. Upp í Fossvogsdal og gáfum í þar. Það var eins og við efldumst með hverri raun, og í stað þess að láta þreytu buga okkur, jukum við hraðann. Ég var ánægður að hafa fengið þá tvo sem hlaupafélaga í kvöld - þeir héldu mér við efnið og gættu þess að ég héldi þokkalegum hraða. Í Nauthólsvík verðlaunuðum við okkur með svalandi sjávarbaði, syntum út að flotbryggju þar sem ónefndur félagi gerði nokkrar tilraunir til þess að hneyksla nærstadda túrista með impróvíseruðum núdísma.
Áfram eins og spýtukarlar - mjöðmin fór að hrekkja mig og var ég lengi að hitna svo vel að ég gæti hlaupið að ráði, en þeir Ágúst og Björn fóru á undan á góðu skokki og bættu í ef eitthvað var. Hittum Birgi í potti og kröfðum hann skýringa. Hann hafði fengið aðsvif í Dalnum og misst sjónar á okkur, hringsólað í Kópavogi, en tekið svo strikið upp úr Kópavogi og þá leið sem preskríberuð var, Mjódd, Árbæjarlaug og svo Fossvog tilbaka. Líklega hefur Birgir tekið einhverja útúrdúra meðan á meðvitundarleysi hans stóð - því að þegar upp var staðið hafði hann hlaupið 30,1 km (ritari var vitni, las á Garmintækið hans að hlaupi loknu) - meðan við eymingjarnir fórum bara 29,08 km - og hann var kominn löngu á undan okkur til Laugar. Hér er komin rétt lýsing á Birgi: þegar hann er við það að bugast herðir hann hlaupið og bætir í. Hann var ausinn lofi og kallaður alvöruhlaupari í potti sem við hinir þyrftum að óttast og hafa áhyggjur af - en jafnframt skammaður fyrir að hunza gott boð góðrar konu í Lækjarhjalla sem lagði fram sérstakt glas honum til handa að bergja á.
Frábært hlaup sem við vorum ánægðir með, 29,08 km á meðaltempóinu 5,14 - lofar það ekki bara góðu? Næst stutt og rólegt á föstudag - einhverjir kunna að hafa áhuga á að hlaupa á morgun, fimmtudag - hlaup er í boði. En á föstudag, já, föstudag - þá er Fyrsti Föstudagur. Menn vita hvað það þýðir.
Pistill Ritara | Breytt 7.8.2008 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2008 | 14:17
Ekki einleikið...
Mættum svo Vilhjálmi á reiðhjóli út við Suðurgötu. Er við höfðum spjallað við hann drykklanga stund kemur Ólafur Þorsteinsson hlaupandi í humátt á eftir okkur ásamt ektakvinnu sinni ágætri. Hér var öllum venjum og gildum snúið á haus svo að maður varð alveg ruglaður: hvað er í gangi? spurði einhver. Við sáum fram á að þeir Fóstbræður hefðu um eitt og annað að ræða og héldum því áfram hlaupi voru, en heyrðum áður "ég var að heyra að þau værir dauður!" - eða "ég var að vona að þú værir dauður", sem er algeng kveðja þeirra í milli. Einkennilegt samband.
Hlaupið inn í Nauthólsvík þar sem beðið var eftir Ólafi Þ. og föruneyti hans. Hann sneri hins vegar við enda búinn að hlaupa dag hvern í fríinu, alltaf jafnlangt, alltaf sömu leið, alltaf einn.
Við Jörundur og Þorvaldur héldum áfram og einhver sagði að það væri gott að Ó. Þorsteinsson hefði snúið við, nú væri hægt að hlaupa án þess að stoppa á milli. Rætt um íslenzkar jurtir sem urðu á leið okkar og reyndist Þorvaldur skárri en enginn í að greina þær. Upplýst - þvert ofan í fullyrðingar Jörundar - að njóli væri innflutt jurt, kæmi alla leið frá Suður-Ameríku, líklega borist með skipum. Við Miklubraut vorum við orðnir heitir og jukum hraðann - lukum tíðindalitlu hlaupi á góðu stími.
Pottur vel mannaður, m.a. sat þar Benedikt af Ermarsundsfrægð, sundkappi, og var hann spurður spjörunum úr um sundið góða. Aðrir mættir: Dr. Einar Gunnar, dr. Baldur og Mímir.
Ákveðið að hlaupa að nýju í fyrramálið, mánudag 4, ágúst, kl. 10:10. Allir velkomnir.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2008 | 21:23
Veitull höfðingi lyftir þaki
Hlauparar skiptast í ýmislegar greinar. Sumir hlaupa langt. Aðrir hlaupa hratt. Enn aðrir hlaupa hratt langt. Hlaupasamtök Lýðveldisins hlaupa til þess að hlaupa og til að líða illa. Unaður, engir þjálfarar. Nú gátum við gert eins og okkur sýndist. Menn vel stemmndir á Brottfararplani og ákveðið að fara hægt og stutt. Teddi með sýningu í Perlunni og orðrómur um lyftingu þaks á Kvisthaga, meira um það seinna.
Við fórum saman út, en svo fóru prófessorinn, langhlauparinn og kolleginn á undan okkur á hröðu stími, ég og Rúna og Kári þar á eftir og svo hinir, ekki það þetta hafi verið nein keppni. En svona lagðist þetta upp. Heitt í veðri, þó ekki væri jafnheitt og s.l. miðvikudag. Fórum mjög hægt út. Ritara líkaði þetta tempó, þetta hentaði honum.
Fórum aðskiljanlegar leiðir að Perlu og hittum þar fyrir il maestro Teddi, sem sýndi okkur verk sín, sem voru athyglisverð og fallin til þess að gefa sem tækifærisgjafir.
Héðan fóru þrír félagar á fund vinar í Vesturbæ: Ó. Þorsteinssonar, sem lýst hafði yfir reisugilli að Kvisthaga fjegur. Við mættum þar Vilhjálmur, Þorvaldur, og ritari. Viðstaddir heimtuðu höft á ritara, að maður svona sveittur fengi ekki aðgang að eigninni. Spurt var um blómasala: það fréttist af honum í Stykkishólmi á hádegi, svolgrandi í sig skelfisk og lepjandi hvítvín, ekki von að slíkur hlypi í dag. Boðið upp á 30 ára gamalt maltviskí innhöndlað í Edinborgarkastala og gefið húsráðanda í tilefni af afmæli hans á árinu. Gerð úttekt á upplyftingu og virðist hún standast væntingar. Góð stund í góðra viðurvist, m.a. konrektor Reykjavíkur Lærða Skóla, herr. prof. dr. Indridason, og mikið af geitungum sem löðuðust að hinum 30 ára gömlu veigum.
30.7.2008 | 23:03
ÞETTA var erfitt!!!
Varla þarf að fara mörgum orðum um veður í dag, heiðskírt, sterkt sólskin, hægviðri, hiti hátt í 30 stig, þótt opinberar ríkismælingarstöðvar hafi verið hógværari í mati sínu. Það hvarflaði að ritara hvort skynsamlegt væri að hlaupa við svona aðstæður og bjóst jafnvel við að þjálfarar myndu fresta hlaupi eða seinka því þannig að hlaupið yrði við viðunandi skilyrði. En þegar ekkert heyrðist pakkaði ritari saman mal sínum og hélt til Laugar. Þangað kominn og hafandi skipt í hlaupagírið stóð hann bullsveittur á gólfi Útiklefa - og hugsaði sinn gang: hvernig mun þetta ganga?
Stórmenni mætt í Brottfararsal: Gísli Ragnarsson, einhver fræknasti hlaupari Samtakanna, Jörundur Stórhlaupari Guðmundsson, Vilhjálmur, Þorvaldur, dr. Friðrik, Ágúst, Björn, báðir þjálfarar, Una, ritari, Birgir jógi, Einar blómasali, og Rúna - sem er nánast komin yfir til okkar frá TKS, enda fær hún markvissan undirbúning fyrir mikilvægt hlaup hjá afar hæfum og skipulögðum þjálfurum.
Ekki voru nú tök þjálfara á mannskapnum betri en svo að liðið rásaði af stað eins og rollur án nokkurrar stjórnar. Ég bar þetta undir Rúnar á leiðinni austurúr og hann hafði biflíulega útskýringu á þessu: á söndunum fyrir austan fer hirðirinn fyrir safninu, hann gengur með stafinn og ver safnið. Á Íslandi er þessu öfugt farið: þar fer hirðirinn aftast, en sigar skozkum fjárhundi framan á safnið til að halda því saman. Ritari benti honum á að upplag Íslendinga væri að mörgu leyti svipað og sauðkindarinnar: það væri ekki nokkur leið að fá fólk til að fara eftir fyrirmælum. Oft hefði hann lent í þessu í starfi sínu. Þegar settar væru opinberar reglur um hvernig fólk ætti að hegða sér væru það fyrstu viðbrögð þegnanna að spyrja: hvernig kemst ég hjá því að fara eftir þessum reglum? Og hann mundi að lýsa svipnum á rollunum sem hann rak úr túninu á sokkabandsárum sínum, þrjózkan skein úr augum rollnanna, þær stöppuðu niður fæti og voru aldeilis ekki á því að fara út um gatið í girðingunni sem þær höfðu komið inn um. Þennan svip hefur ritari oft séð á borgurum sem mætt hafa á fund hans í þeim tilgangi að fara ekki að þeim leiðbeiningum sem Stjórnarráðið hefur af náð sinni útmælt þeim að fara eftir. Hér voru rifjuð upp ummæli Kára, þegar hann sagði: Ég vildi frekar reyna að reka ketti á fjall en fá meðlimi Hlaupasamtakanna til þess að fara að fyrirmælum.
Það var afar óljóst hvað ætti að gera í dag. En við hinir sjálfstæðu og frumkvæðisríku hlauparar og forystusauðir vissum sem var að það yrði langt. "Langt" merkir hins vegar mismunandi vegalengdir eftir því hver á í hlut. Ágúst ætlaði 35 km - ritari kvaðst ekki mundu fara feti lengra en 35 km (Rúnar mælti með 28 km) - aðrir ætluðu styttra. Margrét þjálfari ætlaði langt á tempói og vildi draga Bjössa með sér. Ég hvatti hana til þess að gera það og helst að sprengja hann. Téðir aðilar voru fremstir og fóru hratt yfir, Rúnar ætlaði að vísu bara stutt, 10 km. Sól skein sterkt í heiði og fundu hlauparar vel fyrir hitanum. Lýsið rann. Mælst hafði verið til þess að stanz yrði gerður í Nauthólsvík til þess að leyfa hlaupurum að kæla sig - vorum Gísli og Friðrik helztir flutningsmenn þeirrar tillögu, en þegar til átti að taka lá Ágústi og Rúnari svo mikið á að ekkert varð af sjóbaði - enda var svo margt fólk þarna að það hefði ekki verið gaman.
Gísli stefnir á Berlín, en vill byrja á Reykjavíkurmaraþoni og sjá hvernig sér gengur þar, ef hann vinnur mun hann íhuga að taka þátt í Berlínarmaraþoni. Að öðru leyti er hann mjög hæverskur í markmiðssetningu sinni. Jörundur búinn að vera meiddur að undanförnu, en fékk meðferð í Laugarási í Byzkupstungum og gékk svo á fjöll, m.a. Kerlingu, hafandi farið framhjá Jómfrú og Bónda.
Ekki var stöðvað í Nauthólsvík, haldið áfram á Kársnes. Þar var svalandi að hlaupa inn í hafgoluna á Kársnesi og freistandi var að skella sér í sjóinn, en athyglisvert var að hvar sem farið var þennan dag leituðu þegnar landsins uppi öll möguleg vötn og polla til þess að kæla sig í hitasvækjunni. Ágúst var á undan mér, en á eftir komu blómasalinn og Rúna, Eiríkur og Birgir jógi. Ástand á þessum punkti var gott og ekki ástæða til að halda annað en að vel gengi, þó fann maður að hitinn hafði tekið sinn toll. Vandræðin hófust hins vegar þegar komið var sunnanmegin á Kársnesi og stefnan tekin á Kópavogsdal. Þá naut ekki hafgolu lengur og sumarsólin gassaði á fullu. Þegar komið var að fyrstu undirgöngum undir Reykjanesbraut var ritari nálægt meðvitundarleysi sökum álags. "Hvernig endar þetta?" varð honum hugsað. Ekki gefist upp, áfram um Dalinn, drukkið af vatnspósti við Digraneskirkju og svo áfram. Staldrað við í Lækjarhjalla - en ekkert að hafa þar, áfram upp í Breiðholtið. Stoppað við Olís í Mjódd og drukkið vatn, andlit og höfuð skolað undir vatnskrana.
Áfram niður í Elliðaárdal og upp í Fossvogsdal - ekki sagt orð af viti, enda ritari einn á ferð. Fyrir aftan hann voru fyrrnefndir hlauparar. Er kom í Fossvoginn var okkar maður algjörlega steiktur, hafði varla kraft í meira og þurfti að fara að ganga langa speli. En hljóp þess á milli. Er kom í Nauthólsvík drógu Einar blómasali og Rúna ritara uppi, hér neitaði blómasalinn að taka þátt í sjóbaði og kvaðst eiga mikilvægt erindi framundan. Þau tvö héldu áfram, en ritari lá í svalandi Atlanzhafsöldunni og hugsaði sem svo að hlaup væru mikil nautn ef þau buðu upp á sjó.
Ég ætla ekki að lýsa ástandi fólks þegar ég kom á Móttökuplan, fólk lá um reitinn gjörsamlega úrvinda og kvaðst ekki hafa hlaupið erfiðara hlaup þetta árið, þótt 32 km hlaupið sællar minningar sem Ágúst dró okkur í óumbeðið væri talið með. Allir sem ritari talaði við voru sammála um að steikingarmörkum hefði verið náð við 14-16 km mörkin - eftir það hefði fólk átt að hætta. Hér varð ritara hugsað til Ágústs sem lagði vonglaður upp í 35 km hlaup - og var ekki búinn að skila sér þegar hlauparar hurfu úr potti - hvað varð um þennan mikla hlaupara þetta kvöld? Þessi spurning var ritara efst í huga er hann hvarf til kveldverka að hlaupi loknu. Hann hugsaði sem svo: það hefði líklega verið nóg að fara 15 km við þessi skilyrði - eða seinka hlaupi um 2 klst. Þetta var hins vegar mikilvægur lærdómur og ætti að segja okkur að ef hiti verður mjög mikill í Berlín þá er hugsanlega skynsamlegra að parkera sér á einhverri útiserveríngu, panta öl og hvetja hina hlauparanan áfram. Pæling. Í gvuðs friði. Ritari.
Pistill Ritara | Breytt 31.7.2008 kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2008 | 10:31
Ný andlit
Fjöldi hlaupara var mættur í dag, mánudag, til hlaups, þar á meðal ný andlit, og nokkrar konur. Gefin var út lína um rólega viku og virtust flestir sáttir við það eftir átakahlaup í síðastliðinni viku. Þorvaldur heimtaði hlaupaleið sem eldri hlauparar könnuðust við, en ekki einhverja endalausa nýlundu og nýbreytni. Það var orðið við þessari beiðni og farinn afar hefðbundinn mánudagur: út að Skítastöð um Suðurgötu, og svo dólað í rólegheitum vesturúr. Mættum Neshópi á leiðinni og virtist hann öflugur og þéttur. Út að Bakkavör, þar var gerður stuttur stanz meðan hópurinn safnaðist saman. Svo voru teknar 6 Bakkavarir allþétt og tók það verulega á.
Það er óþolandi að sveitarfélög skuli stöðugt vera í framkvæmdum sem trufla hlaup manna - þarna voru vinnuvélar og verkamenn að störfum við gangstéttarlagningu.
Þarna geystist framhjá okkur handknattleiksgoðið Guðjón Valur Sigurðsson á töluverðum hraða og afþakkaði boð um að slást í för með okkur. Eftir 6 Bakkavarir héldum við hinir vanaföstu út á Lindarbraut og tilbaka um Norðurströnd, lokatölur ca. 14-15 km - aðrir fóru annað og skiluðu um 16 km. Mættir í hlaup dagsins: Ágúst, Vilhjálmur, Þorvaldur, Einar blómasali (mættur tímanlega), Kári, Eiríkur, ritari, Una, Margrét, Jóhanna, Þorbjörg, Björn kokkur og fleiri sem mig vantar nöfnin á.
Ekki varð ég var að orð af viti væri sagt - enda hljóp ég einn. En í potti lét einhver þau orð falla að ljúft yrði þegar þessu Berlínarmaraþoni væri lokið - þá gætum við farið að hlaupa eins og fólk aftur. Hér varð próf. Fróði hugsi og sagði: Já, nei, þetta er rétt að byrja hjá mér. Þessu lýkur ekki fyrr en í apríl. Rætt um kosti þess að geta eimað hland og borðað leðurblökur.
Á miðvikudag verður farið langt, 24-26 km, og er vonandi að menn haldi í skynsemina og ani ekki út í vitleysu. kv. ritari
26.7.2008 | 14:49
Manni fer bara aftur...
Ritari mættur til hlaups í dag, laugardag, kl. 11:30 og hugði á 16 km. Vel birgur af drykk. Veður virtist hið ákjósanlegasta á Plani. Reyndin varð önnur er komið var niður á Ægisíðu - þar var stífur austanstrengur alla leið austur að Kringlumýrarbraut. Ég var gjörsamlega búinn er þangað var komið og ákvað að fara upp Suðurhlíðar í stað þess að fara Fossvoginn og inn að Víkingsheimili. Ekki tók betra við þegar maður þurfti að keyra upp brekkuna alla leið upp að Perlu, en það tókst nokkurn veginn. Svo lagaðist þetta eftir Perluna, þá hallaði landslagið meira niður á við og ég hljóp í skjóli. Ég var eins og undin tuska þegar komið var til Laugar - mun hvíla á morgun, sunnudag. Það fréttist af öðrum hlaupurum kl. 10 - alla vega Rúnar og Björn, þeir fóru líka stutt, 11 km að sögn Björns. Í gvuðs friði þar til næst verður hlaupið.
22.7.2008 | 15:16
Hlaupið í úrinu...
Veðurskilyrði hagstæð, rigningarúði og 14 stiga hiti, suðvestanstæður vindur að því er ég tel. Fórum sömu leið og síðast, nema hvað nú ætlaði minn að taka spretti upp brekkurnar samkvæmt boði þjálfara. Það varð einhverra hluta vegna frekar endasleppt, ég lét mér nægja að komast upp brekkurnar. Þrátt fyrir að Kári væri slæmur af mjaðmarmeiðslum eða einhverju í baki var hann bara sprækur og lét sig vaða í brekkurnar. Fórum aðeins styttra en á sunnudaginn, snerum við og tókum strikið gegnum Jafnaskarðsskóg og niður að vatni þar sem ég fékk mér örstutt bað. Grunnt vatn, mikið slý og óhreint vatn, ekki spennandi! Tekið þokkalega á því á lokasprettinum, við orðnir ágætlega heitir. Pottur á eftir. Svo er stefnan að grilla saman í kvöld.
Ritari kveður. Over and out.
20.7.2008 | 19:01
Hlaupið í Jafnaskarðsskógi við Hreðavatn
16.7.2008 | 23:57
Langur hlaupadagur með ágústínskum styttingum
Fyrirbærið ágústínsk stytting er velþekkt fyrirbæri í Samtökum Vorum. Meira um það seinna. Dagurinn hreint með eindæmum vel fallinn til hlaupa: bjartviðri, nánast logn, 16 stiga hiti en einhver andvari af hafi sem gaf kælingu á réttum stöðum. Mikilvægasta hlaup vikunnar samkvæmt áætlun þjálfara. Langt hlaup samkvæmt hefð. Mættir margir af helztu hlaupurum Samtakanna, björtustu vonir, sverð, sómar og skildir. Þar má nefna próf. Fróða, dr. Jóhönnu, Helmut, Sjúl, Einar blómasala, Benedikt, Unu, Rúnu, Margréti þjálfara, Rúnar þjálfara og Ólaf ritara. Einnig voru mætt Kári og frú Anna Birna, en voru með afbrigði, fóru á undan öðrum og lýstu yfir ásetningi um sjóbað.
Stundin á Brottfararplani var hátíðleg, menn gengu andaktugir um og ræddu útlit og horfur, próf. Fróði með húfu sem á stóð: 100 km hvað svo sem það átti að fyrirstilla. Það olli vonbrigðum að þjálfara þraut örendi, hafði engan boðskap að flytja, umfram það sem þegar var sagt í hlaupaáætlun en sagði drekka, drekka frekar en að segja ekki neitt. Engin áætlun um hvert yrði farið við dr. Jóhanna sögðum við próf. Fróða að við vildum fara 26-27 km í dag. Hann lifnaði allur við og sagði: Já, já, ég veit um góða leið þar sem þið náið þessu markmiði ykkar. Glott lék um varir hans. Svo var bara lagt í hann og farið rólega. Kári, Anna Birna og Sjúl farin á undan, og sáum við aðeins til hjónakornanna í Nauthólsvík, en Sjúl sáum við ekki meira. Upplýst að aðeins yrði boðið upp á vatn í Berlín, engir orkudrykkir. Hófust strax ráðagerðir um hvernig tekið yrði á því, vera með brúsa á völdum stöðum, láta maka vera með orkudrykki, hafa orkugel með sér o.s.frv. Prófessor Fróði hóf strax sínar útleggingar á þessari uppákomu og hafði sínar skýringar: þeir eru svo nízkir, Þjóðverjarnir, þeir tíma ekki að blæða orkudrykkjum á hlaupara sem greiða stórfé fyrir að taka þátt í einu aumu maraþonhlaupi. Helmut þótti skýringin ekki sennileg og hafði einhver orð um það. Prófessorinn horfði á hann tómeygður: hva..., hefuru engan húmor? Þá var honum bent á að hann fengi aðeins vatn í Zahara-hlaupinu á næsta ári sem hann greiðir hálfa milljón fyrir. Við þetta setti prófessorinn hljóðan.
Um það var rætt í Skerjafirði að nú skyldi reynt á gestrisni þeirra Lækjarhjallahjúa og raunar yrði þetta þriðja og síðasta tækifæri sem þau fengju til þess að sanna það að þau væru góð heim að sækja. Ella yrði Kópavogur sniðgenginn og hlaupið framvegis í önnur sveitarfélög. Að vísu var óskað eftir að fólk legði inn pantanir fyrirfram. Blómasalinn pantaði blóðuga nautasteik kryddlegna, Rúna og dr. Jóhanna pöntuðu rauðsprettu og mojitos, ritari tvöf. gin í tóníkk, prófessorinn gat hugsað sér orkudrykk og ákvað að Helmut fengi bara vatn. Og glotti.
Sem fyrr sagði mættum við þeim Kára og Önnu Birnu í Nauthólsvík þar sem þau voru að gera sig klár fyrir sjósund. Gott hjá þeim! En við Berlínarfarar leiddum hugann ekki að slíkum unaðssemdum sem Atlanzhafssund er, héldum áfram um Flanir og Lúpínubreiður. Hér var farið að teygjast á hópnum og ljóst í hvað stefndi, þjálfararnir langt undan, ásamt Unu, Benedikt og Ágústi við hin fórum hefðbundna stíga með ströndinni og tókum stefnuna á Kársnes. Á endanum voru það ritarinn, dr. Jóhanna, Helmut, Rúna og blómasalinn sem fóru á Kársnesið um afdrif annarra er ekki vitað. Farið fetið um Lúpínustíg með Vognum og yfir á Kársnesið. Ritari fremstur, aðrir á eftir, enda margt að ræða, aðallega mataruppskriftir. Svo dúkkaði prófessorinn upp, hafandi elt þjálfarana einhverja vitleysu. Þeir voru með augun á Benedikt sem anaði út í eitthvert enn meira fláræði og fer engum sögum af afdrifum hans þennan langa hlaupadag. Nema hvað, þarna bætist prófessorinn í hópinn og saman förum við um Kársnes. Tempó nokkuð hratt og áttum við prófessorinn samleið fyrir Nesið og svo austurúr, hin í humátt á eftir okkur í virðulegri fjarlægð. Um það var rætt hverjar móttökur yrðu í Lækjarhjalla en engar staðfestar fréttir fengust. Prófessorinn hringdi heim og tilkynnti pantanir en á hinum endanum var bara hlegið. Mér leist illa á það.
Svo var gefið í út Kópavogsdal og ekki linnt látum fyrr en í Lækjarhjallanum og viti menn! Beið okkar ekki dúkað borð úti á stétt með drykkjum og skál með salthnetum. Frú Ólöf tók á móti hlaupurum með mikilli kurteisi og alúð. Seint og um síðir komu svo aðrir hlauparar. Staldrað við um sinn í þessum afkima sveitarfélagsins en ákveðið að halda á erfiðar slóðir, þ.e.a.s. allir nema Helmut sem stytti, fór aðeins 24 km. Við héldum upp úr Kópavogsdalnum, brekkuna erfiðu en skemmtilegu, og svo stíginn milli Kópavogs og Reykjavíkur, og þá leið út að Ellliðavatni, niður í Dalinn og enn var mikill hugur í fólki, fórum á góðu tempói og engan bilbug að finna á hlaupurum. Svo fór að breikka bil milli hlaupara, Ágúst hvarf í Elliðaárdalnum, dr. Jóhanna skildi ritara eftir einan við Víkingsheimili, en honum til mikillar huggunar voru blómasalinn og Rúna einhvers staðar að baki honum.
Nú var þreyta farin að segja til sín. En ekki skyldi slakað á, tilhugsunin um sjóbað gerðist æ ágengari og þegar komið var í Nauthólsvík dró ritari af klæði sín á rampi og skellti sér í svala ölduna stundarkorn yndisleg stund sem vakti athygli nærstaddra túrhesta en svo var farið upp úr og haldið áfram. Fékk mér vatn að drekka við vatnspóst, leit upp og sá þau skötuhjú blómasalann og Rúnu koma upp stíginn frá ströndinni, fékk paníkk og rauk af stað aftur, gat ekki hugsað mér að heyra tiplið í blómasalanum að baki mér. Þrátt fyrir þreytu tókst mér að ljúka hlaupi án þess að blómasalinn kæmist nær mér. Í Móttöku voru prófessorinn og dr. Jóhanna að teygja, alla vega prófessorinn, doktorinn lá úti í glugganum Þorvaldar og virtist alveg búin. Hlaupið var 32 km aðeins lengra en um var beðið og rætt í upphafi, en svona eru ágústínsku styttingarnar: fleiri hlaupnir kílómetrar.
Nú tekur við sumarbústaðasæla, farið í Borgarfjörðinn, en þó stefnt að hlaupum á rykugum vegum, og svo endurkoma n.k. miðvikudag. Í gvuðs friði, ritari.
Pistill Ritara | Breytt 17.7.2008 kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)