Víkingssögusýning - sögulegt hlaup og fallegt með sjóbaði

Hér reyndi á hverjir mega teljast sannir Vesturbæingar og sannir og traustir þegnar Formanns Vors til Lífstíðar, Ó. Þorsteinssonar Víkings. Búið var að gefa út greinargóða fyrirætlan um hlaup og menningu, yfirlit um sögu Víkings frá hendi einhvers persónufróðasta manns sem þekkist í Vesturbænum, og þekkir alla Víkinga með nafni af því einu að sjá þá á mynd. Mættir til þess að njóta veizluborðsins voru sannir Vesturbæingar og sannir Vinir Formanns: Flosi, Ólafur ritari, Birgir, Þorvaldur, Einar blómasali, Kári, Anna Birna og Margrét þjálfari. Veður ævintýri líkast, bara sól, vindur, sandur og haf. Hér var ekki verið að kýta eða hreyta ónotum í fólk, nei, hér ríkti eindrægnin ofar hverri kröfu.

Ekki var mikill vandræðagangur á Plani - heldur lagt í hann. Það skal viðurkennt að ritari var þungur, saltfiskur í hádeginu. En þetta gekk einhvern veginn. Hlaup tíðindalítið, nema hvað einhver forvitnaðist um afdrif V. Bjarnasonar álitsgjafa. Ó. Þorsteinsson vissi hið sanna, VB staddur í Slóveníu. Hafði misst af aðalfundi Eimskipa sem þurfa á kröftum hans að halda nú sem aldrei fyrr.

Haldið áfram, en gerð stopp á milli og hvílt. Rifin upp lúpína á Flönum. Tíðindalaust allt til Víkur. Þar leiddi Ó. Þorsteinsson okkur um sali eins og óðalsbóndi, bauð upp á kex, osta, sérvalið rauðvín frá Wolf Blass (Thunderbird Juice) og svalandi svaladrykki. Við vorum leiddir um sögusýninguna, fengum að sjá gamlar myndir af Melavelli, Valsvelli og Laugardalsvelli, myndir af gömlum hetjum og gömlum sigurvegurum.

Að veizlu lokinni var ákveðið að hlaupa tilbaka - en Ólafur Þ. tók leigubíl til Laugar. Við töltum af stað og vorum þungir á okkur. M.a.s. Flosi og Þorvaldur skildu okkur Birgi og blómasalann eftir. Er nær dró Nauthólsvík brast á þung umræða um sjóbað - blómasalinn var neikvæður, kvaðst hafa fjóra munna að metta sem myndu kvaka er hann kæmi heim. Við Birgir afslappaðri og ákváðum að skella okkur í svala ölduna eftir hálfs árs fjarveru. Það var yndislegt, manni leið eins og endurfæddum á eftir og sá eftir að hafa vanrækt þessa góðu iðju svona lengi.

Komin til Laugar stóð blómasalinn á Plani blaðskellandi við Rúnu. Þá lá honum ekki meira á en þetta, munnarnir máttu kvaka áfram. Farið í potta og chillað, blómasalinn á leið upp úr þegar ég fór ofan í. Þó var hann enn í útiklefa þegar ég fór upp úr - á snakki við Birgi. Ég vona bara að fjölskylda hans hafi ekki orðið hungurmorða á meðan.

Dagurinn var fagur og velheppnaður - einstakt tækifæri til þess að blanda saman hreyfingu, góðum félagsskap, næringu og menningu. Mættu fleiri taka sér þetta framtak Ó. Þorsteinssonar til fyrirmynda og standa fyrir uppbyggilegri starfsemi á vettvangi Hlaupasamtakanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband