Töðuilmur í Kópavogsdalnum

Hlaup eru umfram allt andleg íþrótt. Hlaup snúast um viljastyrk, um baráttu andans við ytra hylkið sem kýs leið minnstu mótstöðu, er aðdáandi vellíðunarlögmálsins og allt það. Meira um það seinna. Nú er að segja frá áhyggjum manna á brýningu þjálfara til drykkju. Ekki einasta hamraði hann á nauðsyn drykkju í tvígang á þessum degi með skriflegum hætti. Áfram var haldið að hamra járnið á Brottfararplani, brúsar grandskoðaðir og spurt hvort menn væru ekki örugglega með nóg. Þó tók steininn úr þegar blómasalinn var búinn að lýsa miklum súkkulaðiinnkaupum svo hljóp á tugum kílóa - þá brast þjálfarinn á með heilræðum um að blómasalinn þyrfti að finna sér svolítið heilnæmari fíknir, svo sem eins og áfengisfíkn. Geturðu ekki farið að drekka meira, Einar, og borða minna af súkkulaði? Breyta alla vega þannig til að fíknin leggist ekki á belginn á þér... eða eitthvað í þá veruna. Þannig voru umræður manna á Plani.

Miðvikudagur, langt. Mættir menn sem höfðu ekki sést um stund, svo sem eins og dr. Friðrik, einnig Flosi, að öðru leyti þekktar stærðir, þ.m.t. téður blómasali. Flestir ætluðu langt, á Kársnes. Áhyggjur af að liðsstjóri var ekki mættur, en hafði þó lýst áhuga á að fara á Kársnesið. Lagt í hann með áréttingu frá þjálfara um að herða drykkjuna. Farið furðu hratt af stað miðað við að fólk ætlaði að fara 20+. Ritari fann það þegar í upphafi hlaups að Esjuganga frá kvöldinu áður sat enn í honum, en þá var kjagað á Þverfellshorn  á einum og hálfum tíma í yndislegu veðri þegar gróður er í blóma. Nokkuð erfið ganga og e.t.v. ekki það skynsamlegasta fyrir hlaupara sem ætlaði að fara langt daginn eftir. En skid og lago... eins og Daninn segir. Látum reyna á það.

Ekki skildi ég þörfina á að fara svona hratt - lenti á endanum í félagsskap með Rúnu og blómasalanum, við ein virtumst hafa stoð fullrar skynsemi í þessu hlaupi, m.a.s. þjálfarinn yppti öxlum þegar hann var spurður hvort þetta væri skynsamlegur hraði. En vissum okkar viti, vissum hvað við réðum við og hvað hentaði okkur. Beygðum af braut í Skerjafirði og héldum í Kópavoginn, Flosi fylgdi á eftir okkur, svo var prófessor Keldensis eitthvað að snövla þarna líka, og á undan okkur í fjarska var próf. Fróði. En prófessorunum lá eitthvað mikið á og höfðu greinilega ekki í hyggju að blanda geði við okkur venjulega hlaupara. En við höfðum engar áhyggjur, vissum sem var að það myndi bíða okkur dúkað borð í Lækjarhjalla 40 með drykkjum og öðru. Og þar myndu þeir bíða okkar félagarnir og verða okkur svo samferða um sveitir Kópavogs.

Ritari skildi þau Rúnu og Einar eftir enda voru þau í djúpum samræðum um ýmis málefni sem komu hlaupum lítið við, svo sem eins og þá aðferð blómasalans að kaupa 10 kg af súkkulaði í Bónus gagngert til þess að geta sýnt konu sinni fram á rúmfang þeirra 10 kílóa sem hann gæti losnað við ef hann hlypi jafnmikið og efni standa til. Ókosturinn við þessa aðferð er augljóslega sá að súkkulaðið þarf að borða og enginn er betur til þess fallinn en súkkulaðitröllið sjálft. Áfram suður yfir á suðurhluta Ness. Slegin tún og taðan ilmaði í Kópavogi. Menn staupuðu sig með reglulegu millibili og allt gekk vel. Áfallið kom þegar ritari kom í Lækjarhjallann - þar voru engin dúkuð borð á stétt né heldur veitingar eða vinaleg andlit - svo að það var bara að halda áfram. Ég notaði tækifærið og teygði lítillega - ætlaði svo að halda áfram, en þá var blístrað, þar voru Rúna og blómasalinn á ferð, ég ákvað að verða þeim samferða. Er hér var komið var farið að draga af fólki og hér kom andinn við sögu, ekki vínandinn, nei, keppnisandi hins óbugaða hlaupara. Fórum upp úr Kópavogi og héldum yfir í Reykjavík, skoðuðum legsteina á leiðinni sem var gagnlegt. Fylltum á vatnsbrúsa við Olís í Mjódd.

Svo var haldið niður í Elliðaárdal og þá leið tilbaka inn í Fossvog og áleiðis í pott. Erfitt var það en við lukum því með glæsibrag. Ritari missti 1,5 kg á leiðinni - er það slæmt? Þrátt fyrir mikla vökvun. Ekki var marga félaga að sjá í Laug - nánar tiltekið vorum við þrjú ein. Sif Jónsdóttir langhlaupari var á tröppum er við komum tilbaka og var rætt um Laugaveginn, Pétur Blöndahl og fleira áhugavert. Svo þegar við Einar vorum að klæða okkur í útiklefa kom Flosi aðframkominn eftir 21 km hlaup. Líklega þarf að fara að hlusta á ráðleggingar þjálfara um aukningu vegalengda að hlaupum, gæta að hlutföllum þar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verður nú að segjast eins og er, að mér er það hulin ráðgáta afhverju HL hafa verið með áætlun upp í Árbæjarlaug í langa hlaupinu á miðvikudögum, eins og gömul sérleyfisrúta frá Sæmundi. Kópavogseiðið er mun skemmtilegri hlaupaleið, auk þess að vera nánast flöt. Hef heitið sjálfum mér eftir 26 km. sprett gærdagsins að berja Árbæjarlaug aldrei aftur augum, nema fara þangað akandi. Af ævintýrum mínum í Kópavoginum í gær fer fáum sögum. Villuráfandi sauðir úr Vesturbænum mátti þó greina frá heimamönnum á því, að þeir hinir fyrrnefndu voru allir með þjáninguna skorna í andlitið. Auk þess virtist mér sem heimafólkið héldi talsvert af hundum. Smáhundum aðallega. Læt þess getið sérstaklega, þótt ekki geti Aðalritari mín, hvorki í smáu né stóru, að ég rakst á hann, svo aðframkominn að ég heyrði ekki hvað hann sagði þegar ég geystist fram hjá. En ég er nokkuð viss um að hann var að reyna að segja eitthvað. Sennilega var hann að spyrjast fyrir um áttir; til augnanna virtist hann villtur.

Benedikt Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 09:02

2 identicon

Eftir að pistill var birtur sló þeirri hugsun niður í höfuð ritara hvort hann hefði séð Benedikt koma hlaupandi á móti sér í Kópavogsdalnum, en hraðinn var slíkur að ritari var ekki viss um hvort þessi reynsla var raunveruleg eða ímynduð - eða hvort það var bara uglan sem hvíslaði nafn hans. Mér þykir vænt um að heyra lýsingu Benna á þjáningu okkar alvöruhlaupara sem líður bezt illa.

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 19:43

3 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Ég hef það eftir jólasveinum í Dimmuborgum að það heiti Vússja Dei þegar menn upplifa eitthvað aftur sem þeir hafa aldrei upplifað áður.

Getur verið að Aðalritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins hafi orðið fyrir Vússja Dei og séð Benedikt aftur, eins og stundum áður, þjóta hjá eins og hraðferðina Borgarnes-Reykjavík í boði Sæmundar?

Flosi Kristjánsson, 11.7.2008 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband