Skíthælar, drullusokkar og aðrir Framsóknarmenn...

Föstudagur jafngildir frelsi, engir uppáþrengjandi þjálfarar með fyrirmæli, umvandanir og breytingar. Aðeins tilhugsunin um gleðina sem fylgir því að hlaupa frjáls úti í náttúrunni, safnandi í sarpinn, finnandi rússið af endorfíninu ólga í blóðinu. Tilhlökkunin var alger.

 

Mikill fróðleikur, mikil vísindi hafa horfið út í tómið, þegar menn hafa ritað á blogg Moggans, og það tekur upp á því að detta út um það bil sem verki er lokið. Þetta er orðið svo þreytandi að ritari fer að ráðum Benedikts og skrifar bloggið inn í word-skjal og flytur það yfir. Mættir í útiklefa Flosi, Vilhjálmur og Ólafur ritari. Sögð sagan af nútímaþægindum BMW bifreiða sem hafa aukaútbúnað til hægðarauka fyrir ökumenn með kúlur að hvíla.

Mættur myndarlegur hópur til hlaupa, Ágúst, Þorvaldur, Rúna, Brynja, dr. Jóhanna, Benedikt – auk fyrrnefndra sem voru í útiklefa. Upplýst var um neyðarfund í Hlaupasamtökunum í gær, þegar rætt var um þá uppákomu er varð í Lækjarhjalla s.l. miðvikudag þegar þrátt fyrir gefin fyrirheit að engar veitingar var að hafa. Var samþykkt að gefa þeim Lækjarhjallahjúum eitt tækifæri í viðbót til þess að bæta ráð sitt, ella verður þetta sveitarfélag sniðgengið með öllu, og þess vegna haldið í Havnefjord, eitthvert afskekktasta byggðarlag á höfuðborgarsvæðinu.

Vindar frelsis léku um hlaupara á Brottfararplani, svo mjög að það dróst að leggja í hann. Á endanum tók dr. Jóhanna af skarið og hélt af stað. Aðrir á eftir. Svo einkennilega vildi til að sumir ákváðu að vera hraðari en aðrir, þarf vart að taka fram hverjir það voru. Þeim lá einfaldlega meira á en öðrum. Það skemmtilega var að við dr. Jóhanna náðum að hanga í þeim alla leið inn í Nauthólsvík, en þá var gleðin búin. Þeir hurfu, en við lögðum í Hi-Luxinn. Velt vöngum um afdrif hlaupara sem eitt sinn þótti efnilegur, svo mjög að hann hlaut Maílöberinn, en hefur vart sést hlaupa eftir það. Grannvaxinn, gránandi herramaður með hreim sem ku valda læraskjálfta hjá eðlilega náttúruðum konum.

Rifjað upp að á Ægisíðu var ekið kampavínslitum eðaljeppa framhjá okkur, flautað, veifað, var þar kominn sjálfur Formaður Vor til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víkingur. Þótti viðstöddum eðlilega mikið til koma viðburð þennan og voru menn snortnir, og fáir hvarmar lausir við vökva. En áfram haldið þó.

Eftir Nauthólsvíkina var lítið annað að gera en fara hefðbundið um Öskjuhlíð, Veðurstofuhálendi, framhjá Söng- og Skákskólanum við Litluhlíð og þannig áfram um Klambra um Hlemm og niður á Sæbraut. Mér varð á orði við Otharsplatz að þetta væri sannkallað tempóhlaup – dr. Jóhanna var ekki frá því að þetta væri rétt mat. Áfram á fullu stími

Í potti var úrvalsfólk. Jörundur óhlaupinn enda meiddur eftir að hafa heyrt hljóðlausan smell í baki við jarðvinnu í garði sínum – eftir það hefur hann verið frá hlaupum og missir af Laugavegi á morgun. Birtist ónefndur blómasali óhlaupinn og hafði engar gildar afsakanir sér til afbötunar. Með þungar áhyggjur af mörkuðum. Próf. Fróði orðinn drafandi af tilhugsuninni um fyrsta drykk kvöldsins. Einhver spurði: er bara talað um áfengi í þessum Hlaupasamtökum? Nei, var svarið, aðeins á Föstudögum. Í gvuðs friði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Það er mikil ógæfa að heyra hljóðlausan smell í baki þegar unnið er við garðyrkju eða önnur störf ótengd hlaupum (og þar af leiðandi óþörf). Einnig er það mikil ógæfa þegar börnin manns taka upp á því að fermast svo maður neyðist til að sleppa TVEIMUR hlaupaæfingum í röð. En svona er lífið!

Ég féll í lukkupottinn í dag (fór ekki í heita pottinn) og skokkaði hefðbundinn föstudag með Rúnu og Brynju á unaðstempói (ca. 6 mín/km). 

Flosi Kristjánsson, 11.7.2008 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband