Langur hlaupadagur með ágústínskum styttingum

Fyrirbærið “ágústínsk stytting” er velþekkt fyrirbæri í Samtökum Vorum. Meira um það seinna. Dagurinn hreint með eindæmum vel fallinn til hlaupa: bjartviðri, nánast logn, 16 stiga hiti – en einhver andvari af hafi sem gaf kælingu á réttum stöðum. Mikilvægasta hlaup vikunnar samkvæmt áætlun þjálfara. Langt hlaup samkvæmt hefð. Mættir margir af helztu hlaupurum Samtakanna, björtustu vonir, sverð, sómar og skildir. Þar má nefna próf. Fróða, dr. Jóhönnu, Helmut, Sjúl, Einar blómasala, Benedikt, Unu, Rúnu, Margréti þjálfara, Rúnar þjálfara – og Ólaf ritara. Einnig voru mætt Kári og frú Anna Birna, en voru með afbrigði, fóru á undan öðrum og lýstu yfir ásetningi um sjóbað.

 

Stundin á Brottfararplani var hátíðleg, menn gengu andaktugir um og ræddu útlit og horfur, próf. Fróði með húfu sem á stóð: “100 km” – hvað svo sem það átti að fyrirstilla. Það olli vonbrigðum að þjálfara þraut örendi, hafði engan boðskap að flytja, umfram það sem þegar var sagt í hlaupaáætlun – en sagði “drekka, drekka” frekar en að segja ekki neitt. Engin áætlun um hvert yrði farið – við dr. Jóhanna sögðum við próf. Fróða að við vildum fara 26-27 km í dag. Hann lifnaði allur við og sagði: Já, já, ég veit um góða leið þar sem þið náið þessu markmiði ykkar. Glott lék um varir hans. Svo var bara lagt í hann og farið rólega. Kári, Anna Birna og Sjúl farin á undan, og sáum við aðeins til hjónakornanna í Nauthólsvík, en Sjúl sáum við ekki meira. Upplýst að aðeins yrði boðið upp á vatn í Berlín, engir orkudrykkir. Hófust strax ráðagerðir um hvernig tekið yrði á því, vera með brúsa á völdum stöðum, láta maka vera með orkudrykki, hafa orkugel með sér o.s.frv. Prófessor Fróði hóf strax sínar útleggingar á þessari uppákomu og hafði sínar skýringar: þeir eru svo nízkir, Þjóðverjarnir, þeir tíma ekki að blæða orkudrykkjum á hlaupara sem greiða stórfé fyrir að taka þátt í einu aumu maraþonhlaupi. Helmut þótti skýringin ekki sennileg og hafði einhver orð um það. Prófessorinn horfði á hann tómeygður: hva..., hefuru engan húmor? Þá var honum bent á að hann fengi aðeins vatn í Zahara-hlaupinu á næsta ári sem hann greiðir hálfa milljón fyrir. Við þetta setti prófessorinn hljóðan.

Um það var rætt í Skerjafirði að nú skyldi reynt á gestrisni þeirra Lækjarhjallahjúa – og raunar yrði þetta þriðja og síðasta tækifæri sem þau fengju til þess að sanna það að þau væru góð heim að sækja. Ella yrði Kópavogur sniðgenginn og hlaupið framvegis í önnur sveitarfélög. Að vísu var óskað eftir að fólk legði inn pantanir fyrirfram. Blómasalinn pantaði blóðuga nautasteik kryddlegna, Rúna og dr. Jóhanna pöntuðu rauðsprettu og mojitos, ritari tvöf. gin í tóníkk, prófessorinn gat hugsað sér orkudrykk og ákvað að Helmut fengi bara vatn. Og glotti.

 

Sem fyrr sagði mættum við þeim Kára og Önnu Birnu í Nauthólsvík þar sem þau voru að gera sig klár fyrir sjósund. Gott hjá þeim! En við Berlínarfarar leiddum hugann ekki að slíkum unaðssemdum sem Atlanzhafssund er, héldum áfram um Flanir og Lúpínubreiður. Hér var farið að teygjast á hópnum og ljóst í hvað stefndi, þjálfararnir langt undan, ásamt Unu, Benedikt og Ágústi – við hin fórum hefðbundna stíga með ströndinni og tókum stefnuna á Kársnes. Á endanum voru það ritarinn, dr. Jóhanna, Helmut, Rúna og blómasalinn sem fóru á Kársnesið – um afdrif annarra er ekki vitað. Farið fetið um Lúpínustíg með Vognum og yfir á Kársnesið. Ritari fremstur, aðrir á eftir, enda margt að ræða, aðallega mataruppskriftir. Svo dúkkaði prófessorinn upp, hafandi elt þjálfarana einhverja vitleysu. Þeir voru með augun á Benedikt sem anaði út í eitthvert enn meira fláræði og fer engum sögum af afdrifum hans þennan langa hlaupadag. Nema hvað, þarna bætist prófessorinn í hópinn og saman förum við um Kársnes. Tempó nokkuð hratt og áttum við prófessorinn samleið fyrir Nesið og svo austurúr, hin í humátt á eftir okkur í virðulegri fjarlægð. Um það var rætt hverjar móttökur yrðu í Lækjarhjalla – en engar staðfestar fréttir fengust. Prófessorinn hringdi heim og tilkynnti pantanir – en á hinum endanum var bara hlegið. Mér leist illa á það.

 

Svo var gefið í út Kópavogsdal og ekki linnt látum fyrr en í Lækjarhjallanum og viti menn! Beið okkar ekki dúkað borð úti á stétt með drykkjum og skál með salthnetum. Frú Ólöf tók á móti hlaupurum með mikilli kurteisi og alúð. Seint og um síðir komu svo aðrir hlauparar. Staldrað við um sinn í þessum afkima sveitarfélagsins – en ákveðið að halda á erfiðar slóðir, þ.e.a.s. allir nema Helmut sem stytti, fór aðeins 24 km. Við héldum upp úr Kópavogsdalnum, brekkuna erfiðu en skemmtilegu, og svo stíginn milli Kópavogs og Reykjavíkur, og þá leið út að Ellliðavatni, niður  í Dalinn og enn var mikill hugur í fólki, fórum á góðu tempói og engan bilbug að finna á hlaupurum. Svo fór að breikka bil milli hlaupara, Ágúst hvarf í Elliðaárdalnum, dr. Jóhanna skildi ritara eftir einan við Víkingsheimili, en honum til mikillar huggunar voru blómasalinn og Rúna einhvers staðar að baki honum.

 

Nú var þreyta farin að segja til sín. En ekki skyldi slakað á, tilhugsunin um sjóbað gerðist æ ágengari og þegar komið var í Nauthólsvík dró ritari af klæði sín á rampi og skellti sér í svala ölduna stundarkorn – yndisleg stund sem vakti athygli nærstaddra túrhesta – en svo var farið upp úr og haldið áfram. Fékk mér vatn að drekka við vatnspóst, leit upp og sá þau skötuhjú blómasalann og Rúnu koma upp stíginn frá ströndinni, fékk paníkk og rauk af stað aftur, gat ekki hugsað mér að heyra tiplið í blómasalanum að baki mér. Þrátt fyrir þreytu tókst mér að ljúka hlaupi án þess að blómasalinn kæmist nær mér. Í Móttöku voru prófessorinn og dr. Jóhanna að teygja, alla vega prófessorinn, doktorinn lá úti í glugganum Þorvaldar og virtist alveg búin. Hlaupið var 32 km – aðeins lengra en um var beðið og rætt í upphafi, en svona eru ágústínsku styttingarnar: fleiri hlaupnir kílómetrar.

 

Nú tekur við sumarbústaðasæla, farið í Borgarfjörðinn, en þó stefnt að hlaupum á rykugum vegum, og svo endurkoma n.k. miðvikudag. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband