He knows no fear, he knows no danger. He knows nothing.

 Fyrirsögn dagsins er sótt í alter ego James Bonds, Johnny English, hættulegasta spíon hennar hátignar eftir að Sean Connery hætti að gæta helgra dóma brezka heimsveldisins. Þykir við hæfi að vitna til heimsbókmenntanna þegar sú hátíðleg stund rennur að saman kemur eitthvert mesta mannval í Vesturbænum og þótt víðar væri leitað og hyggur á hlaup. Þessi viðburður varð í dag þegar helztu hlauparar Lýðveldisins voru mættir í Vesturbæjarlaug og til þess að einfalda málin er bezt að nefna þá sem ekki mættu, en hefði ella mátt kalla fulla mætingu: Jörundur Stórhlaupari, Gísli Ragnarsson, Vilhjálmur Bjarnason, dr. Karl Kristinsson og sjálfur Ó. Þorsteinsson Víkingur, að ógleymdum Unu og Þorbjörgu. Og Rúnu sem er nánast innlimuð í hópinn. Geta menn þá leitt í hug sér hvílíkt afreksfólk var mætt til þess að gera garðinn frægan á þessum ágæta degi.  

Ekkert að veðri, að því er virtist. Það var kallað eftir áætlun – en þjálfari var alveg blankur. Virtist sem hann væri hættur að trúa á áætlanir, gaf þó út leiðarlýsingu: hefðbundið út að Skítastöð og þaðan tempó eftir smekk, 6 km fyrir þá sem ætla 10 í Reykjavíkurmaraþoni – 10 fyrir þá sem ætla hálft. Það var lagt í hann, eitthvað voru menn með það á óhreinu hvað “hefðbundið” væri – en ekki Margrét þjálfari, hún leiðrétti kúrsinn þegar hersingin stefndi niður á Ægisíðu, farið skyldi um Hagamel. Nú eru þjálfarar helztu gæzlumenn reglu og festu í Samtökum Vorum og gæta þess að menn breyti í engu frá föstum sið.

 

Farið á upphitunartempói út í Skerjafjörð – sem var hratt tempó. Prófessor Fróði kom hlaupandi úr Kópavogi og ákvað að halda rakleiðis aftur í sveitarfélagið en sleppa þéttri æfingu með félögum sínum. Aðrir fylgdu fyrirmælum þjálfara og sprettu úr spori vestur úr. Farið á 5 mín. tempói, sumir hraðar. Aðrir hægar. Ég var í slagtogi við blómasalann, Helmut ekki langt undan. Björn og dr. Jóhanna þar fyrir framan. Haldið á Nesið. Eiginlega má segja að það hafi verið hlaupið í kyrrþey, því fólk fór á slíkum hraði að tóm gafst ekki til menningarlegra samskipta.

 

Sumir sveigðu á Lindarbraut, aðrir áfram að golfvelli og beygðu þar, enn aðrir fóru fyrir golfvöll, það voru þeir sem ekki hlustuðu á þjálfarann eða misskildu hann. Við Helmut og dr. Jóhanna fórum að golfvelli og svo með ströndinni að Gróttu. Við seinni vatnspóstinn var mig farið að svíða svo í augu af svitanum að ég varð að stoppa og lauga andlitið í köldu vatninu.

 

Þéttur pottur í Laugu, við fylltum setlaug og sátum góða stund og ræddum þörf málefni. Í útiklefa var Söngvari Lýðveldisins og hafði skoðanir á hlaupum. Taldi að við ættum ekki að vera að hlaupa þetta, slíta malbikinu og hnjánum á okkur. Við myndum enda á spítala eftir 3-4 ár með þessu áframhaldi. Ekki að vísu grannvaxnir menn eins og Magnús, en þessi (bendir á ritara), hann er nú með einn aukaþingeying utan á sér. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það þýðir að hlaupa með þennan umframfarangur.

 

Menn hafa áhyggjur af Berlín og því sem þar getur gerst. Rætt um sameiginlegt ákall þegar menn mæta í mark. Verða allir í lagi? Næst langt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Vakin er athygli á því að afrek dagsins var hlaup unglingakennarans og tannlæknisins, en þeir náðu óvænt frábærri æfingu af því að hvor um sig hélt að hinn væri að stjórna hraðanum.

Flosi Kristjánsson, 12.8.2008 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband