Færsluflokkur: Pistill Ritara

Hvað er að fólki?

Það vakti meiri athygli að hvorki Benedikt né Birgir voru mættir í hlaup kvöldsins, heldur en hitt, hverjir voru mættir, og voru það engin smápeð. Dr. Friðrik, Vilhjálmur, Bjarni, Eiríkur, Hjálmar, Einar blómasali, Ingi, Rúnar, Margrét, Una, Flosi, ritari, Helmut og dr. Jóhanna. Enn furða menn sig á því að próf. dr. Ágúst Frodensis skuli halda sig fjarri Fósturjarðar ströndum og fjarri hlaupi, maður sem er að venja sig á eyðimerkursand og leðurblökuát. Það átti að hvíla eftir átök laugardagsins. Sumum veittist erfitt að skilja hvað fjórir 5X200m sprettir ættu skylt við "hvíld" - en svona notum við hugtök með misjöfnum hætti. Þetta var sem sagt planið, þeir sem nenntu, vildu eða gátu áttu að taka spretti, aðrir máttu velja interval eða 12 km hlaup með nokkrum þéttingum.

Það var stífur mótvindur á Ægisíðu og nokkurn veginn eins leiðinlegt veður og hugsast getur að hlaupa í, samt voru menn hvassir og fóru fremstir á hröðu tempói. Farið út að Skítastöð og svo tvístraðist hópurinn. Ég spurði blómasalann hvað hann hefði fengið sér í hádegismat. "Samloku með remólaði og róstbiff." "Þú meinar, með róstbiff og remólaði.." sagði ég. "Nei," sagði blómasalinn eins og handhafi sannleikans. "Með remólaði og róstbiff." Það kom sumsé í ljós að hann hafði gætt sér á samloku með miklu remólaði. Er komið var út í Skítastöð var samlokan komin upp í vélindað, og virtist ekki vera á niðurleið. Ég varð samferða Flosa, blómasalanum og Friðriki aftur vesturúr og var aðalumræðuefnið samlokur og mismunandi gerðir áleggs og salats. Einnig var bryddað upp á bókmenntaumræðu, þar sem greint var frá manngerð sem er ljósfælin og mannfælin að degi til, en "vulkanaktig i könslivet" om natten. Gullkorn.

Það var farið afar hægt og sóttist okkur hlaupið seinna eftir því sem lengra dró, ásetningur um þétting á Ægisíðu féll niður, en Flosi geystist áfram og skildi okkur eftir í reykmekki, dr. Jóhanna og Helmut þar fyrir framan. Það er ekki gott að hlaupa með blómasalanum, það er bara talað um mat og allur taktur fer úr skorðum og maður slappast og verður þreyttur. Þegar kom að Hofsvallagötu hætti blómasalinn og sagðist vera orðinn veikur, samlokan væri komin upp í háls. Friðrik fór með honum til Laugar. Ritari hélt áfram á Nes á eftir Flosa og dr. Jóhönnu og Helmut. Það var svo búið að brjóta mann niður að maður slampaðist einhvern veginn áfram.

Ég var kominn á Suðurströnd þegar ég heyri í ökuföntum koma á ofsahraða eftir götunni og lágu á flautunni. Er þetta einhver sem vill ná sambandi við ritara, spurði sig ritari. Leit upp og sá glaðbeitt andlit blómasalans skína eins og tungl út um bílrúðuna á einhverri sportgræju. Sá ekki vel hver sat í farþegarsætinu. Held áfram og hugsa með mér: Nú! Hann var þá ekki veikari en þetta! Nema hvað, þegar ég er að koma að Lindarbraut kemur þessi sportbifreið á sama ólöglega hraða á móti mér og sá ég þá að dr. Friðrik sat í farþegasætinu og veifaði. Hvað er að fólki? hugsaði ég. Hætta hlaupi tl þess að fara að þenja sig á sportbíl.

Ég upp Lindarbraut og bara þreyttur. Norðanmegin sé ég Flosa teygja og við tökum sprett tilbaka. Nú sást hvað það skiptir miklu með hverjum maður hleypur: hvort það er feitur og latur blómasali, eða frískur og kraftmikill unglingakennari úr Vestbyen, það var sem sagt tekinn þéttingur frá Lindarbraut og alla leið að Grandavegi, tempóið 4:45. Eftir það lulluðum við tilbaka og komum tímanlega til að hitta fyrir Bjarna - og stuttu síðar komu Helmut, dr. Jóhanna, og Rúnar, Margrét og Eiríkur, höfðu tekið fyrrgreinda spretti, samtals 8 km, sem er ekki mikið, og eiginlega ekki til þess að segja frá.

Fólk er almennt í góðu formi og spennan vex fyrir Berlín. Stefnan að Hjálmar og Ósk panti fyrir okkur veitingastað eftir hlaup - því er nauðsynlegt að vita hversu margir vilja vera með í málsverði eftir maraþonið. Sömuleiðis þarf að huga að e-u kvöldið fyrir hlaup, góðri pastaveizlu, Helmut og Jóhanna tékka á því. Meira seinna. Í gvuðs friði. Ritari.

Toppað fyrir Berlín - hlaupið kringum Elliðavatn

Það var komið að hefðbundnu Elliðavatnshlaupi Hlaupasamtakanna, en það er jafnan þreytt síðsumars í aðdraganda maraþonhlaups. Í þetta skiptið var það ekki RM heldur Berlín og af þeirri ástæðu var það heldur seinna en alla jafna. Mæting var við Vesturbæjarlaug kl. 9 í morgun og voru þessir mættir: Rúnar, Margrét, Birgir, Bjössi, blómasalinn, Flosi á hjóli með drykki, vaselín, plástur og ferðaklósett á bögglaberanum, Benedikt, Rúna, Friðrik, Hjálmar, Ósk, ritari - og einn aukahlaupari sem mig vantar nafnið á. Tólf hlauparar og einn á hjóli. Vitað var að Helmut og dr. Jóhanna hlupu í gærmorgun til þess að geta verið í sumarbústað um helgina. Hér reyndi á hvort menn hefðu æft nægilega vel til þess að geta lokið 35 km hlaupi eða svo - sem jafnframt er prófsteinn á undirbúning fyrir maraþon. Ritari er þeirrar skoðunar að menn verði að komast skammlaust í gegnum 35 km ef þeir ætla að ljúka maraþoni blygðunarlaust.

Mikill hugur í fólki - lögð áhersla á að menn mynduðu hópa og héldu sig í þeim, enda vitað fyrirfram að sumir færu hraðar en aðrir. Það er þægilegra að verða samferða öðrum upp á það að halda uppi tempói og rata rétta leið. Lagt í hann á hægum hraða. Veður var hreint með eindæmum, logn, hiti 10 stig, bjart - en regn hékk í loftinu. Gerist ekki betra. Við héldum hópinn framan af, en svo var fólk orðið óþolinmótt og það slitnaði á milli. Fremst fóru Rúnar, Margrét, Benedikt, Bjössi, Biggi og hinn nýi hlaupari. Þar á eftir vorum við Friðrik á góðu róli. Á eftir okkur komu svo blómasalinn, Rúna, Ósk og Hjálmar. Flosi hjólaði svo milli hópa og bar drykki í menn.

Þetta urðu nokkurn veginn hóparnir sem mynduðust og héldust, með smávægilegum tilfærzlum þó. Friðrik er sprettharður hlaupari og það var erfitt að halda í við hann, þó gerði ég það inn Fossvog, inn í Elliðaárdal og upp úr dalnum, í Víðidalinn. Er við komum að Breiðholtsbraut mættum við Bigga. Bjössi hafði skilið hann eftir með þeim orðum að hann ætlaði hægt, "þú nærð mér". Biggi var vatnslaus og orðinn þyrstur, hafði treyst á að aðrir björguðu sér með vatn, annað hvort Flosi eða Bjössi. En það er erfitt að treysta á aðra en sjálfa sig í hlaupi, það getur verið góður spotti í vatn þegar maður er orðinn þyrstur.

Við Birgir vorum með gel og punduðum á okkur, ég var búinn með tvo pakka um mitt hlaup. Um það leyti sáum við einkennilega sjón: Bjössi stóð kyrr á vegi og talaði í telefón sem Flosi hafði léð honum. Okkur heyrðist hann vera að panta akstur. Í ljós kom að hann hafði að eigin mati tognað og var ófær um að halda áfram. Hér voru meiðsli á ferð sem settu þátttöku í Berlín í fullkomna óvissu. Vonandi nær Björn að fá úrlausn sinna mála og kemst á rétt ról aftur með aðstoð góðs sjúkraþjálfara. Við skildum við hann og héldum áfram ferð okkar með vatninu.

Byggð er orðin mikil við austanvert vatnið, þar verður villugjarnt af þeim sökum, því umhverfið er breytt frá því við vorum þar síðast. Því tók við þvælingur þegar við ætluðum að skella okkur aftur niður í Víðidalinn, en það hafðist á endanum, og við settum á fullt stím niður í Elliðaárdal, farið allhratt, þeir Friðrik og Birgir á undan mér. Við hittumst svo aftur við Árbæjarlaug þar sem við stoppuðum fyrir teygjur, vatn og gel. Aftur haldið áfram og farið á tempóinu 5:13 niður Elliðaárdal - við vorum knúnir áfram af tilhugsuninni um sjóbað sem ákvörðun var tekin um að bjóða upp á við komu í Nauthólsvík. Sem fyrr var ég skrefinu á eftir þeim kumpánum - en Friðrik viðurkenndi eftir á að tempóið hefði verið fullhratt.

Ritari viðurkennir að hann er í mun betra formi nú en fyrir maraþonið í fyrra - fór alla leið án þess að finna til þreytu eða orkuleysis. Áður þurfti hann iðulega að stoppa og ganga langa speli sökum þreytu eða vegna þess að hann hafði ekki þrek til að halda áfram. Nú er allt annað upp á teningnum. Ekki leikur vafi á því að þetta er vegna þess að hann hefur getað æft án truflunar í allt sumar og að hann hefur við æfingar að einhverju marki haft hliðsjón af leiðbeiningum þjálfara og ekki að öllu leyti verið með mótþróa eða andóf þegar settar hafa verið hugmyndir um æfingar.

Það var sama stímið inn Fossvoginn og verulega ljúft að finna að maður átti enn heilmikið eftir á batteríunum. Stoppað í Nauthólsvík, þar stripluðu Birgir og Friðrik á plani og nutu hins svala sjávar. Ég skellti mér einnig í svala ölduna og leið vel. Svo var haldið áfram - við eins og spýtukallar fyrstu metrana vegna kælingarinnar, en svo var bara sett í fluggírinn og farið á 5:10 tilbaka, sem sýnir betur en nokkuð annað hvers konar formi maður er í. Er kom á Ægisíðu leið Birgi ekki nægilega illa svo að hann, trúr hugsjónum Samtaka Vorra, setti á fullt og reif sig fram úr okkur og endaði með fantagóðum þéttingi.

Við hittum nokkra hlaupara í Laug. Þau Einar og kompaní höfðu villst við vatnið og breyttu leiðinni, fóru 32 á endanum, en þó skal það sagt Einari til hróss og til staðfestingar á karaktér hans, að hann lengdi er komið var til Laugar og fór á endanum 35 km. Við hittum einnig Rúnar sem virtist býsna ánægður með frammistöðuna í dag.

Legið í potti um sinn og mál rædd. Nú er erfiðasta undirbúningi fyrir Berlín lokið, menn eru sáttir og tilbúnir að þreyta raunina. Birgir lofaði að semja lofrullu um ritara og verður hún birt jafnskjótt og hún berst.

Létt upphitun á föstudegi fyrir langt

Fáir mættir í dag, blómasalinn, Flosi, Vilhjálmur, ritari og Denni. Vilhjálmur var kátur í dag því að hann hafði lagt fyrir Ó. Þorsteinsson flókna persónufræðilega gátu með vísbendingum sem fæst ekki útlistuð nánar fyrr en í fyrsta lagi n.k. sunnudagsmorgun, ef nokkurn tíma! Vilhjálmur sagði að Ólafur væri æfur! Hann næði ekki upp í nef sér af örvæntingu. Þessi stillti og prúði maður, sagði ég. Æfur! sagði Vilhjálmur.

Í Brottfararsal höfðu menn áhyggjur af mataræði manna í hádeginu, frétzt hafði af manni sem fékk sér 3 bita af KFC kjúlla, baunastöppu, sveskjur og rúsínur - og raunar kom í ljós að þetta var bara byrjunin. Menn rifjuðu upp mynd sem Halldór P. Þorsteinsson hafði sent fyrr um daginn af óheppnum hlaupara. Er komið að því að við upplifum eitthvað svipað í okkar hópi? Hvað um það, rifjuð upp saga frá upphafsárum maraþonhlaupa þegar menn sem þurftu að gera númer tvö brugðu sér inn í húsagarða, leystu niður um sig og létu vaða. Þetta kallar maður að kunna að bjarga sér.

Það var algjör samstaða um það að fara hægt og rólega, taka þetta hlaup sem upphitun, nánast sunnudagsgöngu. Við vorum eins og Grundargengi á sunnudagsmorgni, og vantaði bara göngugrindurnar. Enda átti þetta bara að vera upphitun fyrir morgundaginn, þegar við förum 35 km. Nú er byrjað að breikka hlaupastíginn á Ægisíðu og er það ánægjulegt - minna ánægjulegt að hann á greinilega að liggja nær götunni, þannig að við getum örugglega hlaupið í menguninni frá bílatrafíkinni. Gaman, gaman!

Smásaman bættum við í hraðann og um miðja Ægisíðu vorum við komnir á góðan skrið. Ljóst var að Denni og Flosi ætluðu ekki að hlaupa langt á morgun, þeir geystust fram úr okkur hinum og fóru hratt. Við Einar héldum hópinn og ræddum um kjúklínga, sem Einar kallar skíthoppara. Hann fór vandlega yfir matseðil dagsins og kvartaði reglulega yfir því að hann væri farinn að segja til sín og hafa áhrif á hlaupagetu. Aftur og aftur varð að stoppa vegna þess að maginn í blómasalanum var ósammála viljanum til að hlaupa.

Við urðum snemma ásáttir um að fara stutt og hægt. Fórum um Nauthólsvík, upp Hi-Lux (spurt: hvar er Ágúst?), þráðbeint upp að Perlu og svo niður Stokk, hjá Gvuðsmönnum og þá leið tilbaka. Flosi var eins og ólmur hestur og tók hvað eftir annað á sprett og skildi okkur eftir, greinilega kominn tilbaka sem seríös hlaupari. Hann valdi leiðina tilbaka, um Vatnsmýri, yfir brýr og fen hjá Norræna húsinu, yfir um hjá Vigdísi og þannig til Laugar. Þetta var ljúft hlaup og létt og góð upphitun fyrir morgundaginn. Spurt var hvort menn mættu neyta bjórs fyrir morgundaginn. Ritari áréttaði áður út gengin fyrirmæli um algjört bindindi. Magnús mættur kvefaður í pott. Fram yfir Berlín. Sjáumst í fyrramálið, mæting kl. 8:30.  

Ég heiti Léttfeti - ég er færleikur

Sumir hlaupa til að gleyma (Benedikt), sumir borða til að gleyma (blómasali) - ég hleyp til að hugsa. Svona eru mennirnir ólíkir, líkt og hlaup dagsins sýndi með ótvíræðum hætti. Frá því og fleiru er sagt hér á eftir.

Það er liðin tíð að fáein örvasa gamalmenni safnist saman til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, nú eru það harðsnúnir og harðskeyttir alvöruhlauparar sem taka af innlifun á viðfangsefnum dagsins. Í Brottfararsal voru pokar frá Bigga fullir af gelbeltum, treyjum, geli, sokkum o.fl. Hann var að sýna okkur þetta. Menn rifu þetta til sín og tæmdu allt, Biggi greyið náði ekkert að nótera hjá sér - nú bíður hans að sjá hvort menn eru svo heiðarlegir að gefa upp hvað þeir tóku. Menn fóru að máta, það sást í bert hold.

Hlauparar eru misjafnir og þarfir þeirra eru ólíkar. Áætlun þjálfara gekk út á stutt hlaup og snarpt, 12-15 km með tempói. Ritari hafði þörf og löngun fyrir lengra, búinn að birgja sig upp af geli og drykkjum. Ákveðinn í að fara 24. Einhverra hluta vegna vakti þessi ætlan ekki fögnuð á Brottfararplani og þjálfari brást ókvæða við, taldi þetta óráð og uppskrift að meiðslum. Ritari þekkir hins vegar eigin líkama bezt sjálfur og veit hvað er gott fyrir hann og ákvað að halda sig við sín plön. Skrokkurinn hreinlega öskraði á langt í dag. Við það sat.

Blómasalinn hafði lofað að koma langt með mér, en mætti tómhentur í hlaup og var bara hissa. Sveik gefin loforð og fór stutt. Ekki aðrir sem gáfu kost á sér í langt og því útlit fyrir að ég yrði einn í dag. Lagt í hann og farið austurúr um Sólrúnarvelli og inn í Nauthólsvík. Við Skítastöð gerðu sumir hlauparar stanz, en aðrir héldu áfram á hægu. Ég tíndi þau upp hvert af öðru, Villa, Helmut, dr. Jóhönnu, Rúnu, Bjarna og skildi þau svo eftir einhvers staðar við Kringlumýrarbraut og lagði í hann. Í Fossvoginum náði Rúnar mér og ítrekaði þá skoðun sína að ég ætti ekki að fara 24. Svo heyrði ég fnæsið í Benedikt að baki mér, en leiðir skildi við Víkingsvöll, ég upp í Kópavoginn, þeir beygðu í hina áttina og kunna að hafa farið Stokk, 16 km. Hver veit?

Ég fór sumsé í Kópavoginn og hjá Goldfinger. Á þessum kafla var líðan góð. Þegar ég kom í Mjóddina furðaði ég mig á því hversu hratt þessu yndi fram, ég hafði liðið áfram frá Vesturbæjarlaug í rómantískri tryllingu eða e-i fjarrænni firð og meðvitundarleysi. Hvað er að gerast, hugsaði ég með sjálfum mér. Engin þörf að stoppa við benzínstöð - farið áfram upp í Stekkina og yfir í Elliðaárdal. Þar fékk ég mér fyrsta gelskammtinn, kláraði eitt bréf. Drakk vel með. Hélt svo áfram upp að Árbæjarlaug. Hefðbundinn stanz með heimsókn á klósett, bætt á brúsa. Bætti á mig öðru gel-bréfi. Og haldið áfram.

Ég leið áfram niður Elliðaárdalinn og nýtti tímann til þess að huga að ýmsum framfaramálum er lúta að menntun í Lýðveldinu. Ekkert er jafn hreinsandi og hlaup. Hinn innri maður fer í gegnum algjöra hreinsun og stólpípu er ekki þörf. Hugurinn hreinsast og heiðríkja er yfir hugsuninni. Þetta er einn af meginkostum hlaupa, styrking andans. Jæja, hvað um það, heilsan var bara góð alla leið niðurúr og undir Breiðholtsbrautina. Fór sem leið lá um Miklubraut, stoppaði á Olís-stöðinni við Álfheima og bætti á brúsa. Áfram um Laugardal, Teiga og niður á Sæbraut. Þar hvarflaði að mér að ég væri líkari hrossi en manni, þvílíkt var tempóið. Faxið flaksaði í vindinum. Ég fór að humma línurnar úr lagi Hallbjörns um Léttfeta og þá frændur alla.

Kom til Laugar þegar klukkuna vantaði u.þ.b. 10 mín. í átta. Hitti fyrir þá kumpána Eirík og Benedikt og þeir voru orðlausir af aðdáun á þessum ofurhlaupara. Gekk innar og hitti fyrir þær frænkur Öfund og Afbrýðisemi, AKA Flosa og blómasalann. Þeir veittust að mér með andstyggilegheitum og sögðu að hlaup mín hefðu ekkert með hugsun að gera, ég væri bara að reyna að ná af mér ístrunni! Eftir þetta mætti ég Helmut, sem á alltaf til huggunarrík og uppbyggileg orð handa félögum sínum. Var einn í potti og hugsaði mitt ráð. Er ég gekk frá Laugu leið mér eins og ég væri að koma af léttu skokki á Ægisíðu. Meiðsli, my ass!  


Er síðasti Framsóknarmaðurinn útdauður?

Af hverju var Vilhjálmur Bjarnason svona glaður þegar hann kom í Útiklefa í dag? Var síðasti Framsóknarmaðurinn útdauður? Hann ávarpaði okkur "kæru bræður" og kvaðst telja óþarft að nota hefðbundið ávarp: skíthælar, drullusokkar og aðrir Framsóknarmenn. Það væri hvort eð er ekki neinum "öðrum" Framsóknarmönnum til að dreifa. Hann lék á als oddi og virtist virkilega upprifinn eftir sjónvarpsviðtal gærdagsins þar sem hann fór á kostum og lét skuldarana finna til tevatnsins. Skuldaradekur er nýtt orð í nútímanum, komið frá frumkvöðlinum og skoðanamótaranum Vilhjálmi.

Áætlun fjórðu viku liggur fyrir. Það skyldi farið stutt og snöggt. Mættir helztu Berlínarfarar nema Helmut og dr. Jóhanna, og menn er farið að lengja eftir prófessor Fróða sem alltaf er hugvitssamur og hugmyndaríkur þegar finna þarf góðar hlaupaleiðir að hausti. Menn hugleiddu hvort ekki væri tímabært að hann mætti í vinnu. Jú, er það ekki, spurði einhver, er ekki kennsla komin á fullt uppi á Melakleppi? Ja, er hann í svo mikilli kennslu þessi missirin? Já, nei, þá getur hann náttúrlega dulist langt fram á haust án þess að nokkur sakni hans. Þannig gekk dælan.

Meðal merkra viðstaddra skulu nefndir þeir dr. Karl og dr. Friðrik, Magnús tannlæknir, Þorvaldur, Flosi, Benedikt, Björn, Eiríkur, Hjálmar, Rúnar, Birgir, Una, Rúna, Einar blómasali og á endanum komu Ósk og Bjarni hlaupandi. Og að sjálfsögðu ritari og Vilhjálmur. Þjálfari gaf upp leiðarlýsingu, skv. hefð út að Skítastöð, sem ekki má kalla Kúkatanga eða Skeljungsstöð. Stöðva þar og bíða nánari leiðbeininga, þ.e.a.s. þeir sem vildu vera innan áætlunar. Þessi hlaupari hafði hins vegar ákveðið fyrirfram að fara lengra en áætlun gerði ráð fyrir,  69. Menn voru furðu lostnir yfir þessu og töldu djarflega hugað að hlaupi. Aðrir áætluðu að taka spretti, ekki segir af þeim hér, ritari missti af þeirri skemmtun.

Á leið í Skerjafjörðinn var rætt um undirbúning að Berlín, m.a. bindindi það sem innleitt hefur verið og aðrar viðlíka aðgerðir, en þær virðast hafa komið mörgum í opna skjöldu og sumir sem virðast ekki vera fyllilega sáttir við svo eindregnar kröfur. Er kom á leiðarenda hélt ég áfram og lét háðsglósur félaga minna sem vind um eyru þjóta. Heyrði skömmu síðar í hlaupara að baki mér og var þar kominn Bjarni og var ákveðinn í að fara 69 með ritara. Í Nauthólsvík var staldrað við vatnspóst og fékk ég mér orkugel, sem ég hef ofurtrú á þessar vikurnar. Svo var haldið áfram í Fosvoginn á góðu tempói. Þar mættum við Sif Jónsdóttur langhlaupara og félögum hennar, hún virtist hins vegar svo tekin af hlaupi að hún sá okkur ekki. Við áfram.

Við fórum hefðbundið og vorum bara í góðum gír, yfir árnar og aftur tilbaka. Um Laugardalinn og niður á Sæbraut, þar vorum við rétt lentir undir bíl sem kom á miklum hraða niður Kringlumýrarbraut, ökumaðurinn náði að hægja á sér, en þótti vissara að þeyta flautuna svona eftir á, rétt til að leggja áherslu á rétt sinn til að aka greiðlega um Borgarlandið. Ekki var bilbug á okkur að finna á Sæbraut og bara þeyst áfram. Lukum hlaupi heilu og höldnu og bara í góðum fíling. Í potti lágu félagar okkar og voru gleiðgosalegir rifjuðu upp kúrekasöngva Hallbjörns Hjartarsonar.

Næst verður farið langt. Í gvuðs friði, ritari.

Gelið er málið

Orkugelið, sumsé, meira um það seinna. Auglýst hlaup frá Vesturbæjarlaug á laugardegi kl. 9:00. Mætt: ritari, Margrét, Rúnar, Benedikt, Birgir, Hjálmar og Ósk. Fyrirheit um langt, á bilinu 27-32 km. Ritari gerði tillögu um leið og féll hún í góðan jarðveg, sama leið  og Ágúst plataði okkur að fara hér um daginn. En þegar þjálfari hóf upp raust sína og gaf út leiðarlýsingu var ljóst að áætlun ritara var sett snyrtilega á hilluna og önnur plön lögð. Taka fyrst hring á Nesi, ca. 10 km, koma svo aftur til Laugar og sækja eitthvert fólk sem treystir sér ekki til þess að mæta til hlaups á hefðbundnum fótaferðatíma í Vesturbænum.

Þrátt fyrir þetta var hugur í mönnum og við Birgir tókum strax forystuna og héldum uppi góðum hraða í upphafi hlaups, líklega 5 mín. tempói. Smásaman fór þó fólk sem við þekkjum að streyma fram úr okkur venjulegum, dauðlegum hlaupurum og þannig var það það sem eftir lifði hlaups. Þau Margrét, Rúnar og Benedikt fóru sínar eigin leiðir og segir fátt af þeirra högum á blöðum þessum. Þau fóru vel á undan okkur og komu við í Laug að sækja eftirlegukindur. Ég, Biggi, Ósk og Hjálmar fórum upp hjá Eiðistorgi og var sú ráðstöfun snilldarbragð þess er hér slær takka, en af djúpu sálfræðilegu innsæi sá ég að það myndi virka öndvert að fara um Grandaveg í hlaupi sem var rétt að hefjast, en þar eru menn alla jafna að ljúka hlaupi. Hætt var við að e-m dytti í hug að láta staðar numið. Til þess að forðast þá stöðu mála kom óvænt breyting og það var farið um Nesveg tilbaka. Hjálmar hætti eftir 10 km enda nýbúinn að hlaupa 28 km - en við hin héldum ótrauð áfram um Ægisíðu. En ég verð að viðurkenna að það var mótdrægt að vera á hefðbundnum upphafsreit hafandi lagt að baki 10 km og eiga 22 eftir - mér varð hugsað: Er ég að nenna þessu? Hvað um það, áfram var haldið, en ég ákvað: EKKI AFTUR! Þ.e.a.s. ekki hringavitleysu þegar menn eru að fara langt.

Við vorum vel birg af drykkjum, og ég var með orkugel aukreitis. Veður var gott til hlaupa, lítill vindur, 10 stiga hiti og einhver rigning, sem átti eftir að ágerast er leið á hlaupið. Í Nauthólsvík var staldrað við og bætt vatni á brúsa. Þar fékk ég mér fyrst orkugel og vatn með. Um þetta leyti komu þau hin og náðu okkur. Margrét hafði áhyggjur af að ritara væri kalt á fótunum, en hann var í stuttbuxum. Svo leit hún á fætur ritara (sem sumir hafa sagt að í sjálfu sér væru staðfesting þess að Guð er til) og sagði: Nei, þetta er í lagi, hann er svo vel hærður... Það er vissulega óvenjulegt að fá svona komment frá þjálfurum, og einhver myndi kalla þetta einelti en þjálfarinn er greinilega orðin illa smituð af anda Hlaupasamtakanna og farin að dreifa kringum sig kvikyndislegum athugasemdum um hlaupara af litlu tilefni.

Með þeim í för var einn nýr hlaupari af óþekktum uppruna og óskilgreindri stöðu, ekki fékkst gefið upp nafn né heldur annað sem máli skipti. Það fauk í Birgi sem fannst eftirtekjan rýr af heilum 10 km hring: Er þetta hlauparinn sem nennti ekki að vakna á sama tíma og aðrir? Óþekkti hlauparinn brást furðu lostinn við þessum orðum, greinilega ekki vanur að fá svona viðtökur. Þau héldu áfram, og við svo á eftir.

Við Ósk og Birgir héldum í Fossvoginn og alla leið að Víkingsvelli, þaðan til hægri upp í Kópavog og hjá Goldfinger. Yfir í Breiðholtið og stöðvuðum næst á benzínstöð Olís við Álfabakka. Þar bættum við á okkur vatni, fylltum brúsa og ég fékk mér annað orkuskot af geli. Teygt lítillega og haldið svo áfram upp að Stíbblu. Ég hélt að ég myndi verða slappari og slappari eftir því sem á hlaupið leið, en sú varð ekki reyndin. Einhvern veginn hélt ég fullri orku og þreki og fann eiginlega ekki til þreytu. Eftirá þakka ég gelinu fyrir þetta, þetta verður greinilega málið í Berlín.

Fórum niður hjá Rafstöðvarheimilinu og yfir Elliðaár og svo aftur inn hjá Víkingsheimili og inn í Fossvoginn. Birgir var með Garmin, sem hann slökkti samvizkusamlega á þegar við stönzuðum, en gleymdi jafnan að kveikja á aftur. Ósk var með Garmin, sem kveikt var á allan tímann, líka þegar við vorum kjur, en mældi vegalengdir í mílum. Af þeirri ástæðu nennti maður ekki að vera að velta vegalengdum mikið fyrir sér í dag, einna helzt að spurt væri hvað við hefðum hlaupið lengi, því fyrirmæli þjálfara voru þau að ekki mætti hlaupa lengur en í 3 klst.

Enn jókst furða mín er komið var í Fossvoginn, þessi hlaupari sem jafnan var farinn að ganga um þetta leyti í svo löngu hlaupi, neitaði að hætta og hélt áfram á góðu stími eins og maskína. Það fór að rigna og rigndi alveg óskaplega, maður blotnaði rækilega í gegn og þurfti öðru hverju að vinda hanzka. Vitanlega var margt spjallað, m.a. kom langt innlegg frá Bigga þar sem hann greindi í smáatriðum frá nýlegu hlaupi sem hann varð að gera hlé á til þess að sinna öðrum þörfum, og sýnir í hnotskurn vanda hins einmana hlaupara. Einnig rifjaðar upp senur úr Klovn, sem bæði Biggi og ritari halda mikið upp á. Klassískur danskur húmor sem þarf að venjast. Sumir venjast honum líklega aldrei.

Jújú, það skal viðurkennt að sjóbað heillaði, en við ákváðum að vera skynsamir. Við vorum báðir slæmir í mjöðmum og sjóbað kælir svo mikið niður. Ég reyndi þetta um daginn þegar ég hljóp með Ágústi, Bjössa og líklega Helmut, þá fórum við í sjóinn eftir langt og ég kólnaði svo mikið að það tók mig alla leið að Hofsvallagötu að hitna þannig að ég væri í hlaupatæku formi. Svo við slepptum sjóbaði, þótt sjóböð séu mjög að færast í aukana þessi missirin, bæði Ósk og Hjálmar stunda sjóböð af kappi og þykja þau gera sér gott.

Ekki var slegið af neins staðar á leiðinni og mætti segja mér að meðaltempó hafi verið 5:30, alveg þokkalegt. Komum til Laugar eftir ca. 3:15 klst. hlaup og 20 mílur að baki, sem mér reiknast til að séu 32 km - það sem stefnt var að. Það hvarflaði að mér hvort aðrir Berlínarfarar væru alveg í lagi að láta svona tækifæri ganga sér úr greipum, hvað er fólk að hugsa? Hvar er undirbúningurinn? Einkum hefur maður áhyggjur af ónefndum blómasala sem er bara á fiskveiðum úti á landi, vel birgur af mat og drykk. Hvernig fer þetta? Við gripum í tómt við Laug, þar voru engir af þeim hlaupurum sem við lögðum upp með fyrr um daginn og er ekki vitað um afdrif þeirra. Legið góða stund í potti og mál rædd vítt og breitt. Ákveðið að hvíla til mánudags. Næsta vika er vikan þegar menn toppa, og lengsta hlaupið er eftir, verður þreytt n.k. laugardag, 35 km. Guð sé oss næstur!


Athletics anonymous

Þegar ég var ungur maður í Lærðaskólanum þótti fínt að vera anti-sportisti, fara til próf. dr. Ófeigs og fá vottorð í leikfimi, standa úti á tröppum sem sneru mót Lækjargötu með trefil um hálsinn, reykjandi Salem og hósta lungum og  lifur, vitandi að maður var dauðvona úngskáld með eitt ódauðlegt ljóð nýbirt í Skólablaðinu. Það var hlegið að sportidjótum eins og Þorgrími Þráinssyni sem geystist um hlöð, ímynd æsku og hreysti. Ekki hvarflaði að mér og vinum mínum þá að við myndum 30 árum síðar hafa breytt lífsmáta okkar á þann hátt sem orðið er í þeirri veiku von að endurheimta eitthvað af glataðri æsku og þrótti sem við fordjörfuðum með óskynsamlegum ákvörðunum. Ekki þýðir að gráta það nú, en herða upp huga og snúa ólifnaði í ... nei.

Hlaupasamtök Lýðveldisins státa af einhverju glæsilegasta mannvali í Vesturbæ Höfuðborgarinnar. Þar má finna ungmenni á ýmsum aldri og væri fáránlegt að vera að stimpla einhverja ákveðna sem unga hlaupara eða gamla hlaupara. Ekki veit ég yngra eða kraftmeiri hlaupara en fél. Jörund Guðmundsson. Ekki þekki ég hlaupara sem viðheldur prakkaranum betur í sál sinni en frændi minn og vinur Ó. Þorsteinsson, og skammt undan er V. Bjarnason með sinn grallaraskap, þótt önugur sé á köflum. Hlaupin yngja, viðhalda geðheilsu, fresta innlögn eða gera hana óþarfa með öllu. Að ekki sé minnst á Bjarna bílstjóra, sem á hreint ógleymanlegar rispur þegar hann mætir til hlaups.

Jæja, það var hlaupið í dag. Miðvikudagur, en stutt og rólega. Minnir mig. Staðið á stétt og masað - ótrúlegur fjöldi Garmintækja. Mættur glæsilegur hópur hlaupara, spurning hvort maður er nokkuð að telja upp, slíkur var fjöldinn. Og alltaf bætast nýir í hópinn. Óljós fyrirmæli þjálfara við brottför, orðastimpingar við einstaka hlaupara, deilt um hvert heiti áfangastaðar væri, menn sættu sig ekki við "skítastöð" - báðu þjálfara að gæta virðingar sinnar og nefna staðinn með réttu heiti. Hann sagði að staðurinn héti þessu nafni skv. hefð Samtakanna og því yrði ekki breytt. Þjálfari var einbeittur í málflutningi sínum og er æ meira farinn að minna á hina þrjóskufullu og þvermóðskugjörnu meðlimi Hlaupasamtakanna. Vér áorkum þó nokkru.

Eitthvað var verið að lofa upp í ermina á sér með vilyrðum um rólegt og stutt - allt var gleymt þegar kom að frægri Skítastöð. Þá var liði stillt upp og mönnum sagt að fara að tempói næstu 8 km . Ég lét sem ég heyrði þetta ekki og fór fetið í átt að Nesi. Dr. Jóhanna á undan mér á fullu skriði, dr. Friðrik þar á eftir eitthvað hægari. Ég á maraþontempói vestur úr. Það leið langur tími áður ég varð var við aðra hlaupara, einhvers staðar í Skjólum kom fyrstur Rúnar, og hafði einhver orð um þéttinga, ég lét sem ég heyrði þetta ekki, enda búinn að brenna mig á heilræðum með alkunnum meiðslum. Svo komu þeir hver af öðrum, eða hvert af öðru, Benni, Eiríkur, Bjössi - og á Nesi skaut Margrét upp kolli eins og skrattinn úr sauðalæknum.

Farið á Nesið og um Lindarbraut, ég hélt skynsamlegu maraþontempói og lét ekki æsa mig til afreka. Vissi sem var að að baki mér voru margir frambærilegir og illaþefjandi hlauparar sem ekki sáu til sólar á þessum degi í hlaupalegri merkingu. Komið á Móttökuplan og þar var mannfjöld. Þar var upplýst að ónefndur hlaupari hefði gert hlé á hlaupi í miðju hlaupi, farið heim til sín og gengið örna sinna, mætt síðan galvaskur aftur til hlaups og látið sem ekkert var. Þar sem hann stóð á Plani og sagði frá varð honum litið á ritara, og með það sama opnaðist munnhvoftur hans svo sjá mátti úfinn blakta í hægri golu Vesturbæjarins, og hann öskraði: NEIIIIIIII! En það var um seinan, frásögnin var meitluð í huga ritara og ljóst að hún yrði færð í annála, téðum hlaupara, fjölskyldu hans og afkomendum næstu 10.000 árin til ævarandi hneisu og skammar.

Fólk hafði greinilega hlaupið mjög misjafnar vegalengdir, verið að tínast inn lengi, farið í pott. Þar var valinkunnur hópur, en því miður virtist hann einna helzt hafa áhuga á miður vönduðum kveðskap. Meira um það seinna. Hlaup dagsins vel heppnað, óljóst með framhald, þó stefnt að 32 km á laugardag kl. 8:30. Í gvuðs friði, ritari. 

 

Fjölmenni að hlaupi tveimur dögum eftir maraþon

Vilhjálmur Bjarnason er jafnan mættur tímanlega í útiklefa á hlaupadegi. Þar var einnig fyrir Þorvaldur er ritari mætti um 17:15 í dag. Uppáhaldsumræðuefni okkar Vilhjálms og endalaus uppspretta spakmæla og hnyttni er frændi ritara og vinur, sjálfur Ó. Þorsteinsson Víkingur. Það hvarflaði að ritara hvort VB myndi þora að láta allt flakka að ÓÞ viðstöddum sem fær að flakka að honum fjarstöddum. Hann fullyrti að svo væri. Allt um það skemmtum við okkur konunglega í hvert skipti sem tækifæri gefst til þess að ræða um fjarstadda félaga, án þess að um eiginlegt baktal sé að ræða.

Slíkur fjöldi hlaupara var mættur í dag að ekki tjóir að nefna þá alla, einfaldara að telja upp fjarverandi félaga: Jörund og Gísla. Þjálfararnir búnir að lofa rólegri viku, mælt með því að fresta löngu hlaupi fram á laugardag. Í dag skyldi farið 15-17 km - ágæt málamiðlun að fara Stokkinn sem er 16 km. Þrátt fyrir að ströng fyrirmæli hefðu gengið út um hægt og rólegt hlaup, var eins og sumir þekktu ekki annað en fast forward og áður en maður vissi af var fólk komið á fljúgandi fart og allt of hratt. Ekki hafði ég áhyggjur af þessu, slóst í för með Magnúsi , dr. Jóhönnu og Sjúl og dólaði inn í Fossvog á tempói sem ég réð við að afloknu hálfu maraþoni s.l. laugardag.

Það var upplýst að Sjúl hefði hlaupið 10 km og bætist því í þann frækilega hóp HLV sem þreytti hlaup í Reykjavíkurmaraþoni. Við vorum furðu sprækir þrátt fyrir að svo stutt var frá hálfu maraþoni. Þreytu gætti ekki, nema hjá ónefndum hlaupurum sem nýttu sunnudaginn í eitthvað annað en að hvíla sig. Það var gaman að koma á kunnuglegar slóðir í Fossvoginum og inn að Elliðaám, yfir árnar og aftur tilbaka undir Breiðholtsbrautina og upp Stokkinn. Enn voru menn bara brattir og slógu ekki af.

Á Bústaðavegi var farið að draga af okkur Magnúsi og við fórum fetið, með stífa vestanátt í fangið. En við létum ekki deigan síga, héldum kúrsi og keyrðum áfram allt til Laugar. Þar stóðu á Stétt úti menn sem fluttu mikinn leikþátt og hermdu eftir ónefndum hlaupafélögum. Þótti slíkt ekki sæma menningarlegum samtökum sem HLV.

Í Potti var minnt á greiðslur Berlínarferðar og Björn hélt ádíens. Í gvuðs friði, ritari.


Hlaupið hálft í Reykjavíkurmaraþoni 23. ágúst 2008.

Hlaupasamtökin voru vel representeruð í Reykjavíkurmaraþoni hinn 23. ágúst 2008 og trúi ég að fljótlega muni liggja fyrir listi með árangri flestra hlaupara, nema þar sem hlaupatíminn kann að vera trúnaðarmál.

 

En safnast venju samkvæmt í Útiklefa Vesturbæjarlaugar þegar laug opnaði, þessi mætt: ritari, Þorvaldur, blómasali, Helmut og dr. Jóhanna. Gerðum stuttan stanz, en héldum fljótlega til móts við félaga okkar við Listasafn Íslands, þar sem til stóð að hita upp og teygja með jógaæfingum undir leiðsögn Birgis. Er þangað var komið beið okkar föngulegur hópur hlaupaefna: báðir þjálfarar, Birgir, Björn, Kári, Sigurður Ingvars., Ósk, Hjálmar Sv., Þorbjörg – og man ég að segja að við hittum síðar Vilhjálm, Flosa, Rúnu og Friðrik, og dr. Friðrik, auk þess sem Formaður Vor til Lífstíðar hljóp 10 km þennan dag, sem og Hjörleifur. Síðastan en ekki síztan skal nefna fél. Gísla Ragnarsson sem hljóp heilt maraþon í dag. Ég biðst fyrirfram velvirðingar á því ef ég gleymi einhverjum.

Jógaæfingar voru snaggaralegar, og athygli vakti að blómasalinn heimtaði meira og meira. Jógi sagði: Nei, þetta dugir. Meira, meira!!! hrópaði blómasalinn. Hvað var í gangi? spurðu menn furðu lostnir. Svo rann upp fyrir viðstöddum að hér var í boði ókeypis jógaæfing og miklir fjármunir að glatast ef ekki væri haldið áfram.

 

Veður allgott fyrir hlaup, 13 stiga hiti, einhver vindur og regn hékk í loftinu. Þúsundir saman komnar í Lækjargötu við upphaf hlaups og stemmning mikil eins og venjulega. Hlaupið var ræst kl. 8:40 af utanríkisráðherra og um leið og skotið reið af hljómaði lag Stones, Start me up – virkaði eins og vítamínsprauta á þennan hlaupara. Passaði mig á að fara ekki of geyst af stað – en það eru mistök sem ég hef gert í mörgum undangengnum maraþonum. Það gerði að vísu minna til í þetta skiptið þar eð stefnan var “aðeins” sett á hálft maraþon. Ég var stoltur að fara skynsamlega af stað, en sá að sumir félaga minna fóru allhratt af stað, m.a. Birgir, blómasalinn og Björn. Ég hugsaði sem svo að þeir myndu sprengja sig á þessu tempói og ég tína þá upp á leið minni.

 

Þetta hlaup var að því leyti til frábrugðið fyrri hlaupum að ég hafði ekki félagsskap félaga í Hlaupasamtökunum, en þó var fjöldinn slíkur að maður hljóp alltaf í hópi annarra hlaupara, það mynduðust aldrei göt í keðjunni. Hefðbundið um Suðurgötu, Lynghaga, Ægisíðu og út á Nes. Ég hafði smááhyggjur af mótvindi á leiðinni inn úr, en þegar til átti að taka var hann ekkert til þess að gera rellu út af. Mér leið bara nokkuð vel alla leiðina, var aldrei þreyttur eða búinn, þrátt fyrir meiðsli eftir mánudagsæfingu og svefnlitla nótt, sem er aldrei gott hlaupurum. Ég fór að hugsa á Sæbrautinni: Æ, bráðum er þessi æfing búin! Það er leiðinlegt!

 

Niður hjá Eimskipum og þar í gegn. Það var góð tilfinning þegar upp var komið á Sæbraut að nýju að ekki var farið lengra í austur, heldur stefna strax sett á miðbæinn og maður vissi að það voru aðeins örfáir kílómetrar eftir. Svo rúllaði þetta tíðindalaust áfram, nema hvað ég fann enga aðra félaga á leið minni en Bjarna og Rúnu, virtist ekki ætla að draga aðra uppi. Sú varð og raunin, eins og sjá má af hlaupatímum, að menn voru að ljúka hlaupi á tímanum frá 1:26 upp í 1:44 – meðan ég kom sjálfur á tímanum 1:51, hafði þó sett markið á 1:50 og helzt undir. Var þó allsáttur þrátt fyrir allt.

 

Fann fyrir félaga mína í Lækjargötu, en hraðaði mér til Laugar. Tók þá eftir að ég hafði gleymt að láta klippa flöguna af skó mínum. Hafði orð á þessu við félaga minn. Sá setti upp spurn í andliti: hvaða helv... flögu? Nú, flöguna sem ákvarðar þér tímann í hlaupinu. Flögu, sagði hann. Enginn sagði mér frá neinni helv... flögu! Nú varð okkur ljóst að hér hafði hlaupari lagt að baki 21,1 km á mjög frambærilegum tíma (1:45) og fengi hann aldrei skráðan, hafandi auk þess greitt hátt þátttökugjald. Og hlaupið hlaup að auki sem ekki yrði tekið aftur.

 

Þessi epísóða vakti athygli í potti velmönnuðum. Þar var sunginn afmælissöngur Helmut hálfsextugum. Menn höfðu uppi heit um að aka rakleiðis til ríkisverzlunar nokkurrar sem sérhæfir sig í fljótandi gæðavöru. Ýmislegar fyrirætlanir um hvernig menn hugðust verja kveldinu og nóttinni í menningunni.

 

Velheppnuðu Reykjavíkurmaraþoni lokið -  en það er jú aðeins liður í æfingaáætlun fyrir Berlín. Við tekur hefðbundin æfing á mánudag, en ætlan mín er rétt. Þar um kemur instrúx frá þjálfurum. Í gvuðs friði, ritari.


Hinsegin dagur - hlauparar í þröngum sokkabuxum

Svo einbeittir voru menn að þreyta lukkað langhlaup á þessum miðvikudegi, hefð samkvæmt, að það gleymdist að færa handboltaleikinn við Þýzkaland í tal við Helmut. Seinna í hlaupinu bölvuðum við sumir yfir því að hafa misst af góðri spælingu. Aldrei þessu vant hafði þjálfari undirbúið stutta tölu og flutti hana sköruglega, og var aðeins truflaður af Sæma löggu, sem hvatti menn til þess að hlaupa í endurskinsfatnaði. M.a.s. Biggi hélt kjafti. Lagðar línur um langt, 26 km fyrir þá er lengst færu, taka maraþonhraða eftir 90 mín og halda honum í 5 km. En byrja hægt. Menn hlýddu andaktugir á boðskapinn, og voru þessir mættir: Flosi, Þorvaldur, dr. Friðrik, dr. Jóhanna, Helmut, Kári, Einar blómasali, Birgir, Björn kokkur, Kalli kokkur og sonur, báðir þjálfarar, Eiríkur, Benedikt, Denni og ritari. Seytján manns frá byrjun og ein kona sem mig vantar nafnið á og svo skilst mér að Ósk hafi bætzt í hópinn í Kópavogi.

Menn áttu að fara á hægu tempói út og halda því í 90 mín. - ca. 5:30. Þetta stóðst nokkurn veginn, en nánast frá byrjun fóru menn að hnappa sig saman og slíta hópinn í sundur. Fremstir þjálfarar og Benedikt og Eiríkur. Svo við Björn, Einar og Birgir. Þar fyrir aftan hitt fólkið og segir meira af því síðar. Sagt frá frækilegu Kópavogssundi þeirra Björns og Bigga í gær, synt frá Nauthólsvík og yfir í ríki Gunnars Birgissonar og tilbaka aftur. Þegar Biggi skjögraði veikum fótum upp á land grenjaði Bjössi yfir alla ströndina: Biggi! Þú ert Nagli! Bigga hlýnaði um hjartarætur og lét þau orð um munn sér fara síðar að loksins ætti hann vin sem hefði eitthvert álit á honum og hvatti hann áfram undanbragðalaust. 

Nú var spurning hvaða leið skyldi fara: Kársnes og þá rangala eða eitthvað hefðbundið. Niðurstaðan fyrir minn hóp var hefðbundið um Fossvog, Goldfinger og upp að Árbæjarlaug. Við vorum í fantaformi og fórum létt með brekkur og torfærur. Stöldruðum við hjá Stíbblu og biðum eftir blómasalanum og Bigga. Svo var gefið í og tekinn þéttingur upp að Laug, tempó 4:30. Slakað á við Laug og bætt á brúsa. Það var kalt þar efra og sannarlega ekki vanþörf á að fara að klæða sig í síðermaboli nú þegar haustar. Biggi var að venju í overkill fíling: svartar, síðar sokkabuxur, balaklava og síðermatreyja. Honum kólnaði ekki. Svo var tekinn annar þéttingur niður að Stíbblu hinum megin. Svo á rólegu tempói niður brekku hjá Rafstöðvarheimili og Rafstöð og yfir Elliðaárnar.

Miklabraut og Laugardalur. Ekki var slegið af tempói og kom í ljós við athugun eftir hlaup að meðaltempó hefði verið 5:20. Farið hefðbundið niður á Sæbraut og þar var síðasti þéttingurinn tekinn, 2 km á góðum spretti.  Við komum nokkuð jafnt til Laugar og höfðum þá farið rúma 24 km, aðeins styttra en þjálfari lagði til, en nokkuð hraðar. Menn voru sammála um að Biggi væri Nagli. Við hittum fljótlega Flosa, sem fór sömu vegalengd, en aðra leið, um Kársnes, Lækjarhjalla og þannig áfram; Kára og Denna sem fóru 22 km, og þegar við fórum upp úr lá dr. Jóhanna úti í glugga og hafði farið 28 km. Menn voru mjög sáttir með daginn, einkum í ljósi þess að sumir höfðu ekki sofið nema 3-4 tíma nóttina áður vegna Ólympíuleikanna sem sýnt er frá á nóttunni.

Þjálfari upplýsti að laugardaginn 6. september kl. 9:00 verði hlaupið 35 km hlaup til undirbúnings Berlín. Kom sú hugmynd fram að gaman væri að fara góða leið og eru félagar beðnir að leggja höfuð í bleyti og leggja drög að fjölbreyttri og fallegri hlaupaleið, t.d. suður í Hafnarfjörð og austur úr um hraun og dali. Eftir á mætti slá upp einfaldri næringarinntöku á heppilegum stað. Eina sem truflar er að 5. september er Fyrsti Föstudagur með sushi í boði blómasalans.

Hlaupið er n.k. föstudag, sem er Fyrsti Föstudagur í ágúst og er haldið upp á hann á veglegan hátt með fiskiveizlu í garði Bigga Jóga, og fiskisúpu að hætti Dalvíkinga. Vel mætt! Ritari.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband