ÞETTA var erfitt!!!

Erfiðasta hlaup ársins er að baki! Um þetta voru allir hlauparar sammála að hlaupi loknu. Um allt þetta mál verður nánar fjallað í pistli kvöldsins, og ýmislegar afleiðingar sem af því urðu.

Varla þarf að fara mörgum orðum um veður í dag, heiðskírt, sterkt sólskin, hægviðri, hiti hátt í 30 stig, þótt opinberar ríkismælingarstöðvar hafi verið hógværari í mati sínu. Það hvarflaði að ritara hvort skynsamlegt væri að hlaupa við svona aðstæður og bjóst jafnvel við að þjálfarar myndu fresta hlaupi eða seinka því þannig að hlaupið yrði við viðunandi skilyrði. En þegar ekkert heyrðist pakkaði ritari saman mal sínum og hélt til Laugar. Þangað kominn og hafandi skipt í hlaupagírið stóð hann bullsveittur á gólfi Útiklefa - og hugsaði sinn gang: hvernig mun þetta ganga?

Stórmenni mætt í Brottfararsal: Gísli Ragnarsson, einhver fræknasti hlaupari Samtakanna, Jörundur Stórhlaupari Guðmundsson, Vilhjálmur, Þorvaldur, dr. Friðrik, Ágúst, Björn, báðir þjálfarar, Una, ritari, Birgir jógi, Einar blómasali, og Rúna - sem er nánast komin yfir til okkar frá TKS, enda fær hún markvissan undirbúning fyrir mikilvægt hlaup hjá afar hæfum og skipulögðum þjálfurum.

Ekki voru nú tök þjálfara á mannskapnum betri en svo að liðið rásaði af stað eins og rollur án nokkurrar stjórnar. Ég bar þetta undir Rúnar á leiðinni austurúr og hann hafði biflíulega útskýringu á þessu: á söndunum fyrir austan fer hirðirinn fyrir safninu, hann gengur með stafinn og ver safnið. Á Íslandi er þessu öfugt farið: þar fer hirðirinn aftast, en sigar skozkum fjárhundi framan á safnið til að halda því saman. Ritari benti honum á að upplag Íslendinga væri að mörgu leyti svipað og sauðkindarinnar: það væri ekki nokkur leið að fá fólk til að fara eftir fyrirmælum. Oft hefði hann lent í þessu í starfi sínu. Þegar settar væru opinberar reglur um hvernig fólk ætti að hegða sér væru það fyrstu viðbrögð þegnanna að spyrja: hvernig kemst ég hjá því að fara eftir þessum reglum? Og hann mundi að lýsa svipnum á rollunum sem hann rak úr túninu á sokkabandsárum sínum, þrjózkan skein úr augum rollnanna, þær stöppuðu niður fæti og voru aldeilis ekki á því að fara út um gatið í girðingunni sem þær höfðu komið inn um. Þennan svip hefur ritari oft séð á borgurum sem mætt hafa á fund hans í þeim tilgangi að fara ekki að þeim leiðbeiningum sem Stjórnarráðið hefur af náð sinni útmælt þeim að fara eftir. Hér voru rifjuð upp ummæli Kára, þegar hann sagði: Ég vildi frekar reyna að reka ketti á fjall en fá meðlimi Hlaupasamtakanna til þess að fara að fyrirmælum.

Það var afar óljóst hvað ætti að gera í dag. En við hinir sjálfstæðu og frumkvæðisríku hlauparar og forystusauðir vissum sem var að það yrði langt. "Langt" merkir hins vegar mismunandi vegalengdir eftir því hver á í hlut. Ágúst ætlaði 35 km - ritari kvaðst ekki mundu fara feti lengra en 35 km (Rúnar mælti með 28 km) - aðrir ætluðu styttra. Margrét þjálfari ætlaði langt á tempói og vildi draga Bjössa með sér. Ég hvatti hana til þess að gera það og helst að sprengja hann. Téðir aðilar voru fremstir og fóru hratt yfir, Rúnar ætlaði að vísu bara stutt, 10 km. Sól skein sterkt í heiði og fundu hlauparar vel fyrir hitanum. Lýsið rann. Mælst hafði verið til þess að stanz yrði gerður í Nauthólsvík til þess að leyfa hlaupurum að kæla sig - vorum Gísli og Friðrik helztir flutningsmenn þeirrar tillögu, en þegar til átti að taka lá Ágústi og Rúnari svo mikið á að ekkert varð af sjóbaði - enda var svo margt fólk þarna að það hefði ekki verið gaman.

Gísli stefnir á Berlín, en vill byrja á Reykjavíkurmaraþoni og sjá hvernig sér gengur þar, ef hann vinnur mun hann íhuga að taka þátt í Berlínarmaraþoni. Að öðru leyti er hann mjög hæverskur í markmiðssetningu sinni. Jörundur búinn að vera meiddur að undanförnu, en fékk meðferð í Laugarási í Byzkupstungum og gékk svo á fjöll, m.a. Kerlingu, hafandi farið framhjá Jómfrú og Bónda.

Ekki var stöðvað í Nauthólsvík, haldið áfram á Kársnes. Þar var svalandi að hlaupa inn í hafgoluna á Kársnesi og freistandi var að skella sér í sjóinn, en athyglisvert var að hvar sem farið var þennan dag leituðu þegnar landsins uppi öll möguleg vötn og polla til þess að kæla sig í hitasvækjunni. Ágúst var á undan mér, en á eftir komu blómasalinn og Rúna, Eiríkur og Birgir jógi. Ástand á þessum punkti var gott og ekki ástæða til að halda annað en að vel gengi, þó fann maður að hitinn hafði tekið sinn toll. Vandræðin hófust hins vegar þegar komið var sunnanmegin á Kársnesi og stefnan tekin á Kópavogsdal. Þá naut ekki hafgolu lengur og sumarsólin gassaði á fullu. Þegar komið var að fyrstu undirgöngum undir Reykjanesbraut var ritari nálægt meðvitundarleysi sökum álags. "Hvernig endar þetta?" varð honum hugsað. Ekki gefist upp, áfram um Dalinn, drukkið af vatnspósti við Digraneskirkju og svo áfram. Staldrað við í Lækjarhjalla - en ekkert að hafa þar, áfram upp í Breiðholtið. Stoppað við Olís í Mjódd og drukkið vatn, andlit og höfuð skolað undir vatnskrana.

Áfram niður í Elliðaárdal og upp í Fossvogsdal - ekki sagt orð af viti, enda ritari einn á ferð. Fyrir aftan hann voru fyrrnefndir hlauparar. Er kom í Fossvoginn var okkar maður algjörlega steiktur, hafði varla kraft í meira og þurfti að fara að ganga langa speli. En hljóp þess á milli. Er kom í Nauthólsvík drógu Einar blómasali og Rúna ritara uppi, hér neitaði blómasalinn að taka þátt í sjóbaði og kvaðst eiga mikilvægt erindi framundan. Þau tvö héldu áfram, en ritari lá í svalandi Atlanzhafsöldunni og hugsaði sem svo að hlaup væru mikil nautn ef þau buðu upp á sjó.

Ég ætla ekki að lýsa ástandi fólks þegar ég kom á Móttökuplan, fólk lá um reitinn gjörsamlega úrvinda og kvaðst ekki hafa hlaupið erfiðara hlaup þetta árið, þótt 32 km hlaupið sællar minningar sem Ágúst dró okkur í óumbeðið væri talið með. Allir sem ritari talaði við voru sammála um að steikingarmörkum hefði verið náð við 14-16 km mörkin - eftir það hefði fólk átt að hætta. Hér varð ritara hugsað til Ágústs sem lagði vonglaður upp í 35 km hlaup - og var ekki búinn að skila sér þegar hlauparar hurfu úr potti - hvað varð um þennan mikla hlaupara þetta kvöld? Þessi spurning var ritara efst í huga er hann hvarf til kveldverka að hlaupi loknu. Hann hugsaði sem svo: það hefði líklega verið nóg að fara 15 km við þessi skilyrði - eða seinka hlaupi um 2 klst. Þetta var hins vegar mikilvægur lærdómur og ætti að segja okkur að ef hiti verður mjög mikill í Berlín þá er hugsanlega skynsamlegra að parkera sér á einhverri útiserveríngu, panta öl og hvetja hina hlauparanan áfram. Pæling. Í gvuðs friði. Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband